Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 622  —  241. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023–2027.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá mennta- og barnamálaráðuneyti, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, ríkislögreglustjóra, ÖBÍ og Tourette-samtökunum.
    Nefndinni bárust fjórar umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
    Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023–2027 er lögð fram af mennta- og barnamálaráðherra í samræmi við 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Skv. 2. mgr. 5. gr. laganna ber mennta- og barnamálaráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd og skv. 3. mgr. sömu greinar leggur mennta- og barnamálaráðherra fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum.
    Framkvæmdaáætlunin byggist á meginmarkmiðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Í tillögunni er lögð áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun. Lögð er sérstök áhersla á heildarendurskoðun á barnaverndarlögum, innleiðingu meðferðarúrræða utan meðferðarheimila og meðferðarfóstur, eflingu og bætt verklag í barnaverndarþjónustu, gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu, endurskoðað verklag vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn, könnun alvarlegra atvika í tengslum við börn, húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna og rannsóknir á sviði barnaverndar. Gert er ráð fyrir því að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi yfirumsjón með framkvæmd áætlunarinnar en jafnframt ber ráðuneytið ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Þá er Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála falin ábyrgð á tilteknum aðgerðum.
    Þær umsagnir sem nefndinni bárust vegna málsins voru jákvæðar og var mat flestra að þar væru settar fram metnaðarfullar aðgerðir í þágu farsældar barna. Þá var því fagnað að gott og mikið samráð hefði verið haft við gerð áætlunarinnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að mikilvægt er að bygging nýs meðferðarheimilis fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma ljúki á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar. Á tímabili síðustu framkvæmdaáætlunar var stefnt að því að ljúka öðrum áfanga um stofnun nýs meðferðarheimilis með áætlunargerð og ákvörðun um staðsetningu sem uppfyllir skilyrði frumathugunar, fullhönnunar mannvirkis og eftir atvikum breytingu á deili- og/eða aðalskipulagi. Það hefur ekki gengið eftir og er enn í vinnslu. Bent var á að þrengt hefði verið að starfsemi á lokaðri deild á Stuðlum, meðferðarstöð ríkisins fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, og nauðsynlegt sé að bregðast við ört vaxandi hópi unglinga sem þurfa á þjónustu að halda á lokaðri deild á forsendum barnaverndarlaga. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að áfram verði unnið að stofnun nýs meðferðarheimilis þannig að unnt sé að koma til móts við meðferðarþarfir barna sem glíma við þennan vanda.
    Lögð er til breyting á heiti Mennta- og skólaþjónustustofu í framkvæmdaáætluninni til samræmis við frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem lagt var fram á yfirstandandi þingi.
    Meiri hlutinn lýsir yfir stuðningi við framkvæmdaáætlun þessa og leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „Mennta- og skólaþjónustustofa“ í D- og I-lið og „Mennta- og skólaþjónustustofu“ í I-lið komi hvarvetna, í viðeigandi beygingarfalli: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

    Guðmundur Ingi Kristinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hann ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 24. nóvember 2023.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson. Magnús Árni Skjöld Magnússon.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Óli Björn Kárason.