Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 582 — 511. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026.


Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026.

1. Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu.
    Aðgengi og fjölbreytni íslenskunáms fullorðinna innflytjenda verði aukin með eflingu starfstengdrar íslenskufræðslu og talþjálfunar samhliða starfi. Áhersla verði lögð á starfstengdan orðaforða á einstaklingsmiðaðan og sveigjanlegan hátt. Fyrirtæki og stofnanir geti sótt um stuðning til að útfæra íslenskunám á vinnustað og jafnframt verði metið á hvaða starfssviðum brýnust þörf sé fyrir aukna íslenskukunnáttu. Samráð verði við aðila á vinnumarkaði og fræðsluaðila um sérstöðu úrræðisins, ávinning og fjármögnunarleiðir.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Aðilar á almennum og opinberum vinnumarkaði, svo sem félagasamtök fyrirtækja, stéttarfélög, hagsmunasamtök fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, fræðsluaðilar, stofnanir og starfsmenntasjóðir.

2. Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
    Byggt verði á nýjum gæðaúttektum á íslenskukennslu fyrir innflytjendur og fyrirkomulag náms og kennslu þróað svo það taki betur mið af væntingum nemenda og fjölbreyttum námsþörfum óháð búsetu. Gagnsærra og skilvirkara kerfi verði mótað þar sem gæðastarf fræðsluaðila verði m.a. tengt markvissar við fjármögnun. Hvatt verði til aukins samstarfs fræðsluaðila og skýrð afstaða til hæfni kennara sem kenna íslensku sem annað mál og hvort bæta þurfi starfsaðstæður þeirra.
    Tímaáætlun: 2023–2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila : Samstarfshópur um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfis og laga um framhaldsfræðslu, stýrihópur um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks, fræðsluaðilar, þ.m.t. Háskóli Íslands og aðrir háskólar sem bjóða upp á íslensku sem annað mál.

3. Virkjun Samevrópska tungumálarammans.
    Rafræn próf í íslensku, sem byggjast á Samevrópska tungumálarammanum, verði þróuð ásamt uppfærðri þrepaskiptri hæfnilýsingu í íslensku sem öðru máli sem leysi af hólmi núverandi námskrár um íslensku fyrir útlendinga. Innleiðing muni eiga sér stað að þróun lokinni. Virkjun tungumálarammans stuðli að auknu samræmi milli náms og kennslu í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum, innan framhaldsfræðslu og í sjálfsnámi og skýri kröfur til annarsmálshafa og fræðsluaðila.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila:
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Háskóli Íslands, Menntamálastofnun.

4. Fjarnám í íslensku á BA-stigi.
    Aðgengi að námi í íslensku á háskólastigi verði bætt með því að bjóða upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs. Nýlega var komið á samstarfi milli Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háskólann á Akureyri, sem sameiginlega munu bjóða upp á fjarnám, með það að markmiði að fjölga BA-nemum í íslensku.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.

5. Sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli.
    Innflytjendum standi til boða fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli. Námið verði þróað í samvinnu Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Háskólaseturs Vestfjarða og miðist að nemendum sem ekki hafa grunn í íslensku. Nemendum standi til boða staðlotur í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Háskólasetur Vestfjarða, Háskólinn á Akureyri.

6. Háskólabrú fyrir innflytjendur.
    Aðgengi að almennu háskólanámi fyrir innflytjendur verði bætt með þróun nýrrar námsleiðar fyrir nemendur sem hafa grunn í íslensku máli en þurfa stuðning til þess að sækja frekara háskólanám á íslensku. Markmiðið verði að auðvelda innflytjendum að aðlagast samfélagslegri og akademískri menningu, auka aðgengi að háskólamenntun og fjölga atvinnutækifærum að námi loknu.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst.

7. Viðhorf til íslensku.
    Aflað verði reglubundinna upplýsinga um viðhorf landsmanna til íslenskrar tungu til að meta árangur og þörf fyrir frekari þróun aðgerða í þágu tungumálsins. Enn fremur verði gerðar reglulegar viðhorfskannanir um málefni íslenskrar tungu meðal kennara og annars fagfólks í skólastarfi. Niðurstöðum verði miðlað í skýrslum ráðherranefndar um málefni íslensku.
    Tímaáætlun: 2023–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Íslensk málnefnd, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands.

8. Mikilvægi lista og menningar.
    Mikilvægi íslenskunnar verði ávallt haldið á lofti í samhengi listsköpunar og miðlunar menningar, ekki síst fyrir börn og ungmenni og þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Leitast verði við að skapa skilyrði fyrir fólk á öllum aldri og hvar sem það stendur í máltileinkun til að skapa og miðla list sinni á íslensku og njóta lista og menningar.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fagfélög og félagasamtök á sviðum menningar og skapandi greina, kynningarmiðstöðvar, menningarstofnanir, Listaháskóli Íslands, sveitarfélög.

9. Aukin talsetning og textun á íslensku.
    Greining verði gerð á umfangi og möguleikum fyrir aukna talsetningu og textun myndefnis á íslensku, með áherslu á börn og ungmenni og heyrnar- og sjónskerta, með það fyrir augum að setja á laggirnar sjóð sem styrki talsetningu og textun, svo sem á vegum framleiðenda, fjölmiðlaveitna og kvikmyndahúsa. Þá verði fræðsla um mikilvægi móðurmála fyrir málþroska og máltöku barna og ungmenna aukin fyrir foreldra og fagfólk í skólastarfi.
    Tímaáætlun: 2025–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, fjölmiðlanefnd, Ríkisútvarpið,
Samstarf um íslenska máltækni (SÍM), Heimili og skóli – landssamtök foreldra .

10. Íslenskugátt.
    Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þrói og viðhaldi upplýsingagátt með aðgengi að orðabókum og aðgengilegum máltæknilausnum. Gáttin miði sérstaklega að notkun yngri málnotenda og/eða málnotenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
    Tímaáætlun: 2023–2026.
    Ábyrgð: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Menntamálastofnun, Mennta-vísindasvið Háskóla Íslands.

11. Öflug skólasöfn.
    Kortlagning verði á safnkosti og starfsemi skólasafna með hliðsjón af markmiðum laga um grunnskóla og laga um framhaldsskóla. Í kjölfarið verði sett viðmið um gæði og starf safnanna til að efla þjónustu við fjölbreyttan nemendahóp.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, rekstraraðilar skóla, Menntamálastofnun, Landskerfi bókasafna, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag fagfólks á skólasöfnum, bókasafnaráð.

12. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn.
    Þróaðir verði innviðir fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig sem bæti aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum á íslensku og stuðli að hraðari þróun þess og uppfærslum.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun.

13. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu.
    Mótað verði samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn þar sem sérstök áhersla verði lögð á íslensku sem annað mál. Lögð verði áhersla á íslenskukennslu við hæfi, viðeigandi stuðning í námi og inngildingu í íslenskt samfélag sem allra fyrst eftir komu til landsins. Verklagið verði innleitt þvert á skólastig og þjónustukerfi.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun og önnur ráðuneyti, svo sem menningar- og viðskiptaráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Kennarasamband Íslands, Ísbrú – félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál.

14. Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi.
    Mótuð verði viðmið um íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum. Hæfniviðmið byggist á markmiðum laga um leikskóla, laga um grunnskóla og aðalnámskrám viðkomandi skólastiga og taki mið af hæfniþrepi B samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum. Jafnframt verði framboð á námskeiðum í íslensku fyrir þennan hóp aukið.
    Tímaáætlun: 2024 2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti,
Kennarasamband Íslands, fræðsluaðilar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Móðurmál – samtök um tvítyngi og fjöltyngi.

15. Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum starfsfólks í heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinum.
    Tekist verði á við áskoranir í velferðar- og heilbrigðisþjónustu þar sem stór hluti starfsmanna er með annað móðurmál en íslensku. Fagtengd grunnnámskeið, sem í boði eru fyrir erlenda starfsmenn sem vinna með öldruðum, sjúkum eða fötluðu fólki á sjúkrastofnunum, dvalarheimilum og/eða í heimahúsum, verði endurskipulögð. Unnið verði tilraunaverkefni þar sem kennt verði á tveimur tungumálum. Jafnframt verði þróaður jafningjastuðningur.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fræðsluaðilar og Samband íslenskra sveitarfélaga.

16. Framtíð máltækni.
    Unnið verði að mótun nýrrar máltækniáætlunar sem miðli forgangsröðun stjórnvalda um áframhaldandi þróun, viðhald og innleiðingu máltæknilausna. Áhersla í máltækniverkefnum til ársins 2026 verði m.a. á lausnir og verkefni sem nýtast almenningi.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samstarf um íslenska máltækni (SÍM), Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, háskólar og atvinnulíf.

17. Íslenska handa öllum.
    Lögð verði áhersla á að innflytjendur öðlist grunnfæri í íslensku og þróaðir hvatar sem stuðla að því. Grunnfærni verði skilgreind og kortlagt með hliðsjón af norrænum fyrirmyndum hvernig tryggja megi að ákveðnir hópar innflytjenda sæki nám í íslensku og nái árangri í náminu. Markmiðið verði að koma í veg fyrir jaðarsetningu, stuðla markvisst að inngildingu og treysta stöðu íslenskrar tungu til framtíðar.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og innviðaráðuneyti ásamt samstarfsstofnunum þeirra.

18. Íslenska er sjálfsagt mál.
    Stuðlað verði að auknum sýni- og heyranleika íslensku í almannarými í breiðri samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda. Kallað verði eftir samráði og aðgerðum, m.a. frá félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum.
    Tímaáætlun: 2024 2026.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Íslensk málnefnd, Samtök atvinnulífsins, Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samband íslenskra sveitarfélaga, almannaheillafélög.

19. Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.
    Hæfnikröfur þeirra sem kenna fullorðnum innflytjendum íslensku sem annað mál verði endurskoðaðar og stuðlað að aukinni starfsþróun með hliðsjón af innleiðingu Samevrópska tungumálarammans og niðurstöðum gæðaúttekta. Leitað verði leiða til að fjölga kennurum með fagþekkingu í kennslu íslensku sem annars máls fyrir fullorðna, bæta námsframboð á því sviði og auka miðlæga ráðgjöf.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Ísbrú – félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál, Símennt, fræðsluaðilar, Kennarasamband Íslands, Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Greinargerð.

Inngangur.
    Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, sem byggjast á íslenskri málstefnu sem samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi vorið 2009. Lögin heyra undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðherra en málefni íslenskrar tungu snerta starf allra ráðuneyta beint eða óbeint.
    Jákvætt viðhorf til tungumálsins er kjarni íslenskrar málstefnu og felur í sér viljann til þess að varðveita tungumálið en um leið að íslenska sé löguð meðvitað og skipulega að nýjum aðstæðum.
    Fjallað er um mikilvægi stuðnings við íslenska tungu í stjórnarsáttmála. Þar er lögð áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Íslenskan sé dýrmæt auðlind sem eigi að vera skapandi og frjór hluti af umhverfinu. Tekið er sérstaklega fram að huga þurfi að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
    Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands eru hvorki ákvæði um íslenska tungu né um íslenskt táknmál. Í frumvarpi til stjórnskipunarlaga sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram á 151. löggjafarþingi (466. mál, þskj. 787) var að finna ákvæði í þessa veru. Frumvarpinu var ætlað að breyta stjórnarskránni að þessu leyti en náði ekki fram að ganga. Fjalla átti um íslenska tungu og táknmál í sérstakri grein stjórnarskrárinnar og hefði greinin hljóðað svo að samþykktu frumvarpinu (81. gr.):
    „Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.
    Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda.“
    Í greinargerð með frumvarpinu var tekið fram að markmið ákvæðisins væri að styrkja stöðu íslensks máls, undirstrika mikilvægi þess og veita stoð þeim aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að efla og varðveita íslenska tungu og íslenskt táknmál. Tilefni og nauðsyn lagasetningar um íslenska tungu er rakin ítarlega í greinargerð með áðurnefndu frumvarpi.
    Ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar í nóvember 2022, að tillögu forsætisráðherra. Henni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni.
    Hlutverk Íslenskrar málnefndar er m.a. að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu. Endurskoðun málstefnunnar fór fram á vettvangi málnefndarinnar árin 2020–2021 og var hún birt á vef nefndarinnar í september 2021. Í þingsályktunartillögu þessari eru forgangsverkefni stjórnvalda skilgreind með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu.
    Aðgerðaáætlunin hefur tengsl við mörg áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.
    Auk þessarar þingsályktunartillögu verður einnig lögð fram þingsályktunartillaga um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun með henni. Málstefnan inniheldur fimm meginstoðir: jákvætt viðhorf, að íslenskt táknmál sé mikilvægt í máltöku táknmálsbarna, rannsóknir á táknmáli skipta sköpum fyrir varðveislu menningarverðmæta, jöfn þátttaka táknmálstalandi í íslensku þjóðlífi fæst með fjölgun umdæma táknmálsins og að tryggja þurfi stöðu og varðveislu táknmálsins.
    Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda frá 6. júní til 10. júlí 2023 (mál nr. S- 107/2023). Alls bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari vinnslu hennar, auk þess sem margir umsagnaraðilar lýstu ánægju yfir því að aðgerðaáætlun væri mótuð fyrir þetta málefni. Í umsögnum var m.a. kallað eftir upplýsingum um fjárveitingar til einstakra aðgerða, sem ekki lágu fyrir við birtingu tillögunnar í samráðsgátt, ábendingar bárust um mögulega samstarfsaðila sem bætt var við, sem og nýir verkþætti sem horft var til og leitast við að finna stað. Þá var bætt við nýrri aðgerð í ljósi umsagna um mikilvægi starfsþróunar og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál, sjá aðgerð 19. Nánari umfjöllun um umsagnir og úrvinnslu þeirra er að finna í niðurstöðuskjali málsins í samráðsgátt.

Um einstakar aðgerðir.

Um 1. aðgerð.

    Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á samfélagsþátttöku fólks af erlendum uppruna og mikilvægi þess að þau sem hér búi og starfi fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu. Þar er tungumálið lykilbreyta. Í skýrslu sem Rambøll Management Consulting vann fyrir norska menntamálaráðuneytið árið 2021, sem hluta af formennskuverkefni í norrænu samstarfi, kemur fram að meginhindranir fyrir þátttöku á tungumálanámskeiðunum á Norðurlöndum séu m.a. að námskeið séu almennt ekki nógu hagnýt, mæti illa einstaklingsbundnum þörfum og tækniþekkingu, skortur sé á upplýsingum um framboð náms, aðgengi að og áreiðanleika stöðuprófa og námskeiðum utan helstu þéttbýlisstaða. Þá séu há námskeiðsgjöld hindrun sem og að sækja tungumálanámskeið að loknum vinnudegi. Hérlendis hefur verið kallað eftir fjölbreyttari leiðum til að læra íslensku sem annað mál, hagnýtari talþjálfun og kennslu sem fer fram á vinnutíma og samhliða starfi. Einnig hefur verið kallað eftir fleiri tækifærum til að æfa talmál og komast þannig betur inn í íslenskt málsamfélag. Vinnustaðir eru mikilvægur vettvangur náms og standa margs konar starfsþróunarmöguleikar starfsfólki til boða, m.a. í gegnum samstarf stjórnvalda við aðila á opinberum og almennum vinnumarkaði og í gegnum kjarasamninga.
    Margir vinnustaðir eru í kjörstöðu til að efla hæfni og grunnleikni starfsmanna sinna, m.a. í gegnum símenntunar- og starfsþróunaráætlanir, og hefur ákveðin reynsla skapast á þessu sviði í samvinnu fyrirtækja og stofnana við símenntunarmiðstöðvar, skóla og fræðslufyrirtæki. Markmið aðgerðarinnar er að bæta aðgengi að og auka fjölbreytni íslenskunáms fullorðinna með aukinni starfstengdri íslenskufræðslu og talþjálfun með því að styðja markvissar við hagnýta notkun tungumálsins í starfi. Aðgerðin verður þróuð með aðilum vinnumarkaða bæði félögum fyrirtækja og stéttarfélaga, fræðsluaðilum, þ.m.t. háskólum og innflytjendum, þar sem horft verður til fyrirmynda annars staðar á Norðurlöndunum. Samhliða því að veita fjármagn í fræðsluna verða fyrirtæki hvött til undirbúningsvinnu, mótun jafningjastuðnings og gerð starfstengdra orðalista. Einnig er ráðgert að meta á hvaða starfssviðum sé brýnust þörf fyrir aukna íslenskukunnáttu í þágu starfsfólks með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn og viðskiptavina og þau verkefni sett í forgang.

Um 2. aðgerð.

    Tryggja þarf gæði náms sem stjórnvöld styrkja og því eru gæðakerfi og gæðamat innbyggð í námsþjónustu allra skólastiga, m.a. í gegnum lög og reglugerðir. Vegna mikillar fjölgunar innflytjenda og flóttafólks til Íslands undanfarin ár þarf að endurskoða íslenskukennslu fyrir fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku sem fer fram utan formlega skólakerfisins. Fræðsluaðilar sem sjá um íslenskukennsluna þurfa að hafa viðurkenningu samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, til að fá styrk frá stjórnvöldum og í þeirri viðurkenningu er gerð krafa um tilvist gæðakerfis og innra mats til reglulegra umbóta í fræðslustarfseminni.
    Sérstaklega er mikilvægt að hlusta eftir röddum innflytjenda sem sækja íslenskunámskeiðin þannig að íslenskan verði þeim töm og að þau geti talað íslensku. Í megindlegri rannsókn Háskólans á Akureyri 2018 2019 um viðhorf innflytjenda til íslenskunámsins greindist talsverð óánægja með námskeiðin. Safna þarf gögnum um ástæður þess og meta hvernig gæðakerfi fræðsluaðila nýtist til að nema þær raddir.
    Rannsóknarstofnunum á háskólastigi hefur verið falið að gera úttektir á gæðakerfum og framkvæmd þjónustukannana sem fræðsluaðilar utan formlega skólakerfisins leggja fyrir og taka saman rannsóknarniðurstöður, dæmi og fyrirmyndir erlendis frá sem geta byggt undir faglega ákvarðanatöku um þróun íslenskukennslunnar. Markmið úttektanna er að meta stöðu gæðakerfa hjá viðurkenndum fræðsluaðilum sem hafa með höndum íslenskukennslu fyrir innflytjendur og greina tækifæri til umbóta. Skoðað verði hvernig niðurstöður gæðamats hafa bætt gæði námskeiðanna, hver farvegur sjálfsmats fræðsluaðila sé og hvers konar gæðakerfi gæti hentað eða mætti þróa til að árangur af kennslu verði betur tengdur við fjármögnun. Þar má horfa til staðla, fyrirkomulags eða krafna sem gerðar eru annast staðar á Norðurlöndum, m.a. sem varða hvaða hæfnikröfur má gera til kennara og leiðbeinenda sem kenna innflytjendum íslensku og hvað í ytra umhverfi styðji við bætt gæðastarf, svo sem breytt stuðningsþjónusta, aðkoma stjórnvalda, betri námsgögn eða aukið rafrænt aðgengi. Aðgerð þessi verði tengd við heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

Um 3. aðgerð.

    Samevrópski tungumálaramminn (e. Common European Framework of Reference for Languages) lýsir samskiptafærni nemenda í tungumálum á sex stigum fyrir fimm færniþætti (lestur, hlustun, samskipti, talmál og ritun). Ramminn er nýttur sem grunnur að námskrám, námsefni og námsmati í tungumálakennslu víða um heim og hefur verið innleiddur hérlendis að hluta. Aðgerðin felur í sér að valdir hlutar Samevrópska tungumálarammans verði þýddir á íslensku og prófabanki þróaður með hliðsjón af honum. Hagnýting mál- og gervigreindartækni mun flýta ferlinu töluvert, ekki síst stöðlun og úrvinnslu prófanna. Prófabankinn muni nýtast öllum haghöfum: nemendum, fræðsluaðilum innan skólakerfisins og aðilum á opinberum og almennum vinnumarkaði.
    Samtímis verði unnið að þrepaskiptri hæfnilýsingu í íslensku sem öðru máli sem verði ígildi námskráa fullorðins- eða framhaldsfræðslu meðan á innleiðingu prófanna stendur. Fjárveitingar til íslenskukennslu sem annars máls og stuðningur við þróun slíks námsefnis taki einnig mið af virkjun Samevrópska tungumálarammans. Ráðgert er að fyrstu prófin verði tilbúin til notkunar í byrjun árs 2024 en próf fyrir færnistig A1, A2, B1, B2, C1 og C2 í tungumálarammanum verði tilbúin í lok árs 2025. Virkjun Samevrópska tungumálarammans samræmi nám og kennslu í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum, innan framhaldsfræðslu og fyrir sjálfsnám nemenda, og skýri kröfur til annarsmálshafa og fræðsluaðila. Innleiðingin mun kalla á endurskoðun á ýmsu verklagi, opna möguleika á skýrari forkröfum vegna hæfni á vinnumarkaði og skýra réttindi borgara sem hafa annað móðurmál en íslensku innan ákveðinna atvinnugreina. Aðgerðin tengist áherslum í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025 og fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnu 2030.

Um 4. aðgerð.

    Nemendum í íslensku á háskólastigi hefur almennt fækkað og hefur aðsókn í námið verið sveiflukennd eftir árum. Skráðum nemendum í grunnnám í íslensku og skyldum greinum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands fækkaði um 40% milli áranna 2011 og 2022.
    Unnið hefur verið að eflingu fjarnáms við íslenska háskóla með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta enda er öflugt fjarnám ein tryggasta leiðin til að jafna aðgengi mismunandi hópa að háskólanámi.

Um 5. aðgerð.

    Aðgengi að íslenskukennslu fyrir innflytjendur sem hafa ekki grunn í íslensku er takmarkað og ójafnt, hvort sem litið er til búsetu eða félagslegrar stöðu. Í þessari aðgerð verður gert átak í að bjóða upp á vandað fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli á háskólastigi til ECTS-eininga við Háskóla Íslands. Þróað verður kennsluefni sem hentar umhverfi fjarnáms, m.a. með máltæknilausnum og innlimun kennsluforritsins Icelandic Online. Nám í íslensku fyrir innflytjendur verður sjálfbært og rekið samkvæmt hefðbundnu rekstrarumhverfi náms á háskólastigi, þeir aðilar sem að samstarfinu koma undir merkjum Íslensku- og máltæknikjarna bera ábyrgð á að þróa og halda við náminu.

Um 6. aðgerð.

    Háskólanám í íslensku sem öðru máli hefur verið eflt á síðustu árum og er nú fjölmennasta námsgreinin sem kennd er við Háskóla Íslands. Ráðgert er að ný 60 ECTS-eininga námsleið verði sett á laggirnar í samstarfi Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands frá og með hausti 2024. Kjarni námsleiðarinnar er nám í íslensku sem öðru máli en nemendur geta einnig tekið námskeið í öðrum fögum við Háskólann á Akureyri. Grunnnám við íslenska háskóla fer að jafnaði fram á íslensku og krefst umtalsverðar færni í íslensku máli. Markhópur námsins er því fólk sem hefur náð grunnfærni í íslensku en þarf aukinn stuðning til þess að vera kleift að sækja annað háskólanám hér á landi. Fyrirmyndir að námsleiðinni er að finna í Þýskalandi, Sviss og Austurríki. Markmið námsins er að auðvelda innflytjendum og flóttafólki að aðlagast íslensku háskólakerfi, auka aðgengi þeirra að háskólamenntun og atvinnutækifæri að námi loknu. Námsleiðinni er ætlað að takast á við ákveðnar áskoranir sem mæta innflytjendum hér á landi og sem rannsóknir við Háskólann á Akureyri hafa varpað ljósi á. Námstækifæri í íslensku máli eru fá, sérstaklega á landsbyggðinni, og almennt eru tækifæri til háskólanáms og til viðeigandi starfa af skornum skammti fyrir fólk með innflytjendabakgrunn og hallar frekar á konur í því tilliti. Því er mikilvægt að háskólabrúin sé skipulögð sem fjarnám og nái til fjölmennari hóps með búsetu víðs vegar um landið.

Um 7. aðgerð.

    Jákvætt viðhorf til íslenskunnar er kjarni íslenskrar málstefnu og lykill að árangri aðgerða sem miða að verndun og þróun tungumálsins. Eins og fræðimenn og fulltrúar í Íslenskri málnefnd hafa ítrekað bent á skiptir viðhorf málnotenda sköpun við þróun og afdrif tungumála, ekki síst í nánu sambýli tveggja eða fleiri mála. Íslenska á við bæði ímyndar- og umdæmisvanda að etja á mörgum sviðum samfélagsins, sem brýnt er að meta og bregðast við. Markmið aðgerðarinnar er að koma á reglubundnum viðhorfskönnunum um málefni íslenskrar tungu svo að meta megi árangur aðgerða stjórnvalda og þörf fyrir frekari þróun þeirra. Sérstaklega verða könnuð viðhorf ungmenna til íslenskrar tungu og viðhorf kennara og annars fagfólks í skólastarfi sem eru lykilaðilar þess verkefnis að efla íslenska tungu til framtíðar. Niðurstöðum viðhorfskannana verði miðlað í skýrslum ráðherranefndar um málefni íslenskunnar, eftir atvikum til Alþingis, sem unnar verði í samráði m.a. við Íslenska málnefnd.

Um 8. aðgerð.

    Íslensk tunga er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar. Því er brýnt að mikilvægi hennar sé ávallt haldið á lofti í samhengi við listsköpun og menningarstarfsemi, ekki síst þegar kemur að börnum og ungmennum. Framtíð íslenskunnar og íslenskra lista og menningar haldast að mörgu leyti í hendur, tjáning á móðurmáli er grundvöllur þess að skapandi hugsun sé komið á framfæri og tungumálið er beinn miðlunarvettvangur ýmissa listgreina. Í gildandi menningarstefnu kemur fram að íslensk tunga sé ríkur þáttur í sjálfsmynd landsmanna og hana beri að efla á sem flestum sviðum samfélagsins í samræmi við íslenska málstefnu. Annað leiðarljós í menningarstefnunni er mikilvægi aðgengis að menningarstarfi og vitund, rannsóknir og miðlun á íslenskum menningararfi. Leitast þarf við að skapa réttu skilyrðin svo að sjálfsagt mál sé fyrir fólk á öllum aldri að skapa og miðla list sinni á íslensku, efla þýðingar-starf og stuðla að því að sjálfsagt sé að fólk njóti lista og menningar á íslensku.
    Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun fyrir listgreinar þar sem m.a. er lögð áhersla á starfs- og stuðningsumhverfi greinanna og samfélagslegt mikilvægi þeirra. Fyrir liggja stefnur og aðgerðaáætlanir í málefnum kvikmynda, myndlistar, tónlistar og hönnunar og arkitektúrs og eru stefnur fyrir bókmenntir, sviðslistir og fjölmiðla í vinnslu. Í nýsamþykktri aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028 er mikilvægi menningarlæsis, menningarþátttöku og miðlunar menningararfs fyrir börn og ungmenni áréttað. Aðgerðunum er ætlað að stuðla að virkri þátttöku barna og ungmenna í menningar- og listalífi og efla listfræðslu og fjölbreytni í skólastarfi, hvort sem þau hafa íslensku að móðurmáli eða ekki. Lögð er áhersla á að opinberar menningarstofnanir, listhópar og félagasamtök stofni til samstarfs og eigi samskipti við skóla eftir fremsta megni. Með þeim hætti er undirstrikað að skólar gegna víðtæku hlutverki í menningarlífi landsmanna, ekki síst í tengslum við listfræðslu, að miðla menningararfi og efla menningarlæsi barna og ungmenna. Aðgerðunum er aukinheldur ætlað að endurspegla fjölbreytileika mannlífsins og þá alþjóðlegu menningu sem býr í íslensku samfélagi.


Um 9. aðgerð.

    Tæknibyltingar og samfélagsbreytingar undanfarinna áratuga hafa stóraukið enskunotkun og enskt máláreiti í íslensku samfélagi. Mikilvægi máláreitis – þess tals sem börn heyra og vinna úr á máltökuskeiði – og málörvunar fyrir málþroska barna og ungmenna er óumdeilanlegt. Aukin enskunotkun í málumhverfi barna á máltökuskeiði er líkleg til að valda breytingum á bæði formi íslenskunnar og notkun hennar og því þarf að huga vel að málumhverfi barna og ungmenna til að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Efla þarf fræðslu um mikilvægi málörvunar og málþroska gagnvart foreldrum og fagfólki í skólastarfi og auka almennt aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttu stafrænu efni á íslensku. Íslensk talsetning og textun eykur aðgengi og skilning á erlendu efni og getur stutt börn, ungmenni og annarsmálshafa við að tileinka sér íslensku. Að sama skapi getur talsetning og textun efnis nýst sjón- og heyrnarskertum. Íslenskir fjölmiðlar, sem texta og talsetja efni á íslensku, hafa bent á að ákvæði laga um fjölmiðla um vernd íslenskrar tungu séu íþyngjandi vegna kostnaðar sem af því hlýst. Gerð verður greining á umfangi og möguleikum fyrir aukna talsetningu og textun með það fyrir augum að koma á fót talsetningar- og textasjóði. Sjóður gæti komið til móts við þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðlaveitna um talsetningu og textun með áherslu á efni fyrir börn og ungmenni og heyrnar- og sjónskerta. Aðgerðin tengist mótun fjölmiðlastefnu til ársins 2030.

Um 10. aðgerð.

    Aðgengi að upplýsingum um íslenskt mál fyrir unga málnotendur verður bætt með þróun upplýsingavefs sem leiðir að fjölbreyttum lausnum, m.a. á sviði máltækni. Vefurinn nýtist nemendum á unglingastigi grunnskóla, framhaldsskólanemum og þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur þegar úti vefnum Málið.is þar sem aðgangur er að um 20 orðabókum, gagnasöfnum, íðorðabanka, beygingarlýsingu o.fl. Málið.is er mikilvægur vefur sem ætlaður er öllum sem vilja treysta málnotkun sína í ræðu og riti og fræðast um íslenskt mál. Markhópur gáttarinnar er yngri málnotendur og fullorðnir sem eru að hefja íslenskunám en gáttin mun einnig nýtast almenningi. Markmið gáttarinnar er að vera leiðbeinandi fremur en lýsandi og framsetning hennar einföld og notendavæn. Aðgerð þessi mun styðja beint og óbeint við aðrar aðgerðir áætlunarinnar.

Um 11. aðgerð.

    Þörf er á að kortleggja með hvaða hætti skólasöfn mæta þörfum nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi með tilliti til laga og markmiða aðalnámskráa skólastiganna. Með kortlagningunni verður sérstaklega horft til þess hvernig skólasöfnin ná að veita nemendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn þjónustu. Mikilvægt er að safnkostur safnanna endurspegli þarfir nemenda og stuðli að fjölbreyttum tækifærum þeirra til að ná þeirri hæfni sem aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla kveða á um. Áhersla verður á efni á íslensku sem hentar fjölbreyttum nemendahópi sem er að læra íslensku sem annað mál. Aðgerðin styður við 6. aðgerð í fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnu 2030 sem fjallar um gagnrýna hugsun, sköpun og skilning. Góð hæfni í lestri og ritun er mikilvæg forsenda annars læsis og styður við gagnrýna hugsun, sköpun og skilning. Einn þáttur í því að efla læsi er að efla faglegt starf skólasafna.

Um 12. aðgerð.

    Aðgerðinni er ætlað að mæta ákalli skólasamfélags, útgefenda námsgagna og Menntamálastofnunar um að til verði ein miðlæg vefgátt fyrir rafræn námsgögn fyrir nemendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigum. Framsetning og miðlun námsgagna á íslensku tekur örum breytingum sem og samsetning nemendahópa á öllum skólastigum. Með þróun sameiginlegrar vefgáttar fyrir stafræn námsgögn má bæta yfirsýn og aðgengi að náms- og kennsluefni á íslensku og hvetja þannig til frekari útgáfu og auðvelda nauðsynlegar uppfærslur, m.a. með tilliti til námsorðaforða. Aðgerðin styður við menntastefnu 2030 þar sem lögð er áhersla á framboð fjölbreyttra námsgagna sem taka mið af möguleikum stafrænnar miðlunar, svo sem efni fyrir íslensku sem annað tungumál sem hentar fjölbreyttum nemendahópi. Þá styður aðgerðin einnig við markmið um aukna nýsköpun í námsgagnagerð og aukið framboð námsefnis, ekki síst á íslensku, í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Aðgerðin kemur til með að styrkja enn markvissari miðlun og nýtingu á því námsefni sem Þróunarsjóður námsgagna styrkir. Unnið verður í samráði við ýmsa hagaðila sem koma að útgáfu námsgagna.

Um 13. aðgerð.

    Börnum á grunnskólaaldri með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn hefur fjölgað mjög hratt á undanförnum árum og eru þau nú um 14% nemenda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Mynd: Hlutfall nemenda með erlend móðurmál og erlent ríkisfang 2006–2022, Hagstofa Íslands.

    Unnið er að aðgerðaáætlun um samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu, fyrir ríki og sveitarfélög, þvert á skólastig og þjónustukerfi. Þar verður áhersla lögð á að börn og ungmenni fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi sem allra fyrst eftir komu til landsins og svo lengi sem þörf er á. Þetta verði lykilþáttur í áætlunum vegna móttöku þeirra í skólum.
    Skólasamfélagið er kjörinn vettvangur inngildingar, stuðnings og menntunar fyrir nýkomnar fjölskyldur og börn. Í inngildingu felst að allir fái notið sín, óháð uppruna, kyni, hæfni eða fötlun, í skóla, á vinnumarkaði eða á öðrum vettvangi, og séu viðurkenndir sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu.
    Mikilvægt er að horfa heildrænt til þarfa barna og ungmenna þvert á þjónustukerfi. Aðgerðaáætlunin ásamt kostnaðargreiningu verður unnin undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytis en í ríku samráði við viðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög, kennara og annað starfsfólk skóla, foreldra og börn. Jafnframt verður lögð áhersla á miðlun og gerð námsgagna á íslensku og þróun stöðumats fyrir börn og ungmenni með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn auk stuðnings við kennara og skóla vegna kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Um 14. aðgerð.

    Megintungumál í kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi er íslenska. Starfsfólki með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn hefur fjölgað á íslenskum vinnumarkaði. Samkvæmt Talis (e. Teaching and Learning International Survey) 2018 var rúmlega 13% starfsfólks í leikskólum ekki með íslensku að móðurmáli. Brýnt er að starfsfólkið búi yfir nauðsynlegri hæfni í íslensku til að eiga í samskiptum við nemendur og annað starfsfólk skóla, leiðbeina nemendum í námi og geta tekið þátt í að skapa lærdómsumhverfi sem stuðlar að aukinni hæfni í íslensku. Viðmið hafa nýlega verið sett fyrir íslenskuhæfni kennara og skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum með reglugerð nr. 1355/2022. Nauðsynlegt er að móta viðmið um þekkingu og hæfni í íslensku fyrir starfsfólk með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn sem hvorki hefur íslensku að móðurmáli né leyfisbréf til kennslu. Slík hæfniviðmið þurfa að byggjast á markmiðum laga um leikskóla, laga um grunnskóla, aðalnámskrám viðkomandi skólastiga og þrepaskiptri hæfnilýsingu Samevrópska tungumálarammans. Jafnframt þarf að auka námsframboð í íslensku fyrir fyrrgreindan hóp en góð reynsla hefur m.a. fengist af námsleiðunum Íslenskubrú, Íslenskuþorpinu og námskeiðum á vegum Menntafléttu. Lærdómur af þessari aðgerð getur einnig nýst við að efla íslenskuþekkingu starfsfólks með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn í framhaldsskólum.

Um 15. aðgerð.

    Starfsgreinaráð heilbrigðis-, félags-, og uppeldisgreina hefur bent á að gera þurfi gangskör að því að bæta fagtengd grunnnámskeið starfsmanna á þeim sviðum og nýta m.a. móðurmál þátttakenda til að kenna íslensku. Að tala íslensku við skjólstæðinga sem ýmist búa á hjúkrunarheimilum eða dvelja á sjúkrahúsum dregur úr hættu á misskilningi og eflir öryggismenningu. Endurskoða þarf fagtengd grunnnámskeið sem erlendu starfsfólki í heilbrigðis- og velferðarþjónustu standa til boða, skýra stíganda í námi og starfsþróunarleiðir og efla íslenskustuðning með því að samþætta hann móðurmáli starfsmanna. Hér gæti verið um að ræða móðurmál eins og pólsku, tælensku, filippseysku eða ensku ef það er talið henta betur. Í heimsfaraldri bar á því að erlent starfsfólk veigraði sér við að sækja námskeið þar sem þau töldu sig ekki hafa næga íslenskukunnáttu. Slík afstaða dregur mjög úr möguleikum til virkni. Fara þarf í samstarf við atvinnurekendur, launagreiðendur, fagfélög og stéttarfélög til að ákveða fyrirkomulag, samstarfsleiðir, umbun og þróun verkfæra til að styðja við bætta íslenskukunnáttu. Markmið aðgerðarinnar er að ná betur til erlends starfsfólks með breyttu fyrirkomulagi fagtengdra grunnnámskeiða með tungumálastuðningi og auka þannig möguleika þeirra til virkrar starfsþróunar og áframhaldandi náms.

Um 16. aðgerð.

    Á verktíma áætlunarinnar máltækni fyrir íslensku 2018 2022 hafa byggst upp góðir máltækniinnviðir á Íslandi sem koma þarf til almennings í formi notendalausna. Stýrihópur skipaður af ráðherra gerir tillögur að næstu skrefum í íslenskri máltækni með þarfir almennings og atvinnulífs í huga. Hópurinn mun meta þörf á viðhaldi og áframhaldandi þróun innviða og forgangsraða þeim notendalausnum sem mest er þörf fyrir á næstu árum með hliðsjón af tillögum og sjónarmiðum frá atvinnulífi, háskólasamfélagi, stjórnsýslu og hagsmunasamtökum .

Um 17. aðgerð.

    Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað ört undanfarin ár. Árið 2022 voru innflytjendur um 61 þúsund talsins, eða 16,3% mannfjöldans en hlutfallið var 8% árið 2012. Að bjarga sér á íslensku og ná stigvaxandi tökum á málinu eykur líkur á farsælli inngildingu fólks með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn í nýju landi og er mikilvægt fyrir þróun tungumálsins til framtíðar. Nám í íslensku hefur hingað til verið valkvætt fyrir þau sem flytjast til landsins á fullorðinsárum og fáir hvatar til staðar sem stuðla að markvissu íslenskunámi og skýrum ávinningi þess. Undantekningar frá því eru forkröfur sem gerðar hafa verið á grunni Samevrópska tungumálarammans til að fá að stunda nám eða jafnvel fá tiltekið starf. Nauðsynlegt er að gera auknar kröfur um íslenskunám og efla hvata innflytjenda til að tileinka sér tungumálið, innan marka skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningum og að teknu tilliti til viðkvæmra hópa. Aðgerðin felur í sér að kröfur um grunnfærni í íslensku verði skilgreindar fyrir mismunandi hópa og kortlagt hvernig tryggja megi að fólk með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn öðlist slíka færni, t.d. með breytingum á lögum, opinberum stuðningi og námsframboði. Stilla þarf upp valkostum um hvaða færnistig Samevrópsks tungumálaramma leggja eigi til grundvallar virkri samfélags- og atvinnuþátttöku innflytjenda og meta hverju þurfi að breyta í regluverki, fjármögnun, framkvæmd og fyrirkomulagi íslenskunáms. Horft verður til reynslu annarra Norðurlandaþjóða af tungumála- og samfélagsfræðslu, m.a. með hliðsjón af inntaki og áherslum náms og tungumálaþjálfunar, kostnaðarþátttöku, réttindum, skyldum og árangursmælikvörðum. Breytingar sem þessar kalla á víðtæka endurskoðun námsframboðs í íslensku sem öðru máli, bætta upplýsingagjöf og samhæfingu þjónustu. Aðgerðin verður tengd endurskoðunar- og stefnumótunarverkefnum í málefnum innflytjenda og flóttafólks, sem unnin eru á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, aðgerð 2 um bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur og aðgerð 3 um virkjun Samevrópska tungumálarammans.

Um 18. aðgerð.

    Íslensk málnefnd hefur ítrekað varað við afleiðingum þess að notkunarsvið ensku fari stækkandi hér á landi á kostnað íslenskunnar, m.a. í almannarýmum. Fræðimenn hafa bent á að ein helsta hættan sem steðjar að íslensku sé þessi umdæmisvandi íslenskunnar, að notkun hennar á ákveðnum sviðum minnki eða hverfi. Aukinn fjöldi ferðamanna til landsins og umsvif erlendra verslana hafa til að mynda orðið til þess að sífellt algengara er að texti skilta, upplýsinga á heimasíðum fyrirtækja, auglýsinga og matseðla sé aðeins aðgengilegur á ensku. Leita þarf leiða til að auka meðvitund um mikilvægi sýni- og heyranleika íslenskunnar því að notkun íslensku í almannarýmum er í senn aðgengis- og jafnréttismál. Íslensk málnefnd hefur einnig bent á mikilvægi þess að efla jákvætt viðhorf til íslensku í atvinnulífinu. Fjölmörg fyrirtæki og félagasamtök hafa stuðlað að vitundarvakningu um íslensku og lagt sín lóð á vogarskálina til þess að auka veg tungumálsins og árétta mikilvægi þess. Brýnt er að fjölga markvisst þeim sem leggja tungunni lið. Það er samfélagslegt langtímaverkefni að tryggja sýni- og heyranleika tungumálsins. Markmið aðgerðarinnar er að virkja fleiri til þátttöku í því samhengi, auka samráð og kalla eftir hugmyndum að aðgerðum úr sem flestum áttum, m.a. frá fulltrúum atvinnulífsins, þriðja geirans og sveitarfélaga. Íslenska á alls staðar að vera sýnileg á opinberum vettvangi og upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku. Aðgerðin tengist mótun aðgerðaáætlunar fyrir ferðaþjónustu til ársins 2030.

Um 19. aðgerð

    Samsetning nemendahópa sem sækja íslenskunámskeið fyrir fullorðna innflytjendur hefur breyst mikið á undanförnum árum. Rík þörf er á starfsþróun fyrir þau sem kenna á slíkum námskeiðum, ekki síst til að efla fagmennsku og gæði kennslunnar og þróa áfram árangursríkar kennsluaðferðir. Til að fjölga megi kennurum með fagþekkingu í kennslu íslensku sem öðru máli fyrir fullorðna, bæta námsframboð og kennsluefni á því sviði og mæta ákalli um aukna miðlæga ráðgjöf þarf aukna samvinnu atvinnulífs, háskóla, fræðsluaðila og stjórnvalda. Horfa má til annarra Norðurlandaþjóða í þessu samhengi þar sem kennarar geta t.d. sérhæft sig í tungumálakennslu fullorðinna innflytjenda. Aðgerðin tengist aðgerð 2 um bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur og aðgerð 3 um virkjun Samevrópska tungumálarammans.