Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 656  —  193. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um rannsókn kynferðisbrotamála.

     1.      Hvers vegna eru ekki til töluleg gögn um hve langan tíma rannsókn kynferðisbrota tekur frá tilkynningu brots og þar til rannsókn lögreglu lauk, sbr. svar ráðherra á þskj. 754 frá 153. löggjafarþingi?
    Í tilvitnaðri þingfyrirspurn var spurt um það hversu langan tíma hver rannsókn brots hjá lögreglu tók, sem féll undir XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, frá því að brot var tilkynnt og þar til lögregla lauk rannsókninni. Eins og fram kemur í svari ráðuneytisins við fyrirspurninni reyndist ekki unnt að taka saman þessar upplýsingar vegna þess tíma sem það hefði tekið og var þess vegna tekinn saman meðalmálsmeðferðartími viðkomandi brota sem finna mátti í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     2.      Hvers vegna er rannsóknarmeðferð kynferðisbrotamála að lengjast á meðan ákærumeðferð þeirra styttist, sbr. fyrrgreint svar?
    Árið 2022 skipaði ríkissaksóknari starfshóp um málsmeðferðartíma kynferðisbrota sem var m.a. falið það verkefni að rýna þau kynferðisbrotamál þar sem málsmeðferðartími væri langur, skoða hvaða atriði það væru sem helst tefðu meðferð málanna og hvort og þá hvernig unnt væri að breyta og bæta verklag og stytta um leið málsmeðferðartíma. Í ágúst 2022 skilaði starfshópurinn skýrslu sinni sem nálgast má á vef Stjórnarráðsins og vef ríkissaksóknara. Í skýrslunni er m.a. að finna umfjöllun um þróun hvað varðar fjölda og meðalafgreiðslutíma allra kynferðisbrota og vísar ráðuneytið til þeirrar skýrslu er varðar skýringar á því að rannsóknarmeðferð kynferðisbrotamála hjá lögreglu hafi lengst síðustu ár.
    Þá vill ráðuneytið benda á, líkt og gert var í tilvitnuðu svari ráðherra, að við útreikning á meðalmálsmeðferðartíma hjá lögreglu er almennt miðað við mál sem skráð voru í lokaferil í lögreglukerfinu á því ári sem er til skoðunar. Ástæðan fyrir þessari nálgun er sú að þá getur lögreglan greint breytingar á málsmeðferðartíma sem eru nær í tíma. Ef miðað væri við það ár sem mál kom upp og var skráð inn í lögreglukerfið væri ekki hægt að birta tölur um meðalmálsmeðferðartíma fyrr en að öllum þeim málum sem voru skráð tiltekið ár væri lokið. Sú nálgun sem notast er við hefur það í för með sér að þegar t.d. mörg eldri mál klárast á sama ári, getur það birst þannig að meðalmálsmeðferðartími sé að lengjast. Vegna þessa styðst lögregla einnig við önnur viðmið, eins og hlutfall mála sem lýkur innan ákveðins tíma og meðalafgreiðslutíma þegar kemur að 25%, 50% og 75% mála.
    Með fjölgun stöðugilda og breyttu vinnulagi hefur tekist að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur opnum kynferðisbrotamálum fækkað eftir að embættið hlaut sérstaka fjárveitingu til að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota.

     3.      Stendur til að fjölga stöðugildum rannsóknarlögreglumanna í kynferðisbrotamálum vegna lengingar málsmeðferðartíma?
    Dómsmálaráðherra hefur samþykkt nýja aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota sem mun gilda næstu þrjú árin. Á síðasta ári var um 10 stöðugildum bætt við varðandi rannsóknir og saksókn kynferðisbrota og hefur tekist að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni með fjölgun starfsfólks og breyttum vinnubrögðum. Þá kynnti þáverandi dómsmálaráðherra nýlega fjórþætta aðgerðaáætlun í löggæslumálum sem felur m.a. í sér að bætt verður við stöðugildum til að mæta veikleikum og efla löggæslu um allt land.