Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 603  —  521. mál.
Leiðrétt tafla.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar (ÞórP, ÁsF, BHS, HKF, LRS, OPJ, ÓBK).


I. KAFLI
Breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                Staðbundin veiðisvæði grásleppu eru:
                  1.      Faxaflói, frá línu réttvísandi vestur frá Garðskagavita 64°04,90 N 022°41,40 V að línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V.
                  2.      Breiðafjörður, svæði 1 frá línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V að línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum 65°30,20 N 024°32,10 V; svæði 2 innan línu sem dregin er úr Krossnesvita vestan Grundarfjarðar 64°58,30 N 023°21,40 V í Lambanes vestan Vatnsfjarðar 65°29,30 N 023°12,60 V.
                  3.      Vestfirðir, frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum 65°30,20 N 024°32,10 V að línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V.
                  4.      Húnaflói, frá línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V að línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V.
                  5.      Norðurland, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V að línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V.
                  6.      Austurland, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V að línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V.
                  7.      Suðurland, frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V að línu réttvísandi vestur frá Garðskagavita 64°04,90 N 022°41,40 V.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „7. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
3. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að úthluta aflamarki til fiskiskipa til að veiða á grásleppu á grundvelli aflahlutdeildar skips á hverju staðbundnu veiðisvæði skv. 1. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Grásleppuveiðar eru heimilar innan staðbundinna veiðisvæða, en þar geta aðeins veitt fiskiskip með aflahlutdeild í grásleppu og aflamark á staðbundnu veiðisvæði. Fiskiskip skal skráð innan veiðisvæðis og landa í löndunarhöfn innan staðbundins veiðisvæðis. Ef fiskiskip er flutt af staðbundnu veiðisvæði fellur aflahlutdeild skipsins í grásleppu niður.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma.

4. gr.

    Á eftir 6. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Því aflamarki sem dregið er frá heildarafla grásleppu skv. 3. mgr. er ráðherra heimilt að úthluta gjaldfrjálst til þeirra sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti. Fiskistofa annast framkvæmd við úthlutun aflamarks til nýliða. Ráðherra skal mæla nánar fyrir um úthlutun aflamarks til nýliða í reglugerð, m.a. um skilyrði til að teljast vera nýliði, skilyrði til úthlutunar, hámarksafla og ráðstöfun aflamarks sem ekki er úthlutað til nýliða innan hvers fiskveiðiárs. Fyrir úthlutun aflamarks til nýliða skal nýliði þjónustugreiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992.

5. gr.

    Á eftir 6. málsl. 6. mgr. 12. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að framselja aflahlutdeild í grásleppu á skip sem ekki er skráð á sama staðbundna veiðisvæði grásleppu skv. 1. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.

6. gr.

    Við töflu í 1. mgr. 13. gr. laganna bætist:
Grásleppa 1,5%

7. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Óheimilt er að flytja aflamark í grásleppu á milli skipa sem ekki eru skráð á sama staðbundna veiðisvæði grásleppu skv. 1. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um flutning á aflamarki milli veiðisvæða á yfirstandandi veiðitímabili ef náttúrulegar aðstæður breytast verulega innan veiðisvæðis.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fiskistofa skal fyrir 1. mars 2024 úthluta fiskiskipum aflahlutdeild í grásleppu. Aflahlutdeild einstakra skipa skal ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengin hefur verið á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis frá Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip og nýtt innan viðmiðunartímabilsins. Við mat á veiðireynslu skal miða við þrjú bestu veiðitímabil leyfisins sem skráð er á skipið frá og með árinu 2014 til og með árinu 2022 að undanskildu árinu 2020.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta byggist á áður fluttu frumvarpi matvælaráðherra frá 153. löggjafarþingi, 976. mál á þskj. 1524.
    Að frumkvæði meiri hluta atvinnuveganefndar er mál þetta flutt nær óbreytt. Þær breytingar sem meiri hlutinn gerir á frumvarpinu frá fyrra þingi eru þær sömu og meiri hlutinn lagði til á fyrra þingi að lokinni umfjöllun nefndarinnar, sbr. nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar um sama mál á þskj. 1989.
    Efnislegar breytingar eru tvær og varða annars vegar hámarksaflahlutdeild, en meiri hlutinn leggur til að hámarksaflahlutdeild verði 1,5% í stað 2% sem lagt var til í frumvarpinu á 153. löggjafarþingi, og hins vegar viðmiðunarár sem tilgreind eru í 8. gr.
    Að öðru leyti vísast til greinargerðar með frumvarpi matvælaráðherra og nefndarálits meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarpið frá 153. löggjafarþingi.