Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 571  —  232. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um meðferðarstöðvar.


     1.      Hver var meðalfjöldi einstaklinga á biðlista á Sjúkrahúsið Vog annars vegar og meðferðarstöðina Vík hins vegar í hverjum mánuði síðastliðin tvö ár?
    Í hverjum mánuði berast að meðaltali 230 beiðnir um innlögn á sjúkrahúsið Vog og á hverjum tíma eru um 500–700 beiðnir um innlögn á biðlista sjúkrahússins.
    Á meðferðarstöðinni Vík er almennt ekki biðlisti.

     2.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu við að stytta þessa biðlista með einhverjum hætti?
    SÁÁ hefur á undanförum misserum gripið til aðgerða til að forgangsraða, stýra aðgengi að inniliggjandi meðferð og stytta biðtíma. Sem dæmi hefur verið komið á fót meðferð í göngudeild sem hentar einstaklingum sem ekki þurfa fráhvarfsmeðferð. Aðgerðirnar hafa leitt til þess að beiðnum um innlögn á sjúkrahúsið Vog hefur fækkað og biðtími eftir innlögn styst þannig að flestir komast að innan 90 daga viðmiðs embættis landlæknis um biðtíma.
    Áhersla ráðuneytisins er fyrst og fremst að stytta biðtíma eftir þjónustu á viðeigandi þjónustustigi sem bráða- eða viðbragðsþjónustu á legu- eða göngudeild. Unnið er að nýjum heildarsamningi milli SÍ og SÁÁ sem tekur við af fjórum eldri samningum um heilbrigðisþjónustu stofnunarinnar. Innan heildarsamnings er auðveldara fyrir SÁÁ að forgangsraða verkefnum byggt á þörfum notenda og samfélagsins á hverjum tíma.

     3.      Hvert var hlutfall þeirra sem þáðu boð um meðferð og þeirra sem höfnuðu því þegar röðin kom að þeim í hverjum mánuði síðastliðin tvö ár?
    Árið 2021 voru um 84% einstaklinga sem þáðu boð um innlögn á sjúkrahúsið Vog en 16% einstaklinga höfnuðu boði um innlögn eða mættu ekki í boðaða innlögn.
    Árið 2022 voru um 82% einstaklinga sem þáðu boð um innlögn á sjúkrahúsið Vog en 18% notenda höfnuðu boði um innlögn eða mættu ekki í boðaða innlögn.