Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 574  —  507. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Almennt.

    Greiða skal til ríkissjóðs kílómetragjald af akstri bifreiða eins og nánar er ákveðið í lögum þessum.

2. gr.

Gjaldskyldar bifreiðar.

    Með gjaldskyldri bifreið samkvæmt lögum þessum er átt við bifreið sem fellur undir eitt af eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Bifreið sem er alfarið knúin rafmagni eða vetni, er skráð sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald.
     2.      Tengiltvinnbifreið sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald.
     3.      Tengiltvinnbifreið eða bifreið sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni, sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið erlendis eða keypt ný og óskráð erlendis og er nýtt tímabundið hér á landi, að hámarki í tólf mánuði.

3. gr.

Gjaldskyldir aðilar.

    Skráður eigandi gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. er gjaldskyldur aðili samkvæmt lögum þessum. Skráður eigandi skal greiða kílómetragjald af bifreiðinni á eignarhaldstíma sínum.
    Ef annar aðili en skráður eigandi hefur umráðarétt yfir gjaldskyldri bifreið sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., samkvæmt samningi við handhafa leyfis til að stunda eignaleigu eða fjármögnunarleigu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og er skráður umráðamaður í ökutækjaskrá, hvílir gjaldskyldan, þrátt fyrir 1. mgr., á umráðamanni.
    Skráður eigandi og umráðamaður, sbr. 2. mgr., bera óskipta ábyrgð á greiðslu kílómetragjalds af gjaldskyldum bifreiðum og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvorum aðila fyrir sig.
    Skylda til greiðslu kílómetragjalds af bifreið sem skráð er erlendis hvílir á innflytjanda hennar.

4. gr.

Undanþága frá gjaldskyldu.

    Eftirfarandi bifreiðar skulu undanþegnar kílómetragjaldi:
     1.      Bifreiðar í eigu björgunarsveita, enda hafi þær verið auðkenndar til slíkra nota í ökutækjaskrá. Með björgunarsveit er átt við félög sem falla undir lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.
     2.      Bifreiðar í eigu erlendra sendiráða eða erlendra sendiráðsmanna erlendra ríkja vegna notkunar hér á landi, enda séu bifreiðarnar merktar með viðeigandi skráningarmerki og auðkenndar í ökutækjaskrá.
     3.      Bifreiðar í eigu aðila sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, á grundvelli alþjóðasamninga eða tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um.

5. gr.

Undanþága frá greiðslu.

    Ekki ber að greiða kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. í eftirfarandi tilvikum:
     1.      Þegar bifreiðar hafa verið fluttar tímabundið úr landi. Skilyrði fyrir undanþágunni er að eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis bifreiðar, sbr. 8. gr., við brottför frá landinu og við komu til landsins ásamt því að tilgreina að um tímabundinn flutning úr landi sé að ræða. Einnig ber að framvísa staðfestingu til sönnunar á tímabundnum útflutningi á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     2.      Þegar skráningarmerki eru í varðveislu skráningaraðila. Skilyrði fyrir undanþágunni er að eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis bifreiðar við innlögn skráningarmerkis.

6. gr.

Gjaldtímabil og fjárhæð.

    Gjaldtímabil kílómetragjalds bifreiða sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. er hver almanaksmánuður frá upphafi árs 2024.
    Fjárhæð gjalds á hvern kílómetra skal vera eftirfarandi:
     1.      Fjárhæð gjalds vegna aksturs bifreiðar sem fellur undir 1. tölul. 2. gr. skal nema 6 kr. á hvern kílómetra, sbr. 9. og 10. gr.
     2.      Fjárhæð gjalds vegna aksturs bifreiðar sem fellur undir 2. tölul. 2. gr. skal nema 2 kr. á hvern kílómetra, sbr. 9. og 10. gr.

7. gr.

Bifreiðar skráðar erlendis.

    Innflytjandi bifreiðar, sbr. 4. mgr. 3. gr., sem flytur inn gjaldskylda bifreið skv. 3. tölul. 2. gr. hingað til lands samkvæmt heimild tollyfirvalda skal greiða sérstakt daggjald vegna tímabundinnar notkunar hér á landi. Gjaldið skal nema 600 kr. á dag vegna bifreiðar sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni og 200 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar.
    Farmflytjandi annast innheimtu og skil á sérstöku daggjaldi skv. 1. mgr. og skal það renna í ríkissjóð. Sérstakt daggjald skal innheimt fyrir eða við komu bifreiðar til landsins miðað við áætlaða tímalengd notkunar hennar hér á landi. Skila ber innheimtu daggjaldi í síðasta lagi 30 dögum eftir komu fars til landsins. Reynist notkunartíminn annar skal sú fjárhæð sérstaks daggjalds sem á milli ber innheimt eða eftir atvikum endurgreidd við brottför bifreiðarinnar frá landinu eða við skráningu hennar hér á landi.
    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er innflytjanda gjaldskyldrar bifreiðar skv. 3. tölul. 2. gr. heimilt að óska eftir greiðslu kílómetragjalds út frá skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar samkvæmt álestri og fjárhæðum skv. 2. mgr. 6. gr. Innflytjandi bifreiðar skal óska sérstaklega eftir slíkri tilhögun á greiðslu við farmflytjanda fyrir komu til landsins. Farmflytjandi skal upplýsa ríkisskattstjóra um slíka tilhögun innflytjanda. Geri innflytjandi ríkisskattstjóra ekki grein fyrir stöðu akstursmælis við komu til landsins ber honum að greiða daggjald skv. 1. mgr. og skal það innheimt fyrir brottför frá landinu.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd og tilhögun innheimtu og skráningu þeirra bifreiða sem falla undir þessa grein.

8. gr.

Skráning á stöðu akstursmælis.

    Samgöngustofa hefur umsjón með skráningu á stöðu akstursmælis samkvæmt lögum þessum.
    Skráning á stöðu akstursmælis gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal fara fram rafrænt að lágmarki einu sinni á hverju almanaksári. Skráningin skal framkvæmd af gjaldskyldum aðila eða hjá faggiltri skoðunarstofu við sérstakan álestur á stöðu akstursmælis eða reglubundna skoðun bifreiðar. Slík skráning skal vera grundvöllur að álagningu kílómetragjalds skv. 10. gr.
    Gjaldskyldum aðila skal vera heimilt að skrá inn nýja stöðu á akstursmæli bifreiðar þegar 30 dagar eru liðnir frá síðustu skráningu hans. Breyting skal þó heimiluð innan sama dags og skráning fór fram. Skráning á stöðu akstursmælis á síðasta degi mánaðar tekur þó ekki gildi fyrr en næsta dag.
    Hafi skráning á stöðu akstursmælis ekki farið fram á almanaksárinu skal gjaldskyldur aðili láta skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu.
    Gjaldskyldir aðilar og faggiltar skoðunarstofur skulu senda Samgöngustofu rafrænt upplýsingar um stöðu akstursmælis á álestrardegi á því formi sem Samgöngustofa ákveður.
    Þrátt fyrir 2.–5. mgr. skulu aðilar sem hafa með höndum sölu bifreiða, ábyrgðar- og þjónustuskoðanir eða viðgerðir í atvinnuskyni á bifreiðum sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. lesa af og senda Samgöngustofu rafrænt upplýsingar um stöðu akstursmælis bifreiðar á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Þá skulu vátryggingafélög senda Samgöngustofu upplýsingar um stöðu akstursmælis með sama hætti þegar um er að ræða tjón á þeim bifreiðum sem falla undir málsgreinina.
    Samgöngustofu er heimilt að leiðrétta augljósar skráningarskekkjur á stöðu akstursmælis að höfðu samráði við gjaldskyldan aðila eða samkvæmt beiðni hans þar um, hvort heldur skráning var gerð af gjaldskyldum aðila eða faggiltri skoðunarstöð.

9. gr.

Áætlun á meðalakstri og fyrirframgreiðsla.

    Ríkisskattstjóri skal gera áætlun um meðalakstur bifreiðar á gjaldtímabili og birta hana í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Áætlun skal taka mið af tveimur síðustu skráningum á stöðu akstursmælis bifreiðar skv. 8. gr., sbr. þó 4. mgr. Áætlun skal reiknuð fyrir hvern og einn almanaksmánuð og taka mið af meðalakstri bifreiðar á dag.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal áætlun ríkisskattstjóra um akstur fyrir næsta tólf mánaða tímabil frá kaupum gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða ef eingöngu ein þekkt skráð staða á akstursmæli liggur fyrir, miðuð við eftirfarandi:
     1.      14.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum einstaklings.
     2.      40.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum lögaðila.
     3.      50.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum ökutækjaleigu sem hefur starfsleyfi skv. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
     4.      100.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum aðila sem hefur rekstrarleyfi til leigubifreiðaaksturs, skv. 6. gr. laga nr. 120/2022, um leigubifreiðaakstur og skráningarnúmer leigubifreiðar heyrir undir rekstrarleyfi.
    Gjaldskyldum aðila er heimilt að skrá nýja áætlun í stað áætlunar ríkisskattstjóra skv. 1. eða 2. mgr. Áætlun ríkisskattstjóra skv. 1. eða 2. mgr. að teknu tilliti til breytinga gjaldskylds aðila, þ.e. breytt áætlun, skal vera grundvöllur fyrirframgreiðslu kílómetragjalds.
    Ef staða á akstursmæli gjaldskyldrar bifreiðar er ekki skráð innan þeirra tímamarka sem fram koma í 2. mgr. 8. gr. skal áætlun ríkisskattstjóra taka mið af fyrirliggjandi upplýsingum um akstur hlutaðeigandi bifreiðar. Áætlun á akstri á tólf mánaða tímabili skal þó að lágmarki vera sem hér segir:
     1.      20.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum einstaklings.
     2.      70.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum lögaðila.
     3.      80.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum ökutækjaleigu sem hefur starfsleyfi skv. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
     4.      150.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum aðila sem hefur rekstrarleyfi til leigubifreiðaaksturs, skv. 6. gr. laga um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, og skráningarnúmer leigubifreiðar heyrir undir rekstrarleyfi.
    Gjaldskyldum aðila skal gert að greiða fyrir fram upp í álagningu kílómetragjalds skv. 10. gr., miðað við áætlun um akstur.
    Fyrirframgreiðsla kílómetragjalds skal innheimt mánaðarlega fram að álagningu þess.
    Gjalddagi fyrirframgreiðslu kílómetragjalds er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Ef gjaldskyldur aðili hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er talið frá gjalddaga.

10. gr.

Álagning og innheimta.

    Ríkisskattstjóri annast álagningu kílómetragjalds og innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu gjaldsins.
    Við skráningu gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis skal ríkisskattstjóri leggja kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem gjald hefur ekki verið lagt á svo sem nánar er kveðið á um í grein þessari.
    Stofn kílómetragjalds á hverju gjaldtímabili skal nema meðalakstri á dag margfaldað með fjölda daga á tímabilinu. Á gjaldtímabilum þar sem skráning á stöðu akstursmælis átti sér stað miðast stofninn við meðalakstur og fjölda daga fyrir og eftir skráningardag. Skráningardagur tilheyrir fyrra tímabilinu. Meðalakstur er reiknaður út frá akstri bifreiðar milli tveggja síðustu þekktra skráninga á akstursmæli bifreiðar skv. 8. gr.
    Liggi skráning á stöðu akstursmælis bifreiðar ekki fyrir 30 dögum eftir lok þeirra tímamarka sem fram koma í 2. mgr. 8. gr. skal ríkisskattstjóri áætla meðalakstur bifreiðar vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á. Áætlunin skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að meðalakstur sé áætlaður minni en hann var í raun og leggja kílómetragjald á gjaldskyldan aðila í samræmi við þá áætlun.
    Gjalddagi álagningar er fyrsti dagur annars mánaðar eftir lok síðasta gjaldtímabils álagningar og eindagi 14 dögum síðar. Ef gjaldskyldur aðili hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Ef kílómetragjald er ekki greitt fyrir eindaga er lögreglu heimilt, eftir kröfu innheimtumanns, að taka af bifreiðinni skráningarmerki til geymslu. Lögregla skal ekki afhenda þau aftur fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu kílómetragjalds.
    Við mismun, sem í ljós kemur á álögðu kílómetragjaldi og fyrirframgreiðslu þess, sem stafar af of lágri fyrirframgreiðslu skal, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, eingöngu bæta 2,5% álagi á ársgrundvelli. Með sama hætti skal bæta 2,5% álagi á ársgrundvelli á mismun sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu.
    Frá álagningu kílómetragjalds skal draga fyrirframgreiðslu þess. Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum gilda eftir því sem við á, ákvæði laga um innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. ákvæði laganna um skuldajöfnun.

11. gr.

Boðun í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu.

    Ríkisskattstjóri skal boða gjaldskyldan aðila bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. í álestur á stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu í eftirfarandi tilvikum:
     1.      Ef skráning á stöðu akstursmælis hefur ekki farið fram á almanaksárinu, sbr. 2. mgr. 8. gr.
     2.      Ef aðrar ástæður þykja vera fyrir hendi sem kalla á að bifreið fari í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu samkvæmt mati ríkisskattstjóra.

12. gr.

Annars konar skil á upplýsingum.

    Gjaldskyldum aðila eða umboðsmanni hans er, þrátt fyrir ákvæði þessara laga, ávallt heimilt að skila inn upplýsingum og gögnum samkvæmt lögum þessum skriflega á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Gjaldskyldum aðila eða umboðsmanni hans skal jafnframt heimilt að óska eftir skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu í stað rafrænnar skráningar hans á stöðu akstursmælis.


13. gr.

Eigendaskipti og breytt skráning umráðamanns.

    Við eigendaskipti gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal skrá stöðu akstursmælis á tilkynningu um eigendaskipti bifreiðar samhliða skráningu eigendaskipta í ökutækjaskrá, á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Sama á við um breytta skráningu á umráðamanni. Kaupandi eða nýr umráðamaður skal samþykkja skráða stöðu akstursmælis á tilkynningu um eigendaskipti að bifreið.
    Við breytta skráningu skv. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri leggja kílómetragjald á seljanda eða fyrri umráðamann vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á og yfirstandandi gjaldtímabils fram að skráningu. Gjaldskyldan færist yfir á kaupanda eða nýjan umráðamann frá dagsetningu skráningar í ökutækjaskrá.
    Hafi eigendaskipti eða breyting á umráðamanni orðið á gjaldskyldri bifreið án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar skal álagning kílómetragjalds taka mið af stöðu á akstursmæli bifreiðar við eigendaskipti eða við breytingu á umráðamanni. Ef ekki liggur fyrir hver staðan var á akstursmæli við eigendaskipti eða við breytingu á umráðamanni skal reikna meðalakstur á dag miðað við síðustu þekktu stöðu akstursmælis fyrir eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni og fyrsta álestur eftir eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni og leggja á aðila í hlutfalli við eignarhalds- eða umráðatíma.
    Óheimilt er að skrá eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni bifreiðar nema gjaldfallið kílómetragjald og eftir atvikum vanskráningargjald hafi áður verið greitt.

14. gr.

Afskráning bifreiða.

    Við afskráningu gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal gjaldskyldur aðili skrá stöðu akstursmælis á tilkynningu um afskráningu til Samgöngustofu á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Í kjölfarið leggur ríkisskattstjóri kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á og yfirstandandi gjaldtímabils fram að afskráningu.
    Ef ekki er hægt að lesa af akstursmæli eða annars konar ómöguleiki er til staðar við aflestur af akstursmæli, til að mynda ef bifreið er týnd eða ónýt, skal við útreikning á álagningu kílómetragjalds taka mið af fyrirliggjandi upplýsingum um akstur gjaldskylds aðila á hlutaðeigandi bifreið. Ef engar upplýsingar um akstur liggja fyrir skal miða álagningu við akstur skv. 2. mgr. 9. gr.

15. gr.

Virkni akstursmælis o.fl.

    Gjaldskyldur aðili ber ábyrgð á að akstursmælir bifreiðar telji rétt. Nú kemur í ljós við skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar að talning akstursmælis er röng eða engin og skal gjaldskyldur aðili þá tafarlaust tilkynna um bilun mælis til Samgöngustofu.
    Ef taka þarf akstursmæli úr bifreið til viðgerðar skal lesið af akstursmælinum áður en hann er tekinn úr og annar settur í stað hans. Tilkynna skal þegar í stað til Samgöngustofu ef nýr akstursmælir er settur í ökutæki og skal þá jafnframt skrá stöðu hans.
    Frá þeim tíma er í ljós kemur að talning akstursmælis er röng eða engin skal ákvörðun um fyrirframgreiðslu og álagningu taka mið af því að akstur hafi verið í samræmi við akstur skv. 2. mgr. 9. gr.


16. gr.

Aðalskoðun.

    Við aðalskoðun gjaldskyldrar bifreiðar skal gjaldskyldur aðili færa sönnur á að greitt hafi verið af henni gjaldfallið kílómetragjald. Gjaldskyldum aðila er þó ekki skylt að færa sönnur á að hafa greitt gjaldfallið kílómetragjald fyrr en eftir eindaga. Að öðrum kosti skal faggilt skoðunarstofa neita um skoðun á bifreiðinni.

17. gr.

Upplýsingaskylda.

    Öllum aðilum sem fjallað er um í lögum þessum er skylt að láta ríkisskattstjóra og eftir atvikum Samgöngustofu í té ókeypis og í því formi sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem óskað er eftir og unnt er að láta þeim í té.

18. gr.

Eftirlit og endurákvörðun.

    Komi í ljós verulegir annmarkar á forsendum álagningar kílómetragjalds eða telji ríkisskattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi skráningu gjaldskylds aðila á akstursstöðu gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal ríkisskattstjóri skriflega skora á hann að láta í té skýringar og gögn um aksturinn. Fái ríkisskattstjóri innan tiltekins tíma fullnægjandi skýringar og gögn ákvarðar hann eða endurákvarðar gjald að þeim skýringum og gögnum virtum, að öðrum kosti skal ríkisskattstjóri ákvarða eða endurákvarða gjald skv. 4. mgr. 9. gr. nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur gjaldskylds aðila hafi verið meiri.
    Áður en ríkisskattstjóri hrindir endurákvörðun í framkvæmd skal hann skriflega gera gjaldskyldum aðila viðvart um fyrirhugaða endurákvörðun og forsendur hennar. Skal gjaldskyldum aðila veittur a.m.k. 15 daga frestur, frá birtingu tilkynningar um fyrirhugaða endurákvörðun, til að tjá sig skriflega um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður um endurákvörðun er kveðinn upp. Ríkisskattstjóri hefur jafnframt heimild, að framangreindri málsmeðferð virtri, til endurákvörðunar kílómetragjalds komi í ljós að aðrar forsendur ákvörðunar hafi verið rangar. Ríkisskattstjóra er heimilt að falla frá endurákvörðun nemi hún lægri fjárhæð en 10.000 kr.
    Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests sem hann hefur veitt gjaldskyldum aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðunina og birta hann í samræmi við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda eða tilkynna gjaldskyldum aðila á annan sannanlegan hátt.
    Heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt lögum þessum nær til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Verði gjaldskyldum aðila eigi kennt um að kílómetragjald hafi verið vanálagt, og/eða hafi hann látið í té við álagningu eða álestur fullnægjandi upplýsingar og/eða gögn sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að ákvarða honum gjald nema vegna síðustu tveggja ára sem næst voru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram.

19. gr.

Kæruheimildir.

    Álagning kílómetragjalds samkvæmt lögum þessum er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar. Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og birta hann í samræmi við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Heimilt er að kæra úrskurð ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. og endurákvörðun skv. 18. gr. til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.
    Skráning faggiltrar skoðunarstofu á stöðu aksturmælis er kæranleg til Samgöngustofu innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar um skráningu. Samgöngustofa skal úrskurða um kæruna svo fljótt sem auðið er, þó að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá dagsetningu kæru og birta hann í samræmi við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Heimilt er að kæra úrskurð Samgöngustofu um kæru skv. 4. mgr. til ráðherra sem fer með málefni Samgöngustofu innan þriggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar.

20. gr.

Vanskráningargjald.

    Gjaldskyldur aðili bifreiðar sem er gjaldskyld skv. 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal greiða sérstakt vanskráningargjald sem ríkisskattstjóri leggur á hafi skráning ekki farið fram innan tímamarka 2. mgr. 8. gr. eða ef boðun skv. 2. tölul. 11. gr. er ekki sinnt innan 15 daga. Fjárhæð vanskráningargjalds skal vera 50.000 kr. vegna hverrar gjaldskyldrar bifreiðar.
    Vanskráningargjald skal lækkað um 50% ef gjaldskyldur aðili lætur skrá stöðu akstursmælis á faggiltri skoðunarstofu innan 15 daga frá álagningu þess. Þá má fella niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis.
    Þegar liðnir eru þrír mánuðir frá álagningu vanskráningargjalds skal ríkisskattstjóri senda lögreglu yfirlit yfir þær bifreiðar þar sem staða akstursmælis er enn óskráð. Lögregla hefur að liðnum tímamörkum 1. málsl. heimild til að fjarlægja skráningarmerki af þeim bifreiðum sem um ræðir. Lögregla skal ekki afhenda þau aftur fyrr en staða akstursmælis hefur verið skráð hjá faggiltri skoðunarstofu .


21. gr.

Lögveð og fjárnám.

    Kílómetragjald og vanskráningargjald ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði hvílir sem lögveð á hlutaðeigandi bifreið sem er aðfararhæft og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum og framar öllum öðrum veðböndum í tvö ár frá gjalddaga. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á bifreið án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.
    Heimilt er að innheimta gjaldfallið kílómetragjald og vanskráningargjald vegna hlutaðeigandi bifreiðar með fjárnámi hjá skráðum eiganda eða umráðamanni án undangengins dóms eða sáttar.

22. gr.

Ýmis ákvæði.

    Kílómetragjald sem innheimt er samkvæmt lögum þessum skal ekki mynda gjaldstofn til virðisaukaskatts.
    Að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í lögum þessum skulu gilda, eftir því sem við getur átt, ákvæði laga um virðisaukaskatt.
    Að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í lögum þessum um tímabundinn innflutning bifreiða skulu gilda, eftir því sem við getur átt, ákvæði tollalaga.


23. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

24. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 3. tölul. 2. gr., 4. mgr. 3. gr. og 7. gr. vegna rafmagns- og vetnisbifreiða gildi 1. júlí 2024 og vegna tengiltvinnbifreiða 1. janúar 2025.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal rafræn skráning á stöðu akstursmælis gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024 hvort heldur skráningin er framkvæmd af gjaldskyldum aðila eða hjá faggiltri skoðunarstofu.
    Hafi skráning á stöðu akstursmælis ekki farið fram innan tímamarka 1. mgr. skal ríkisskattstjóri senda gjaldskyldum aðila ítrekun um skráningu.
    Ef skráning á stöðu akstursmælis liggur ekki fyrir 30. janúar 2024 skal gjaldskyldur aðili láta skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.
    Gjaldskyldur aðili skal greiða vanskráningargjald hafi skráning ekki farið fram innan tímamarka 3. mgr. Fjárhæð vanskráningargjalds samkvæmt þessari grein skal vera 20.000 kr.
    Vanskráningargjald fellur niður ef gjaldskyldur aðili lætur skrá stöðu akstursmælis á faggiltri skoðunarstofu innan 20 daga frá álagningu gjaldsins. Þá má fella niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis eða ef gjaldskyldur aðili færir gildar ástæður fyrir því að skráning hafi ekki átt sér stað. Ríkisskattstjóri metur það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
    Faggilt skoðunarstofa skal senda Samgöngustofu upplýsingar um stöðu akstursmælis á álestrardegi rafrænt.

II.

    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal ríkisskattstjóri gera áætlun um meðalakstur bifreiðar vegna fyrsta gjaldtímabils ársins 2024 og birta hana í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fyrir 1. janúar 2024. Áætlun skal miðuð við akstur á tólf mánaða tímabili skv. 2. mgr. 9. gr.
    Gjaldskyldum aðila er heimilt að skrá nýja áætlun í stað áætlunar ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. Áætlun ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. að teknu tilliti til breytinga gjaldskylds aðila, þ.e. breytt áætlun, skal vera grundvöllur fyrirframgreiðslu kílómetragjalds.
    Ef staða akstursmælis bifreiðar er ekki skráð innan þeirra tímamarka sem fram koma í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I skal áætlun á fyrirframgreiðslu kílómetragjalds frá og með 1. febrúar 2024 að lágmarki miðuð við akstur á tólf mánaða tímabili skv. 4. mgr. 9. gr.
    Gjaldskyldum aðila skal gert að greiða fyrir fram upp í álagningu kílómetragjalds, skv. 10. gr., út frá áætlun um akstur skv. 1. og 3. mgr. Áætlun skal reiknuð fyrir hvern og einn almanaksmánuð og taka mið af meðalakstri bifreiðar á dag.
    Gjalddagi fyrirframgreiðslu kílómetragjalds vegna fyrsta gjaldtímabils er 1. janúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar. Ef gjaldskyldur aðili hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

III.

    Liggi ekki fyrir upplýsingar og gögn til að reikna út meðalakstur gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. frá 1. janúar 2024 til fyrstu skráningar á stöðu akstursmælis skal þrátt fyrir ákvæði 10. gr. ákvarða meðalakstur á þessu tímabili út frá fyrsta þekkta meðalakstri eftir gildistöku laganna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að fyrsta skrefið verði stigið í lögfestingu á nýju tekjuöflunarkerfi af ökutækjum og eldsneyti með því að taka upp kílómetragjald frá og með 1. janúar 2024 vegna notkunar rafmagns- og vetnisbifreiða annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar á vegakerfinu. Til einföldunar er lagt upp með að lögin verði í upphafi einskorðuð við fólks- og sendibifreiðar.
    Fyrirhugað er að síðara skrefið verði stigið með framlagningu frumvarps á næsta vorþingi um kílómetragjald vegna notkunar allra annarra ökutækja á vegakerfinu, þ.m.t. bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, með gildistöku á árinu 2025. Áformað er að kílómetragjaldið muni þá taka mið af þyngd ökutækja og þar með af vegsliti sem þau valda, með það að leiðarljósi að gjaldtaka af ökutæki verði í betra samræmi við áhrif þess á viðhaldskostnað vegakerfisins. Samhliða verði lagt fram frumvarp um breytingar og endurskoðun á þeim lagabálkum sem nú gilda um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, þ.m.t. á vörugjöldum af eldsneyti, þar sem þessi eldri gjöld muni eftir atvikum lækka eða falla niður. Innleiðing á nýja tekjuöflunarkerfinu í tveimur skrefum gerir kleift að fyrsta árið verði verkefnið smærra í sniðum þar sem það nær þá einungis til hluta bílaflotans. Með því móti verður einnig hægt að draga lærdóm af framkvæmd þess og endurbæta það með tilliti til reynslu og ábendinga gjaldskyldra aðila.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjölgun vistvænna og sparneytinna bifreiða hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa rýrnað umtalsvert og munu halda áfram að lækka á næstu árum verði ekkert að gert. Samhliða þeirri þróun hefur myndast misræmi í núverandi gjaldtökukerfi milli þeirra sem nýta samgönguinnviðina. Annars vegar eru tekjur af gjaldtöku á ökutæki og eldsneyti, einkum vörugjöld, teknar að fjara smám saman út sökum þess að fram hafa komið nýir orkugjafar og sparneytnari ökutæki. Hins vegar hafa stjórnvöld markað þá stefnu að auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum og hraða þannig orkuskiptum, m.a. með verulegum skattastuðningi síðustu ár. Þannig greiða eigendur rafmagnsbíla eðli málsins samkvæmt hvorki vörugjöld né kolefnisgjald af eldsneyti og einungis lágmarksbifreiðagjald. Þá má nefna að eigendur rafmagnsbíla greiddu ekki vörugjöld við kaup á nýjum bíl til loka árs 2022 og greiða nú einungis 5% vörugjald vegna innflutnings slíkra bifreiða eftir samþykkt laga nr. 129/2022, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023. Þá hafa eigendur rafmagnsbíla einnig notið niðurfellingar virðisaukaskatts af kaupverði að hluta eða öllu leyti auk 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af heimahleðslustöðvum og uppsetningu þeirra. Ört stækkandi hópur þeirra sem eiga og reka bifreiðar hefur því verið að greiða afar lítið fyrir afnot sín af samgöngukerfinu. Fyrir vikið stendur Ísland hins vegar flestum þjóðum framar í orkuskiptum í vegasamgöngum.
    Á sama tíma er fyrir hendi viðvarandi þörf fyrir, og áform um, að byggja upp og viðhalda vegakerfinu. Sú þörf mun síst minnka í fyrirsjáanlegri framtíð með vaxandi íbúafjölda, grósku í ferðaþjónustu og tilheyrandi umferð. Við þessari þróun þarf að bregðast og innleiða nýtt einfaldara, gagnsærra og sjálfbærara fyrirkomulag gjaldtöku til framtíðar. Þannig verður tryggð betri samsvörun á milli slíkra tekna og áframhaldandi uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.
    Nýtt tekjuöflunarkerfi á rætur að rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf frá nóvember 2021 þar sem fram kemur að framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta verði mótað og innleitt á kjörtímabilinu. Í febrúar á þessu ári var sett á fót sameiginleg verkefnastofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins til að móta tillögur um nýtt fyrirkomulag, en forsætisráðuneytið á einnig aðild að stýrihópi vegna verkefnisins. Í þeirri vinnu hefur komið fram að eftirsóknarvert þyki að nýtt fyrirkomulag feli í sér heildstætt og samræmt gjaldtökukerfi á landsvísu þar sem tekjulindir og hagrænir hvatar falli vel saman innbyrðis frekar en að rekast á. Einnig að gagnsæi og einfaldleiki kerfisins verði sem mestur gagnvart greiðendum og að gjaldtaka verði notendavæn og yfirbygging sem minnst þannig að óhagræði og innheimtukostnaði verði haldið í lágmarki. Megináherslan í nýju tekjuöflunarkerfi felist í því að gjaldtakan færist í meira mæli á afnot af samgönguinnviðum þannig að þeir borgi sem noti. Sú leið er í samræmi við framtíðarsýn stjórnvalda víða um heim um gjaldtöku vegna notkunar á samgönguinnviðum.
    Orkuskiptin og aukin kaup landsmanna á vistvænum ökutækjum, þ.m.t. rafmagnsbílum, marka jákvæða þróun og eru til marks um grundvallarbreytingu í neysluhegðun og umhverfisvitund. Orkuskiptin skapa hins vegar einnig áðurnefndar áskoranir fyrir fjármögnun samgönguinnviða á Íslandi þar sem þau fela í sér að tekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti munu að óbreyttu halda áfram að þverra eftir því sem betri árangur næst í orkuskiptum. Má telja að þróunin í þessum efnum hafi verið það hröð að ekki megi dragast lengur að bregðast við. Þetta kallar á nýja löggjöf til að innleiða nýtt fyrirkomulag gjaldheimtu, sem verði sjálfbærara til framtíðar. Á eftirfarandi mynd má sjá þróun tekna af ökutækjum og eldsneyti frá aldamótum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Myndin sýnir að tekjurnar hafa lækkað verulega á síðustu árum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og árlegum fjármálaáætlunum í kjölfarið hefur verið sett stefnumið um að skatttekjur af ökutækjum og eldsneyti verði aftur 1,7% af vergri landsframleiðslu líkt og að meðaltali á árunum 2010–2017. Því má jafnframt líta á breytinguna sem eitt skref í átt að því markmiði að skapa grundvöll fyrir því að aðlaga skattstofna að breyttum tímum vegna orkuskipta í samgöngum, þannig að gjaldtakan ráðist í auknum mæli af notkun þeirra á vegakerfinu, enda getur tekjuöflun af skattstofnum sem fara hratt minnkandi ekki verið sjálfbær til framtíðar. Gert er ráð fyrir að áfram verði lagt kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti og fangar það neikvæð ytri áhrif af notkun þess. Um leið viðheldur það fjárhagslegum hvata til orkuskipta fyrir bifreiðaeigendur. Frumvarpið er liður í heildarstefnumótun stjórnvalda sem felst í að breyta samsetningu tekna af ökutækjum, eldsneyti og vegasamgöngum til framtíðar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist efnislega í 24 greinar auk þriggja ákvæða til bráðabirgða. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild til að leggja kílómetragjald á annars vegar rafmagns- og vetnisbíla og hins vegar tengiltvinnbíla vegna aksturs. Gert er ráð fyrir því að frumvarpið verði einskorðað við fólks- og sendibíla.

3.1. Almennt ákvæði og gjaldskylda, 1.–3. gr.
    Í upphafsákvæði frumvarpsins er að finna almennt inngangsákvæði um greiðslu kílómetragjalds þar sem fram kemur að greiða skuli kílómetragjald í ríkissjóð af akstri þeirra bifreiða sem falla undir frumvarpið. Þá er annars vegar greint frá því hvaða bifreiðar eru gjaldskyldar samkvæmt lögunum og hins vegar hvaða aðilar eru gjaldskyldir. Fjallað er um gjaldskylda aðila í 3. gr. Meginreglan er sú að skráður eigandi gjaldskyldrar bifreiðar sé gjaldskyldur. Tvö frávik eru frá þeirri meginreglu. Þannig er sá aðili gjaldskyldur sem er umráðamaður gjaldskyldrar bifreiðar á grundvelli samnings við handhafa leyfis til að stunda eigna- eða fjármögnunarleigu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2022. Þegar þannig háttar til er talið eðlilegt að gjaldið sé lagt á þann sem hefur umráð yfir bifreið, auk þess sem það stendur honum næst að veita upplýsingar um akstur bifreiðarinnar. Skráður eigandi gjaldskyldrar bifreiðar og umráðamaður hennar bera þó óskipta ábyrgð ( in solidum) á greiðslu gjaldsins. Auk gjaldskyldu skráðra eigenda og umráðamanna gjaldskyldra bifreiða eru innflytjendur bifreiða sem skráðar eru erlendis og ætlaðar til tímabundins akstur hér á landi einnig gjaldskyldir samkvæmt frumvarpinu.

3.2. Undanþágur frá gjald- eða greiðsluskyldu, 4.–5. gr.
    Í greinunum er fjallað um tvenns konar undanþágur, þ.e. undanþegnar bifreiðar og undanþágu frá greiðslu kílómetragjalds við tilteknar aðstæður.

3.3. Gjaldtímabil og fjárhæð, 6. gr.
    Í greininni er fjallað um gjaldtímabil og fjárhæð gjaldsins á hvern kílómetra. Samkvæmt frumvarpinu er miðað við að gjaldtímabil kílómetragjaldsins sé hver almanaksmánuður. Út frá fyrirsjáanleika, skýrleika og skilvirkni, m.a. út frá innheimtu kílómetragjalds, er talið rétt að hvert og eitt gjaldtímabil sé miðað við hvern almanaksmánuð og meðalakstur út frá dagafjölda í hverjum og einum almanaksmánuði. Þannig er hægt að reikna meðalakstur niður á hvern og einn dag og greiða kílómetragjald fyrir fram út frá samþykktri áætlun þar um. Í kjölfarið er kílómetragjald lagt á út frá uppgjöri vegna hlutaðeigandi gjaldtímabils eða gjaldtímabila. Þrátt fyrir að hvert og eitt gjaldtímabil sé miðað við einn almanaksmánuð skal þó ávallt vera heimilt að gera upp fleiri heil gjaldtímabil í kjölfar skráningar á kílómetrastöðu. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð kílómetragjaldsins sé mismunandi eftir því hvort um sé að ræða hreinorkubifreiðar eða tengiltvinnbifreiðar, þar sem hinar síðarnefndu bifreiðar geta bæði notað rafhlöðu og jarðefnaeldsneyti.

3.4. Bifreiðar skráðar erlendis, 7. gr.
    Gert er ráð fyrir að innflytjandi, þ.e. sá aðili sem skráður er hjá farmflytjanda sem flutningsaðili bifreiðar til landsins eða hjá tollyfirvöldum í aðflutningsskýrslu eða tollaskjölum vegna flutnings á bifreið hingað til lands, skuli greiða sérstakt daggjald vegna tímabundinnar notkunar hér á landi. Gjaldið skuli vera mismunandi eftir því hvort um sé að ræða rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreið. Farmflytjandi ber ábyrgð á innheimtu og skilum á daggjaldi í ríkissjóð. Innflytjanda skal þó ávallt vera heimilt að óska eftir hefðbundnum álestri á stöðu akstursmælis bifreiðar sé þess óskað fyrir komu til landsins. Innflytjandi ber í slíkum tilvikum sjálfur ábyrgð á skilum á gjaldinu í ríkissjóð.

3.5. Skráning, áætlun á meðalakstri og fyrirframgreiðsla, 8.–9. gr.
    Skráning á stöðu akstursmælis í þeim gjaldskyldu bifreiðum sem skráðar eru í ökutækjaskrá hér á landi skal að meginreglu fara fram rafrænt í gegnum miðlæga þjónustugátt stjórnvalda, þ.e. smáforrit eða vefsetrið Ísland.is. Skráning gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis er grundvöllur álagningar og uppgjörs á kílómetragjaldi. Sú regla skal gilda að skráning á stöðu akstursmælis skuli fara fram eigi síðar en einu sinni á hverju almanaksári. Þar sem Samgöngustofa hefur umsjón með skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar samkvæmt lögunum móttekur hún upplýsingar frá gjaldskyldum aðilum og faggiltum skoðunarstöðvum um skráningu á stöðunni. Þá er jafnframt talið nauðsynlegt út frá eftirliti með réttri skráningu á stöðu akstursmælis að þau fyrirtæki sem hafa með höndum sölu gjaldskyldra bifreiða sem skráðar eru hér á landi, ábyrgðar- og þjónustuskoðanir eða viðgerðir í atvinnuskyni á þeim bifreiðum skuli senda Samgöngustofu upplýsingar rafrænt um stöðu akstursmælis þeirra bifreiða á álestrardegi.
    Ávallt skal áætla meðalakstur á hverju gjaldtímabili og greiða þannig fyrir fram upp í væntanlega álagningu kílómetragjalds. Sú meginregla skal gilda að áætlun skal taka mið af síðustu tveimur skráningum á stöðu akstursmælis bifreiðar. Ef um kaup á bifreið er að ræða eða ein þekkt skráð staða akstursmælis bifreiðar liggur fyrir skal áætlun þó miðuð við tiltekinn fyrirframákveðinn akstur. Gert er ráð fyrir því að ríkisskattstjóri leggi fram áætlun um meðalakstur sem gjaldskyldir aðilar geta síðan breytt ef þörf er á.

3.6. Álagning og innheimta, 10. gr.
    Hér er fjallað um álagningu og innheimtu. Þau atvik sem leiða til þess að álagning eigi sér stað eru tvenns konar: að staða akstursmælis sé skráð ellegar að tímamörk skráningar á stöðu akstursmælis, sbr. 2. mgr. 8. gr. séu liðin. Á eftirfarandi skýringarmynd má sjá hvernig skráning á stöðu akstursmælis myndar meðalakstur og tengsl hans við álagningu og uppgjör.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.














    Gjaldtímabilið er almanaksmánuður en meðalaksturinn getur verið reiknaður út frá lengra tímabili. Skráning á stöðu akstursmælis getur því farið fram hvenær sem er á almanaksárinu. Meginreglan er sú að hver almanaksmánuður fyrir sig er gerður upp, einn eða fleiri. Á myndinni má sjá að fyrsta skráning á stöðu akstursmælis bifreiðar hefur átt sér stað þann 1. janúar. Ný skráning á sér stað þann 15. mars árið eftir. Á þeim tímapunkti er meðalakstur milli þessara tveggja skráninga á akstursstöðu fundinn út með því að deila heildarakstri í fjölda daga á tímabilinu. Í dæminu er fyrirliggjandi meðalakstur á tímabilinu 27 km á dag. Þessi meðalakstur er í dæminu notaður við álagningu tímabilanna fyrir heil gjaldtímabil, þ.e. janúar og febrúar. Hins vegar eru fyrstu 15 dagar marsmánaðar óuppgerðir. Í framhaldinu á sér stað ný skráning á stöðu akstursmælis þann 10. september sem gefur tilkynna 38 km meðalakstur á dag á tímabilinu 15. mars til 10. september. Í kjölfar þeirrar skráningar eru liðin óuppgerð heil gjaldtímabil gerð upp, þ.e. mars til og með ágúst. Við álagningu er því tekið tillit til þess að meðalakstur á fyrri og seinni helmingi marsmánaðar er ekki sá sami.

3.7. Álestur á faggiltri skoðunarstofu, 11. gr.
    Hér er að finna ákvæði um það hvenær Samgöngustofa skuli boða gjaldskyldan aðila, þ.e. eiganda eða umráðamann bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. í álestur á stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu.

3.8. Annars konar skil á upplýsingum, 12. gr.
    Þrátt fyrir þá meginreglu að áætlun og skráning á stöðu akstursmælis og önnur samskipti milli gjaldskylds aðila og stjórnvalda skuli fara fram rafrænt í gegnum miðlæga þjónustugátt hjá stjórnvöldum er talið rétt og í samræmi við vandaða stjórnsýslu að gjaldskyldir aðilar og umboðsmenn þeirra hafi þrátt fyrir meginregluna um rafræna þjónustu og samskipti vegna greiðslu kílómetragjalds kost á því að skila inn upplýsingum og gögnum skriflega á því formi sem Samgöngustofa eða ríkisskattstjóri ákveða. Auk þess eigi gjaldskyldur aðili ávallt kost á að skrá stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu í stað skráningar á stöðu akstursmælis í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Sú leið sem hér er farin tryggir m.a. að sá hópur fólks sem ekki hefur raunhæfa möguleika á að nýta sér rafræna stjórnsýslu geti nýtt sér skriflega málsmeðferð, m.a. um áætlaðan akstur, skráningu á stöðu akstursmælis o.fl., sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. F118/2022.

3.9. Eigendaskipti eða breytt skráning umráðamanns og afskráning, 13.–14. gr.
    Þegar eigendaskipti eða breytt skráning umráðamanns á sér stað á bifreið sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal skrá stöðu akstursmælis á tilkynningu um eigendaskipti bifreiðar samhliða skráningu eigendaskipta í ökutækjaskrá. Gert er að skilyrði að kaupandi eða nýr umráðamaður samþykki skráða stöðu akstursmælis. Við eigendaskipti skal leggja kílómetragjald á seljanda eða fyrri umráðamann vegna liðinna gjaldtímabila sem ekki hefur áður verið lagt á. Gjaldskyldan færist í kjölfarið yfir á kaupanda eða nýjan umráðamann frá dagsetningu skráningar í ökutækjaskrá. Óheimilt er að skrá eigendaskipti eða breytta skráningu á umráðamanni nema gjaldfallið kílómetragjald og eftir atvikum vanskráningargjald hafi áður verið greitt. Við afskráningu gjaldskyldrar bifreiðar skal með sama hætti skrá stöðu akstursmælis á tilkynningu til Samgöngustofu. Ríkisskattstjóri leggur í kjölfarið kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á og yfirstandandi gjaldtímabils fram að afskráningu.

3.10. Virkni akstursmælis, aðalskoðun og upplýsingaskylda o.fl., 15.–18. gr.
    Fjallað er um virkni akstursmælis og aðalskoðun auk upplýsingaskyldu í 15. 18. gr. Tekið er sérstaklega fram að gjaldskyldur aðili beri ábyrgð á virkni akstursmælis. Þá skal gjaldskyldur aðili færa sönnunar á við aðalskoðun að gjaldfallið kílómetragjald vegna gjaldskyldrar bifreiðar hafi verið greitt, þ.e. í síðasta lagi á eindaga. Um upplýsingaskyldu er sérstaklega tekið fram að öllum þeim aðilum sem fjallað er um í lögunum sé skylt að láta ríkisskattstjóra og eftir atvikum Samgöngustofu allar þær upplýsingar og gögn sem óskað er eftir og unnt er að láta þeim í té.

3.11. Ýmis ákvæði, 19.–23. gr.
    Í þessum greinum er að finna ýmis almenn ákvæði, svo sem um eftirlit og endurákvörðun, kæruheimildir, vanskráningargjald, lögveð og fjárnám, reglugerðarheimild og ákvæði um gildistöku.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þá var þess gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmist 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.
    Það kílómetragjald sem lagt er til að lögfest verði með frumvarpi þessu telst skattur en yfirlýstur tilgangur með innheimtu gjaldsins er m.a. sá að vera tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Innheimta skattsins uppfyllir skilyrði ákvæða stjórnarskrárinnar um skattheimtu. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar gerir þann áskilnað að skattamálum skuli skipað með lögum og að stjórnvöldum megi ekki fela ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema. Þá mælir 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar fyrir um að enginn skattur verði lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Með samþykkt frumvarps þessa um kílómetragjald á hreinorku- og tengiltvinnbíla telst framangreindum skilyrðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar fullnægt.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir eigendur, umráðamenn og innflytjendur hreinorku- og tengiltvinnbifreiða (fólks- og sendibifreiða). Jafnframt snertir frumvarpið Skattinn vegna innheimtu og álagningar kílómetragjalds, Samgöngustofu vegna umsjónar með skráningu á stöðu akstursmælis gjaldskyldra bifreiða í ökutækjaskrá og farmflytjendur vegna innheimtu á sérstöku daggjaldi þegar um er að ræða tímabundinn innflutning á bifreiðum til landsins. Þá hefur frumvarpið áhrif á faggiltar skoðunarstofur og aðila sem hafa með höndum sölu, ábyrgðar- og þjónustuskoðanir eða viðgerðir í atvinnuskyni, vegna skráningar á stöðu akstursmælis þeirra gjaldskyldu bifreiða sem skráðar eru í ökutækjaskrá.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Fjársýsluna, Samgöngustofu og Skattinn. Þá hefur samráð átt sér stað við Verkefnastofu um stafrænt Ísland og Verkefnastofu um samgöngugjöld, en að henni standa fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið, auk þess sem forsætisráðuneytið á aðild að stýrihópi um verkefnið. Einnig hefur Verkefnastofa um stafrænt Ísland unnið að undirbúningi að tæknilegum atriðum og viðmótshönnun með Fjársýslunni, Samgöngustofu og Skattinum. Jafnframt hefur Verkefnastofa um samgöngugjöld fundað með ýmsum hagaðilum vegna frumvarpsins.
    Áform um frumvarpið voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 4.–16. október (mál nr. S-183/2023). Alls bárust fimmtíu og tvær umsagnir. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda dagana 3.–10. nóvember. Þrettán umsagnir bárust. Umsagnir bárust frá einstaklingum, fyrirtækjum og ýmsum hagaðilum. Brugðist hefur verið við mörgum athugasemdum sem fram koma í umsögnum og hefur frumvarpið tekið breytingum í samræmi við það.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Mat á fjárhagslegum áhrifum fyrir ríkissjóð.
    Gert er ráð fyrir að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs og að á árinu 2024 verði tekjuauki af nýju kerfi fyrir hreinorku- og tengiltvinnbíla rúmlega 3 milljarðar kr. eða sem nemur um 0,1% af VLF. Er þetta mikilvægt skref í þeim umbótum á skattlagningu á ökutækjum og eldsneyti sem leiða eiga til þess að skatttekjur af umferð og eldsneyti verði aftur um 1,7% af VLF líkt og að jafnaði á árunum 2010–2017. Samþykkt frumvarpsins mun fela í sér kostnað við uppsetningu og rekstur álagningarkerfa og hugbúnaðarkerfa hjá Skattinum. Jafnframt má gera ráð fyrir auknu umfangi hjá Skattinum vegna álagningar, eftirlits o.fl., auk vinnu hjá Samgöngustofu vegna utanumhalds um skráningu á stöðu akstursmæla bifreiða í ökutækjaskrá.
    Þá má gera ráð fyrir að ef akstur verður minni en ella vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu, eins og við má búast, minnki slit á vegum, þar á meðal í eigu ríkisins. Kostnaður vegna viðhalds þeirra gæti því orðið nokkru minni en ella. Áhrif í þessa veru koma fram á löngum tíma og aukast eftir því sem hlutdeild þeirra bifreiða sem falla undir frumvarpið eykst.

6.2. Mat á jafnréttisáhrifum.
    Gera má ráð fyrir að skattlagning á notkun bifreiða hafi mismunandi áhrif á kynin. Kynbundin notkun á samgöngukerfinu hefur verið greind í nokkrum rannsóknum hér á landi undanfarin ár. Ferðavenjukannanir og kannanir á ferðum innan vinnusóknarsvæða hafa sýnt fram á kynbundinn mun á ferðavenjum. Þær sýna að konur nota einkabílinn ekki síður en karlar. Umtalsverður kynjamunur er þó á eignarhaldi ökutækja þar sem karlar eru skráðir eigendur tæplega 2/ 3 fólks- og sendibifreiða. Þá eru bifreiðar í eigu kvenna almennt léttari og losa minna af gróðurhúsalofttegundum en bifreiðar í eigu karla. Af þessu má ráða að kílómetragjaldið muni leggjast í meiri mæli á karla en konur.

6.3. Mat á samfélagslegum áhrifum – áhrif eftir tekjuhópum og búsetu.
    Verði frumvarpið samþykkt má gera ráð fyrir að það hafi ólík áhrif á vissa hópa samfélagsins. Þeir sem reiða sig lítið á einkabílinn verða fyrir tiltölulega litlum áhrifum ásamt þeim sem geta auðveldlega nýtt sér annan samgöngumáta. Mest áhrif verða á eigendur vistvænna bifreiða þar sem þeir hafa fram til þessa ekki greitt gjöld sem jafngilda vörugjöldum af jarðefnaeldsneyti eftir notkun á vegakerfinu. Engin áhrif verða á eigendur bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í þessum fyrsta áfanga.
    Í ljósi þess að eignarhald á rafmagnsbifreiðum er algengast í hærri tekjutíundum mun ný gjaldtaka á vistvænar bifreiðar fyrst um sinn hafa mest áhrif á einstaklinga í hærri tekjutíundum í krónum mælt. Á eftirfarandi mynd má sjá að á árinu 2022 voru um 64% rafmagnsbifreiða í eigu einhleypra í eigu þeirra sem eru í þremur efstu tekjutíundunum og um 55% rafmagnsbifreiða voru einnig í eigu samskattaðra einstaklinga í þremur efstu tekjutíundunum. Þó má gera ráð fyrir að hlutdeild rafmagnsbifreiða í bílaeign tekjuhópa verði smám saman jafnari á næstu árum eftir því sem verð rafmagnsbifreiða lækkar áfram í samanburði við aðra bíla og framboð þeirra á endursölumarkaði eykst.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Með sama hætti er eignarhald á tengiltvinnbifreiðum hlutfallslega meira í efstu tekjutíundunum. Á myndinni hér á eftir má sjá að á árinu 2022 var 61% tengiltvinnbifreiða í eigu einhleypra í þremur efstu tíundunum. Hjá samsköttuðum voru 48% tengiltvinnbifreiða í eigu einstaklinga í efstu þremur tíundunum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Með bættum samgönguinnviðum hafa atvinnusóknarsvæði stækkað. Á suðvesturhorninu hefur höfuðborgarsvæðið og nærumhverfi þess orðið að einu samfelldu atvinnusvæði og því fylgja lengri ferðalög til og frá vinnu. Með nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins er hér átt við Suðurnes, Árborgarsvæðið, Borgarnes og þau svæði sem eru nær höfuðborgarsvæðinu en framangreind svæði.
    Myndin hér á eftir sýnir meðalakstur bifreiða á ársgrundvelli í þeim póstnúmerum þar sem fjöldi bifreiða í eigu einstaklinga er yfir þúsund talsins. Meðalakstur fólksbifreiða í eigu almennings var 11.955 km á ársgrundvelli.







Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á höfuðborgarsvæðinu var meðalakstur 11.747 km, meðalakstur í nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins var 13.774 km og loks 10.857 km annars staðar á landsbyggðinni. Meðalakstur allra fólksbifreiða á landinu er nokkuð meiri sem skýrist af miklum akstri bílaleigubifreiða sem ekki eru hluti af þessari samantekt.
    Fleiri rafmagnsbifreiðar og tengiltvinnbifreiðar eru á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni í hlutfalli við íbúafjölda. Á höfuðborgarsvæðinu eru 67 rafmagnsbifreiðar og 51 tengiltvinnbifreið á hverja þúsund íbúa. Í nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins eru 53 rafmagnsbifreiðar og 38 tengiltvinnbifreiðar á hverja þúsund íbúa. Á landsbyggðinni er hlutfallið 27 rafmagnsbifreiðar og 36 tengiltvinnbifreiðar á hverja þúsund íbúa.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Þá liggur fyrir að þrátt fyrir að kílómetragjald verði lagt á akstur rafmagnsbifreiða er árlegur rekstrarkostnaður þeirra mun lægri en sambærilegra bensínbifreiða. Á myndinni hér á eftir má sjá samanburð á helstu kostnaðarliðum bensínbifreiðar og rafmagnsbifreiðar árið 2024 í þúsundum kr. að meðtöldu 6 kr. kílómetragjaldi fyrir rafmagnsbifreið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Miðað er við meðaleyðslu og meðalakstur fólksbifreiða á árið 2022. Í þessu samhengi er einnig ástæða til að nefna að tímabundinn stuðningur við kaup á hreinorkubifreiðum verður áfram fyrir hendi í tiltekinn tíma þrátt fyrir að ívilnun í virðisaukaskatti falli niður 1. janúar 2024. Stuðningurinn mun færast af tekjuhlið yfir á útgjaldahlið ríkisrekstrarins þar sem gert er ráð fyrir að beinir styrkir úr Orkusjóði komi í stað fyrri ívilnana.
    Gera má ráð fyrir því að þeir gjaldskyldu aðilar sem falla undir frumvarpið bregðist við innleiðingu kílómetragjalds með því að aka minna en áður. Samfélagslegur kostnaður sem fylgir akstri bifreiða, ekki síst vegna loftmengunar og umferðartafa, verður því minni en ella.

6.4. Áhrif á umhverfi og sjálfbæra þróun.
    Með gjaldtöku fyrir notkun hreinorku- og tengiltvinnbíla er að nokkru marki dregið úr hvötum til orkuskipta. Hins vegar verður rekstrarkostnaður slíkra bíla áfram mun lægri eins og áður segir þar sem orkugjafinn sem þeir nota er umtalsvert ódýrari. Þá verða sömuleiðis enn til staðar tímabundnir hvatar til kaupa á slíkum bifreiðum. Enn fremur má nefna að til að frekari árangri í orkuskiptum verði náð er grundvallaratriði að þróunin sé sjálfbær með tilliti til tekna. Þá ber að hafa í huga að kílómetragjald verður lagt á allar bifreiðar frá og með árinu 2025 en ekki eingöngu á hreinorku- og tengiltvinnbíla (fólks- og sendibíla). Samhliða því gætu breytingar á kolefnisgjaldi viðhaldið hvötum sem nauðsynlegir eru til orkuskipta. Samandregið hvetur kílómetragjald almennt til aukinnar vitundar um akstur og getur þannig dregið úr umferð, tilheyrandi umferðartöfum og losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum.


Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt gjald, kílómetragjald, sem gjaldskyldir aðilar eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. frumvarpsins skulu greiða af akstri rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða (fólks- eða sendibifreiða). Í upphafsgrein er að finna umfjöllun um greiðslu kílómetragjaldsins til ríkissjóðs af akstri þeirra bifreiða sem falla undir gjaldskyldu kílómetragjalds.

Um 2. gr.

    Í greininni er skilgreint hvaða bifreiðar teljist gjaldskyldar samkvæmt frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi er kveðið á um að bifreið sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, skuli vera gjaldskyld. Með rafmagns- eða vetnisbifreið er átt við hreinorkubifreið, þ.e. bifreið sem losar ekki koltvísýring, CO2. Skilyrðið er að bifreið sé alfarið knúin rafmagni eða vetni. Þá eru eingöngu skráðar fólks- eða sendibifreiðar gjaldskyldar. Með fólksbifreið í frumvarpinu er átt við bifreið sem skráð er sem fólksbifreið í ökutækjaskrá og er fyrir átta farþega eða færri. Þar undir falla bifreiðar sem í heildina eru skráðar fyrir níu einstaklinga eða færri, að ökumanni meðtöldum. Með sendibifreið í frumvarpinu er átt við bifreið sem skráð er sem sendibifreið í ökutækjaskrá og með leyfða heildarþyngd 3.500 kg og aðallega ætluð til vöruflutninga. Heildarþyngd þeirra bifreiða sem falla undir frumvarpið skal þannig að hámarki vera 3.500 kg. Jafnframt kemur fram að bifreið skuli falla undir skilgreiningu 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, þar sem fjallað er um hvaða ökutæki teljist gjaldskyld samkvæmt þeim lögum.
    Í öðru lagi kemur fram að tengiltvinnbifreið sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, skuli vera gjaldskyld samkvæmt frumvarpinu. Með tengiltvinnbifreið er átt við bifreið sem gengur fyrir rafmagni en getur jafnframt gengið fyrir jarðefnaeldsneyti (bensín eða dísel) og hægt er að stinga í samband til að hlaða. Tengiltvinnbifreið fellur þannig ekki undir flokk hreinorkubifreiða (rafmagns- eða vetnisbifreiða), þar sem tengiltvinnbifreið getur bæði nýtt jarðefnaeldsneyti og rafmagn sem orkugjafa. Vísað er til 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, um hvaða ökutæki teljist gjaldskyld samkvæmt þeim lögum líkt og í 1. tölul. ákvæðisins.
    Í þriðja lagi kemur fram að tengiltvinnbifreið eða bifreið sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni, sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið erlendis eða keypt ný og óskráð erlendis og er nýtt tímabundið hér á landi að hámarki í tólf mánuði skuli vera gjaldskyld samkvæmt frumvarpinu. Hér er um að ræða bifreiðar með erlend skráningarmerki sem hafa fengið leyfi tollyfirvalda til tímabundins innflutnings í allt að 12 mánuði út frá þeim kröfum tollalaga, nr. 88/2005, sem gilda um slíkan tímabundinn innflutning bifreiða.


Um 3. gr.

    Í greininni er fjallað um gjaldskylda aðila samkvæmt frumvarpinu.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að skráður eigandi gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. sé gjaldskyldur. Sú meginregla kemur þannig hér fram að skráður eigandi gjaldskyldrar bifreiðar í ökutækjaskrá sé bæði greiðslu- og gjaldskyldur vegna hlutaðeigandi bifreiðar, þ.e. vegna fyrirframgreiðslu áætlunar og álagningar og uppgjörs kílómetragjalds. Vísað er til þess að greiðsluskyldan haldist á eignarhaldstíma sem tekur mið af opinberri skráningu bifreiðar í ökutækjaskrá.
    Í 2. mgr. er að finna undantekningu frá meginreglu 1. mgr. Í 2. mgr. kemur fram að umráðamaður samkvæmt samningi við handhafa leyfis til að stunda eignaleigu eða fjármögnunarleigu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem jafnframt er skráður sem umráðamaður hlutaðeigandi bifreiðar í ökutækjaskrá, sé gjaldskyldur samkvæmt frumvarpinu þrátt fyrir 1. mgr. Ef þannig háttar til skal umráðamaður bæði vera greiðsluskyldur vegna fyrirframgreiðslu áætlunar og gjaldskyldur vegna álagningar og uppgjörs vegna aksturs hlutaðeigandi bifreiðar. Ef breyting eða leiðrétting á sér stað á innheimtu eða álögðu kílómetragjaldi skal slíkum breytingum því beint að umráðamanni. Þar sem umráðamaður bifreiðar er sá aðili sem hefur vitneskju um áætlaðan akstur hennar út frá umráðum og notkun hlutaðeigandi bifreiðar er talið rétt að skráður umráðamaður sé gjaldskyldur aðili samkvæmt lögunum. Vegna þessa skulu innheimtumenn ekki færa inneignir á milli kennitalna eftir því hver greiðandi er, til að mynda vegna vanskila umráðamanns, þar sem óskipt ábyrgð er til staðar vegna umræddra greiðslna og krafna, sbr. 3. mgr.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að skráður eigandi og umráðamaður skuli bera óskipta ábyrgð á greiðslu kílómetragjalds af gjaldskyldum bifreiðum og að innheimtumaður geti gengið að hvorum aðila fyrir sig. Ábyrgðin er því óskipt, einn fyrir alla og allir fyrir einn ( in solidum). Þar sem umráðamaður bifreiðar er ekki skráður eigandi hennar er talið rétt að ríkissjóður geti bæði gengið að eiganda og umráðamanni bifreiðar vegna gjaldfallinna krafna til þess að tryggja fjárkröfur sínar.
    Í 4. mgr. kemur fram að greiðsla kílómetragjalds af bifreið sem skráð er erlendis hvíli á innflytjenda hennar. Við skilgreiningu á innflytjanda skal líta til skráningar hjá farmflytjanda um innflutningsaðila bifreiðar, skráðs innflytjanda í aðflutningsskýrslu eða til annarra tollaskjala, til að mynda yfirlýsingar um tímabundinn innflutning sem skilað er til tollyfirvalda, sbr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005.


Um 4. gr.

    Í greininni eru taldar upp í þremur töluliðum undanþágur frá gjaldskyldu kílómetragjalds.
    Í 1. tölul. er fjallað um undanþágu bifreiða í eigu björgunarsveita frá gjaldskyldu. Skilyrði undanþágunnar er að bifreiðar hafi verið auðkenndar til slíkra nota í ökutækjaskrá og að björgunarsveit falli undir lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, nr. 43/2003.
    Í 2. tölul. er fjallað um undanþágu bifreiða í eigu erlendra sendiráða eða erlendra sendiráðsmanna erlendra ríkja frá gjaldskyldu vegna notkunar hér á landi. Það skilyrði skal vera uppfyllt að bifreiðar séu merktar með viðeigandi skráningarmerki og auðkenndar í ökutækjaskrá samkvæmt þeim kröfum sem Samgöngustofa gerir til skráningar og áletrunar slíkra bifreiða.
    Í 3. tölul. kemur fram að bifreiðar í eigu aðila sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, á grundvelli alþjóðasamninga eða tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um skuli vera undanþegnar gjaldskyldu kílómetragjalds. Hér undir falla til að mynda bifreiðar í eigu erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins.

Um 5. gr.

    Í greininni eru talin upp í tveimur töluliðum þau tilvik þegar gjaldskyldir aðilar skv. 1.–2. mgr. 3. gr. skuli undanþegnir frá greiðslu kílómetragjalds af gjaldskyldum bifreiðum sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Í 1. tölul. er fjallað um undanþágu frá greiðsluskyldu vegna tímabundins útflutnings bifreiðar. Það skilyrði skal vera uppfyllt að gjaldskyldur aðili skrái sjálfur stöðu akstursmælis bifreiðar bæði við brottför frá landinu og komu til landsins eða hjá faggiltri skoðunarstofu. Tilgreina ber að um tímabundinn flutning úr landi sé að ræða á tiltekinni bifreið í eigu eða umráðum gjaldskylds aðila. Þá skal gjaldskyldur aðili framvísa staðfestingu til sönnunar á tímabundnum útflutning á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, til að mynda brottfararspjöldum.
    Í 2. tölul. er fjallað um tímabundna innlögn skráningarmerkja til varðveislu hjá skráningaraðila. Gjaldskyldur aðili skal skrá stöðu akstursmælis við innlögn skráningarmerkis. Við úttekt skráningarmerkis skal gjaldskyldur aðili láta skrá stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu innan 10 virkra daga frá því að skráningarmerkin eru tekin úr geymslu, sbr. 14. gr.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að gjaldtímabil kílómetragjalds þeirra bifreiða sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. sé hver almanaksmánuður frá upphafi árs 2024. Fyrsta gjaldtímabil laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, er því janúar 2024. Gjaldtímabilið, þ.e. hver almanaksmánuður, er grundvöllur álagningar og uppgjörs kílómetragjalds, sbr. 10. gr., sem á sér stað við skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar af hálfu gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstöðvar, sbr. 8. gr.
    Í 2. mgr. er fjallað um fjárhæð gjalds á hvern ekinn kílómetra vegna aksturs gjaldskyldra bifreiða sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. Gert ráð fyrir að fjárhæð gjalds vegna aksturs rafmagns- og vetnisbifreiðar skuli nema 6 kr. á hvern kílómetra, sbr. 9. og 10. gr. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð gjalds vegna aksturs tengiltvinnbifreiðar skuli nema 2 kr. á hvern ekinn kílómetra, sbr. 9. og 10. gr. Fjárhæð gjalds á hvern kílómetra skal notuð sem grundvöllur að annars vegar áætlun á meðalakstri á gjaldtímabili og þannig fyrirframgreiðslu kílómetragjalds skv. 9. gr. og hins vegar að álagningu og innheimtu kílómetragjalds skv. 10. gr.

Um 7. gr.

    Í greininni er fjallað um gjaldskyldar bifreiðar sem skráðar eru erlendis og skyldu til greiðslu og innheimtu kílómetragjalds vegna tímabundinnar notkunar þeirra hér á landi.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að innflytjandi gjaldskyldrar bifreiðar, sbr. 4. mgr. 3. gr. sem flytur inn bifreið sem fellur undir 3. tölul. 2. gr. hingað til lands samkvæmt heimild tollyfirvalda skuli greiða sérstakt daggjald vegna tímabundinnar notkunar hér á landi. Gjaldið á dag skal nema 600 kr. vegna bifreiðar sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni og 200 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar. Í tímabundinni notkun hér á landi felst að notkunin vari ekki lengur en í 12 mánuði á Íslandi. Þá er gert að skilyrði að tollyfirvöld hafi heimilað slíkan tímabundinn innflutning á bifreið og að innflytjandi hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði fyrir slíkum innflutningi, sbr. m.a. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005.
    Fram kemur í 2. mgr. að farmflytjandi skuli annast innheimtu og skil á sérstöku daggjaldi skv. 1. mgr. í ríkissjóð. Þá skuli sérstakt daggjald innheimt fyrir eða við komu bifreiðar til landsins og miðað við áætlaða tímalengd notkunar hér á landi. Töluvert hagræði felst í þeim möguleika að geta innheimt daggjald fyrir eða strax við komu fars til landsins m.a. vegna þeirrar umsýslu og þess tíma sem tekur að afgreiða og innheimta kílómetragjald við slíka komu. Í því ljósi er talið rétt að kílómetragjald verði að meginstefnu til innheimt út frá álögðu daggjaldi sem farmflytjanda ber að skila í síðasta lagi 30 dögum eftir komu fars til landsins. Ef áætlun breytist á notkunartíma bifreiðar hér á landi til lengingar eða styttingar á tímalengd skal þó gera upp mismun við brottför bifreiðar frá landinu. Þá skal jafnframt gera upp slíkan mismun á daggjaldi út frá áætlun og raunnotkun ef bifreið á erlendum skráningarnúmerum er síðar skráð í ökutækjaskrá hér á landi.
    Í 3. mgr. kemur fram að innflytjanda skuli þrátt fyrir meginreglu 1. mgr. heimilt að óska eftir hefðbundnum álestri af hálfu tollyfirvalda eða faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis við komu og brottför frá landinu út frá þeim fjárhæðum sem fjallað er um í 2. mgr. 6. gr. Innflytjandi er þá hinn skilaskyldi aðili en ekki farmflytjandi. Óskað skal sérstaklega eftir slíkri tilhögun fyrir komu til landsins og skal farmflytjandi upplýsa ríkisskattstjóra um slíka tilhögun innflytjanda. Liggi fyrir að innflytjandi hafi ekki gert grein fyrir stöðu akstursmælis við komu til landsins ber honum þó að greiða daggjald skv. 1. mgr. sem skal þá innheimt fyrir brottför gjaldskylds aðila frá landinu.
    Í 4. mgr. er fjallað um skil á kílómetragjaldi vegna bifreiða skráðra erlendis. Þar kemur fram sú regla að kílómetragjaldi skuli skilað í síðasta lagi 30 dögum eftir brottför fars, eða eftir atvikum við skráningu hlutaðeigandi bifreiðar í ökutækjaskrá. Skilin skulu fara fram á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Fram kemur í 5. mgr. að ríkisskattstjóra sé heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd og tilhögun innheimtu og skráningu þeirra bifreiða sem falla undir þessa grein.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að Samgöngustofa fari með umsjón skráningar á stöðu akstursmælis samkvæmt frumvarpinu en Samgöngustofa annast skráningu og rekstur á ökutækjaskrá, sbr. 7. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
    Í 2. mgr. segir að gjaldskyldum aðila beri að skrá stöðu á akstursmæli gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. að lágmarki einu sinni ári. Skráningin skal fara fram rafrænt, til að mynda með skráningu í smáforriti eða á vefsetrinu Ísland.is í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Sú leið er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að stafræn þjónusta skuli vera meginleið samskipti á milli hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga), almennings og fyrirtækja. Þrátt fyrir þá meginreglu verður einstaklingum og fyrirtækjum þó heimilt að skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu út frá álestri, sbr. 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
    Skráningin er framkvæmd af gjaldskyldum aðila sjálfum eða af faggiltri skoðunarstofu. Slík skráning skal vera grundvöllur að álagningu kílómetragjalds skv. 10. gr.
    Sú grundvallarregla er áréttuð að skráning skuli að lágmarki fara fram einu sinni á hverju almanaksári. Nauðsynlegt er að hafa slíkt tímaviðmið svo að álagning og uppgjör vegna áætlunar og fyrirframgreiðslu kílómetragjalds á gjaldtímabili eigi sér stað að lágmarki einu sinni á ári, hjá gjaldskyldum aðila eða á faggiltri skoðunarstofu í sérstökum álestri á stöðu akstursmælis eða vegna reglubundinnar skoðunar bifreiðar hjá skoðunarstofu.
    Samkvæmt 3. mgr. skal gjaldskyldum aðila vera heimilt sé að skrá inn nýja stöðu akstursmælis bifreiðar þegar 30 dagar eru liðnir frá síðustu skráningu gjaldskylds aðila sjálfs. Talið er rétt að ákveðinn tími líði frá síðustu skráningu vegna þess umstangs og kostnaðar sem hlýst af skráningum, til að mynda vegna útsendingar greiðsluseðla. Breyting á skráningu gjaldskylds aðila á stöðu akstursmælis er þó ávallt heimiluð innan sama dags og skráning fór fram. Rétt er að gjaldskyldir aðilar hafi svigrúm til þess að leiðrétta rangfærslur í skráningu á þeim degi þegar skráning á sér stað. Eftir það tímamark verður gjaldskyldum aðila þó ávallt heimilt að óska eftir leiðréttingu á augljósum skráningarskekkjum hjá Samgöngustofu, sbr. 7. mgr. Þar sem nauðsynlegt er að ríkisskattstjóri hafi svigrúm til þess að útbúa áætlun um meðalakstur og greiðsluseðla vegna fyrirframgreiðslu fyrirhugaðs gjaldtímabils er þó skráning á síðasta degi mánaðar meðhöndluð eins og hún hafi farið fram næsta dag.
    Það skilyrði kemur fram í 4. mgr. gjaldskyldur aðili skuli skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu ef engin skráning liggur fyrir á stöðu akstursmælis á almanaksárinu.
    Í 5. mgr. kemur fram að gjaldskyldir aðilar og faggiltar skoðunarstofur skuli senda Samgöngustofu rafrænt upplýsingar um skráningu á stöðu akstursmælis á álestrardegi. Slík skráning getur til að mynda farið fram út frá miðlun gagna frá tölvukerfi faggiltrar skoðunarstofu til Samgöngustofu. Vegna gjaldskyldra aðila fer slík skráning fram með skráningu í miðlæga þjónustugátt stjórnvalda með smáforriti eða á vefsetrinu Ísland.is.
    Samkvæmt 6. mgr. er gert að skilyrði að þrátt fyrir 2.–5. mgr. skuli þeir aðilar sem hafa með höndum sölu bifreiða, ábyrgðar- og þjónustuskoðanir, eða viðgerðir í atvinnuskyni á þeim bifreiðum sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. lesa af og senda Samgöngustofu upplýsingar um stöðu akstursmælis á álestrardegi á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Um er að ræða atvinnurekstraraðila sem hafa með höndum atvinnustarfsemi í formi bílasölu, ábyrgðar- og þjónustuskoðana eða viðgerða á slíkum bifreiðum. Talið er nauðsynlegt að slík skráning eigi sér stað í eftirlitsskyni til þess að tryggja eins og kostur er eftirlit með stöðu akstursmælis þeirra gjaldskyldu bifreiða sem skráðar eru í ökutækjaskrá hér á landi og falla undir lögin. Slík skráning skal til að mynda ávallt eiga sér stað þegar um er að ræða sölu nýrra eða notaðra bifreiða í atvinnuskyni, ábyrgðar- og þjónustuskoðun gjaldskyldra bifreiða hjá bílaumboðum og tjónaviðgerðir út frá skilmálum vátryggingafélaga. Skráningin skal eiga sér stað rafrænt á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Þá skulu vátryggingafélög jafnframt senda Samgöngustofu upplýsingar um stöðu akstursmælis rafrænt þegar um er að ræða tjón á þeim bifreiðum sem falla undir málsgreinina, til að mynda í kjölfar skráningar á stöðu akstursmælis á tjónstilkynningar.
    Í 7. mgr. kemur fram að Samgöngustofu sé heimilt að leiðrétta augljósar skráningarskekkjur á stöðu akstursmælis að höfðu samráði við gjaldskyldan aðila eða samkvæmt beiðni hans þar um, hvort heldur skráning var gerð af gjaldskyldum aðila eða faggiltri skoðunarstöð.

Um 9. gr.

    Fram kemur í 1. mgr. að ríkisskattstjóri geri áætlun um meðalakstur bifreiðar á gjaldtímabili, þ.e. á almanaksmánuði, og birti hana í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, þ.e. í smáforriti eða á vefsetrinu Ísland.is. Áætlun ríkisskattstjóra skal taka mið af síðustu tveimur þekktu stöðum á akstursmæli bifreiðar. Ríkisskattstjóri birtir í kjölfarið áætlun um fyrirframgreiðslu kílómetragjalds á gjaldtímabili sem fundin er út frá meðalakstri á dag út frá síðustu þekktu skráningum, að teknu tilliti til áætlaðs aksturs á tólf mánaða tímabili. Af því leiðir að áætlun á fyrirframgreiðslu getur verið breytileg á milli gjaldtímabila.
    Í 2. mgr. kemur fram að við kaup gjaldskyldrar bifreiðar eða ef eingöngu ein þekkt skráð staða á akstursmæli liggur fyrir skuli áætlun þó miðuð við tiltekinn kílómetrafjölda út frá fyrirframgefnum forsendum. Umrædd regla er sett m.a. vegna kaupa á nýrri eða notaðri bifreið þegar skráð söguleg staða akstursmælis út frá akstri hjá kaupanda sem grundvöllur að akstri nýs eiganda eða umráðamanns að bifreið liggur ekki fyrir. Í því ljósi er talið rétt að áætlunin sé í slíkum tilvikum miðuð við fyrirframákveðinn kílómetrafjölda aksturs sem tekur mið af því hvort um sé að ræða einstakling, fyrirtæki, ökutækjaleigu eða rekstrarleyfishafa leigubifreiðar.
    Í 3. mgr. er fjallað um heimild gjaldskylds aðila til að breyta áætlun ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. Í kjölfar þess að ríkisskattstjóri leggur fram áætlun að akstri og fyrirframgreiðslu vegna gjaldtímabils skal gjaldskyldum aðilum heimilt að breyta áætluninni ef gjaldskyldur aðili telur að áætlunin þarfnist breytinga við. Litið skal á áætlun ríkisskattstjóra að teknu tilli til breytinga gjaldskylds aðila á áætluninni sem breytta áætlun. Sú breytta áætlun skal þá lögð fram sem grundvöllur að fyrirframgreiðslu kílómetragjalds hjá gjaldskyldum aðila.
    Fram kemur í 4. mgr. að ef staða akstursmælis bifreiðar er ekki skráð innan þeirra tímamarka sem fram koma í 2. mgr. 8. gr., þ.e. innan almanaksársins, skuli ríkisskattstjóri áætla akstur hjá gjaldskyldum aðila út frá fyrirliggjandi upplýsingum um akstur gjaldskylds aðila. Ef slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir skal áætlunin þó miðuð að lágmarki við skilgreindan akstur sem tekur mið af því hvort um sé að ræða einstakling, fyrirtæki, ökutækjaleigu eða rekstrarleyfishafa leigubifreiðar. Ólíkt 1. og 2. mgr. er gjaldskyldum aðila ekki heimilt að gera breytingar á áætlun skv. 4. mgr. og skal láta skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.
    Í 5. og 6. mgr. er fjallað um fyrirframgreiðslu kílómetragjalds. Fjárhæðin skal reiknuð út frá meðalakstri bifreiðar á dag að teknu tilliti til þess hvort um rafmagns- eða vetnisbifreið sé að ræða eða tengiltvinnbifreið. Fyrirframgreiðslan skal innheimt mánaðarlega fram að álagningu.
    Í 7. mgr. er fjallað um gjalddaga fyrirframgreiðslu kílómetragjalds, eindaga og dráttarvexti ef ekki er greitt á gjalddaga.
    

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram hverjir annast álagningu og innheimtu gjaldsins. Ríkisskattstjóri annast álagningu kílómetragjalds og innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu þess.
    Fram kemur í 2. mgr. að ríkisskattstjóri leggi kílómetragjald á þegar skráning á stöðu akstursmælis er framkvæmd, annaðhvort af gjaldskylda aðilanum sjálfum eða hjá faggiltri skoðunarstofu. Samkvæmt ákvæðinu leggur ríkisskattstjóri á kílómetragjald vegna liðinna gjaldtímabila sem gjald hefur ekki verið lagt á. Hafi álestur t.d. farið fram 5. mars verður það til þess að ríkisskattstjóri leggur á gjaldtímabilin febrúar og fyrr sem ekki hefur verið lagt á nú þegar. Þeir dagar sem eru frá 1. til og með 5. mars eru gerðir upp við næstu álagningu.
    Í 3. mgr. segir frá því hvernig stofn kílómetragjalds er ákvarðaður. Það er gert út frá meðalakstri á dag margfaldað með fjölda daga á gjaldtímabili (almanaksmánuði) eða hlutum af gjaldtímabili. Meginreglan er sú að meðalakstur er fundinn út frá tveimur síðustu skráningum á stöðu akstursmælis viðkomandi bifreiðar, á meðan hún er í eigu eða umráðum gjaldskylds aðila. Þannig getur meðalakstur verið mismunandi á milli fyrri og seinni hluta gjaldtímabils í þeim almanaksmánuði sem skráning á stöðu akstursmælis á sér stað. Sjá nánari skýringar í kafla 3.6.
    Í 4. mgr. er fjallað um álagningu kílómetragjalds sem byggist á áætlun ríkisskattstjóra um meðalakstur bifreiða vegna liðinna gjaldtímabila þar sem uppgjör hefur ekki átt sér stað. Í ákvæðinu segir að hafi árlegur álestur næstliðins árs ekki farið fram 30 dögum eftir lok þess árs áætli ríkisskattstjóri meðalakstur bifreiðar vegna umræddra gjaldtímabila. Sú áætlun skuli vera rífleg þannig að ekki sé hætta á að meðalaksturinn sé áætlaður minni en hann er í raun og veru. Í kjölfarið leggur ríkisskattstjóri kílómetragjald á gjaldskyldan aðila í samræmi við þá áætlun.
    Fram kemur í 5. mgr. að gjalddagi álagningar sé fyrsti dagur annars mánaðar eftir lok síðasta gjaldtímabils álagningar. Sem dæmi má nefna að ef síðasta gjaldtímabil sem lagt er á er febrúar, svo sem á við ef skráning á akstursstöðu fer fram í marsmánuði, er gjalddagi 1. apríl. Í greininni kemur fram að eindagi skuli vera 14 dögum eftir gjalddaga. Þá kemur fram að lögregla geti, eftir kröfu innheimtumanns, tekið af bifreiðinni skráningarmerki til geymslu. Mikilvægt er að beitt sé meðalhófi og að slík aðgerð fari ekki fram fyrr en sýnt er fram á að ítrekaðar innheimtutilraunir hafa ekki skilað árangri.
    Um dráttarvexti fer eftir ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að við mismun sem í ljós kemur á álögðu kílómetragjaldi og fyrirframgreiðslu skuli bæta 2,5% álagi á ársgrundvelli, u.þ.b. 0,21% álagi á hvert gjaldtímabil sem lagt er á.
    Fram kemur í 7. mgr. að fyrirframgreiðsla kílómetragjalds gangi upp á móti álagningu gjaldsins. Þannig skal draga fyrirframgreiðslu kílómetragjalds frá álagningu gjaldsins. Að öðru leyti en kveðið er á um í frumvarpinu skuli lög um innheimtu opinberra gjalda gilda, þ.m.t. ákvæði laganna um skuldajöfnun.

Um 11. gr.

    Ríkisskattstjóri skal boða gjaldskyldan aðila, þ.e. eiganda eða umráðamann bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., í álestur á stöðu akstursmælis bifreiðar ef skráning á stöðu akstursmælis hefur ekki farið fram á almanaksárinu eða ef aðrar ástæður þykja vera fyrir hendi sem kalla á að bifreið fari í álestur á faggiltri skoðunarstofu samkvæmt mati ríkisskattstjóra. Slíkar ástæður geta til að mynda verið grunur um að akstursmælir sýni ekki rétta stöðu á kílómetrum eða út frá eftirliti á skattskilum gjaldskylds aðila og greiðslu og álagningu kílómetragjalds.

Um 12. gr.

    Í greininni kemur fram að gjaldskyldum aðila eða umboðsmanni hans sé ávallt heimilt að skila upplýsingum skriflega á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, þrátt fyrir meginreglu frumvarpsins um rafræn skil. Þá sé gjaldskyldum aðila eða umboðsmanni hans ávallt heimilt að óska eftir skráningu á stöðu akstursmælis gjaldskyldrar bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu í stað skráningar í gegnum miðlæga þjónustugátt stjórnvalda, með smáforriti eða í gegnum vefsetrið Ísland.is.

Um 13. gr.

    Í 1.–3. mgr. kemur m.a. fram sú grundvallarregla að við eigendaskipti eða breytta skráningu á umráðamanni vegna gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., skuli skrá stöðu akstursmælis á tilkynningu um eigandaskipti bifreiðar, samhliða skráningu eigendaskipta í ökutækjaskrá á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Kaupandi, þ.e. nýr eigandi eða eftir atvikum nýr umráðamaður, skal þá samþykkja stöðu akstursmælis á tilkynningu um eigendaskipti að bifreið sem send er til Samgöngustofu. Bæði seljandi og kaupandi samþykkja þannig skráða stöðu akstursmælis í tilkynningu og eigendaskipti sem send skal til Samgöngustofu. Ríkisskattstjóri leggur í kjölfarið kílómetragjald á seljanda eða fyrri umráðamann vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á auk yfirstandandi gjaldtímabils fram að skráningu í ökutækjaskrá.
    Fram kemur í 3. mgr. að ef tilkynning á eigendaskiptum eða breyting á umráðamanni hafi orðið á gjaldskyldri bifreið án þess að tilkynning um skráningu hjá Samgöngustofu hafi átt sér stað skuli miða uppgjör við stöðu akstursmælis við eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni. Ef sú staða liggur ekki fyrir skuli reikna meðalakstur á dag miðað við síðustu þekktu stöðu akstursmælis fyrir eigenda- eða umráðaskipti og fyrsta álestur eftir eigenda- eða umráðaskipti og leggja á kílómetragjald í samræmi við eignarhalds- eða umráðatíma hvors aðila fyrir sig.
    Þá segir í 4. mgr. að óheimilt sé að skrá eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni bifreiðar nema gjaldfallið kílómetragjald og eftir atvikum vanskráningargjald hafi áður verið greitt. Sambærileg regla er til staðar í lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Tilgangurinn er fyrst og fremst að tryggja innheimtu kílómetragjalds. Ef óskað er eftir skráningu á eigendaskiptum eða breyttri skráningu umráðamanns að bifreið og fyrir liggur, út frá upplýsingum frá gjaldskyldum aðila eða upplýsingum um vanskil hjá gjaldskyldum aðila sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa miðlað til Samgöngustofu, að kílómetragjald eða eftir atvikum vanskráningargjald er gjaldfallið, skal Samgöngustofa hafna skráningu. Skráning skal ekki framkvæmd fyrr en gjaldfallið kílómetragjald og eftir atvikum vanskráningargjald hefur verið greitt.

Um 14. gr.

    Við afskráningu bifreiðar skal skráning á stöðu akstursmælis eiga sér stað á tilkynningu um afskráningu til Samgöngustofu. Í kjölfar skráningar á stöðu akstursmælis ákvarðar ríkisskattstjóri kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra heilu liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á auk þess hluta yfirstandandi gjaldtímabils sem ekki hefur verið lagt á fram að afskráningardegi. Þá er gengið út frá því að ef ekki er hægt að lesa af akstursmæli, t.d. vegna bilunar eða af öðrum ástæðum, svo sem ef bifreið er týnd eða ónýt, skuli við útreikning á kílómetragjaldi taka mið af síðustu fyrirliggjandi upplýsingum um akstur gjaldskylds aðila en annars skuli miða álagningu við hlutfallslegan akstur samkvæmt viðmiði 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Það er grundvallaratriði að akstursmælir sé virkur í bifreiðum og mæli rétta stöðu á kílómetrum. Í greininni kemur fram að gjaldskyldur aðili beri ábyrgð á að akstursmælir bifreiðar telji rétt. Ef gjaldskyldur aðili verður þess áskynja að akstursmælir telji rangt skal hann tafarlaust tilkynna um slíka bilun mælis til Samgöngustofu. Ef þörf er á að taka akstursmæli úr bifreið til viðgerðar skal ávallt lesið af mælinum. Þá er það gert að skilyrði að tilkynna skuli til Samgöngustofu ef nýr akstursmælir er settur í ökutæki og skal þá jafnframt lesið af hinum nýja mæli. Frá þeim tíma er í ljós kemur að akstursmælir telur rangt skal ákvörðun um fyrirframgreiðslu og álagningu taka mið af hlutfallslegum akstri samkvæmt viðmiði 2. mgr. 9. gr.

Um 16. gr.

    Greinin fjallar um aðalskoðun en gjaldskyldur aðili skal færa sönnur á að greitt hafi verið gjaldfallið kílómetragjald við aðalskoðun bifreiðar, þó ekki fyrr en eftir eindaga. Að öðrum kosti skal faggilt skoðunarstofa neita um skoðun á bifreiðinni.

Um 17. gr.

    Greinin fjallar um upplýsingaskyldu til ríkisskattstjóra og Samgöngustofu.

Um 18. gr.

    Í greininni er fjallað um heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar kílómetragjalds komi í ljós verulegir annmarkar á forsendum álagningar kílómetragjalds eða ef ríkisskattstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi skráningu gjaldskylds aðila á akstursstöðu gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. Ríkisskattstjóri skal þá skora á gjaldskyldan aðila að láta í té skýringar og gögn um aksturinn. Til verulegra annmarka telst til að mynda verulegt frávik á stöðu akstursmælis, þ.e. 80% eða hærra hlutfall fráviks frá skráðum akstri gjaldskyldrar bifreiðar. Ef fullnægjandi gögn berast innan tiltekins frests ákvarðar ríkisskattstjóri eða endurákvarðar að fengnum skýringum og mótteknum gögnum. Að öðrum kosti ákvarðar eða endurákvarðar ríkisskattstjóri kílómetragjald skv. 4. mgr. 9. gr. Gera skal gjaldskyldum aðila viðvart um fyrirhugaða endurákvörðun. Talið er rétt að heimila ríkisskattstjóra að falla frá endurákvörðun nemi hún lægri fjárhæð en 10.000 kr. Um er að ræða hagræði í ljósi þess kostnaðar sem hlýst af málsmeðferð. Ríkisskattstjóri kveður upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum frests samkvæmt greininni og birtir hann gjaldskyldum aðila í samræmi við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda eða á annan sannanlegan hátt, svo sem með ábyrgðarbréfi eða almennri póstsendingu. Þá kemur fram að heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt frumvarpinu nái til síðustu sex ára á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Um 19. gr.

    Í greininni er fjallað um kæruheimildir. Heimilt er að kæra álagningu ríkisskattstjóra til embættisins innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar. Þá er heimilt að kæra úrskurð ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. og endurákvörðun skv. 18. gr. til yfirskattanefndar samkvæmt lögum um yfirskattanefnd.
    Þá er heimilt að kæra skráningu faggiltrar skoðunarstofu til Samgöngustofu innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar um skráningu. Samgöngustofa skal úrskurða um kæruna eins fljótt og auðið er en úrskurður skal þó ávallt liggja fyrir innan tveggja mánaða frá dagsetningu kæru. Ef skráningarskekkjur eru til staðar vegna skráningar á stöðu akstursmælis, til að mynda ef skráning er augljóslega mun hærri en áform stóðu til um vegna skráningar hjá gjaldskyldum aðila eða hjá faggiltri skoðunarstofu, er Samgöngustofu heimilt í samráði við gjaldskyldan aðila að leiðrétta slíkar skráningarskekkjur á stöðu akstursmælis eða samkvæmt beiðni hans þar um. Gjaldskyldur aðili skal ávallt bera sönnunarbyrði fyrir slíkum skráningarskekkjum ef ósk um breytingu á skráningu kemur frá gjaldskyldum aðila. Þá er lagt til að heimilt verði að kæra úrskurð Samgöngustofu skv. 4. mgr. til ráðherra sem fer með málefni Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um heimild aðila máls til kæru stjórnvaldsákvörðunar til æðra stjórnvalds.

Um 20. gr.

    Í greininni er að finna ítarlega umfjöllun um vanskráningargjald. Greiða skal sérstakt vanskráningargjald að fjárhæð 50 þús. kr. sem ríkisskattstjóri leggur á ef skráning á stöðu akstursmælis bifreiðar hefur ekki farið fram á almanaksárinu, eða ef boðun skv. 2. tölul. 11. gr. er ekki sinnt innan 15 daga. Gjaldið skal þó lækkað um 50% ef skráning af hálfu gjaldskylds aðila á sér stað á faggiltri skoðunarstofu innan 15 daga frá álagningu gjaldsins. Sambærileg heimild er nú til staðar í 74. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vegna skoðunar ökutækis. Þá kemur fram að fella megi niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis. Með óviðráðanlegum atvikum er fyrst og fremst átt við utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik sem gjaldskyldur aðili ber ekki ábyrgð á, til að mynda náttúruhamfarir og styrjaldir ( force majeure), þ.e. slík utanaðkomandi atvik sem aðili fær engu um ráðið. Þá getur ríkisskattstjóri óskað liðsinnis lögreglu vegna þeirra bifreiða þar sem staða akstursmælis er enn óskráð. Lögreglu er heimilt að fjarlægja skráningarmerki af bifreið að liðnum þremur mánuðum frá álagningu vanskráningargjalds. Vanskráningargjald nýtur lögveðs í viðkomandi bifreið og er heimilt að gera fjárnám til tryggingar greiðslu þess hjá gjaldskyldum aðila bifreiðar án undangengins dóms eða sáttar, sbr. ákvæði 21. gr. frumvarpsins. Lagt er til að hugtakið vanskráningargjald sé notað til aðgreiningar frá hugtakinu vanrækslugjald sem notað er yfir viðurlög sem þeir sæta sem færa ökutæki sín ekki til skoðunar innan tiltekins tíma.

Um 21. gr.

    Í greininni er fjallað um lögveð og fjárnám. Til að tryggja fjárkröfur ríkissjóðs kemur fram að kílómetragjald og vanskráningargjald, ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði, hvíli sem lögveð á hlutaðeigandi bifreið sem sé aðfararhæft og gangi fyrir öllum öðrum skuldbindingum og framar öllum öðrum veðböndum í tvö ár frá gjalddaga. Á grundvelli lögveðs má því krefjast nauðungarsölu á bifreið án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Þá er jafnframt heimilt að innheimta gjaldfallið kílómetragjald vegna hlutaðeigandi bifreiðar með fjárnámi hjá skráðum eiganda eða umráðamanni án undangengins dóms eða sáttar.

Um 22. gr.

    Í greininni kemur fram að kílómetragjald sem innheimt er samkvæmt frumvarpinu myndi ekki gjaldstofn til virðisaukaskatts. Kílómetragjald telst því ekki til skattverðs í skilningi 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga um virðisaukaskatt. Þá er sérstaklega tiltekið í ákvæðinu að lög um virðisaukaskatt skulu gilda eftir því sem við getur átt að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í frumvarpinu. Vegna tímabundins innflutnings bifreiða skulu tollalög gilda að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í frumvarpinu og eftir því sem við getur átt.

Um 23. gr.

    Í greininni er fjallað um reglugerðarheimild. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um skil á kílómetragjaldi hjá gjaldskyldum aðilum, skráningu á stöðu akstursmælis, áætlun á meðalakstri og fyrirframskráningu og álagningu og innheimtu.

Um 24. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Þó skulu ákvæði 3. tölul. 2. gr., 4. mgr. 3. gr. og 7. gr., þar sem fjallað er um tímabundinn innflutning á erlendum fólks- og sendibifreiðum hingað til lands, taka gildi 1. júlí 2024 vegna rafmagns- og vetnisbifreiða og 1. janúar 2025 vegna tengiltvinnbifreiða.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í bráðabirgðaákvæði I er fjallað um fyrstu skráningu aksturs eftir upphaf gjaldtöku. Þar kemur fram að fyrsta skráning skuli eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024. Að þessum tímamörkum liðnum kallar ríkisskattstjóri eftir skráningu. Ef skráning liggur þó ekki fyrir 30. janúar 2024 eru þær skyldur lagðar á gjaldskyldan aðila að mæta á faggilta skoðunarstofu og láta skrá stöðu akstursmælis. Við sama tímamark fellur á vanskráningargjald. Vanskráningargjaldið skal þó fellt niður ef aðili mætir í skráningu hjá faggiltri skoðunarstofu innan 20 daga. Þá má fella niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis eða ef gjaldskyldur aðili færir gildar ástæður fyrir því að skráning hafi ekki átt sér stað að mati ríkisskattstjóra. Með óviðráðanlegum atvikum er, líkt og fram kemur í skýringum við 8. gr., fyrst og fremst átt við utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik sem gjaldskyldur aðili ber ekki ábyrgð á, til að mynda náttúruhamfarir og styrjaldir ( force majeure), þ.e. slík utanaðkomandi atvik sem aðili fær engu um ráðið. Þá er ríkisskattstjóra einnig heimilt að fella niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis eða ef gjaldskyldur aðili færir gildar ástæður fyrir því að skráning hafi ekki átt sér stað. Ríkisskattstjóri metur það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í bráðabirgðaákvæði II er fjallað um áætlaðan meðalakstur fyrir fyrsta gjaldtímabil ársins 2024. Ríkisskattstjóri skal birta áætlun um meðalakstur bifreiðar á tólf mánaða tímabili í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fyrir 1. janúar 2024 samkvæmt fyrirframákveðnum kílómetrum skv. 2. mgr. 9. gr. og gefa gjaldskyldum aðila kost á að skrá inn nýja áætlun um akstur á tímabilinu. Áætlunin er lögð til grundvallar fyrirframgreiðslu á fyrsta gjaldtímabili og eftir atvikum annarra tímabila ef ekki eru gerðar breytingar á áætluninni. Ef skráning á kílómetrastöðu bifreiðar liggur ekki fyrir þann 30. janúar 2024 skal áætlun á fyrirframgreiðslu kílómetragjalds frá og með 1. febrúar 2024 þó að lágmarki miðuð við akstur á tólf mánaða tímabili skv. 4. mgr. 9. gr. Gjalddagi fyrirframgreiðslu kílómetragjalds vegna fyrsta gjaldtímabils er 1. janúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Sú staða getur komið upp að einungis sé til ein skráning aksturs á eignarhaldstíma bifreiðar hjá gjaldskyldum aðila. Vegna þess er nauðsynlegt vegna tímabilsins frá 1. janúar 2024 til fyrstu skráningar á stöðu akstursmælis að byggja á akstri út frá fyrstu þekktu skráningu gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis við útreikning á meðalakstri vegna álagningar gjaldsins.