Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 561  —  485. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Mikið óvissuástand ríkir nú á Reykjanesskaga. Á tímum sem þessum skiptir mestu máli að kappkostað sé að rask af völdum hörmunganna verði sem minnst og vari sem styst. Markmið frumvarpsins er að gera viðbragðsaðilum kleift að byggja varnargarða til að verja byggðina í Grindavík og nauðsynlega innviði. Minni hlutinn styður það mikilvæga markmið. Hins vegar eru nokkur ákvæði frumvarpsins varhugaverð að mati minni hlutans.
    Áætlað er samkvæmt frumvarpinu að kostnaður vegna fyrirhugaðra varnargarða verði u.þ.b. 2,5 milljarðar króna. Í frumvarpinu er lagt til að standa undir þeim útgjöldum með nýjum skatti, svokölluðu forvarnagjaldi, sem verði innheimt af brunatryggðum húseignum. Telur minni hlutinn eðlilegast að greiða þessi útgjöld einfaldlega beint úr ríkissjóði. Í samhengi ríkisfjármála er ekki um óyfirstíganlega fjárhæð að ræða og því hefði verið einfaldara að líta til varasjóðs ríkisstjórnarinnar, sem er ágætlega fjármagnaður, eða bæta útgjöldunum við fjárlög næsta árs - sem eru í meðferð þingsins þessa dagana.
    Samkvæmt greinargerð er forvarnagjaldinu ætlað að vera tímabundið, en í flutningsræðu forsætisráðherra kom skýrt fram að áform séu um að taka upp sambærilega gjaldtöku með varanlegum hætti á næstu árum til að standa straum af kostnaði sem kann að hljótast af aukinni eldvirkni og vaxandi hættu á vatnsflóðum. Ef ríkisstjórnin telur ástæðu til að koma slíkri gjaldtöku á með varanlegum hætti væri eðlilegt að ræða kosti og galla slíkrar umgjarðar í sjálfstæðu þingmáli sem fengi fulla þinglega meðferð, frekar en að stíga fyrstu skrefin í þá átt með frumvarpi sem afgreitt er á einum degi. Jafnframt er óljóst hver asinn er við þann hluta málsins í ljósi þess að gjaldtökuákvæðið á ekki að taka gildi fyrr en um áramótin samkvæmt frumvarpinu. Þess má einnig geta að gjaldinu er ekki aðeins ætlað að standa straum af kostnaði vegna þeirra framkvæmda sem frumvarpið fjallar um, heldur einnig af öðrum framtíðarframkvæmdum, svo sem vegna vatnsflóða.
    Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins er undirbúningur, taka og framkvæmd ákvörðunar skv. 2 .gr. undanþegin ákvæðum níu lagabálka. Minni hlutinn lýsir yfir áhyggjum af þessari víðtæku undanþágu frá lögum sem ætlað er að standa vörð um hagsmuni almennings og umhverfis. Hér má sérstaklega nefna stjórnsýslulög sem tryggja eiga grundvallarréttindi borgara landsins og ekki verður séð að geti valdið teljandi töfum á nauðsynlegum framkvæmdum. Einnig er lagt til að víkja til hliðar ákvæðum laga sem snúast um upplýsingarétt almennings, um að ráðherra skuli gæta að hæfi sínu, um að tryggja samráð við sveitarfélög og að framkvæmt skuli umhverfismat, svo eitthvað sé nefnt. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að ganga svo langt í skerðingu annarra réttinda til að unnt sé að ná markmiði frumvarpsins um að tryggja rétt íbúa Suðurnesja til varna og grundvallarþjónustu. Nefndinni gafst ekki ráðrúm til að greina hvaða lagaákvæðum mætti telja eðlilegt að víkja til hliðar á neyðarstund og hvaða ekki, þannig að minni hlutinn telur sig ekki hafa forsendur til að gera tillögu til breytingar á þessum lið frumvarpsins.
    Minni hlutinn leggur því til að fella brott þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að sérstakri gjaldtöku vegna framkvæmda við varnargarða í nágrenni Svartsengis, sbr. þskj. 559. Í staðinn verði þeim útgjöldum fundinn staður innan ramma fjárlaga, en því beint til ríkisstjórnarinnar að hefja vinnu við langtímastefnu í fjármögnun slíkra aðgerða strax á nýju ári.

    Að framansögðu virtu leggur minni hlutinn að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem finna má í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. nóvember 2023.

Halldóra Mogensen, frsm. Bergþór Ólason. Eyjólfur Ármannsson.