Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 501  —  461. mál.




Frumvarp til laga


um hringrásarstyrki.

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi taka til kostnaðar sem einstaklingur greiðir fyrir viðgerð á lausafjármun eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Lögin taka ekki til kostnaðar sem greiddur er fyrir viðgerð á skráningarskyldum ökutækjum, loftförum og skráningarskyldum skipum.

2. gr.

Styrkur.

    Greiða skal einstaklingi hringrásarstyrk úr ríkissjóði vegna kostnaðar sem hann hefur greitt fyrir viðgerð á lausafjármun. Með viðgerð samkvæmt lögum þessum er átt við vinnu við lausafjármun sem miðar að því að laga skemmdir eða slit á honum sem telja má afleiðingu af eðlilegri notkun hans og fer fram í samræmi við lög um þjónustukaup, auk þeirra varahluta og annarra íhluta sem nauðsynlegir eru.
    Styrkur skal nema 50% af kostnaði sem einstaklingur hefur greitt fyrir viðgerð á lausafjármun. Þó skal ekki greiða einstaklingi hærri fjárhæð en 25.000 kr. fyrir staka viðgerð eða hærri fjárhæð en 100.000 kr. á ári.
    Styrkir samkvæmt lögum þessum takmarkast við heimildir í fjárlögum hverju sinni. Hafi heimild samkvæmt fjárlögum verið fullnýtt er óheimilt að samþykkja umsókn um styrk þrátt fyrir að skilyrði fyrir honum séu uppfyllt.
    Hringrásarstyrkur skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð.

3. gr.

Umsókn.

    Umsókn um styrk til viðgerðar á lausafjármun skal beint til Úrvinnslusjóðs eigi síðar en tveimur mánuðum frá dagsetningu reiknings. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti skal hún vera á því formi sem Úrvinnslusjóður ákveður. Umsókn skal fylgja afrit af reikningi þar sem kostnaður við viðgerð kemur skýrt fram.

4. gr.

Ákvörðun.

    Úrvinnslusjóður skal afgreiða umsóknir í þeirri röð sem þær berast og ekki síðar en 30 dögum eftir að sjóðnum berst fullnægjandi umsókn.
    Við afgreiðslu umsóknar getur Úrvinnslusjóður farið fram á að einstaklingur sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til styrks.

5. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót hringrásarstyrkjum sem greiddir verða til einstaklinga vegna kostnaðar við viðgerðir á lausafé eins og húsgögnum, raf- og rafeindatækjum, reiðhjólum, fatnaði og skóm. Markmið frumvarpsins er að efla hringrásarhagkerfið og stuðla að sjálfbærari neyslu með því að hvetja til viðgerða á hlutum í stað kaupa á nýjum. Styrkurinn nemur helmingi af kostnaði við viðgerð, innan tiltekinna hámarksupphæða, og ætti því að fela í sér talsverðan hvata til að lengja líftíma smærri tækja og hluta, sem aftur dregur úr sóun og minnkar úrgang. Auk þess hafa hringrásarstyrkir bein jákvæð fjárhagsleg áhrif á þá einstaklinga sem kjósa að notfæra sér þá, en jafnframt þau óbeinu áhrif að hvetja fleiri til að bjóða upp á viðgerðaþjónustu og skapa störf, en þar er oft um að ræða lítil fyrirtæki sem getur munað um aukna ásókn í þjónustuna.
    Þar sem tjón sem valdið er af ásetningi eða gáleysi fæst jafnan bætt með öðrum hætti, svo sem samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar eða á grundvelli vátryggingarsamninga er eðlilegt að gildissvið frumvarpsins takmarkist við viðgerðir á skemmdum eða slitum hluta sem telja má afleiðingu af eðlilegri notkun þeirra. Einnig falla utan gildissviðs laganna úrbætur á göllum sem seljandi gerir eða lætur gera á grundvelli laga um lausafjárkaup. Í 3. gr. er tekið fram að hringrásarstyrkur teljist ekki til tekna greiðsluþega. Það er annars vegar til að taka af vafa um að styrkurinn sé ekki skattskyldur, en auk þess er mikilvægt að greiðslur sem þessar skerði ekki lífeyri hjá hópi sem væntanlega getur haft talsverðan hag af kerfinu.
    Lagt er til að Úrvinnslusjóði verði falið að annast framkvæmd laganna. Úrvinnslusjóður hefur það lögbundna hlutverk að stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Fellur það hlutverk sjóðsins vel að því markmiði frumvarpsins að stuðla að því að framlengja notkunartíma hluta og draga þannig úr neyslu og sóun.
    Sambærilegum styrkjum hefur verið komið á fót í fjölda ríkja á undanförnum misserum. Þannig má nefna að í Frakklandi getur fólk sótt um endurgreiðslu vegna fataviðgerða og undanfarið ár hefur verið hægt að sækja um styrk til endurgreiðslu vegna viðgerða á raftækjum í Austurríki. Í Svíþjóð var sú leið farin að láta endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðgerðaþjónustu renna til þjónustuveitandans, sem er að ýmsu leyti flóknari framkvæmd og þótti ekki gefa jafn góða raun þar sem ávinningurinn skilaði sér ekki að öllu leyti í lægra verði. Hér er því lögð til sú einfalda leið til að ná fram skýrari ávinningi með því að endurgreiðslan nemi tilteknu hlutfalli af heildarkostnaði við smærri viðgerðir og renni beint til þess sem kaupir þjónustuna.