Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 637  —  226. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002 (innihaldsefni, umbúðir o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríu Sæm Bjarkardóttur og Kristínu Ninju Guðmundsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Hafstein Viðar Jensson og Sveinbjörn Kristjánsson frá embætti landlæknis, Ívar J. Arndal og Svein Víking Árnason frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Rósu Magnúsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
    Nefndinni bárust fimm umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis. Málið var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi ( 530. mál) og hafði nefndin einnig hliðsjón af umsögnum sem þá bárust. Frumvarpið er efnislega óbreytt en minni háttar breytingar hafa verið gerðar á því, m.a. í samræmi við þær athugasemdir sem fram komu um frumvarpið við meðferð þess hjá velferðarnefnd.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/40/ESB frá 3. apríl 2014 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 24/2003, um breytingu á lögum nr. 6/2002. Þá felur frumvarpið í sér að mælt er fyrir lagastoð innleiðingar á framseldri tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB frá 10. október 2014 um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur, en ákvæði framseldu tilskipunarinnar verða innleidd í íslenskan rétt með reglugerð.

Áhrif frumvarpsins á neyslu tóbaksvara og forvarnagildi.
    Nefndin fjallaði um það markmið frumvarpsins að hafa áhrif á neyslu tóbaksvara meðal almennings og þá sérstaklega ungs fólks en huga þarf fyrst og fremst að hagsmunum barna og ungmenna þegar kemur að tóbaksvörnum og forvörnum á því sviði. Með frumvarpinu er lagt til að það komi skýrt fram í markmiðsákvæði laganna að sérstaklega skuli unnið gegn tóbaksnotkun ungs fólk og að því að takmarka framboð á tóbaki og eftirlíkingu af tóbaki sem á sérstaklega að höfða til ungmenna. Að mati meiri hluta nefndarinnar er stigið stórt framfaraskref í tóbaksvörnum og unnið gegn tóbaksnotkun ungs fólks.
    Ísland hefur verið leiðandi í viðvörunarmerkingum á tóbaki. Ísland var meðal fyrstu þjóða til að innleiða viðvörunarmerkingar árið 1971 og síðar voru áhrif viðvörunarmerkinga aukin með myndmerkingum árið 1985. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi þess að breyta viðvörunarmerkingum á tóbaki til þess að viðhalda virkni þeirra, með tilliti til forvarna. Verði frumvarpið samþykkt verður hægt að huga að næstu skrefum í tóbaksvörnum, t.d. hvað varðar forvörnina sem falist gæti í því að taka upp einsleitar umbúðir tóbaksvara sem ráðherra hefur heimild til að kveða á um í reglugerð skv. 5. mgr. 6. gr. c, sbr. d-lið 6. gr. frumvarpsins.
    Við meðferð málsins var fjallað um þau sjónarmið sem fram komu um gildissvið frumvarpsins. Hvatt var til þess að löggjöfin yrði einfölduð og að nikótínvörur yrðu felldar undir lög um tóbaksvarnir, í stað þess að um þær vörur giltu sérstök lög, þ.e. lög um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að eðlilegt sé að skoðað verði að sameina tóbaksvarnalög og lög um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Að mati meiri hlutans krefst það þó vandlegrar skoðunar sem nefndin hvetur heilbrigðisráðuneytið að meta hvort ástæða sé til að ráðast í.
    Í umsögn sinni bendir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á að nauðsynlegt sé að setja reglur um fjarsölu þó að hún nái ekki yfir landamæri. Kemur fram að skýrt þurfi að vera hvaða skilyrði skuli uppfylla til þess að leyfi sé veitt fyrir sölu tóbaks í fjarsölu auk skýrs ramma um það hvernig tryggt verði að ákvæðum laganna verði fylgt.
    Meiri hlutinn lítur svo á að fjarsala innan lands sé bundin sömu skilyrðum og önnur tóbakssala innan lands, svo sem varðandi skilyrði tóbakssöluleyfis, sýnileikabann og aldurstakmark, en reynist þörf fyrir skýrari reglur um fjarsölu innan lands mætti bæta úr því við mögulega heildarendurskoðun laga um tóbaksvarnir.

Breytingartillögur.
Markmið (1. gr. frumvarpsins).
    Nefndin fjallaði um markmiðsákvæði frumvarpsins. Þar er m.a. lögð áhersla á að unnið skuli gegn tóbaksneyslu ungs fólks og framboð takmarkað á tóbaki og eftirlíkingu af tóbaki sem sérstaklega er ætlað að höfða til ungs fólks. Í umsögn umboðsmanns barna er bent á að betur færi á því að tilgreina börn sérstaklega í texta ákvæðisins í stað þess að nefna einungis ungt fólk. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið umboðsmanns og bendir á að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu er vísað til barna og ungmenna. Leggur meiri hlutinn því til breytingar á 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins þess efnis að orðalag ákvæðisins verði uppfært í samræmi við það.

Sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði (c-liður 6. gr. frumvarpsins).
    Töluverðar umræður sköpuðust í nefndinni um ákvæði frumvarpsins sem mælir fyrir um að óheimilt verði að setja á markað sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði. Einkum var rætt um áhrif þess að bannað yrði að setja á markað sígarettur með einkennandi mentólbragði og hver gæti talist eðlilegur aðlögunartími að þeirri breytingu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að óheimilt verði að setja á markað sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði tólf mánuðum eftir gildistöku laganna.
    Töluvert hefur dregið úr reykingum fólks hér á landi síðastliðinn áratug og hefur Ísland sérstöðu í því efni í samanburði við önnur Evrópulönd. Hér reykja hlutfallslega fáir en á móti kemur að hér á landi er notkun á sígarettum með einkennandi mentólbragði mjög mikil í samanburði við önnur ríki. Reifaðar voru athugasemdir við aðlögunartímabil fyrir tóbaksvörur með einkennandi bragði og lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja jafna og sanngjarna framkvæmd, m.a. með hliðsjón af markaðshlutdeild mentólsígarettna. Þrátt fyrir að legið hafi fyrir að til stæði að banna sölu á sígarettum og vafningstóbaki með einkennandi bragði með innleiðingu tilskipunar 2014/40/ESB megi ekki gera ráð fyrir að einstaklingar sem reykja þessa tilteknu vörutegund hafi verið það ljóst og því nauðsynlegt að þeim gefist tími til aðlögunar að þessu ákvæði. Þá var bent á að í aðfararorðum tilskipunarinnar væri lögð áhersla á að tóbaksvörur með einkennandi bragði ætti að taka af markaði í áföngum yfir lengri tíma til að gefa neytendum hæfilegan tíma til að skipta yfir í aðrar vörur og er kveðið á um að tóbaksvörur með 3% eða meiri markaðshlutdeild fái fjögurra ára aðlögun að þessu ákvæði tilskipunarinnar. Með hliðsjón af því sé mikilvægt að gefa þeim sem nú nota mentólsígarettur hæfilegan undirbúningstíma til að bregðast við því að þessi vörutegund sé að hverfa af markaði. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til að ákvæði um að óheimilt sé að setja á markað tóbaksvörur með einkennandi bragði taki gildi 48 mánuðum eftir gildistöku laganna.
    Þá leggur meiri hluti nefndarinnar til breytingu á frumvarpinu sem er tæknilegs eðlis.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. málsl. a-liðar 1. gr. orðist svo: Sérstaklega skal unnið gegn tóbaksneyslu barna og ungs fólks og takmarka framboð á tóbaki og eftirlíkingu af tóbaki sem sérstaklega er ætlað að höfða til þeirra.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Upphaf 2. málsl. 8. tölul. orðist svo: Smásölustaður telst hafa staðfestu í aðildarríki ef um er að ræða.
                  b.      2. málsl. 22. tölul. orðist svo: Ef um er að ræða fjarsölu yfir landamæri telst varan sett á markað í því ríki þar sem neytandi er staðsettur.
     3.      2. tölul. b-liðar 8. gr. orðist svo: Á eftir orðunum „m.a. um“ í 7. málsl. kemur: skilyrði fyrir leyfisveitingu um smásölu tóbaks sem talin eru nauðsynleg til að tryggja öryggi og eftirlit með atvinnustarfseminni; og í stað orðsins „útsölustöðum“ í sama málslið komi: smásölustöðum.
     4.      Við a-lið 17. gr. (20. gr. a.).
                  a.      12. tölul. 1. mgr. orðist svo: takmarkanir á tóbaksneyslu á sjúkrahúsum, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 10. gr.
                  b.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður sem verði 12. tölul. og orðist svo: takmarkanir á tóbaksneyslu utan húss á íþróttasvæðum, sbr. 8. mgr. 9. gr.
                  c.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður sem verði 10. tölul. og orðist svo: takmarkanir á tóbaksreykingum, sbr. 6. mgr. 9. gr.
     5.      2. málsl. 1. mgr. 18. gr. orðist svo: Þó öðlast ákvæði c-liðar 6. gr. gildi 48 mánuðum eftir gildistöku laganna og d-liðar 6. gr. gildi 12 mánuðum eftir gildistöku laganna.

    Guðmundur Ingi Kristinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hann ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 24. nóvember 2023.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson. Magnús Árni Skjöld Magnússon.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.