Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 592  —  517. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um dánaraðstoð.


Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Björn Leví Gunnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga sem heimilar dánaraðstoð.

Greinargerð.

    Síðastliðið vor fól Alþingi heilbrigðisráðherra að gera skoðanakönnun um viðhorf heilbrigðisstarfsfólks, samtaka sjúklinga og almennings til dánaraðstoðar með skýrslubeiðni sem Bryndís Haraldsdóttir hafði forgöngu um. Samkvæmt könnuninni voru 56% lækna, 86% hjúkrunarfræðinga og 81% sjúkraliða hlynnt dánaraðstoð (alfarið, mjög eða frekar). Þessar niðurstöður sýna að stuðningur heilbrigðisstarfsfólks hefur aukist til muna á skömmum tíma. Þá kom fram í svörum almennings að 75,6% svarenda voru alfarið, mjög eða frekar hlynnt dánaraðstoð.
    Dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu evþanasía (góður dauði, að deyja með reisn) sem merkir að binda enda á líf af ásetningi til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum. Árið 1997 birtist grein í Læknablaðinu þar sem fjallað var um rannsókn á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til siðfræðilegra álitamála um takmörkun meðferðar við lífslok. Í umræddri rannsókn var ein af spurningunum um dánaraðstoð eða líknardráp eins og það var kallað í rannsókninni. Aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. Árið 2010 þegar sambærileg könnun var gerð varð niðurstaðan sú að líknardráp þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk. Í nóvember 2015 lét Siðmennt gera könnun á lífsskoðunum og trú Íslendinga. Ein spurninga í könnuninni var: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?“ 74,9% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því, 18% voru hvorki hlynnt því né andvíg og 7,1% mjög eða frekar andvíg. Á árunum 2019 og 2022 létu samtökin Lífsvirðing gera skoðanakannanir um afstöðu almennings um dánaraðstoð og sýndu niðurstöður þeirra að stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð var 77,7% og 76,2%.
    Á síðustu árum hefur reglulega komið upp umræða í íslensku samfélagi um dánaraðstoð. Ljóst er að umgjörð um þetta viðkvæma mál er mismunandi eftir löndum. Sviss lögleiddi aðstoð við að binda enda á eigið líf árið 1937. Oregon-fylki í Bandaríkjunum leyfði dánaraðstoð árið 1997 og er ferlið þannig að læknir skrifar upp á lyf sem einstaklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur. Kólumbía leyfði læknisfræðilega aðstoð við að deyja sama ár en aðstoð við sjálfsvíg er enn bönnuð. Holland lögleiddi dánaraðstoð (læknisfræðilega aðstoð við að deyja og aðstoð við að binda enda á eigið líf) árið 2002 gegn mjög ströngum skilyrðum. Með lögleiðingu dánaraðstoðar í Hollandi var undanþáguákvæði sett í hegningarlög sem gerði annars ólöglegan verknað refsilausan að ströngum skilyrðum uppfylltum. Fylgi læknir ekki ítarlegum lagaskilyrðum í Hollandi á hann yfir höfði sér ákæru og getur verið dæmdur til refsingar.
    Í janúar 2017 voru stofnuð samtökin Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð. Í kjölfar stofnunar samtakanna, svo og skoðanakönnunar Siðmenntar sem hér er vísað til, spruttu upp umræður í samfélaginu um málefnið. Ljóst er að stuðningur við dánaraðstoð hefur aukist til muna síðustu ár, bæði meðal heilbrigðisstarfsmanna og almennings. Telja flutningsmenn tímabært að dánaraðstoð verði heimiluð hér á landi samkvæmt ströngum skilyrðum í samræmi við lagaákvæði í Hollandi og öðrum ríkjum sem heimila dánaraðstoð.