Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 455  —  434. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um rekstur og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.


Flm.: Friðjón R. Friðjónsson, Vilhjálmur Árnason, Jón Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skoða fýsileika þess að stofnað verði sérstakt dótturfélag Isavia ohf. utan um rekstur og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og leitað verði til alþjóðlegra innviðafjárfesta með þekkingu á rekstri og uppbyggingu flugvalla til að verða minnihlutaeigendur í nýju félagi og mæta þannig fjárfestingarþörf Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli á næstu árum í stað þess að ríkissjóður leggi Isavia til tugi milljarða króna til að standa undir uppbyggingu flugstöðvarinnar.
    Þá ályktar Alþingi að fela ráðherra að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo bjóða megi út rekstur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu, starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar.

Greinargerð.

    Tillaga svipaðs efnis var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (431. mál).
    Markmið tillögu þessarar er að fengnir verði fjárfestar og fagaðilar að fjármögnun og rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 65/2023, um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð, annast opinbert hlutafélag, Isavia ohf., eða dótturfélög þess, m.a. rekstur flugvalla í eigu ríkisins fyrir hönd íslenska ríkisins. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að framkvæmd og fjármögnun á þeim verkefnum ríkisins skv. 1. mgr. 4. gr. skuli útfærð í þjónustusamningum ráðherra við Isavia ohf. eða dótturfélög þess sem miða skuli að því að tryggja að markmiðum laganna sé náð. Með tillögu þessari er mælst til þess að fjármála- og efnahagsráðherra útfæri þjónustusamninga sem getið er um í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 65/2023 með þeim hætti að dótturfélag Isavia ohf. geri samninga við aðra aðila til að tryggja að rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verði með sem hagkvæmustum hætti, í samræmi við markmið laganna. Verði Keflavíkurflugvöllur rekinn með blönduðu rekstrarfyrirkomulagi væri hægt að auka samkeppnishæfni flugvallarins í þágu neytenda.
    Keflavíkurflugvöllur gegnir þýðingarmiklu hlutverki hér á landi. Um hann ferðast nær allir þeir erlendu ferðamenn sem heimsækja Ísland. Þrátt fyrir þetta segir í samkeppnismati OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði frá 2020 að Keflavíkurflugvöllur sé einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur í Evrópu, jafnvel í samanburði við flugvelli af sömu stærð sem taka á móti svipuðum fjölda farþega og starfræktir eru við sambærilegar veðurfarsaðstæður. Í samkeppnismatinu kemur enn fremur fram að rekstur opinbera hlutafélagsins Isavia sé sá óhagkvæmasti í samanburði við rekstur allra annarra flugrekstraraðila í Evrópu. Líkur séu á að núgildandi regluverk og fyrirkomulag eignarhalds á flugvöllum hérlendis stuðli að þessari niðurstöðu.
    Á meðal þess sem lagt er til í mati OECD er að skoðaðar séu leiðir til að auka hvata Isavia á Keflavíkurflugvelli til að draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni. Mögulegar leiðir gætu t.d. verið breytt skipan eignarhalds eða rekstur með útboði á rekstri flugvallarins. Er þessi þingsályktunartillaga fyrsta skrefið í þá átt.
    Í mati OECD er vísað til skýrslunnar Airport Benchmarking Report 2019 þar sem fram kom að Isavia sé með minnstu samkeppnishæfni reiknað út frá kostnaði (e. Least cost-competitive) allra rekstraraðila flugvalla í Evrópu.
    Þá er rétt að minnast á álit Samkeppniseftirlitsins frá því í janúar 2022 þar sem eftirlitið sagði háttsemi Isavia á síðustu árum vekja áleitnar spurningar um hvernig ríkisfyrirtækið nálgast samkeppni og samkeppnismál. Eftirlitið beindi til ráðherra tilmælum sem miða að því að skapa heilbrigða umgjörð um starfsemi á Keflavíkurflugvelli, draga úr óhagkvæmni rekstrar hans og efla ferðaþjónustu.
    Fjárþörf Isavia verður mikil á næstu árum og vafamál er hvort réttlætanlegt sé að nota almannafé í áhætturekstur líkt og rekstur flugstöðvar. Árið 2021 var nýtt hlutafé upp á 4 milljarða kr. greitt úr ríkissjóði til Isavia. Fram kemur í ársskýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2021 að félagið taldi sig þurfa að lágmarki 12–18 milljarða kr. í nýtt hlutafé á árunum 2022 til 2023 til að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum. Flutningsmenn tillögunnar telja ljóst að með þessu væri hægt að skila verulegu fjármagni til ríkissjóðs sem væri betur varið í aðra innviðauppbyggingu samgangna á Íslandi.
    Vakin er athygli á því að tillaga þessi miðar ekki að því að rekstur, viðhald og uppbygging Keflavíkurflugvallar sjálfs sem borgaralegs flugvallar verði boðinn út, né heldur hagnýting flugvallarsvæðisins í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi og þjóðlegra skuldbindinga ríkisins. Er hér einungis um að ræða rekstur og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.