Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 612  —  527. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (mánaðarlegt yfirlit).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 32. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingastofnun skal senda greiðsluþega með rafrænum hætti, eða skriflegum ef þess er óskað, mánaðarlegt yfirlit yfir greiðslur til hans þar sem fram koma forsendur útreiknings greiðslna þess mánaðar, svo sem um skerðingar á réttindum vegna þess að tekjur eru umfram frítekjumörk.

2. gr.

    Við 34. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tryggingastofnun skal senda greiðsluþega með rafrænum hætti, eða skriflegum ef þess er óskað, yfirlit þar sem fram koma forsendur útreiknings ofgreiðslu eða vangreiðslu. Í yfirlitinu skal tilgreina áhrif of- eða vanáætlaðra tekna á einstaka réttindaflokka.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Lífeyrir almannatrygginga er greiddur út mánaðarlega af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins til lífeyrisþega. Tryggingastofnun annast einnig greiðslu þeirra réttinda sem fjallað er um í lögum um félagslega aðstoð. Öryrkjar, endurhæfingarlífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar geta átt rétt á ýmsum tegundum greiðslna og gilda mismunandi reglur um tekjuskerðingar fyrir hvern og einn réttindaflokk. Þetta veldur því að erfitt getur verið fyrir lífeyrisþega að átta sig á því hvers vegna réttindi hans skerðast. Tryggingastofnun sendir aðeins út árlega tekjuáætlun, en lífeyrisþegar geta óskað sérstaklega eftir því að fá aðgang að mánaðarlegu yfirliti í gegnum mínar síður á tr.is. Þar kemur ekki fram annað en mánaðarleg útgreiðsla fyrir hvern bótaflokk að teknu tilliti til frádráttar vegna staðgreiðslu skatta. Þá sendir Tryggingastofnun til lífeyrisþega um mitt ár upplýsingar um endurreiknaða fjárhæð greiðslna ársins sem leið, að teknu tilliti til upplýsinga sem fram koma í skattskýrslum lífeyrisþega. Í því yfirliti þyrfti einnig að færa inn nánari upplýsingar um einstaka réttindaflokka og tegundir skerðingarreglna.
    Það er mikilvægt að lífeyrisþegar geti fengið upplýsingar um áhrif einstakra skerðingarreglna á réttindi sín, hvort sem það eru skerðingar á tekjutryggingu vegna lífeyristekna eða skerðingar á örorkulífeyri vegna atvinnutekna, eða áhrif á önnur réttindi, svo sem ýmis réttindi sem Tryggingastofnun greiðir út á grundvelli laga um félagslega aðstoð. Því er lagt til að framvegis skuli Tryggingastofnun ríkisins senda greiðsluþegum almannatrygginga mánaðarlegt yfirlit yfir greiðslur þar sem fram koma forsendur útreiknings greiðslna þess mánaðar, svo sem skerðingar á einstökum réttindaflokkum og á grundvelli hvaða skerðingarreglna réttindin skerðast.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að Tryggingastofnun sendi lífeyrisþegum greiðsluseðla í hverjum mánuði, líkt og vinnuveitendur skila til launþega. Þar skal tilgreina fjárhæð útgreiddra réttinda ásamt þeim forsendum sem liggja að baki þeirri fjárhæð. Líkt og útgreidd laun skerðast greiðslur almannatrygginga vegna staðgreiðslu skatta og þá hefur það áhrif á fjárhæð skatta hvort viðkomandi hafi skráð skattkort sitt hjá Tryggingastofnun. Þar að auki skerðast réttindi lífeyrisþega vegna hinna ýmsu skerðingarreglna sem finna má í lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Fjárhagsleg réttindi örorkulífeyrisþega skiptast t.d. í fimm mismunandi greiðsluflokka, þ.e. örorkulífeyri, aldursviðbót, tekjutryggingu, sérstaka framfærsluuppbót og heimilisuppbót. Mismunandi skerðingarreglur gilda um hvern og einn réttindaflokk og þá geta skerðingarnar verið mismunandi eftir tegundum tekna sem lífeyrisþegi fær, svo sem hvort um ræðir atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Sundurliða þyrfti áhrif skerðingarreglna á einstaka réttindaflokka í því yfirliti sem greinin fjallar um með skýrum hætti svo lífeyrisþegi fái góða yfirsýn yfir eigin fjármál. Lagt er til að yfirlitið verði sent rafrænt. Hið opinbera sendir nú þegar margvíslegar upplýsingar með rafrænum hætti til almennings, svo sem um álagningu skatta og opinberra gjalda, í gegnum island.is. Þá er jafnframt lagt til að ef lífeyrisþegi óskar þess geti hann fengið sent skriflegt yfirlit í pósti.

Um 2. gr.

    Lagt er til að sams konar upplýsingar og fjallað er um í 1. gr. frumvarpsins verði birtar lífeyrisþegum við endurákvörðun bóta skv. 34. gr.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.