Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 647  —  548. mál.




Fyrirspurn


til menningar- og viðskiptaráðherra um fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins.

Frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.


     1.      Í ljósi þess að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er mælt fyrir um töluvert aðhald hjá Samkeppniseftirlitinu, að því er segir í umsögn stofnunarinnar um frumvarpið, telur ráðherra að töluvert fjárhagslegt aðhald hjá eftirlitsaðilum virkrar samkeppni á markaði sé í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar um að vinna bug á verðbólgu?
     2.      Telur ráðherra að það sé áhyggjuefni fyrir neytendur að Samkeppniseftirlitið telji sig ekki geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum vegna vanfjármögnunar stjórnvalda, sbr. fyrrnefnda umsögn?
     3.      Telur ráðherra ástæðu til að bregðast við því að í hverfandi mæli sé hægt að rannsaka brot sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu og opinberum samkeppnishindrunum?
     4.      Hver eru rök ráðherra fyrir því að fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins hafi ekki þróast í samræmi við þróun atvinnulífs og aukin verkefni sem henni fylgir, né heldur í samræmi við raunkostnað?
     5.      Hefur ráðherra litið til aðgerða á Norðurlöndum þar sem fjárheimildir hafa verið auknar til samkeppniseftirlitsstofnana með það að markmiði að stjórnvöld beiti sér með markvissum hætti gegn verðbólgu og fyrir virkari samkeppni?


Skriflegt svar óskast.