Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 632  —  438. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um alþjóðlegar skuldbindingar og frumvarpsgerð.


     1.      Hvaða verklagsreglur gilda við frumvarpsgerð í ráðuneytinu þegar ákvarðað er hvað eigi að koma fram í þeim kafla greinargerðar stjórnarfrumvarps er fjallar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar?
    Frumvörp eru samin í sniðmát og eftir leiðbeiningum útgefnum af forsætisráðuneytinu. Í sniðmátinu er reitur nr. 4, Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar, sem verður að fylla út. Við umfjöllun um þetta atriði í frumvarpinu er lagt mat á hvort samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðlegum samningum. Í því sambandi er gerður greinarmunur á samningum sem íslenska ríkið hefur undirritað eða fullgilt, t.d. með þingsályktunum og samningum sem hafa verið lögfestir að efni til með lögum settum af Alþingi. Almenna reglan er sú að alþjóðlegir samningar sem hafa verið fullgiltir af íslenskum stjórnvöldum binda íslenska ríkið að þjóðarétti en eru ekki bindandi fyrir borgara landsins og verða þar af leiðandi ekki hluti af þeim lögum sem gilda á einstökum sviðum hér á landi nema efni þeirra sé tekið inn í sett lög. Við samningu frumvarpa um einstök mál er þó reynt að haga efni þeirra á þann veg að ákvæði þeirra verði ekki í andstöðu við efni slíkra samninga. Ef um er að ræða ákvæði alþjóðlegra samninga sem hafa þegar verið tekin í íslensk lög er þess gætt við samningu frumvarpa að efni þeirra sé í samræmi við ákvæði settra laga um það efni.

     2.      Hvernig metur ráðuneytið það hvort tilefni sé til þess að skoða tiltekinn alþjóðasamning í þeirri vinnu og þá hvort tilefni sé til þess að minnast á niðurstöður þeirrar skoðunar í greinargerð frumvarps?
    Ráðuneytið metur það við samningu einstakra frumvarpa eftir því sem efni þeirra gefur tilefni til hverju sinni. Þetta mat miðast við að bera saman efni ákvæða frumvarpsins og ákvæði alþjóðlegra samninga sem gilda á því sviði sem frumvarpið tekur til og meta hvort þar sé um að ræða reglur um sama efni og taka afstöðu til þeirra eftir þeim sjónarmiðum sem gerð er grein fyrir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar eftir því hvort um er að ræða samninga sem hafa verið fullgiltir af íslenskum stjórnvöldum eða samninga sem hefur verið veitt lagagildi með lögum settum af Alþingi.

     3.      Hvernig er vinnulag ráðuneytisins varðandi hvort og þá hvernig það skoðar samræmi frumvarpa sinna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lagt er til að verði lögfestur á kjörtímabilinu, sbr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?

    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur ekki enn verið lögfestur að efni til sem sett lög hér á landi og miðast mat ráðuneytisins við gerð frumvarpa við það í samræmi við framangreind sjónarmið sem gerð er grein fyrir í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Ekki hafa því verið sett sérstök ákvæði í frumvörp ráðuneytisins til að lögfesta einstök ákvæði samningsins en reynt er að haga efni ákvæða í einstökum frumvörpum á þann veg að þau brjóti ekki í bága í umræddan samning.