Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 572  —  386. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um brjóstapúða.


     1.      Hvernig hafa heilbrigðisyfirvöld fylgt eftir þeim úrbótum sem sagðar voru nauðsynlegar á skráningu brjóstapúða í kjölfar viðbragða við hinum gölluðu PIP-brjóstapúðum?
    Í kjölfar PIP-brjóstapúðamálsins var lögfest skylda á alla sem gera aðgerðir með ígræðanlegum lækningatækjum að halda rafræna skrá. Skv. 33. gr. laga nr. 132/2020, um lækningatæki, skulu heilbrigðisstofnanir, starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna og rekstraraðilar halda rafræna skrá yfir einkvæmar tækjaauðkenningar þeirra lækningatækja sem þau hafa afhent og tilheyra ígræðanlegum tækjum. Í sömu grein laganna kemur fram að Lyfjastofnun geti óskað þess að fá aðgang að skránni, þar á meðal persónugreinanlegum upplýsingum sem þar eru.

     2.      Hefur ráðuneytið til skoðunar að setja á laggirnar brjóstapúðaskrá, eða skrá um önnur læknisfræðileg ígræði, til að tryggja rekjanleika og öryggi sjúklinga?
    Ráðuneytið hefur unnið að því að skoða hvort og hvernig megi setja á fót miðlæga ígræðisskrá yfir öll ígræðanleg lækningatæki, þar á meðal brjóstapúða. Í þessu samhengi má benda á að lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, eru nú þegar í endurskoðun með það að markmiði að tryggja enn frekar lagalegan grundvöll fyrir rekstur heilbrigðisskráa.

     3.      Hversu margir einstaklingar hafa fengið ígrædda brjóstapúða, hversu mörg hafa látið fjarlægja brjóstapúða og hversu oft hefur ástæða fyrir því að fjarlægja púða verið galli í þeim eða veikindi af völdum þeirra? Svar óskast greint eftir árum sl. 10 ár.
    Landspítali skráir öll brjóstaígræði, líkt og aðra íhluti. Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda aðgerða eftir ári síðastliðin tíu ár sem og fjölda aðgerða þar sem brjóstaígræði hefur verið fjarlægt. Í töflunni er einnig sýndur fjöldi aðgerða við að fjarlægja brjóstaígræði þar sem einnig var merkt að um hlutrænan fylgikvilla brjóstagervis og -ígræðis hafi verið að ræða. Á síðastliðnum tíu árum hafa 606 fengið brjóstaígræði en yfir tíu ára tímabil eru einhverjar konur sem hafa farið í fleiri en eina aðgerð, breytileikinn er nokkur enda ástæða aðgerða af mismunandi toga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ekkert gallað ígræði hefur verið skráð á þeim tíma. Langalgengast er að um uppbyggingu brjósts/brjósta sé að ræða eftir krabbameinsmeðferð. Einnig má rekja fjölda aðgerða þar sem brjóstaígræði eru fjarlægð til uppbyggingar brjósta eftir krabbameinsaðgerð, þar gæti verið um lagfæringu eftir á að ræða eða skipti á ígræði af einhverjum orsökum þar sem ýmislegt getur komið upp við brjóstauppbyggingu sem þarf að laga seinna.
    Veikindi sem beinlínis eru rakin til eða sannanlega eru vegna brjóstaígræða eru engin skráð hjá Landspítala en skurðlæknar lýtaskurðdeildar hafa haft skjólstæðinga sem hafa óskað eftir því að fá brjóstaígræði fjarlægð vegna einkenna sem íþyngdu þeim án þess að orsök fyndust. Enn má endurtaka hér að það er mat skurðlækna lýtaskurðdeildar að slík tilfelli séu færri en tíu á síðustu tíu árum.
    Ekki eru til upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hafa fengið ígrædda brjóstapúða á einkastofum.