Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 655  —  326. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um raforku og rafmyntagröft.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu stórum hluta raforku á Íslandi sl. fimm ár hefur verið ráðstafað til fyrirtækja sem stunda nær eingöngu rafmyntagröft? Svar óskast sundurliðað fyrir hvert ár.

    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um í hvað kaupendur orku á Íslandi, svo sem gagnaver sem selja sína þjónustu til þriðja aðila, ráðstafa orkunni. Í stað þess að svara fyrirspurninni á þann hátt að upplýsingarnar liggi ekki fyrir var ákveðið að leita upplýsinga annars vegar hjá Orkustofnun og hins vegar hjá Samtökum iðnaðarins til að gera atlögu að því að draga fram upplýsingar til að svara fyrirspurninni að því marki sem það er mögulegt.
    Samkvæmt Orkustofnun fóru um 4% af orkunotkun til gagnavera árið 2020, eða um 828 GWst. Ekki liggja fyrir heildstæðar upplýsingar um hversu stórt hlutfall þeirrar notkunar fór í rafmyntagröft en gagnaver selja þjónustu til ýmissa verkefna. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins er ekkert gagnaver sem þjónustar nær eingöngu rafmyntagröft. Gagnaver stunda ekki rafmyntagröft heldur selja heildstæða þjónustu til fyrirtækja sem stunda ýmiss konar starfsemi sem krefst gagnavinnslu og hýsingar, þ.m.t. rafmyntagröft. Fjölbreytileiki viðskiptavina gagnavera á Íslandi hefur aukist mikið síðustu ár og hafa öll stærri gagnaver landsins það sem markmið að fasa þjónustu við viðskiptavini vegna rafmyntagraftar út? Samkvæmt upplýsingum frá samtökunum er öll raforka sem notuð er til að þjónusta viðskiptavini gagnavera sem stunda rafmyntagröft seld sem skerðanleg orka og hefur þar af leiðandi ekki áhrif á hugsanlegan raforkuskort. Orkan sem hefur á síðustu árum verið keypt og nýtt í rafmyntagröft hefur verið illseljanleg/-nýtanleg öðrum raforkunotendum og því felst umtalsvert hagræði og orkunýtni í því fyrir raforkukerfið að hafa haft þá tegund notenda á síðustu árum að mati samtakanna.