Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 654  —  467. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (leyfi til prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði).


Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund gesti frá matvælaráðuneyti og Fiskistofu.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá Fiskistofu sem er aðgengileg á síðu málsins á vef
Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem heimila ráðherra að veita skipum, sem hafa
annars ekki leyfi til að stunda veiðar og vinnslu í fiskveiðilandhelginni, skilyrt, takmörkuð
og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði sem settur hefur verið
í skipin hér á landi.
    Nefndin telur þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu vera jákvæðar og til hagræðis fyrir þá sem hanna, setja upp og þjónusta nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað fyrir skip.
Efni frumvarpsins snýr ekki beint að fiskveiðistjórnun heldur þjónustustarfsemi á sviði tækni
og nýsköpunar. Nefndin tekur undir það mat ráðuneytisins að slík starfsemi sé mikilvægur
þáttur í samkeppnishæfni Íslands og er frumvarpið því framfaraskref fyrir mikilvægan iðnað
sem er nátengdur grundvallaratvinnustoð landsins.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið
með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 30. nóvember 2023.

Þórarinn Ingi Pétursson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Berglind Harpa Svavarsdóttir. Gísli Rafn Ólafsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Tómas A. Tómasson. Óli Björn Kárason.