Ferill 486. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 535  —  486. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



1. gr.

    Á eftir orðinu „kvikmyndamenningu“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: og stuðla að varðveislu kvikmyndaarfs.

2. gr.

    3. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Efla kvikmyndamenningu og fræðslu og stuðla að varðveislu kvikmyndaarfs þjóðarinnar.

3. gr.

    Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í því skyni veitir Kvikmyndasjóður styrki sem geta m.a. falið í sér kröfu um endurheimt að uppfylltum skilyrðum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Endurheimtir styrkir skulu renna til Kvikmyndasjóðs.

4. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að endurskipa forstöðumann einu sinni til fimm ára.

5. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Kvikmyndasafni Íslands er heimilt að taka gjald fyrir eftirtalið: Útlán á kvikmyndum, kvikmyndasýningar, afritun, skönnun og stafvæðingu hliðræns efnis og sérfræðilega heimildaþjónustu og launa- og efniskostnað vegna þessara þátta. Jafnframt er safninu heimilt að taka gjald fyrir sýningu, annan flutning og rétt til eintakagerðar í samræmi við ákvæði höfundalaga, nr. 73/1972. Kvikmyndasafnið skal setja sér gjaldskrá vegna þessarar þjónustu sem ráðherra staðfestir.

6. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og um starfsemi Kvikmyndasjóðs, þar á meðal um styrkjaflokka, meðferð og afgreiðslu umsókna þar sem m.a. skal líta til jafnrar stöðu kvenna og karla.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. kemur ákvæði 4. gr. til framkvæmda við næstu skipun forstöðumanns, eða næstu endurnýjun skipunartíma, eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Meginefni frumvarpsins byggist á tillögum í kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem kom út og var kynnt á vef Stjórnarráðsins í október árið 2020. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á kvikmyndalögum, nr. 137/2001, og felur helsta breytingin í sér nýjan styrkjaflokk Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styrkja gerð viðamikilla leikinna sjónvarpsþáttaraða og munu styrkirnir fela í sér kröfu um endurheimt verði ákveðnum tekjuviðmiðum verkefnis náð. Að auki eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem talið er rétt að gera í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta á rætur að rekja til nýrrar stefnu stjórnvalda í málefnum kvikmyndagerðar sem kynnt var á haustdögum 2020. Verkefnahóp, sem skipaður var fulltrúum hagsmunaaðila, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis var falið að gera tillögur um heildstæða stefnu ásamt aðgerðaáætlun um kvikmyndamál. Stefnan skyldi ná yfir kvikmyndamenningu, kvikmyndamenntun, þróun og framleiðslu kvikmyndaefnis og alþjóðlega kynningu. Þá var hópnum ætlað að athuga stofnana- og stuðningskerfi kvikmyndagerðar með tilliti til einföldunar og eflingar.
    Markmið frumvarpsins er einkum að styðja við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða með vísan til aðgerða í kvikmyndastefnu. Um er að ræða útfærslu á b-lið aðgerðar 1 í Markmiði I. Auðug kvikmyndamenning. Aðgerðin ber nafnið Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis þar sem gert er ráð fyrir að hluti hagnaðar af sölu og dreifingu renni til baka til Kvikmyndasjóðs og með þeim hætti sé sjóðurinn efldur og þar með tækifæri aukin til framleiðslu nýs sjónvarpsefnis.
    Í kvikmyndalögum er ekki gert ráð fyrir að styrkir séu veittir með skilyrði um endurheimt hluta tekna samkvæmt nánari reglum þar að lútandi. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að Kvikmyndasjóði verði heimilt að veita styrki með svipuðum skilyrðum um endurheimt og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn enda er fyrirmynd þessa fyrirkomulags sótt þangað.
    Veruleg breyting hefur orðið á miðlun, framleiðslu og fjármögnun sjónvarpsþáttaraða á undanförnum árum. Þær breytingar sem hafa orðið á alþjóðlegu þróunar- og fjármögnunarumhverfi sjónvarpsþáttaraða hafa leitt til þess að fjármögnun síðustu 15–20% kostnaðar við framleiðslu er orðin erfiðari en áður. Í alþjóðlegu framleiðsluumhverfi sjónvarpsverka hefur framleiðslukostnaður hækkað og samkeppnisstaða þeirra sem ætla að framleiða efni fyrir sjónvarp í smærra sniði eða fyrir smærra markaðssvæði er orðin lakari en áður. Tilhneiging í framleiðslu sjónvarpsþáttaraða er því í auknum mæli samframleiðsla milli landa þar sem listrænt og faglegt samstarf getur styrkt sjálfstæða framleiðendur og aukið gæði og listrænt framlag í framleiðslu. Til þess að styrkja stöðu innlendra framleiðenda í breyttu alþjóðlegu umhverfi er framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar því bæði viðeigandi og nauðsynlegur. Þessu breytta umhverfi fylgja áskoranir fyrir þá sem starfa við listræna frumsköpun efnis og framleiðslu. Fjölmiðlaveitur hafa sterka stöðu við alþjóðlega útbreiðslu og hætta getur skapast á að áhrifavald þeirra vaxi á kostnað sjálfstæðra framleiðenda. Framleiðslufyrirtæki eiga þannig undir högg að sækja við að bera ábyrgð á mótun, þróun, fjármögnun og framleiðslu verkefna. Tilhneigingin getur orðið sú að framleiðendur sinni í auknum mæli þjónustuhlutverki við framleiðslu þar sem ritstjórnarlegt vald og réttindi liggja hjá fjölmiðlaveitum.
    Til þess að styrkja stöðu sjálfstæðra framleiðanda þarf að bregðast við breytingum í fjármögnunar- og þróunarumhverfi leikinna sjónvarpsþáttaraða. Mikilvægt er að íslensk frásagnarhefð og framleiðsla eigi þátt í þessari þróun. Með nýjum framleiðslustyrkjaflokki til lokafjármögnunar vegna leikinna sjónvarpsþáttaraða er samtímis hvatt til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkt staða framleiðanda íslensks efnis til að móta sjálfstæði í efnistökum, frásagnarhefð og frumsköpun.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1 Styrkir til leikinna sjónvarpsþáttagerða með skilyrði um endurheimt.
    Meginefni þessa frumvarps er að kveða skýrt á um heimild Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til að veita styrki vegna framleiðslukostnaðar kvikmyndaverka sem geta falið í sér kröfu um endurheimt að gefnum skilyrðum. Í samræmi við markmið Kvikmyndastefnu stjórnvalda til 2030 er lagt til að komið verði á nýjum styrkjaflokki til að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu stórra leikinna sjónvarpsþáttaraða. Nýjum styrkjaflokki er ætlað að auka fagmennsku og gæði í framleiðslu og bæta samkeppnisstöðu greinarinnar með því að hvetja til hagnýtingar sóknarfæra við framleiðslu sjónvarpsþáttaraða sem mögulegt væri að fjármagna að hluta utan landsteina með nýjum dreifileiðum.
    Í 1. gr. kvikmyndalaga er fjallað um að markmið laganna sé að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi. 2. mgr. 1. gr. laganna segir að kvikmynd merki hvers kyns hreyfimyndaefni án tillits til þess með hvers konar tækni eða aðferðum það er framleitt. Í 6. gr. laganna er fjallað um hlutverk Kvikmyndasjóðs. Hlutverk sjóðsins er að efla með fjárstuðningi íslenska kvikmyndagerð og gerð kvikmynda sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun, nema sérstök menningarleg rök leiði til annars. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúast um að sjóðurinn veiti styrki sem geti falið í sér kröfu um endurheimt að gefnum skilyrðum.
    Gert er ráð fyrir að endurheimt komi til framkvæmda vegna tekna af sýningum og dreifingu á leiknum sjónvarpsþáttaröðum. Tillagan gerir ráð fyrir að Kvikmyndamiðstöð setji reglur um hagnaðarmörk endurgreiðslna að fengnu samþykki og staðfestingu ráðuneytisins. Miðað er við að reglurnar taki mið af reglum Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins um endurgreiðsluhlutfall sjónvarpsverka, hvenær hagnaðarmörkum er náð o.fl. Gert er ráð fyrir að úrvinnsla umsókna og ákvarðanir um veitingu skilyrtra styrkja byggist á sömu forsendum og aðrar styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði.
    Nýjum styrkjaflokki er beint að umfangsmeiri verkefnum leikinna sjónvarpsþáttaraða sem hafa mikla markaðs- og dreifingarmöguleika, sem eru sannreyndir og staðfestir með forsölusamningum. Styrkjafyrirkomulagið taki til lokafjármögnunar verkefna sem hafa þegar fengið grunnfjármögnun. Nýr framleiðslustyrkur vegna lokafjármögnunar sem getur falið í sér kröfu um endurheimt kemur þannig til viðbótar við núverandi framleiðslustyrki sjónvarpsþátta. Framleiðslustyrkir sjónvarpsefnis taka ekki breytingum við þessa viðbót samkvæmt tillögum frumvarps.
    Markmið nýs styrkjaflokks er að styrkja stöðu sjálfstæðra framleiðenda til að þróa, móta og fjármagna verkefni með markaðsmöguleika sem geta aflað viðbótarfjármagns með sölu á fleiri en einu markaðssvæði. Með því er ætlunin að auka gæði, fagmennsku og samkeppnishæfni í framleiðslu íslenskra sjónvarpsþátta með að veita styrki til verkefna sem hafa þegar tryggt fjármagn og dreifingarsamninga og efla þannig rekstrargrundvöll innlendrar kvikmyndagerðar við krefjandi verkefni.
    Styrkveitingarnar eru skilyrtar við að þegar tilteknu hagnaðarmarki er náð af sölu sýningarréttar verði veittur styrkur endurgreiddur í hlutfalli við tekjumyndun, sem mun efla frekari styrkveitingar í þessum flokki til lengri tíma. Styrkurinn beinist þannig að þrengra mengi verkefna en almennur framleiðslustyrkur og hefur hvatningaráhrif til þátttöku í stærri verkefnum sem höfða til breiðari hóps áhorfenda. Þá eru þau verkefni sem eiga kost á að hljóta styrkinn komin lengra í þróunarferli verkefna þar sem grunnfjármögnun þeirra er lokið og fyrir liggja staðfestir samningar um sölu og dreifingu.
    Umsækjandi leikinnar sjónvarpsþáttaraðar sem hefur fengið vilyrði fyrir framleiðslustyrk hennar getur einnig sótt um framleiðslustyrk til lokafjármögnunar, að þeim skilyrðum uppfylltum sem gilda um hvorn styrkjaflokk fyrir sig. Styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs til framleiðslu sjónvarpsþáttaraða mun því bæði bjóða upp á að sótt sé um vilyrði fyrir styrk til framleiðslu sem hluta grunnfjármögnunar og framleiðslustyrk sem hluta lokafjármögnunar fyrir þáttaraðir sem hafa náð ákveðnu þroskastigi sem er staðfest með fjármögnun og fyrirliggjandi dreifingarsamningum. Við mat umsókna um framleiðslustyrk til lokafjármögnunar verði litið til þess hvort verkefni uppfylli skilyrði grunnmarkmiða styrkjaflokksins, sem eru að hvetja til framleiðslu og dreifingar stórra sjónvarpsþáttaraða sem auka fagmennsku og samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu, höfða til breiðs hóps áhorfenda, hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun eða eru á íslenskri tungu og stuðla að eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Þá er framleiðslustyrk til lokafjármögnunar ætlað að bæta þrengri samkeppnisstöðu sjálfstæðra framleiðanda á smærri markaðssvæðum við fjármögnun sjónvarpsþáttaraða í alþjóðlegu framleiðsluumhverfi.

3.2 Fyrirkomulag skilyrtra styrkveitinga hjá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum.
    Við gerð frumvarpsins og mótun reglna um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar var horft til þess fyrirkomulags sem er á sambærilegum styrkjum frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum (NFTF).
    Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn styður við framleiðslu á norrænu sjónvarpsefni með því að taka þátt í lokafjármögnun á framleiðslunni. Sjóðurinn er stofnun sem lýtur norskri löggjöf. Hann starfar samkvæmt samþykktum sjóðsins og samningi hans við sjóðsaðila. Aðilar sjóðsins eru til að mynda norræna ráðherranefndin, norrænir kvikmyndasjóðir/stofnanir og norrænar sjónvarpsstöðvar í almanna- og einkaeigu. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn tekur þátt í lokafjármögnun leikinna sjónvarpsþáttaraða ef viss skilyrði eru uppfyllt. Sjóðurinn áskilur sér rétt til hluta af tekjum á heimsvísu (e. world wide receipts) af þáttaröð (tilteknu endurgreiðsluhlutfalli) og hefjast endurgreiðslur þegar tekjur verkefnisins á heimsvísu hafa náð fyrirframtilgreindum hagnaðarmörkum (e. break-even point). Kröfur sjóðsins um endurgreiðslur af hálfu framleiðanda ná ekki til tekna sem berast síðar en fimm árum frá fyrstu almennu sýningu á sjónvarpsþáttaröð í heimalandinu.
    Í reglum Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins eru tekjur á heimsvísu allar brúttótekjur sjónvarpsþáttaraðar um allan heim og frá öllum dreifingaraðilum og miðlum. Í reglunum er talið upp það sem ekki reiknast sem tekjur í þessu sambandi.
    Um hagnaðarmörk leikinna sjónvarpsþáttaraða er miðað við forsamþykkta eiginfjármögnun framleiðanda, þ.e. sem sjóðurinn ákveður. Um hlutfall endurgreiðslu segir í reglum sjóðsins að það skuli vera tiltekinn hundraðshluti sjóðsstyrksins af norrænni fjármögnun að frádreginni forsamþykktri eiginfjármögnun. Styrkþegi þarf ekki að endurgreiða fyrr en sjónvarpsþáttaröðin hefur staðið undir framleiðslukostnaði, þ.e. krafan um endurheimt miðast við skilgreiningu á hreinum tekjum. Fjármögnun framleiðslukostnaðar er því undanskilin innheimtukröfu.
    Þegar hagnaðarmörkum hefur verið náð geta verið nokkrir aðilar í greiðsluröð, þ.e. forgangsröðun þeirra aðila sem verkefnið greiðir til. Það kallar á að fyrir liggi skýr endurheimtaráætlun (e. recoupment schedule) sem tiltekur rétt og röð aðila. Sjóðir með endurkröfu á styrk/fjárfestingu byggjast á þeirri grunnhugmynd að fyrir liggi samþykkt kostnaðar- og fjármögnunaráætlun. Þar er bæði gert ráð fyrir að skýrt sé hvaða tekjur eru í greiðsluskjóli, þ.e. hvaða kostnaður/fjármögnun rennur til greiðslu framleiðslunnar og hvenær greiðslukrafan virkjast. Eigið framlag framleiðenda og/eða aðstandenda framleiðslunnar er því að jafnaði talið framlag sem þarf að greiða áður en búið er að fjármagna samþykktan kostnað, þ.e. kvikmynd hefur náð hagnaðarmörkum. Áhættufjármagn framleiðanda skal vera að fullu greitt áður en kemur til endurgreiðslu til sjóðanna.
    Meðal þess sem fellur undir forsamþykkta eiginfjármögnun framleiðanda (e. in advance approved own financing) og krefst samþykkis sjóðsins má nefna handbært fé, ógreidd laun fyrir framlagða vinnu, fjárfestingar meðframleiðenda og dreifingaraðila og fjárfestingar birgðasala. Það sem sjóðurinn viðurkennir ekki að falli undir forsamþykkta eiginfjármögnun framleiðanda eru meðal annars fjárfestingar sjónvarpsstöðva og forsala á dreifingarrétti til norrænna fjölmiðlafyrirtækja/streymisveitna, styrkir úr svæðisbundnum kvikmyndasjóðum og fjármögnun utan Norðurlandanna.
    Árið 2018 voru heildartekjur Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins um 113 millj. norskra króna og þar af voru endurgreiðslur tæpar 5 millj. norskra króna. Styrkveitingar sjóðsins sama ár námu um 105 millj. norskra króna og endurgreiðslurnar því um 4,8% af tekjum sem ráðstafað var til styrkveitinga. Árið 2020 voru heildartekjur sjóðsins tæpar 125 millj. norskra króna en endurgreiðslur aðeins um 2,7 millj. norskra króna og höfðu þær þá meira en tvöfaldast frá árinu 2019. Þetta bendir til þess að endurgreiðslur geti verið mjög mismunandi milli ára og því erfitt að áætla hverjar endurgreiðslur til Kvikmyndasjóðs gætu orðið. Ef endurgreiðslur samkvæmt frumvarpinu koma til framkvæmda má væntanlega gera ráð fyrir sambærilegu endurgreiðsluhlutfalli eða lægra sökum þess að markaður fyrir íslenskar sjónvarpsþáttaraðir er að jafnaði smærri en annarra norrænna þáttaraða. Til að fylgjast með árangri verður fylgst með hlutfalli endurgreiðslu af styrkveitingum á nánar tilteknu tímabili.
    Í kvikmyndastefnunni falla styrkir til leikinna sjónvarpsþáttaraða undir Markmið I. Auðug kvikmyndamenning. Markmiðið miðar að því að stuðla að fjölbreyttri kvikmyndamenningu sem styrki sjálfsmynd þjóðarinnar og efli íslenska tungu. Í stefnunni er bent á að kvikmyndagerð hafi mikilvægu menningarlegu og samfélagslegu hlutverki að gegna. Í lýsingu á markmiðinu er farið ítarlega yfir þær aðstæður sem standa undir auðugri kvikmyndamenningu. Þar má nefna fjölbreytta kvikmyndaframleiðslu, aðsókn í kvikmyndahús, kvikmyndamarkaði, sjónvarpsstöðvar og kvikmyndamenntun. Almenningur sækist eftir vönduðu staðbundnu efni og með nýjum efnisveitum og miðlum skapast nýjar aðferðir til miðlunar. Því var það niðurstaða verkefnahóps að stuðningskerfi kvikmyndagerðar þyrfti að þróast til að nýta nýja miðla og aðferðir sem best.
    Til þess að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð geti staðið jafnfætis erlendri framleiðslu þarf að búa íslenskri kvikmyndagerð góð vaxtarskilyrði. Í viðauka I við kvikmyndastefnu er bent á að mikilvægt sé að svara aukinni innlendri og alþjóðlegri eftirspurn eftir fjölbreyttu sjónvarpsefni, ekki síst sjónvarpsþáttaröðum. Tillögum í frumvarpinu er ætlað að styðja við framleiðslu leikinna sjónvarpsþáttaraða og annarra vandaðra kvikmynda enda renni hugsanlegar endurgreiðslur í Kvikmyndasjóð og þar með verði aukið fjármagn til kvikmyndagerðar.

3.3 Aðrar breytingar.
    Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um varðveislu kvikmyndaarfs á Íslandi, kvikmyndafræðslu, hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands og gjaldskrárheimild safnsins. Að auki er lagt til að ákvæði um að í reglugerð verði kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar falli brott í þeirri mynd og horft verði til þess að annað fyrirkomulag verði tekið upp.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Íslensk stjórnvöld hafa talið aðstoðarkerfi Kvikmyndasjóðs vera „yfirstandandi aðstoð“ sem er aðstoð sem var hafin fyrir gildistöku EES-samningsins í viðkomandi EFTA-ríki og er enn veitt. Í því sambandi skiptir máli að Kvikmyndasjóðurinn var stofnaður árið 1978, fyrir gildistöku EES-samningsins, og hefur starfsemi hans verið í óbreyttri mynd í áratugi. Slíkri aðstoð er ríkjum heimilt að viðhalda en hún er engu síður háð eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um samræmi við EES-samninginn. Af þessum sökum er styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs ekki tilkynningarskylt til ESA. Að öðru leyti gefur efni frumvarpsins ekki tilefni til sérstaks mats á samræmi þess við ákvæði stjórnarskrárinnar eða annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands.

5. Samráð.
    Drög að frumvarpi þessu voru tvisvar sinnum birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, í fyrra skiptið dagana 23. febrúar til 16. mars 2022 (mál nr. S-41/2022) og barst þá ein umsögn, og í seinna skiptið dagana 24. ágúst til 7. september 2022 (mál nr. S-152/2022) en þá bárust tvær umsagnir. Eftir fyrra umsagnarferli átti ráðuneytið fundi með fulltrúum Kvikmyndamiðstöðvar og kvikmyndaráðs um efnistök í frumvarpinu þar sem fram komu athugasemdir við útfærslu á ákvæði um skilyrtar styrkveitingar. Ákvæðið var í kjölfarið tekið til endurskoðunar og kynnt aftur til samráðs í síðara skipti og bárust þá ekki athugasemdir við það. Umsagnaraðilar lýstu að öðru leyti yfir ánægju með frumvarpsdrögin.

6. Mat á áhrifum.
    Fjárveitingar til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs eru samkvæmt fjárlögum ár hvert. Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 er bent á að í kvikmyndastefnunni felist tækifæri og vaxtarsprotar í kvikmyndagerð sem atvinnugrein. Kvikmyndir styrki að auki stöðu íslenskrar tungu og komi Íslandi á framfæri erlendis. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 er tilgreint markmiðið að skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í listum og menningu. Þar er lögð áhersla á að endurskoða og einfalda umgjörð stuðnings við menningu og listir og styrkja faglega launa- og verkefnasjóði listamanna. Efni frumvarpsins tengist því markmiði í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025. Ef ákvæði frumvarpsins verða óbreytt að lögum þarf að gera breytingar á reglugerð um kvikmyndasjóð, nr. 229/2003, þar sem bætt yrði við reglugerðina kafla með útfærslu á nýjum styrkjaflokki, meðal annars um skilyrði sem verkefni þurfa að uppfylla til að vera styrkhæf, reglur um endurheimt styrkjanna og tekjuviðmið og fleiri tengd atriði. Drög að breytingu á reglugerðinni liggja fyrir og voru kynnt í samráðsgátt samhliða frumvarpinu.
    Gert er ráð fyrir að ráðstöfunarfé Kvikmyndasjóðs geti aukist þegar endurgreiðslur koma til framkvæmda og heildarfjárhæð styrkveitinga hækki að sama marki og stuðli þannig að því markmiði að efla kvikmyndagerð hér á landi. Ekki er hins vegar viðbúið að það gerist fyrr en að nokkrum árum liðnum frá því að nýjum styrkjaflokki er komið á fót. Verði frumvarpið óbreytt að lögum, og með auknu ráðstöfunarfé Kvikmyndasjóðs í kjölfarið, mun það hafa jákvæð áhrif á fagþekkingu innan kvikmyndagerðar hér á landi. Kvikmyndagerð er í eðli sínu list- og atvinnugrein sem byggist á hugviti, hátækni og sköpun. Með því að efla Kvikmyndasjóð með þeim hætti sem frumvarpið leggur til eykst verðmætasköpun greinarinnar, henni sjálfri og almenningi til hagsbóta. Fjölbreyttur hópur fólks og fagstétta kemur að gerð kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Um er að ræða frásagnarlist, leiklist, tónlist, myndlist, hönnun og klippingu auk sérhæfðrar tæknivinnslu svo dæmi séu tekin. Með frumvarpinu er ætlunin að stuðningskerfi kvikmyndagerðar; Kvikmyndasjóður, komi til móts við þá alþjóðlegu þróun sem kallar á frekari samhæfingu þessara ólíku sviða innan kvikmyndagerðar. Breytingin sem lögð er til getur hvatt ungt og hæfileikaríkt fólk til að leggja fyrir sig kvikmyndagerð sem atvinnugrein eða aðrar greinar sem geta tengst kvikmyndagerð með einum eða öðrum hætti.
    Vönduð kvikmyndagerð á íslensku er mikilvægur þáttur fyrir tungumála- og menningarlæsi, jafnt fyrir innfædda og aðflutta einstaklinga. Varðveisla, virk miðlun og fræðsla kvikmyndaefnis og kvikmyndaarfs á Íslandi, eiga ríkan þátt í að skapa og viðhalda kvikmyndamenningu á Íslandi.
    Tekjur Kvikmyndasafns af veittri þjónustu, t.d. við að stafvæða eldra efni til notkunar í heimildarmyndum, auglýsingum o.s.frv. hafa verið um 3–5 millj. kr. á ári undanfarin ár. Eftirspurn eftir stafvæddu eldra efni hefur þó aukist en ekki er gert ráð fyrir auknum tekjum svo nokkru nemi.
    Ákvæði frumvarpsins fela í sér óverulegar breytingar á verkefnum og gjaldskrárheimildum Kvikmyndasafns Íslands, sem og á verkefnum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sem munu ekki hafa áhrif á áætlaðar fjárheimildir stofnananna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í kvikmyndalögum eru ákvæði um starfsemi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasafns Íslands. Því er lagt til að bætt sé við 1. mgr. 1. gr. laganna að markmið þeirra sé einnig að stuðla að varðveislu kvikmyndaarfs á Íslandi. Ekki er getið um kvikmyndaarf í lögunum og markmið tillögunnar er að undirstrika mikilvægi varðveislu þess kvikmyndaarfs sem Ísland býr yfir. Hér er ekki eingöngu átt við kvikmyndað efni eftir íslenskt kvikmyndagerðarfólk heldur jafnframt myndir og myndbrot sem erlent tökufólk hefur tekið upp hér á landi í gegnum tíðina. Sem dæmi má nefna að eitt elsta þekkta myndbrot sem tekið hefur verið upp hér á landi er eftir danskan kvikmyndatökumann frá 1906.
    Í kvikmyndastefnu stjórnvalda er áhersla lögð á varðveislu, miðlun og aukið aðgengi að kvikmyndaarfinum. Kvikmyndir sem hafa náð 50 ára aldri eru flokkaðar sem menningarminjar samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, og er því óheimilt að flytja þær úr landi nema formlegt leyfi komi til. Í kvikmyndastefnu er Kvikmyndasafni Íslands gert að hlúa að varðveislu og nútímalegri miðlun kvikmyndaarfsins.

Um 2. gr.

    Lagt er til að bæta við verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í 3. tölul. 3. gr. laganna að miðstöðin efli kvikmyndafræðslu á Íslandi. Í kvikmyndastefnu er Kvikmyndamiðstöð Íslands ætlað víðtækara hlutverk en áður, meðal annars að sinna kvikmyndauppeldi og mynd- og miðlalæsi. Meðal annars er gert ráð fyrir að Kvikmyndamiðstöð þrói námsefni fyrir öll skólastig að erlendri fyrirmynd í samstarfi við Menntamálastofnun. Verkefni miðstöðvarinnar sem tilgreind eru í kvikmyndalögum ná ekki utan um þetta hlutverk og því er í frumvarpinu gerð tillaga um að bæta því við.

Um 3. gr.

    Lagt er til að við 6. gr. laganna bætist heimild fyrir Kvikmyndasjóð til að veita styrki með skilyrði um endurheimt verði ákveðnu tekjuviðmiði viðkomandi verkefnis náð á tilteknu tímabili frá frumsýningu þess. Um nánari skýringar um fyrirkomulagið vísast til 3. kafla greinargerðarinnar. Í reglugerð um Kvikmyndasjóð, sem ráðherra setur skv. 13. gr. laganna, verður kveðið ítarlega á um skilyrði og fyrirkomulag styrkveitinga með skilyrði um endurheimt í samræmi við umfjöllun framar í greinargerðinni.

Um 4. gr.

    Lagt er til að við 9. gr. laganna verði bætt málslið sem kveði á um hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands. Þannig geti sami einstaklingur aðeins verið skipaður tvisvar sem forstöðumaður safnsins. Það er í samræmi við skipunartíma forstöðumanna annarra opinberra stofnana á sviði lista, til dæmis skipun forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands. Lagaskil eru útskýrð í gildistökuákvæði og vísast um það til skýringa við 7. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Gerð er tillaga um breytingar á 11. gr. laganna um gjaldskrárheimildir Kvikmyndasafns í þeim tilgangi að uppfæra þær með tilliti til tæknibreytinga sem orðið hafa á síðastliðnum árum. Mikið af efni Kvikmyndasafns er á hliðrænu formi og svo hægt sé að nota það aftur, t.d. við gerð nýrra mynda eða þátta, þarf að stafvæða efnið áður en veittur er aðgangur að því. Aukin stafvæðing efnis Kvikmyndasafns skapar einnig betri yfirsýn og efnisgreiningu yfir það efni sem er til á safninu sem aftur eykur þekkingu á safnkostinum. Í sérfræðilegri heimildaþjónustu felst að leita að efni á safninu og stafvæða það til afhendingar. Eðlilegt er að gjaldskrárheimild Kvikmyndasafns endurspegli þær tæknibreytingar sem nú eiga sér stað og kalla á breytta nálgun í þjónustu safnsins.

Um 6. gr.

    Lögð er til breyting á orðalagi reglugerðarheimildar 13. gr. laganna. Lagt er til að fellt verði brott orðalag þess efnis að kveðið verði á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar í reglugerð sem ráðherra setur. Nánari skipting fjárveitinga verður útfærð með öðrum hætti en í reglugerð. Horft verður til samkomulags hagaðila og Kvikmyndamiðstöðvar í þeim efnum. Að öðru leyti er efnisinnihald ákvæðisins óbreytt.

Um 7. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi, en að ákvæði 4. gr., um að í 9. gr. kvikmyndalaga verði kveðið á um að forstöðumann Kvikmyndasafns megi endurskipa einu sinni, komi til framkvæmda við næstu skipun, eða endurnýjun skipunartíma, eftir gildistöku laganna. Næsta fimm ára skipunartímabil á eftir gildistöku laganna verði þannig fyrsta skipunartímabilið sem hin nýja regla, um að forstöðumaður Kvikmyndasafns gegni embættinu að hámarki tvö skipunartímabil, gildir um. Í þessu sambandi skoðast að skipunartími embættismanna er fimm ár og ráðherra hefur fulla heimild til að auglýsa embætti laus til umsóknar við lok skipunartíma, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Embættismenn eiga því ekki lögvarið tilkall til þess að fá skipunartíma sinn endurnýjaðan. Með ákvæðinu er ekki vikið frá þeirri reglu.