Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 566  —  506. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002 (umfjöllun í fjölmiðlum).

Flm.: Halldór Auðar Svansson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    3. tölul. 3. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 7. gr. tóbaksvarnalaga er fjallað um bann við hvers kyns auglýsingum á tóbaki og reykfærum hér á landi. Í 3. mgr. greinarinnar er talið upp hvað telst til auglýsinga og þar með, skv. 3. tölul., telst „hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra“.
    Þessi töluliður á uppruna sinn í frumvarpi sem heilbrigðisráðherra lagði fram á 120. löggjafarþingi (313. mál). Í upphaflegu frumvarpi ráðherra orðaðist töluliðurinn svo: „söluhvetjandi umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir“ en í breytingartillögu heilbrigðis- og trygginganefndar var lagt til að hann orðaðist svo: „hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir nema ljóst sé að hún miði beinlínis að því að koma á framfæri upplýsingum sem draga úr skaðsemi tóbaksneyslu“. Alþingi samþykkti frumvarpið með breytingum nefndarinnar og varð frumvarpið að lögum þann 3. júní 1996.
    Það var síðan á 126. löggjafarþingi sem heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp (345. mál) þar sem lögð var til sú breyting á orðalagi töluliðarins sem enn er að finna í gildandi lögum. Af því tilefni sendi Blaðamannafélag Íslands inn umsögn þar sem þess var krafist að „umrætt ákveði verði afnumið úr lögum vegna þess að það stríðir gegn prent- og ritfrelsi í landinu.“. Í umsögn félagsins sagði jafnframt: „Verður heldur ekki séð af greinargerð með frumvarpinu að tillit hafi verið tekið til tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar þegar það var samið. Slíkt skeytingarleysi á Alþingi um grundvallarréttindi í lýðræðisríki er eitt út af fyrir sig áhyggjuefni.“ Ekki er heldur að sjá að nokkurt tillit hafi verið tekið til þessa sjónarmiðs í meðförum heilbrigðis- og trygginganefndar, né í umræðum á Alþingi, og varð frumvarpið að lögum þann 20. maí 2001.
    Þegar heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir á 132. löggjafarþingi (388. mál) var hins vegar tekist á um töluliðinn á Alþingi. Þrátt fyrir að frumvarpið hafi fjallað um aðrar greinar laga um tóbaksvarnir en 7. gr. lagði Pétur H. Blöndal fram breytingartillögu sem er samhljóða því frumvarpi sem hér er lagt fram. Pétur færði m.a. eftirfarandi rök fyrir breytingartillögunni í annarri umræðu um frumvarpið:

    „Hún varðar 7. gr. í núgildandi lögum, nr. 6/2002, þar sem segir að hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum séu bannaðar hér á landi. Þar segir enn fremur í 3. tölulið sömu greinar að með auglýsingum sé átt við hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra.
    Þetta ákvæði er alveg með ólíkindum, frú forseti.
    Ef einhver fjölmiðlamaður skyldi nú senda út það sem ég segi hér á eftir þá ætla ég að vara hann við að ég er að fara að brjóta lög. Ég ætla nefnilega að segja að ég hafi aldrei reykt Camel. Þetta er lögbrot. Ég ætla að segja að það sé langt síðan ég hafi keypt Chesterfield. Annað lögbrot. Ég ætla að segja að nú er hann Jón gamli dáinn, ég segi það af því að ég er að skrifa minningargrein um hann, en eldri bróðir hans Gunnar sem reykti alltaf Raleigh, lifir góðu lífi. Eða systir hans sem reykti lifir enn, háöldruð. Þetta má ég ekki segja heldur.
    Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum frú forseti, svona umræða. Svona lagatúlkun. Þetta minnir á trúboð. Þetta minnir á trúboð bókstafstrúarmanna. Þetta eru einstrengingslegar skoðanir. Þetta er forsjárhyggja og þetta er skoðanakúgun. Þetta er rétttrúnaður. Ekkert annað. Heilbrigð umræða og skynsemi er látin veg allrar veraldar.
    Ég skora á hv. þingmenn að styðja breytingartillögu mína þannig að það sem ég sagði hér áðan sé ekki lengur lögbrot og menn geti t.d. sagt í grein í Morgunblaðinu eða í einhverjum öðrum fjölmiðli að einhver hafi reykt Raleigh eða að einhver hafi reykt þetta eða hitt.“

    Meiri hluti þingheims varð hins vegar ekki við þessari áskorun því að breytingartillaga Péturs H. Blöndals var felld í atkvæðagreiðslu þann 2. júní 2006. Það frumvarp sem hér er lagt fram miðar að því að gefa þingmönnum annað tækifæri til að bregðast við þessari áskorun og er með því tekið undir sjónarmið Péturs H. Blöndals heitins sem og Blaðamannafélags Íslands á sínum tíma. Þessi sjónarmið eiga enn við.
    Sem dæmi um áþreifanleg áhrif lagagreinarinnar á starfsemi fjölmiðla má vísa til ritstjórnargreinar Aðalheiðar Ámundadóttur, þá fréttastjóra Fréttablaðsins, sem birtist í blaðinu þann 10. mars 2021. Þar upplýsti hún að fjölmiðlinum hefði borist krafa frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þess efnis að fjarlægð yrði frétt um tiltekinn tóbakssala af viðskiptavef blaðsins. Hótað var dagsektum og möguleikanum á að því að vísa málinu til lögreglu. Fréttastjórinn upplýsti í pistlinum að: „Þótt hvorki ritskoðun heilbrigðiseftirlitsins né umrætt ákvæði tóbaksvarnarlaga, standist ákvæði um tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla, ákvað ritstjórnin, eftir vikulanga yfirlegu, að taka fréttina úr birtingu.“ Þar varð ofan á það sjónarmið að blaðið hefði ekki fjárhagslega burði til að taka þennan slag, þó svo að ritstjórnin hefði gjarnan viljað láta reyna á lögin.
    Blátt bann við fjölmiðlaumfjöllun um einstakar vörutegundir tóbaks og reykfæra, nema undir þröngum formerkjum, er þannig óhóflegt tæki til að ná fram markmiðum tóbaksvarnalaga, þar sem það samræmist illa tjáningarfrelsissjónarmiðum og leiðir til óhóflegrar kælingar á fjölmiðlaumfjöllun. Þótt engum hafi verið refsað vegna þess hefur því samt verið beitt til að láta fjarlægja ákveðna umfjöllun fjölmiðla sem treysta sér ekki til að láta reyna á mörk ákvæðisins sökum kostnaðar.
    Einnig er rétt að nefna að sambærilegt bann er ekki að finna í 20. gr. áfengislaga, sem fjallar um bann við áfengisauglýsingum. Í 2. mgr. þeirrar greinar eru áfengisauglýsingar skilgreindar svo: „Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.“ Niðurfelling á almennu banni við fjölmiðlaumfjöllun um einstakar vörutegundir í lögum um tóbaksvarnir er því til þess fallin að auka samræmi milli laganna, í átt að meðalhófi, þar sem skýr greinarmunur er gerður á markaðssetningu og almennri fjölmiðlaumfjöllun.
    Að lokum má nefna að samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitum landsins hafa ekki komið inn neinar kvartanir á þeirra borð utan Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, en því höfðu aðeins borist þrjár kvartanir síðastliðinn rúma áratug.