Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 659  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fengið til sín gesti frá umsagnaraðilum og ráðuneytum. Þeir voru frá ASÍ, BHM, BSRB, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Landspítala, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, NPA-miðstöðinni, ÖBÍ réttindasamtökum, Reykjavíkurborg, SÁÁ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Viðskiptaráði Íslands.
    Auk umsagnaraðila kallaði nefndin til fundar alla ráðherra ríkisstjórnarinnar og fulltrúa ráðuneyta sem gerðu grein fyrir breytingum á fjárhagsramma málefnasviða og málefnaflokka sem undir þau heyra. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis komu nokkrum sinnum fyrir nefndina og gerðu grein fyrir einstökum greinum frumvarpsins og kynntu tillögur ríkisstjórnar fyrir 2. umræðu frumvarpsins. Einnig kom fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, á fund nefndarinnar.
    Nefndinni bárust einnig aðrar umsagnir auk fjölmargra annarra erinda, minnisblaða og skriflegra svara við fyrirspurnum nefndarmanna.

Óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
    Veruleg óvissa er nú uppi vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga og er þeim hvergi lokið. Fyrirséð eru umtalsverð efnahagsleg áhrif jafnvel þótt ekki komi til frekari jarðhræringa eða eldgoss á svæðinu. Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum vegna stöðunnar en líklegt þykir að frekari viðbragða sé þörf. Ljóst er að útgjöld ríkissjóðs koma til með að aukast vegna þessa þótt umfang liggi ekki fyrir. Í ljósi óvissunnar má gera ráð fyrir breytingum við 3. umræðu frumvarpsins.
    Meiri hlutinn telur koma til greina að endurmeta önnur útgjöld til lækkunar komi til þess að fara þurfi í kostnaðarsamar aðgerðir vegna jarðhræringanna.
    Landris hófst við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga í byrjun árs 2020 en frá þeim tíma hafa þrjú eldgos átt sér stað á skaganum sem hvorki hafa ógnað lífi né mikilvægum innviðum á svæðinu, í Fagradalsfjalli í mars 2021, í Meradölum í ágúst 2022 og við Litla-Hrút í júlí 2023. Hinn 27. október 2023 mældist svo landris við Þorbjörn að nýju og gáfu mælingar til kynna að kvikuinnflæði væri margfalt meira en í fyrri atburðum. 10. nóvember 2023 lýstu svo almannavarnir yfir hættustigi vegna ákafra jarðskjálfta norðan Grindavíkur og síðar sama dag var lýst yfir neyðarstigi og Grindavíkurbær rýmdur vegna kvikuinnskots sem talið var að næði undir bæinn. Í jarðhræringunum myndaðist sigdalur og jarðsprungur ollu verulegu tjóni á íbúðarhúsnæði, stofnunum, lagnakerfi og öðrum innviðum.
    Haga þarf stjórn ríkisfjármálanna með skynsamlegum hætti og forgangsraða í þágu mótvægisaðgerða og stuðnings við íbúa Grindavíkur. Nýtt eldgosatímabil er hafið á Reykjanesskaga sem kallar á nýja nálgun stjórnvalda og samfélagsins alls. Yfir 30 þúsund manns búa á Reykjanesskaga en eldstöðvakerfi skagans teygja sig inn á höfuðborgarsvæðið. Mikilvægt er að stórauka áherslu á forvarnir og stuðning við íbúa, viðbragðsaðila, bæjarfélög og atvinnulíf á Reykjanesskaga svo takmarka megi áhrif af mögulegum eldgosum og jarðhræringum í framtíðinni.

Umfjöllun og verklag nefndarinnar.
    Auk umsagna um frumvarpið í heild sinni bárust nefndinni erindi og óskir sem fólu í sér beiðnir um stuðning, hreinar fjárbeiðnir til tiltekinna verkefna, ýmist í fyrsta sinn eða til viðbótar við fyrirliggjandi stuðning.
    Nefndin fylgdi áfram því verklagi sem mótast hefur á síðastliðnum árum og felst í því að áframsenda slíkar beiðnir til viðkomandi ráðherra. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra sem fram kemur í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál (LOF). Í verklaginu felst einnig að kallað er eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum nefndarinnar.
    Frumvarpið byggist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í sumar en ný spá var birt þann 17. nóvember og í kjölfarið hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið endurmetið tekjustofna sem byggjast á áætluninni auk þess sem tilteknir útgjaldaliðir hafa tekið breytingum sem byggjast á þjóðhagsspánni. Þær tillögur eru hluti af breytingartillögum meiri hlutans fyrir 2. umræðu frumvarpsins.

Breytingartillögur.
    Gerðar eru breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins, um 8.026,1 m.kr. til hækkunar tekna, og við sundurliðun 2, sem eru gjaldaheimildir málefnasviða og málaflokka um samtals 8.641,9 m.kr. til hækkunar gjalda ef miðað er við alþjóðlegan hagskýrslustaðal.
    Heildarafkoman verður þá neikvæð um 46.910 m.kr. en sú afkoma rúmast vel innan þess ramma sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn nemur þá 1% af vergri landsframleiðslu (VLF).
    Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á því markmiði sínu að með breytingartillögum fyrir 2. umræðu yrði frumjöfnuður ekki lakari heldur en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Samkvæmt tillögunum mun það ganga eftir þar sem gert er ráð fyrir að frumjöfnuður verði 1,3 ma.kr. jákvæðari.

Í m.kr. Frumvarp Breytingartillögur Samtals Hlutfall af VLF
Frumtekjur 1.312.253,2 3.014,0 1.315.267,2 29,1%
Frumgjöld 1.284.132,5 1.773,9 1.285.906,4 28,4%
Frumjöfnuður 28.120,8 1.240,1 29.360,9 0,6%
Vaxtatekjur 36.278,3 5.012,1 41.290,4 0,9%
Vaxtagjöld 110.693,2 6.868,0 117.561,2 2,6%
Vaxtajöfnuður -74.414,9 -1.855,9 -76.270,8 -1,7%
Heildartekjur 1.348.531,5 8.026,1 1.356.557,6 30,0%
Heildargjöld 1.394.825,6 8.641,9 1.403.467,5 31,0%
Heildarjöfnuður -46.294,1 -615,8 -46.909,9 -1,0%
    Í töflunni koma fram heildarstærðir breytinga á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur eru sett fram samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli.

Helstu markmið frumvarpsins.
    Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Í 16. gr. laganna er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins skuli byggður upp og settur fram. Í 14. gr. kemur fram að frumvarpið skuli vera í samræmi við markmið gildandi fjármálaáætlunar sem samþykkt var í vor og tekur til áranna 2024–2028.
    Meginmarkmið frumvarpsins taka til tveggja meginþátta sem byggjast að miklu leyti á jákvæðri þróun efnahagslífsins sem hefur tekið hratt við sér eftir heimsfaraldurinn og mun hraðar heldur en áður var gert ráð fyrir.
     1.      Afkomumarkmið. Nú er áætlað að halli samkvæmt heildarútkomu verði um 47 ma.kr. en frumjöfnuður (tekjur án vaxtatekna að frádregnum gjöldum án vaxtagjalda) verði jákvæður um rúmlega 29 ma.kr. eða um 0,6 % af VLF á næsta ári. Afkoman hefur ekki verið betri síðan fyrir heimsfaraldur COVID-19.
     2.      Skuldahlutfall. Áætlað er að skuldir samkvæmt skuldareglu sem skilgreind er í 7. gr. laga um opinber fjármál hækki að nafnvirði um rúmlega 50 ma.kr. en lækki sem hlutfall af VLF. Nú er miðað við að skuldir verði innan við 31% af VLF í lok næsta árs. Viðunandi skuldastig sem miðast oft við 30% af VLF er forsenda þess að bregðast megi við óvæntum efnahagsáföllum og beita ríkisfjármálunum sem sveiflujafnandi hagstjórnartæki líkt og tókst í heimsfaraldrinum.

Breytingar á útgjaldarömmum á milli ára.
    Í greinargerð með frumvarpinu er tafla á bls. 136 sem sýnir breytingar á rammasettum útgjöldum málefnasviða á verðlagi ársins 2023. Búið er að uppfæra þá töflu miðað við áætlað verðlag 2024 og bæta við tillögum meiri hlutans fyrir 2. umræðu frumvarpsins.
    Með rammasettum útgjöldum er sleppt vaxtagjöldum, lífeyrisskuldbindingum, ríkisábyrgðum, framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs og til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sá samanburður gefur því góða mynd af útgjaldaþróun grunnrekstrar ríkisins.
    Á heildina litið hækka rammasett gjöld um 37,2 ma.kr. að raungildi á milli ára. Breytingar eru bæði til lækkunar og hækkunar. Mesta hækkunin er 11,5 ma.kr. vegna varasjóðs fjárlaga og skýrist af því launahækkanir komandi kjarasamninga eru ekki áætlaðar inn á einstök málefnasvið heldur er þess í stað gert ráð fyrir þeim í varasjóði. Millifært verður út af þeim lið eftir framvindu kjarasamninga.
    Næstmest hækkun er 8,2 ma.kr. vegna sjúkrahúsþjónustu, þrátt fyrir tillögu um 3,9 ma.kr. lækkun við 2. umræðu frumvarpsins, sem skýrist bæði af auknum rekstrarheimildum og viðbót til byggingar nýs Landspítala. Gjöld til orkumála hækka um 5,9 ma.kr. en þar er að mestu um að ræða tilfærslu frá tekjuhlið fjárlaga þar sem styrkir Orkusjóðs koma að hluta til í stað niðurfellingar gjalda vegna kaupa á hreinorkubifreiðum.
    Framlög til húsnæðismála hækka um 4,9 ma.kr. og endurspegla áherslur stjórnvalda um að stefna að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði. Munar þar langmest um aukin stofnframlög vegna fjölgunar íbúða innan almenna íbúðakerfisins.
    Framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hækka um 4,5 ma.kr. að raungildi og munar þar mestu um nokkra liði sjúkratrygginga. Framlög til málefnasviðs 10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála hækka um 4,1 ma.kr. milli ára sem er nálægt 20% hækkun og skýrist alfarið af mikilli hækkun framlaga vegna útlendingamála. Í þessu sambandi vekur meiri hlutinn athygli á tillögu sinni, sem skýrð er í kaflanum um breytingartillögur á gjaldahlið, sem ætlað er að vega á móti útgjaldahækkuninni.

Fjárhæðir á verðlagi 2024
Málefnasvið, m.kr.
Fjárlög 2023 Frumvarp 2024 Breyting við 2. umr. Frumvarp með breyt. Breyting milli ára Breyting, hlutfall
01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess 7.517 6.674 90 6.764 -753 -10,0%
02 Dómstólar 4.044 4.038 0 4.038 -5 -0,1%
03 Æðsta stjórnsýsla 3.006 2.719 59 2.778 -228 -7,6%
04 Utanríkismál 17.648 15.733 125 15.858 -1.790 -10,1%
05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla 29.162 29.896 -514 29.382 220 0,8%
06 Hagskýrslugerð og grunnskrár 3.622 3.463 0 3.463 -159 -4,4%
07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar 35.228 31.506 1.522 33.029 -2.199 -6,2%
08 Sveitarfélög og byggðamál 3.202 2.934 180 3.114 -88 -2,8%
09 Almanna- og réttaröryggi 41.404 41.128 -776 40.352 -1.051 -2,5%
10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála 21.942 26.250 -163 26.086 4.145 18,9%
11 Samgöngu- og fjarskiptamál 54.036 56.340 264 56.603 2.567 4,8%
12 Landbúnaður 23.009 22.961 108 23.069 60 0,3%
13 Sjávarútvegur og fiskeldi 7.307 7.728 10 7.738 431 5,9%
14 Ferðaþjónusta 2.417 2.148 5 2.153 -264 -10,9%
15 Orkumál 8.718 14.651 0 14.651 5.933 68,1%
16 Markaðseftirlit og neytendamál 3.596 3.866 9 3.875 279 7,8%
17 Umhverfismál 30.979 30.827 2.816 33.643 2.664 8,6%
18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál 22.067 21.216 558 21.775 -292 -1,3%
19 Fjölmiðlun 6.289 6.950 -5 6.945 657 10,4%
20 Framhaldsskólastig 45.259 44.752 800 45.552 293 0,6%
21 Háskólastig 63.616 65.193 -11 65.182 1.566 2,5%
22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála 5.838 5.579 103 5.682 -156 -2,7%
23 Sjúkrahúsþjónusta 152.665 164.752 -3.903 160.849 8.184 5,4%
24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 84.169 87.204 1.493 88.696 4.528 5,4%
25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 82.522 79.398 330 79.728 -2.794 -3,4%
26 Lyf og lækningavörur 38.804 41.298 1.117 42.415 3.610 9,3%
27 Örorka og málefni fatlaðs fólks 107.463 107.073 53 107.126 -337 -0,3%
28 Málefni aldraðra 123.616 122.445 -5.400 117.045 -6.571 -5,3%
29 Fjölskyldumál 59.721 62.914 71 62.984 3.263 5,5%
30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi 8.543 7.947 167 8.114 -429 -5,0%
31 Húsnæðis-og skipulagsmál 19.138 25.023 -1.000 24.023 4.885 25,5%
32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála 12.078 11.858 52 11.910 -168 -1,4%
34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir 37.349 45.547 3.289 48.836 11.487 30,8%
35 Alþjóðleg þróunarsamvinna 12.887 12.067 500 12.567 -321 -2,5%
Samtals 1.178.857 1.214.075 1.949 1.216.023 37.166 3,2%

    Verulegar hækkanir koma einnig fram vegna lyfjakostnaðar (3,6 ma.kr.) og fjölskyldumála (3,2 ma.kr.) sem skýrast af hækkun barnabóta og samgöngumála (2,6 ma.kr.) þar sem fjárheimildir til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu hækka auk þess sem ráðstöfun varaflugvallargjalds upp á 1,6 ma.kr. kemur inn sem hækkun.
    Raunlækkun milli ára kemur fram í nokkrum tilfellum. Í nokkrum tilfellum skýrist það af lækkun stofnkostnaðar þegar stórum verkefnum lýkur. Dæmi um það er t.d. hjá Alþingi og vegna byggingar hjúkrunarheimila.
    Langmesta lækkunin kemur fram í málefnum aldraða þar sem við endurmat fyrir 2. umræðu frumvarpsins kom fram að áætlaðar tekjur ellilífeyrisþega eru hærri en áður var áætlað og kemur þar hvort tveggja til að fjármagnstekjur hafa aukist auk þess sem yngstu ellilífeyrisþegarnir eru með mun hærri lífeyristekjur heldur en þeir sem eldri eru.
    Næstmesta lækkunin er hjá hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, þrátt fyrir raunhækkun til reksturs heimilanna, þar sem meira vegur niðurfelling fjárfestingarframlags til byggingar hjúkrunarheimila. Það kom inn á árunum 2020–2023 vegna framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarheimila í samræmi við stefnu um fjölgun hjúkrunarrýma. Uppsafnað fjármagn að fjárhæð 10,5 ma.kr. verður nýtt til áframhaldandi uppbyggingar á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarheimila.
    Lækkun á málefnasviði um nýsköpun og þekkingargreinar skýrist nær alfarið af því að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs til samkeppnissjóða í rannsóknum, nýsköpun og tækniþróun falla niður.

Efnahagsforsendur.
    Efnahagsforsendur frumvarpsins byggjast á spá frá Hagstofu Íslands. Spáin fyrir næsta ár gefur til kynna að hagkerfið muni leita jafnvægis með hóflegum hagvexti og lækkandi verðbólgu. Á þessu ári hefur verið verulegur hagvöxtur, sérstaklega á fyrri hluta árs. Útlit er fyrir að verðbólgan í ár hafi verið að meðaltali um 8,7%. Í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðbólga fari niður í 4,9% og að hagvöxtur verði um 2,6%. Í nóvember gaf Seðlabanki Íslands út nýja efnahagsspá og var sú spá nokkuð svipuð því sem kemur fram í forsendum frumvarpsins.
    Í töflunni hér að neðan eru efnahagsforsendur frumvarpsins bornar saman við nýjustu spá Seðlabanka Íslands og uppfærða spá Hagstofu Íslands fyrir árið 2024.

Spár fyrir 2024 Forsendur frumvarps Seðlabanki
Spá nóv.
Hagstofan
Spá nóv.
Hagvöxtur % 2,6 2,6 2,1
Verðbólga % 4,9 5,7 5,6
Atvinnuleysi % 3,7 4,8 4,0

    Nokkur breyting er í uppfærðri spá Hagstofu Íslands frá efnahagsforsendum frumvarpsins, sem birtist í nóvember. Í uppfærðri spá er nú gert ráð fyrir nokkuð lægri hagvexti á næsta ári eða um 2,1%. Helsta skýringin á þessari breytingu er að samkvæmt nýjustu tölum þjóðhagsreikninga þá var hagvöxtur fyrir árið 2022 7,2% í stað 6,4%. Þetta gerir það að verkum að grunnur landsframleiðslunnar er hærri en gert var ráð í upphaflegum forsendum frumvarpsins sem lækkar hlutfallslega breytingu á milli 2023 og 2024 og kemur það fram í lægri hagvaxtarprósentu. Einnig er um að ræða efnislega endurskoðun á horfum og þá sérstaklega í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi. Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 1,9% samanborið við 2,2% í síðustu spá. En verðbólga og vextir hækka á milli spáa sem hefur neikvæð áhrif á ráðstöfunartekjur og hagvöxt. Þá er spá um fjárfestingar lækkuð úr 3,4% í 0,4% og ber þar hæst að spá um að íbúðafjárfesting dragist saman í ár og á næsta ári um 1,3% og 4,1%. Reiknað er með að íbúðafjárfesting taki við sér árið 2025 og aukist þá um 5,4% og 4,1% árið 2026.
    Þá kemur einnig fram að verðbólga á næsta ári verður eilítið hærri en miðað við upphaflegar forsendur. En verðbólgan hefur verið seig og er að lækka nokkuð hægar en vonast var til. Verðbólgan hefur verið þrálát á þessu ári og stendur nú í 7,9%. Þótt verðbólgan hafi farið lækkandi eru verðbólguvæntingar enn háar, bæði til skemmri og lengri tíma. Mikilvægt er að aðhald Seðlabankans í peningastefnunni fari að hafa þannig áhrif að bæði verðbólga og verðbólguvæntingar lækki enn frekar. Ýmis atriði gætu þar haft áhrif og þar á meðal útkoma í kjarasamningum en í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að laun hækki um 5,6%. Ef forsendur frumvarpsins ganga eftir er líklegt að meginvextir Seðlabankans séu nú komnir í hámark og gætu tekið að lækka á næsta ári.

Fólksfjölgun og efnahagsforsendur.
    Fólksfjölgun getur haft veruleg áhrif á efnahagsforsendur. Þetta á sérstaklega við um verðlag og hagvöxt sem hefur áhrif á ríkisfjármálin. Á undanförnum misserum hefur fólksfjölgun á Íslandi verið verulega yfir spám Hagstofu Íslands. Umtalsverð fjölgun varð á árinu 2022 en þá fjölgaði íbúum landsins um 3%. Útlit er fyrir að fólksfjölgun í ár verði með svipuðu móti eða um 3%. Því má reikna með að í byrjun næsta árs verði íbúar á Íslandi um 400 þúsund manns. Til samanburðar hefur árleg fólksfjölgun í öðrum Evrópulöndum verið innan við 1% og jafnvel fólksfækkun.
    Fjölgunin er að langmestu vegna flutnings erlendra ríkisborgara til landsins. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um mannfjölda á þriðja ársfjórðungi þessa árs bjuggu um 72 þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi sem er um 18% af heildaríbúafjölda. Fjölgun erlendra ríkisborgara frá fyrsta ársfjórðungi 2022 til þriðja ársfjórðungs 2023 var um 30%. Myndin hér að neðan sýnir þróun á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ef þessi fólksfjölgun heldur áfram inn á næsta ár má reikna með að fólksfjölgun 2024 verði áfram veruleg. Þegar íbúum fjölgar þetta mikið má gera ráð fyrir því að það hafi veruleg áhrif á eftirspurn eftir t.d. húsnæði, vörum og þjónustu. Með slíkri fólksfjölgun má einnig gera ráð fyrir verulegri aukningu á eftirspurn eftir opinberri þjónustu sem hefur áhrif á ríkisútgjöldin. Verði hagvöxtur ekki meiri á næsta ári en gert er ráð fyrir í nýjustu spá Hagstofu Íslands er hætt við því að hagvöxtur á mann gæti orðið neikvæður. Í því samhengi er mikilvægt að huga að framleiðni og áframhaldandi háu atvinnustigi þannig að hagvöxtur á mann verði jákvæður.

Áherslumál og ábendingar meiri hluta nefndarinnar.
Fjármálareglur – útgjaldaregla.
    Í frumvarpinu kemur fram að ætlunin er að virkja tölusettar fjármálareglur að nýju frá og með árinu 2025 sem er ári fyrr en áætlað var í gildandi fjármálastefnu. Meginástæðan er að efnahagslífið hefur tekið betur við sér eftir heimsfaraldurinn heldur en áætlað var. Nokkrir umsagnaraðilar hafa fjallað um kosti útgjaldareglu til viðbótar við þær fjármálareglur sem tilteknar eru í lögum um opinber fjármál.
    Meiri hlutinn telur brýnt að auka aga í opinberum rekstri og draga úr sveiflumögnun. Setja þarf skýr markmið um útgjaldavöxt að raungildi sem væri þá ígildi fjármálareglu fyrst um sinn meðan innleidd verði útgjaldaregla í lög um opinber fjármál. Sú ákvörðun getur stuðlað að því að draga úr sveiflum á útgjaldahlið, bætt skilvirkni í opinberum fjárfestingum og aukið aga í ríkisfjármálum.

Endurmat útgjalda.
    Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhersla á að ná fram skilvirkni og auka framleiðni innan ríkiskerfisins. Einn veikleiki rammafjárlagagerðarinnar er sú mikla áhersla sem er á þær fjárhæðir sem eru breytingar milli ára án þess að grunnfjárveitingar, þær sem þegar eru innan ramma, séu endurskoðaðar.
    Verkefninu um endurmat útgjalda er ætlað að vega á móti þessum veikleika þar sem tilgangurinn er að greina kerfisbundið útgjöld til tiltekinna verkefna eða málaflokka. Reynsla annarra ríkja er góð og ef vel tekst til skilar endurmatið hagræðingu, bættri forgangsröðun í samræmi við pólitískar áherslur og gleggri yfirsýn yfir verkefni hins opinbera.
    Meiri hlutinn hvetur eindregið til þess að áfram verði haldið á þessari braut og þetta starf eflt á öllum sviðum til að ná fram framangreindum markmiðum.
    Eitt fjölmargra verkefna sem nauðsynlegt er að leggja mat á er árangur hlutdeildarlána og almenna íbúðakerfisins því mikilvægt er að kortleggja hvaða stuðningskerfi skila bestum árangri og þá ráðstafa þeim fjármunum sem fara í húsnæðisstuðning á skilvirkan hátt.

Kjarasamningar á næsta ári.
    Kjarasamningar losna á vinnumarkaði vorið 2024. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og laun eru einn stærsti útgjaldaliðurinn. Meiri hlutinn telur rétt að almennur markaður gefi tóninn þar sem ríkið ætti ekki að vera leiðandi við gerð kjarasamninga. Mikilvægt er að gerðir séu langtímasamningar sem byggist á framleiðniaukningu og að samningarnir stuðli að lækkun verðbólgu og létti þar með þrýstinginn á meginvexti Seðlabankans öllum til heilla.
    Komin er reynsla á verkefnið Betri vinnutími. Helstu markmiðin voru að bæta lífskjör og auðvelda samræmi á milli vinnu og einkalífs. Í skýrslu KPMG frá því í nóvember 2022 kemur fram að innleiðingin hafi ekki gengið eins og best væri á kosið. 77% stofnana fóru í hámarksvinnutímastyttingu þrátt fyrir að stjórnendum hafi verið ráðlagt að fara í hægt í sakirnar og innleiða styttingu í skrefum samhliða vinnu við umbætur á rekstri og þjónustu. KPMG taldi að áhrif stéttarfélaga hefðu gert þetta að verkum þar sem þau töldu kjarasamningsbundinn rétt félagsmanna sinna að fá hámarksstyttingu, en skyldurnar um gagnkvæman ávinning fylgdu ekki nægilega sterkt með.
    Fjárlaganefnd hefur eftirlitshlutverki að gegna og því beinir meiri hlutinn því til ríkisstjórnar að koma af stað markvissum mælingum á skilvirkni innan sinna ráðuneyta og undirstofnana. Mikilvægt er að geta skoðað áhrifin af verkefnum líkt og umræddu verkefni.

Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
    Ríkissjóður á 42,5% hlut í Íslandsbanka og í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að selja helming þess hlutar. Í ljósi óvissu um útgjöld vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, lægri hagvaxtarspáa en áður var miðað við og væntinga um aukið atvinnuleysi er von á því að útgjöld gætu aukist meira en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Því ítreka meiri hlutinn mikilvægi þess að vel sé staðið að sölunni á næsta ári til þess að auka sjóðstreymi til ríkisins og minnka lánsfjárþörf meðan vaxtastig er hátt.

Löggæsla og landhelgisgæsla.
    Í frumvarpinu er almennt gert ráð fyrir að lögreglan sé undanþegin almennri aðhaldskröfu en hlutdeild málaflokksins í sértækum afkomubætandi aðhaldsráðstöfunum á málefnasviðinu nemur 138 m.kr.
    Rekstur lögreglunnar er að stærstum hluta í mjög föstu formi, fastir rekstrarliðir, svo sem laun og launakostnaður, rekstur fasteigna, rekstur ökutækja sem og rekstur kerfa lögreglunnar. Gera má ráð fyrir því að fastur kostnaður lögregluembættanna sé um 90% af heildarkostnaði embættanna.
    Á síðustu árum hefur verið bætt í rekstrargrunn lögreglu til að gera lögregluna betur í stakk búna til að takast á við þau verkefni sem henni ber að sinna lögum samkvæmt, stytta viðbragðstíma, stytta málsmeðferðartíma, auka öryggisstig og þjónustustig, sérstaklega á landsbyggðinni og fjölga menntuðum lögreglumönnum.
    Það er mat meiri hlutans að með tillögum hans fyrir 2. umræðu frumvarpsins sé lögreglunni gert kleift að eflast verulega. Meiri hlutinn leggur til að sérstök aðhaldskrafa á lögreglu að fjárhæð 138 m.kr. verði felld niður. Jafnframt hefur meiri hlutinn það markmið að draga úr ríkisútgjöldum og er samhliða lagt til að áætlunum um byggingu sameiginlegs húsnæðis fyrir alla viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu verði frestað og tæplega 1,4 ma.kr. fjárheimild felld niður.
    Meiri hlutinn telur mjög brýnt að rekstrargrundvöllur Landhelgisgæslu Íslands verði tryggður til framtíðar. Stefnumótun og áætlun til lengri tíma komi fram í næstu fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029. Til að tryggja núverandi leitar- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar gerir meiri hlutinn tillögu um tímabundna hækkun um 240 m.kr. á rekstrargrunni stofnunarinnar og vegur hún upp á móti sérstakri aðhaldskröfu að sömu fjárhæð sem var í frumvarpinu.

Landbúnaður og erfið staða bænda.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 198 m.kr. til aðgerða sem eiga að stuðla að auknu kynbótastarfi og innviðauppbyggingu, ásamt beinum stuðningi við kornframleiðslu, í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunarinnar Bleikir akrar. Þá er til staðar fjárveiting vegna vinnu við verndandi arfgerðir gegn riðuveiki í íslenska sauðfjárstofninum en unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði.
    Landbúnaðurinn glímir við einstaklega erfitt rekstrarumhverfi, sérstaklega í framhaldi af innrás Rússa í Úkraínu, þar sem stórhækkað verð á ýmsum aðföngum landbúnaðar hefur gjörbreytt öllum rekstrarforsendum. Fordæmalaus hækkun hefur orðið á áburði, orku, kjarnfóðri og ýmsum öðrum aðföngum til búrekstrar sem ekki hefur verið mögulegt að velta út í almennt verðlag. Bændur hafa nánast enga möguleika til að velta slíkum byrðum út í almennt vöruverð.
    Þá eru verulegar hækkanir á fjármagnskostnaði þar sem landbúnaður hefur m.a. þurft, vegna opinberra aðgerða um bættan aðbúnað búfjár, að standa í miklum fjárfestingum. Stækkun búa, með tilheyrandi fjárfestingum, og mikil skuldsetning í samhengi við veltu er þung í skauti.
    Eðli búskapar er að aðskilnaður heimilis og fyrirtækis (rekstrar) er ekki sá sami og almennt er í atvinnurekstri. Heimili bændafjölskyldna eru samofin búrekstri, auk þess sem velferð búfjár er stöðugt í forgangi. Í mjólkurframleiðslu og fleiri búgreinum er ekki val um að fresta fjárfestingum, vegna settra laga og reglna stjórnvalda. Það er hér undirstrikað að þótt flestir finni fyrir stórhækkun á fjármagnskostnaði verður að hafa þessa sérstöðu landbúnaðar í huga.
    Staðan er þó mismunandi innan stéttarinnar en sá hluti bænda sem hefur þurft að fjárfesta og ungt fólk í landbúnaði sem nýlega hefur hafið rekstur er margt í mjög alvarlegri stöðu. Því hefur hópur ráðuneytisstjóra unnið að tillögugerð og greiningu á þessari erfiðu stöðu sem komin er upp innan atvinnugreinarinnar. Ráðast verður í bráðaaðgerðir og til lengri tíma að tryggja rekstrarhæfni landbúnaðar. Meiri hlutinn á von á því að leggja fram breytingartillögur á þessu málefnasvið við 3. umræðu frumvarpsins.

Ferðaþjónusta.
    Ferðaþjónustan hefur á undanförnum áratug þróast úr því að vera sumarstarfsemi í heilsársstarfsemi og er ein stærsta útflutningsgrein landsins ásamt því að vera mikilvæg atvinnugrein fyrir gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Hún verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu, jafnframt að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu.
    Meiri hlutinn telur brýnt að áfram verði unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna. Ferðaþjónustan byggist á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda landsins þar sem ferðamenn skoða þær náttúruperlur sem landið býður upp á og nota á sama tíma mikilvæga innviði, líkt og vegakerfið og heilbrigðisþjónustu. Við nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda er aðgangsstýring mikilvæg til þess að koma í veg fyrir harmleik sem getur falist í því að ákveðnir ferðamannastaðir verði ofnýttir, sem eyðileggur upplifun allra sem reyna að njóta.
    Í nefndaráliti meiri hlutans um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 var bent á að gagnlegt yrði að ráðast í greiningu á tekjum ríkisins af mismunandi tegundum ferðamanna, eftir ferðamáta til og frá landinu, ferðamáta innan lands og vali á gistingu. Það er ítrekað hér ásamt því að nauðsynlegt er að ráðast í breytingar á lagaumhverfi heimagistingar og draga úr þrýstingi á húsnæðismarkaðinn.

Almannaheillafélög.
    Fjárlaganefnd barst beiðni um endurgreiðslu, niðurfellingu eða styrk er samsvarar upphæð virðisaukaskatts af byggingu björgunarmiðstöðvar á Hornafirði. Undanfarin ár hafa reglulega komið slík erindi til Alþingis frá íþróttafélögum, björgunarfélögum og öðrum almannaheillafélögum. Til meðferðar á Alþingi hafa verið frumvörp til laga þar sem lögð er til endurgreiðsla virðisaukaskatts af framkvæmdum hjá almannaheillafélögum en hafa ekki náð fram að ganga. Flækjustig á útfærslu slíkra laga hefur verið eitt það helsta sem hefur staðið í vegi.
    Það hefur færst í aukana undanfarin ár að almannavarnastig sé virkt hér á landi og hefur ferðamannastraumur aukist jafnt og þétt um allt land sem hvort tveggja eykur álag og umfang starfsemi björgunarsveita landsins. Aukin fólksfjölgun, auknar kröfur og breytt samfélag hefur gert íþróttafélögunum erfiðara fyrir í sínum rekstri en mikilvægi þeirra hefur aldrei verið meira.
    Meiri hlutinn leggur því til að fyrir komandi fjármálaáætlun verði skoðuð aðkoma ríkisins að verkefnunum samhliða breytingum á virðisaukaskattskerfinu.

Háskólar.
    Í undirbúningi er gagnger kerfisbreyting á fjármögnun háskólanna en núverandi reiknilíkan er frá árinu 1999. Reiknilíkanið hefur tekið óverulegum breytingum síðan þá á meðan umhverfi háskólastarfs hefur breyst þó nokkuð. Kerfisbreytingin miðar að því að auka gæði náms og rannsókna og draga betur fram samfélagslegt hlutverk háskóla. Hinu nýja líkani er ætlað að vera gagnsætt, árangurstengt og mælanlegt og auka stöðugleika í fjárveitingum. Þá er unnið að auknu samstarfi milli háskóla, m.a. á grundvelli þess að háskólar og rannsóknastofnanir myndi svokallaðar háskólasamstæður.
    Meiri hlutinn telur umrædd áform tímabær og til þess fallin að stuðla að gagnsæi og fyrirsjáanleika í fjárveitingum til háskóla og efla starfsemi háskóla í landinu. Ráðgert er að árangurstengdri fjármögnun verði komið á árið 2025. Leggur meiri hlutinn áherslu á að áfram verði vandað við undirbúning innleiðingarinnar á næsta ári og áformin gangi eftir.

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
    Nefndinni hafa borist fjölmargar óskir um styrkveitingar innan þessa málefnasviðs. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttra atvinnutækifæra og öflugs menningarlífs um allt land. Lagðar eru til breytingartillögur til að styrkja menningarstarfsemi víða um land og stuðla þannig að jafnara aðgengi allra landsmanna að listum og menningu. Öflug menningarstarfsemi á landsbyggðinni styður við byggðastefnu stjórnvalda og gerir hinar dreifðu byggðir landsins að fýsilegri búsetukosti með fjölbreyttari tækifærum og líflegri samfélögum.
    Ekki er um háar fjárhæðir að ræða en þær geta skipt sköpum í rekstri safna og menningarstofnana. Langflestar breytingartillögur meiri hlutans snúa að þessu málefnasviði. Allar tillögurnar eru skýrðar í kaflanum Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.

Útgjöld til heilbrigðismála og ellilífeyris sem hlutfall af VLF.
    Algengt er bæði í umsögnum og umræðum um ríkisfjármál að setja tekjur og gjöld einstakra málefnasviða fram sem hlutfall af VLF. Oft hafa útgjöld til heilbrigðismála og almannatrygginga verið sett fram sem hlutfall og borin saman við sambærileg hlutföll annars staðar á Norðurlöndunum og í ríkjum innan OECD.
    Á Íslandi eru útgjöld til heilbrigðismála um 9,7% af VLF (árið 2021) sem er örlítið hærra en í Finnlandi en lægra en á öðrum Norðurlöndum. Þar er Noregur með 10,1% og Svíþjóð fer upp í 11,4%. Í þeirri umræðu þarf að taka tillit til þess að Íslendingar eru enn sem komið er töluvert yngri þjóð en aðrar Norðurlandaþjóðir. Hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri er um 15% hérlendis en á bilinu 18–23% í hinum löndunum. Að teknu tilliti til þessa er hlutfallið svipað á öllum Norðurlöndunum.
    Einnig hefur verið umræða um hlutfall ellilífeyris af VLF. Ef tekjur ellilífeyrisþega bæði frá hinu opinbera og frá lífeyrissjóðum eru lagðar saman og tekið tillit til aldursdreifingar þá nema tekjur þeirra svipuðu hlutfalli af VLF annars staðar á Norðurlöndunum.
    Breytingartillögur meiri hlutans á málefnasviði sjúkrahúsþjónustu til lækkunar um 3,9 ma.kr. skýrast alfarið af endurmati áætlana um byggingu nýs Landspítala og er þar um að ræða hliðrun milli ára en ekki er verið að draga úr framlögum til rekstrar. Gert er ráð fyrir að fjárfesting í nýjum Landspítala nemi á bilinu 20–25 ma.kr. á næsta ári.

Breytingartillögur á tekjuhlið fjárlaga.
    Ríkisstjórnin hefur komið með fjölmargar tillögur til nefndarinnar til umfjöllunar fyrir 2. umræðu frumvarpsins. Breytingar á tekjuhlið eru allar byggðar á tillögum hennar. Endurmat fjármála- og efnahagsráðuneytis byggist á nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, nýjustu gögnum um þróun skattstofna fram til októbermánaðar og endurmati á einstaka liðum frá framlagningu frumvarpsins.
    Veigamesta hækkunin í endurmatinu liggur í 7,5 ma.kr. hækkun tekjuskatts lögaðila og 5,2 ma.kr. hækkun fjármagnstekjuskatts. Á móti vegur 6 ma.kr. lækkun tekjuskatts einstaklinga vegna tilfærslu tekna til sveitarfélaga vegna reksturs málefna fatlaðra. Útsvar hækkar þá um 6 ma.kr. á móti tekjuskattslækkuninni.
    Endurmat tekjuáætlunar ber þess merki að farið er að hægjast á í hagkerfinu sem einkum kemur fram í þróun virðisaukaskatts á yfirstandandi ári. Áætlun hans er lækkuð um 6,5 ma.kr. Á móti vegur að vaxtatekjur eru áætlaðar um 5 ma.kr. hærri sem skýrist einkum af hærri verðbólguspá.
    Töluverðar breytingar tengjast skattkerfisbreytingum sem eftir er að lögfesta. Þær snúa að miklu leyti að endurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti og 1,8 ma.kr. aukinni gjaldtöku á ferðaþjónustu. Einnig bætist 1 ma.kr. við tekjur sem er forvarnagjald, sbr. lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga sem samþykkt voru 13. nóvember sl. Nettóhækkun frumtekna er um 3 ma.kr.

Fjármögnun málefna fatlaðra.
    Hækkun útsvars samhliða 6 ma.kr. lækkun tekjuskatts einstaklinga kemur til viðbótar við 5 ma.kr. sambærilega tilfærslu í fjárlögum yfirstandandi árs. Gert er ráð fyrir að ná samkomulagi við sveitarfélögin um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk og kostnað vegna hennar á þessum nótum. Í því felst líka að sveitarfélögin nái betri tökum á rekstri málaflokksins en vísbendingar eru um að útgjöldin hafi fimmfaldast frá því að málaflokkurinn færðist frá ríkinu og yfir til sveitarfélaganna.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.

01.10 Alþingi.
    Gerð er tillaga um 3,8 m.kr. tímabundna lækkun á framlögum Alþingis til þingflokka. Það er 3,5% lækkun og þar með í samræmi við aðhaldskröfu sem gerð er á ýmsa aðra liði frumvarpsins.
    Lagt er til að Alþingi verði veitt 94 m.kr. framlag til að færa Skólaþing í nýtt húsnæði í Skúlahúsi. Leigusamningur húsnæðis Skólaþings rennur út í árslok árs 2024 og því mikilvægt að hægt verði að tryggja starfseminni nýja og varanlega staðsetningu sem og að fara í nauðsynlegar framkvæmdir á árinu 2024.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.10 Embætti forseta Íslands.
    
Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. framlag til embættis forseta Íslands til að halda óbreyttu umfangi á rekstri embættisins. Þá er sívaxandi ásókn í aðkomu forseta að hinum ýmsu viðburðum og stóraukið aðgengi að Bessastöðum með tilheyrandi umsýslu og kostnaði. Einnig hefur í vaxandi mæli verið sóst eftir aðkomu maka forsetans og hefur virkni maka forseta áhrif á rekstur embættisins.

03.30 Forsætisráðuneyti.
    
Lagt er til að 19,1 m.kr. tilfærsluframlag verði flutt á laun og önnur gjöld vegna breytinga á fyrirkomulagi á launagreiðslum vegna rekstrar á Hrafnseyri þar sem forstöðumaður er nú launamaður ráðuneytisins. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 er sambærileg tillaga.
    Gert er ráð fyrir að veita 40 m.kr. framlag til almenns útgjaldasvigrúms forsætisráðuneytis.
    Gerð er tillaga um 0,8 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um lækkun á ráðstöfunarfé allra ráðherra um 30%.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 2 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024.
    Gerð er tillaga um 1,1 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um lækkun á ráðstöfunarfé allra ráðherra um 30%.

04.20 Utanríkisviðskipti.
    Framlag til Íslandsstofu lækkar um 76 m.kr. í samræmi við áætlaðar tekjur af markaðsgjaldi.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Lagt er til að framlög til varnartengdra verkefna verði hækkuð um 200 m.kr. Gert er ráð fyrir að 120 m.kr. verði varið til þess að efla getu til aðgerðarstjórnunar og til að sinna greiningarvinnu og samvinnu við helstu samstarfsaðila. Þá verði um 80 m.kr. varið til aukinnar öryggisgæslu á varnarsvæðinu. Stærsti hluti varnarframlaga Íslands fer í rekstur, viðhald og uppbyggingu varnarmannvirkja og tæknibúnaðar á Íslandi sem eru þungamiðjan í gagnkvæmum varnarskuldbindingum Íslands og lykilinnviðir fyrir Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hvað varðar getu þeirra til að verja Ísland. Þar vegur þyngst rekstur íslenska loftvarnakerfisins (IADS), innviðir og gistiríkjaþjónusta á öryggissvæðinu í Keflavík. Varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar sér um daglegan rekstur varnartengdra verkefna á grundvelli samnings við utanríkisráðuneytið en stór hluti af framkvæmdum og þjónustu er á hendi íslenskra verktaka. Mikilvægt er að brugðist verði við brýnustu verkefnum sem snúa að því að tryggja mannafla og öryggismál svo að unnt verði að hafa umsjón með auknum umsvifum og þátttöku í alþjóðlegu varnarsamstarfi. Að auki er skýr pólitísk krafa um aukin framlög og þátttöku í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Tryggja þarf að gistiríkjastuðningur, rekstur, mannauður, viðhald og öryggismál taki mið af auknum viðbúnaði og umsvifum til að standa við skuldbindingar Íslands og tryggja fullt forræði og yfirsýn íslenskra stjórnvalda. Mikilvægt er að Ísland fylgi bandalagsþjóðum sínum og hugi að eflingu varna, ekki síst þeim viðbúnaði sem er nauðsynlegur til þessa að geta tekið á móti og sinnt samstarfi við þær þjóðir sem gegna lykilhlutverki þegar kemur að vörnum landsins.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 4,5 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024.

05.20 Eignaumsýsla ríkisins.
    Gerð er tillaga um 200 m.kr. tímabundna frestun framkvæmda á vegum Stjórnarráðsins til að draga úr þenslu. Tillagan er hluti af stærri tillögu sem ætlað er að fresta framkvæmdum á vegum ríkisins.

05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins.
    Gert er ráð fyrir 17,2 m.kr. millifærslu framlags vegna flutnings persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins til dómsmálaráðuneytisins.
    Félagið Fjárföng ehf. er að fullu í eigu ríkisins og til þess var stofnað til að hraða loftslagsvænum og rekstrarhagkvæmum fjárfestingum stofnana í A-hluta ríkisins sem stofnanir greiddu fyrir af rekstrarfé sínu. Fjárföng hafa fjárfest í eignum til notkunar hjá nokkrum ríkisaðilum í A1-hluta. Þær fjárfestingar sem um ræðir eru bifreiðar og nýtt málaskrárkerfi Stjórnarráðsins. Við skoðun á fyrirkomulaginu er talið æskilegt að færa eignarhald fjárfestinga yfir á stofnanirnar, þ.e. málaskrárkerfið í tilfelli Umbru. Vegna þess var lagt til í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 að fjárfestingarheimild ársins 2023 yrði hækkuð um 322 m.kr. og gert var ráð fyrir að rekstrargjaldaheimildir 2024–2027 yrðu lækkaðar við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 til að vega á móti aukinni fjárfestingarheimild ársins 2023. Nú er gerð tillaga um að rekstrargjaldaheimild á árunum 2024–2027 verði lækkuð svo að nettóáhrif á ríkissjóð á tímabilinu verði engin, eða um 80,5 m.kr. árlega.

05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála.
    Gerð er tillaga um 0,8 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár allra ráðherra um 30%.
    Gerð er tillaga um 220 m.kr. tímabundna lækkun framlags vegna stafvæðingar opinberrar þjónustu.

06 Hagskýrslugerð og grunnskrár.
06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 25,1 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Gerð er tillaga um 18,1 m.kr. tímabundna lækkun hjá Matvælasjóði, 20,2 m.kr. tímabundna lækkun hjá Tækniþróunarsjóði, 57,3 m.kr. tímabundna lækkun hjá Rannsóknasjóði og 2,1 m.kr. tímabundna lækkun hjá Innviðasjóði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir lækkun framlaga til nokkurra sjóða og er þar verið að draga að hluta til baka aukin framlög sem voru hluti af aðgerðum vegna heimsfaraldursins. Hér er lögð til lítils háttar lækkun til viðbótar.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Gert er ráð fyrir 1.600 m.kr. hækkun fjárheimildar vegna styrkja til nýsköpunarfyrirtækja. Hækkunin er í samræmi við uppfærða spá Rannís sem byggist á vaxandi fjölda umsókna og verðbólgu. Heildarheimild fyrir 2024 verður í kjölfarið 16,6 ma.kr.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til Textílmiðstöðvar Íslands og jafnframt er lagt til að gerður verði fastur samningur við setrið á sama grunni og samningar ráðuneyta sem koma að FABLAB.
    Gerð er tillaga um að Þörungamiðstöð Íslands fái tímabundið 10 m.kr. framlag til áframhaldandi uppbyggingar starfsemi sinnar á Reykhólum.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga.
    Endurmetin áætlun um breytingar á lögbundnu framlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sbr. uppfærslu á tekjuáætlun ríkissjóðs, leiðir til 174,6 m.kr. lækkunar. Spáin miðast við að innheimtar skatttekjur verði 1.195.557 m.kr. á verðlagi næsta árs og að álagningarstofn útsvars verði 2.401.064 m.kr.

08.20 Byggðamál.
    Hinn 23. júní sl. barst innviðaráðuneytinu erindi frá verkefnisstjórn Seyðisfjarðarverkefnisins þar sem þess er óskað að verkefnið verði framlengt um ár. Þannig má betur koma til móts við þá íbúa í atvinnurekstri sem enn eru að glíma við eftirköst áfallsins í kjölfar hamfaranna árið 2020 og skjóta styrkari stoðum undir þau verkefni sem komið hefur verið á fót en ekki eru komin á þann stað að þau séu sjálfbær. Verkefnisstjórnin leggur til að veitt verði aukaframlag og renni það að stærstum hluta í hvatasjóð sem hefur það hlutverk að styðja við atvinnuuppbyggingu og hvetja til þróunar á Seyðisfirði. Lagt er til að verkefnið verði framlengt og 25 m.kr. fjárhæð veitt til þess árið 2024.
    Gerð er tillaga um að veita verkefni um sóknaráætlanir landshluta 120 m.kr. tímabundið framlag til að efla atvinnu- og menningarlíf á landsbyggðinni.
    Gerð er tillaga um að veita starfsemi atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni 35 m.kr. tímabundið framlag sem Byggðastofnun verði falið að ráðstafa.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gerð er tillaga um 200 m.kr. tímabundna hækkun til ríkislögreglustjóra vegna málefna flóttamanna. Nefndin hefur kallað eftir upplýsingum og greiningum vegna útlendingamála. Útgjöldin í þeim málaflokki hafa stóraukist á sl. árum. Hér er gerð tillaga um hækkun til stoðdeildar embættis ríkislögreglustjóra í því skyni að embættinu verði gert auðveldara að aðstoða við brottvísanir einstaklinga sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd. Leiða má líkur að því að átak í þessum efnum skili um tvöfalt meiri sparnaði í útgjöldum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem ber ábyrgð á margvíslegri þjónustu gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd. Því er samhliða þessari breytingu gerð tillaga um 400 m.kr. lækkun á lið ráðuneytisins sem fellur undir málefni innflytjenda og flóttamanna.
    Gerð er tillaga um 37,6 m.kr. hækkun til ríkislögreglustjóra til að sinna löggæslu á Alþingi. Á fjárlögum líðandi árs fékk ríkislögreglustjóri fjárveitingu til að sinna löggæslu á Alþingi. Skv. 21. gr. reglugerðar um starfsemi, hlutverk og ábyrgð embættis ríkislögreglustjóra nr. 325/2021 sinnir embættið verkefnum sem hafa það að markmiði að efla öryggi æðstu stjórnar ríkisins skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Í samræmi við það leggur meiri hlutinn það til að ríkislögreglustjóra verði veitt 37,6 m.kr. fjárveiting til að sinna því hlutverki sínu.
    Í frumvarpinu er almennt gert ráð fyrir að lögreglan sé undanþegin almennri aðhaldskröfu en hlutdeild málaflokksins í sértækum afkomubætandi aðhaldsráðstöfunum á málefnasviðinu nemur 138 m.kr. Rekstur lögreglunnar er að stærstum hluta í mjög föstu formi, fastir rekstrarliðir, svo sem laun og launakostnaður, rekstur fasteigna, rekstur ökutækja sem og rekstur kerfa lögreglunnar. Gera má ráð fyrir því að fastur kostnaður lögregluembættanna sé um 90% af heildarkostnaði embættanna. Á síðustu árum hefur verið bætt í rekstrargrunn lögreglu til að gera lögregluna betur í stakk búna til að takast á við þau verkefni sem henni ber að sinna lögum samkvæmt, stytta viðbragðstíma, stytta málsmeðferðartíma, auka öryggisstig og þjónustustig, sérstaklega á landsbyggðinni, og fjölga menntuðum lögreglumönnum. Það er mat meiri hlutans að með sértækri afkomubætandi aðhaldskröfu á lögreglu sé embættunum sú eina leið fær að fækka starfandi lögreglumönnum og stíga þar með skref til baka frá þeirri þróun sem verið hefur í málaflokknum undanfarin ár. Meiri hlutinn leggur til að sérstök afkomubætandi aðhaldskrafa á lögreglu í frumvarpinu að upphæð 138 m.kr. verði felld niður. Fjárhæðin skiptist þannig:
              Ríkislögreglustjóri      29,5 m.kr.
              Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu      48,7 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Suðurnesjum      20,2 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Vesturlandi      6,4 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Vestfjörðum      4,0 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra      3,5 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra      10,0 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Austurlandi      4,5 m.kr.
              Lögreglustjórinn á Suðurlandi     10,0 m.kr.
              Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum      2,0 m.kr.
    Lögreglustjórinn á Vesturlandi og forveri hans þar á undan hefur sinnt úrvinnslu mynda úr hraðamyndavélum sem Vegagerðin setur upp og rekur og hefur því verkefni verið sinnt frá Stykkishólmi. Heildarkostnaður embættisins er áætlaður um 36 m.kr. á ári og fyrir liggur að dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja verkefninu til 20 m.kr. á næsta ári. Hluti Vegagerðarinnar í verkefninu var 15 m.kr. á ári en þeim samningi hefur nú verið sagt upp og ekki er gert ráð fyrir því að fjármagn komi til verkefnisins frá Vegagerðinni 2024. Meiri hlutinn telur mikilvægt að áfram verði tryggt að unnið verði úr þeim upplýsingum sem úr hraðamyndavélunum koma enda ábati ríkissjóðs margfaldur á við þann kostnað sem af rekstrinum hlýst. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að fjárheimild verið aukin um 18 m.kr. til verkefnisins frá því sem er í fjárlögum og ítrekar mikilvægi þess að varanlegur samningur náist við lögreglustjórann á Vesturlandi um rekstur starfseminnar.
    Félagið Fjárföng ehf. er að fullu í eigu ríkisins og til þess var stofnað til að hraða loftslagsvænum og rekstrarhagkvæmum fjárfestingum stofnana í A-hluta ríkisins sem stofnanir greiddu fyrir af rekstrarfé sínu. Fjárföng hafa fjárfest í eignum til notkunar hjá nokkrum ríkisaðilum í A1-hluta. Við skoðun á fyrirkomulaginu er talið æskilegt að færa eignarhald bifreiða á stofnanirnar. Vegna þess var lagt til í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 að fjárfestingarheimild ársins 2023 yrði hækkuð og rekstrargjaldaheimild ársins 2023 var sömuleiðis lækkuð að hluta þar sem gert var ráð fyrir að stofnanir hefðu haft bifreiðarnar í rekstri frá september 2023. Nú er gerð tillaga um að rekstrargjaldaheimild á árunum 2024–2027 verði lækkuð sem nemur því sem eftir stendur af fjárfestingarheimild svo að nettóáhrif á ríkissjóð á tímabilinu verði engin. Þannig lækkar heimild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um 19,9 m.kr. og heimild lögreglustjórans á Vesturlandi um 8 m.kr. vegna þessa.
    Gert er ráð fyrir 17,6 m.kr. lækkun fjárfestingarframlags með samsvarandi hækkun rekstrarframlags hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Framlagið er ætlað til að styrkja almennan rekstur embættisins.
    Gert er ráð fyrir 40 m.kr. millifærslu á hluta af 500 m.kr. framlagi árið 2023, sem ætlað var til að efla aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, af sameiginlegum fjárlagalið lögreglu til ríkissaksóknara. Framlagið er ætlað til ráðningar starfsmanns hjá EUROJUST.
    Gerð er tillaga um að fella niður tímabundið 1.381 m.kr. fjárveitingu sem ætluð var til að hefja framkvæmdir við byggingu sameiginlegs húsnæðis fyrir alla viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan er hluti af aðgerðum til að draga almennt úr þenslu í hagkerfinu með því að fresta framkvæmdum á vegum ríkisins.

09.20 Landhelgi.
    Gerð er tillaga um tímabundna 240 m.kr. hækkun á rekstrargrunni Landhelgisgæslu Íslands og vegur hún upp á móti sérstakri aðhaldskröfu að sömu fjárhæð sem var í frumvarpinu.

09.30 Ákæruvald og réttarvarsla.
    Lagt er til að 1,4 m.kr. fjárfestingarframlag hjá óbyggðanefnd verði flutt á rekstrarframlag þar sem fyrir liggur að ekki verði farið í fjárfestingar og fjárveitingin getur nýst til að greiða kostnað vegna þjóðlendumála.
    Gert er ráð fyrir 40 m.kr. millifærslu á hluta af 500 m.kr. framlagi árið 2023, sem ætlað var til að efla aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, af sameiginlegum fjárlagalið lögreglu til ríkissaksóknara. Framlagið er ætlað til ráðningar starfsmanns hjá EUROJUST.

09.50 Fullnustumál.
    Gert er ráð fyrir 10,1 m.kr. hækkun fjárfestingarframlags með samsvarandi lækkun rekstrarframlaga hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. Framlaginu er ætlað að mæta ýmissi endurnýjun tækja og búnaðar.

10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.30 Sýslumenn.
    Gert er ráð fyrir 17 m.kr. millifærslu framlags vegna flutnings á hluta ættleiðingarmála til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
    Lagt er til að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fái 11 m.kr. tímabundið framlag til að starfrækja áfram útibú sýslumanns á Þórshöfn.

10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir 17,2 m.kr. millifærslu framlags vegna flutnings persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins til dómsmálaráðuneytisins.
    Gert er ráð fyrir 17 m.kr. millifærslu framlags vegna flutnings á hluta ættleiðingarmála til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
    Lagt er til að veittar verði 60 m.kr. til Dómkirkjusafnaðarins til að styrkja rekstur safnaðarins vegna viðgerða og endurbóta á Dómkirkjunni sem fram fóru í kringum aldamótin síðustu. Þá voru miklar endurbætur gerðar á Dómkirkjunni í Reykjavík í tengslum við 200 ára afmæli kirkjunnar en þá var uppsöfnuð viðhaldsþörf orðin umtalsverð. Heildarkostnaður vegna endurbótanna nam um 200 m.kr. á verðlagi þess tíma og var hann greiddur annars vegar með um 90 m.kr. framlagi frá Dómkirkjusöfnuðinum og um 110 m.kr. láni sem söfnuðurinn tók til að standa straum af framkvæmdunum. Viðbót þessi er ætluð sem uppgjör á framkvæmdaláni Dómkirkjunnar.
    Gerð er tillaga um að Miðgarðakirkja í Grímsey fái tímabundinn styrk til endurbyggingar kirkjunnar sem brann til grunna ásamt öllum kirkjumunum 21. september 2021 að upphæð 47 m.kr. Heildarkostnaður verksins var metinn á um 120 m.kr. og hafa styrkir og framlög úr ýmsum áttum safnast fyrir þeirri upphæð. Nú er fyrirséð að kostnaður er hærri og er áætlað að um 47 m.kr. vanti til að hægt sé að klára verkefnið.
    Gerð er tillaga um 0,8 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár allra ráðherra um 30%.

10.50 Útlendingamál.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 2,3 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 hjá kærunefnd útlendingamála.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. viðbótarútgjaldaheimild til þriggja ára til að geta haldið afgreiðslu mála á leyfasviði Útlendingastofnunar innan ásættanlega marka og í ljósi ákvörðunar Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins að veita umsóknum um fjölskyldusameiningu fólks frá Palestínu, sér í lagi barnafjölskyldna, forgang vegna stríðsástands en það kallar á aukinn starfsmannafjölda í afgreiðslu þeirra mála. Afgreiðsla umsókna um fjölskyldusameiningu eru umfangsmestu málin á leyfasviði.
    Gerð er tillaga um 400 m.kr. tímabundna lækkun vegna málefna flóttamanna. Nefndin hefur kallað eftir upplýsingum og greiningum vegna útlendingamála. Útgjöldin í þeim málaflokki hafa stóraukist á sl. árum. Leiða má líkur að því að átak í þessum efnum skili um tvöfalt meiri sparnaði í útgjöldum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem ber ábyrgð á margvíslegri þjónustu gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd. Því er samhliða þessari breytingu gerð tímabundin tillaga um 200 m.kr. hækkun til stoðdeildar embættis ríkislögreglustjóra í því skyni að embættinu verði gert auðveldara að aðstoða við brottvísanir einstaklinga sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Gert er ráð fyrir að 509,8 m.kr. færist af öðrum gjöldum hjá Vegagerðinni yfir á laun og 244,2 m.kr. færist af tilfærslum yfir á laun.
    Gert er ráð fyrir að 150 m.kr. fari af öðrum gjöldum hjá Vegagerðinni yfir á tilfærslur. Um er að ræða tilfærslu til sveitarfélaga vegna framkvæmda við sjóvarnargarða sem eru í þeirra eigu.
    Gert er ráð fyrir 250 m.kr. hækkun á gjöldum vegna dýpkunar í siglingarrennunni í Grynnslunum við Hornafjarðarós. Um þau fara allar siglingar til og frá Höfn í Hornafirði. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íbúa á svæðinu að tryggja rekstrarhæfi hafnarinnar og útgerðarstarfsemi þar.

11.30 Stjórnsýsla innviðaráðuneytis.
    Millifærð er fjárheimild að fjárhæð 14,5 m.kr. til innviðaráðuneytisins. Kærunefnd húsamála fluttist til innviðaráðuneytis samkvæmt forsetaúrskurði nr. 6/2022. Nefndin var vistuð hjá úrskurðarnefnd velferðarmála en umsýsla nefndarinnar varð eftir hjá úrskurðarnefndinni við uppskiptingu Stjórnarráðsins 2022. Með millifærslunni er stöðugildi lögfræðings auk starfstengds kostnaðar flutt frá úrskurðarnefnd velferðarmála til aðalskrifstofu innviðaráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár allra ráðherra um 30%.

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Lögð er til 100 m.kr. hækkun til að styrkja rekstrargrundvöll Matvælastofnunar þar sem ný gjaldskrá stofnunarinnar hefur ekki tekið gildi. Gert er ráð fyrir að helmingur fjármögnunar verði í gegnum gjaldskrárhækkanir og helmingur greiðist úr ríkissjóði.

12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    Gert er ráð fyrir að 20 m.kr. færist af rekstri yfir á tilfærslur í samræmi rauntölur í bókhaldi á liðnum Sýklalyfjaónæmi.
    Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til Klúbbs matreiðslumeistara.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Gert er ráð fyrir að 1,8 m.kr. flytjist af rekstri yfir á fjárfestingu hjá Verðlagsstofu skiptaverðs í samræmi við rauntölur í bókhaldi.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gerð er tillaga um að Vesturbyggð fái 10 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar Vatneyrarbúðar að Aðalstræti 1, Patreksfirði. Unnið er að stofnun þekkingarseturs í húsnæðinu sem m.a. á að hýsa rannsóknar- og þróunarsetur fiskeldis sem skapar vettvang í nærumhverfi fiskeldis fyrir einstaklinga og stofnanir sem vinna að rannsóknum og eftirliti í fiskeldi og tengdum greinum.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Ferðaþjónusta.
    Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Kálfatjarnarkirkju til lagfæringa á aðkomu og bílastæði.

16 Markaðseftirlit og neytendamál.
16.10 Markaðseftirlit og neytendamál.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 8,9 m.kr. hækkunar hjá Neytendastofu á ársgrundvelli árið 2024.

17 Umhverfismál.
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla.
    Félagið Fjárföng ehf. er að fullu í eigu ríkisins og til þess var stofnað til að hraða loftslagsvænum og rekstrarhagkvæmum fjárfestingum stofnana í A-hluta ríkisins sem stofnanir greiddu fyrir af rekstrarfé sínu. Fjárföng hafa fjárfest í eignum til notkunar hjá nokkrum ríkisaðilum í A1-hluta. Við skoðun á fyrirkomulaginu er talið æskilegt að færa eignarhald bifreiða á stofnanirnar. Vegna þess var lagt til í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 að fjárfestingarheimild ársins 2023 yrði hækkuð og rekstrargjaldaheimild ársins 2023 var sömuleiðis lækkuð að hluta þar sem gert var ráð fyrir að stofnanir hefðu haft bifreiðarnar í rekstri frá september 2023. Nú er gerð tillaga um að rekstrargjaldaheimild á árunum 2024–2027 verði lækkuð sem nemur því sem eftir stendur af fjárfestingarheimild, eða um 8,8 m.kr., svo að nettóáhrif á ríkissjóð á tímabilinu verði engin.

17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    Gerð er tillaga um 48 m.kr. tímabundið framlag til reksturs náttúrustofa, þ.e. sem nemur 6 m.kr. fyrir hverja náttúrustofu fyrir sig.

17.30 Meðhöndlun úrgangs.
    Gert er ráð fyrir að úrvinnslugjald vegna hjólbarða hækki vegna aukins kostnaðar við söfnun og úrvinnslu hjólbarða. Af þeim sökum er ráðgert að hækka úrvinnslugjald hjólbarða úr 40 kr./kg í 65 kr./kg og eru áætluð áhrif breytinganna 199 m.kr.
    Framlög til Úrvinnslusjóðs hækka um 312,1 m.kr. til samræmis við tekjuáætlun.
    Framlög til Endurvinnslunnar hf. hækka um 362 m.kr. til samræmis við tekjuáætlun.

17.40 Varnir vegna náttúruvár.
    Gert er ráð fyrir að verja 400 m.kr. til framkvæmda við ofanflóðavarnir við Bjólf á Seyðisfirði þar sem orðið hafa ófyrirséðar breytingar á verkefninu vegna aðstæðna í fjallinu. Önnur stór og brýn framkvæmd er fyrirhuguð í Botnum í Seyðisfirði en þar féllu stórar aurskriður í desember 2020. Erfitt er að koma fyrir tveimur stórframkvæmdum í sama þéttbýli á sama tíma og því mikilvægt að framkvæmdum við Bjólf ljúki sem fyrst þannig að ekki þurfi að seinka þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Botnum umfram þær áætlanir sem eru fyrirliggjandi.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 2,4 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
    Gjaldfærsla loftslagsheimilda vegna skuldbindinga Íslands í loftslagmálum nemur 1.500 m.kr. Jafnframt er sama fjárhæð færð til tekna sem nemur verðmæti losunarheimildanna. Áætlað er að Ísland noti loftslagsheimildir sem nema 125 þús. tonnum á árinu 2024 sem eru í eigu íslenska ríkisins. Áætlað verð á hverju tonni er um 80 evrur. Þessi bókhaldslega meðferð loftslagsheimilda er liður í því að gera skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum sýnilegar til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Um er að ræða skuldajöfnun á móti heimildum sem hefur engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Gerð er tillaga um að Hollvinasamtök Kvíabekkjarkirkju á Ólafsfirði fái 2 m.kr. tímabundið framlag til viðhalds á kirkjunni.
    Gerð er tillaga um 0,8 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár allra ráðherra um 30%.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Gerð er tillaga um að Tækniminjasafn Austurlands fái 15 m.kr. tímabundinn rekstrarstyrk.
    Gerð er tillaga um að veita 8 m.kr. í skoðunar- og viðhaldskostnað vegna varðskipsins Óðins sem er hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík. Varðskipið fellur undir tvær reglugerðir, þ.e. reglugerð nr. 466/2023, um skoðanir á skipum og búnaði þeirra, og reglugerð nr. 1044/2021, um safnskip. Skipið hefur fengið haffærisskírteini og kostnaður fellur til vegna skoðunar skipsins að kröfu Samgöngustofu sem byggist á fyrrnefndri reglugerð. Samkvæmt Hollvinasamtökum Óðins er notkun skipsins sáralítil en um safnskip er að ræða sem hefur einungis verið siglt tvisvar sinnum.
    Gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundið framlag til Útgerðarminjasafnsins á Grenivík til byggingar bátaskýlis.
    Gerð er tillaga um að Safnasafnið á Svalbarðseyri fái 3 m.kr. tímabundinn styrk til að kynna Alþýðulist Íslands á meginlandi Evrópu.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til Flugsafnsins á Akureyri.
    Lagt er til að 60 m.kr. framlag verði tímabundið til eins árs flutt af málaflokki 18.10 Safnamál yfir á málaflokk 18.20 Menningarstofnanir vegna sviðsbúnaðar hjá Þjóðleikhúsinu.

18.20 Menningarstofnanir.
    Gerð er tillaga um 40 m.kr. tímabundið framlag til endurbóta á félagsheimilinu á Hvammstanga er þar er ætlunin að verkefnið Hjartað í Húnaþingi hafi aðsetur. Um er að ræða nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni þar sem koma á upp samfélagsmiðstöð á Hvammstanga. Er verkefninu ætlað að stuðla að enn sterkara samfélagi, bæta búsetuskilyrði, leiða til fleiri tækifæra fyrir íbúa og gesti til afþreyingar, bæta aðgengi að tækjabúnaði, fjölga tækifærum til nýsköpunar, bæta aðstöðu til kennslu og leiða til aukins stuðnings við hópa sem standa höllum fæti.
    Gerð er tillaga um 45 m.kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tilefnið er að gera stofnuninni betur kleift að mæta áskorunum í rekstri, svo sem launaflokkahækkun hjá hljóðfæraleikurum í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga sl. haust.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 44,8 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.
    Lagt er til að framlag til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hækki annars vegar um 35 m.kr. vegna hækkunar á leigu í Eddu, húsi íslenskunnar, og hins vegar um 65 m.kr. vegna aukinnar mannaflaþarfar við flutninga í húsið. Á árinu 2024 mun Árnastofnun byrja að borga leigu fyrir rými í Eddu, húsi íslenskunnar, og mun heildargreiðsla á ári nema 335 m.kr. Í fjárlögum fyrir árið 2023 var búið að tryggja 300 m.kr. til að koma til móts við leiguna en þar sem heildarleigan verður 335 m.kr. vantar 35 m.kr. í rekstur stofnunarinnar til að hún geti staðið undir leigugreiðslunum. Við flutninga Árnastofnunar í Eddu mun rekstrarkostnaður við húsnæðið ásamt aukinni mannaflaþörf hækka rekstrarkostnað stofnunarinnar. Nú liggur fyrir áætlun um að kostnaður muni aukast um 100 m.kr. árlega vegna breyttrar starfsemi í kjölfar flutninganna. Í sumar sl. var samþykkt að leggja til 35 m.kr. viðbótarfjárveitingu í fjárlagafrumvarpinu til að tryggja öryggi vegna vöktunar og húsumsjónar sem og móttöku gesta. Því vantar til viðbótar 65 m.kr. árlega til að stofnunin geti rekið húsnæðið og tryggt þann mannafla sem þarf til að starfrækja starfsemi stofnunarinnar í Eddu.
    Lögð er til leiðrétting á 11,4 m.kr. framlagi sem fellt var niður í frumvarpinu. Um er að ræða tímabundið framlag vegna verkefnisins „Átaksverkefni í miðlun menningararfs“ í fjárlögum fyrir árið 2022 en fjárveitingin var millifærð á safnlið styrkja á sviði háskóla- og vísindastarfsemi. Með þessari millifærslu færist niðurfellingin af málaflokki 18.20 Menningarstofnanir á málaflokk 21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Lagt er til að 30 m.kr. fjárveiting verði flutt af tilfærslum á laun til leiðréttingar á hagrænni skiptingu til samræmis við rekstraráætlun.
    Lagt er til að Minja- og sögufélag Grindavíkur fái 10 m.kr. tímabundið framlag til endurbóta á fiskhúsinu Kreppan í Grindavík.
    Gerð er tillaga um að Heimskautsgerðið á Raufarhöfn fái 5 m.kr. tímabundið framlag.
    Gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundið framlag til Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar til endurbóta á Ásláksstaðahúsi.
    Lagt er til að 60 m.kr. framlag verði tímabundið til eins árs flutt af málaflokki 18.10 Safnamál yfir á málaflokk 18.20 Menningarstofnanir vegna sviðsbúnaðar hjá Þjóðleikhúsinu.

18.30 Menningarsjóðir.
    Gerð er tillaga um að Bíó Paradís, sem er eina kvikmyndamenningarhús landsins og er sjálfseignarstofnun í eigu fagfélaga kvikmyndagerðarfólks, fái 18 m.kr. tímabundinn styrk til reksturs félagsins.
    Gerð er tillaga um að Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, fái tímabundið 17 m.kr. framlag til styrktar reksturs kvikmyndahátíðarinnar.
    Gerð er tillaga um 32 m.kr. tímabundið framlag til Fornminjasjóðs vegna fjölda verkefna sem fyrirséð eru á árinu 2024.
    Lagt er til að 12 m.kr. framlag vegna UNESCO verði fært frá mennta- og barnamálaráðuneyti til menningar- og viðskiptaráðuneytis þar sem verkefnið heyrir þar undir í kjölfar uppskiptingar ráðuneytanna árið 2022.
    Lagt er til að Skaftfell, listamiðstöð Austurlands, fái 15 m.kr. tímabundið rekstrarframlag fyrir rekstrarárið 2024.
    Gerð er tillaga um 14 m.kr. tímabundið framlag til Hins íslenska fornritafélags til útgáfu á ritröð íslenskra fornrita.
    Gerð er tillaga um 12,5 m.kr. tímabundið framlag til Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði til að fjármagna launakostnað miðstöðvarinnar á árinu 2024.
    Gerð er tillaga um 8,9 m.kr. tímabundið framlag til Sigurhæða, menningarhúss á Akureyri.
    Gerð er tillaga um að verkefnið Leiðarljós að lífhöfn hljóti tímabundinn stuðning að upphæð 7 m.kr. Verkefnið er unnið í sjálfboðavinnu og var óskað eftir styrk vegna stækkunar og þróunar á sýningunni sem er staðsett í Vélarhúsinu við Reykjanesvita. Um er að ræða áframhaldandi vinnu við sögu Reykjanesvita og uppbyggingu á vitum um land allt. Ekki síður dregur sýningin upp mynd af tíðum og hörmulegum sjóslysum sem hafa orðið við Ísland. Þessi saga á mikið erindi í nútímann og er sýningin aðeins brot af þessum mikla og mikilvæga þætti í sögu lands og þjóðar. Áform samtakanna gera ráð fyrir að sýningin verði stækkuð verulega í framtíðinni, annaðhvort í nýrri þjónustumiðstöð eða að byggt verði sérstakt sýningarhús á staðnum. Áætlaður kostnaður við verkefni næsta árs er 17 m.kr.
    Gerð er tillaga um 4,3 m.kr. tímabundið framlag til Steinshúss ses. til framkvæmda í og við bygginguna sem og til að koma inn ljósleiðara og hleðslustöð fyrir rafbíla.
    Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Pálshúss á Ólafsfirði.
    Gerð er tillaga um að veita Hollvinasamtökum Hallgrímskirkju, Hvalfjarðarströnd, 1 m.kr. tímabundið framlag í tilefni af 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar.
    Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Kómedíuleikhússins sem er atvinnuleikhús Vestfjarða.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar á landsmótssvæði félaganna Fáks í Reykjavík og Spretts í Kópavogi og Garðabæ fyrir landsmót hestamanna 2024 í Víðidal.
    Gerð er tillaga um 25 m.kr. tímabundið framlag til UMFÍ til almenns reksturs og uppbyggingar landsmótsstaða á árinu 2024.
    Gerð er tillaga um að veita 15 m.kr. tímabundið framlag til KFUM og KFUK. Nú þegar er í gildi samningur um 39 m.kr. á næsta ári. Tillagan gerir ráð fyrir hækkun upp í samtals 54 m.kr.
    Gerð er tillaga um að veita Landssambandi ungmennafélaga 8 m.kr. tímabundinn rekstrarstyrk við viðbótar við það sem fyrir er í frumvarpinu.
    Lagt er til að Knattspyrnusambandi Íslands verði veitt 18 m.kr. tímabundið framlag upp í svokallaða hitapylsu til að halda Laugardalsvelli leikfærum. Fjárhagsáætlun hljóðar upp á 40–45 m.kr.

18.50 Stjórnsýsla menningar og viðskipta.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 1,2 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 á lið Norrænnar samvinnu.
    Gerð er tillaga um 0,5 m.kr. tímabundið framlag til Dansk-íslenska félagsins.

19 Fjölmiðlun.
19.10 Fjölmiðlun.
    Gert er ráð fyrir að framlög til Ríkisútvarpsins lækki um 20 m.kr. í samræmi við uppfærða tekjuáætlun. Framlög til Ríkisútvarpsins byggjast á tekjuáætlun fjárlaga um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi. Við þá tölu er árlega bætt 175 m.kr. samkvæmt þjónustusamningi til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni.
    Lagt er til að 15 m.kr. fjárveiting vegna SAFT-verkefnis verði flutt frá mennta- og barnamálaráðuneyti til fjölmiðlanefndar sem mun taka við verkefninu frá og með árinu 2024.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Gert er ráð fyrir að fjárheimildir til framhaldsskóla verði auknar um 300 m.kr. vegna fjölgunar nemenda í framhaldsskólum. Við endurskoðun á nemendatölum á haustönn 2023 kom í ljós að nemendum í framhaldsskólum hafði fjölgað um 250 frá fyrra ári. Með þessari aukningu á fjárheimildum er hægt að koma til móts við þessa nemendur sem stunda nám i framhaldsskólum.
    Lagt er til að fjárheimildir málaflokks framhaldsskóla verði hækkaðar um 500 m.kr. til þess að koma til móts við auknar áskoranir framhaldsskólanna vegna breyttrar nemendasamsetningar. Með þessu fjármagni er hægt að setja af stað verkefni sem hægt er að árangursmeta með það að markmiði að ná betur til nemenda með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, auk nemenda sem eru bæði utan vinnumarkaðar og framhaldsskóla, og takast á við fjölgun nemenda á starfsbrautum. Alls er áætluð fjárheimild til þessara verkefna 440 m.kr. Þá eru 60 m.kr. vegna leigukostnaðar Garðyrkjuskólans á Reykjum hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands.
    Gerð er tillaga um að mæta 15 m.kr. halla á rekstrarlið Fjölbrautaskólans í Garðabæ með millifærslu af fjárfestingarheimild skólans.
    Gerð er tillaga um að mæta 5 m.kr. halla á rekstrarlið Framhaldsskólans Húsavík með millifærslu af fjárfestingarheimild skólans.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Lögð er til leiðrétting á 11,4 m.kr. framlagi sem fellt var niður í frumvarpinu. Um er að ræða tímabundið framlag vegna verkefnisins „Átaksverkefni í miðlun menningararfs“ í fjárlögum fyrir árið 2022 en fjárveitingin var millifærð á safnlið styrkja á sviði háskóla- og vísindastarfsemi. Með þessari millifærslu færist niðurfellingin af málaflokki 18.20 Menningarstofnanir á málaflokk 21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.

21.40 Stjórnsýsla háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.
    Lögð er til breyting á hagrænni skiptingu á aðalskrifstofu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis sem nemur 15 m.kr. Fjárhæðin færist af öðrum gjöldum á fjárfestingu til að mæta áætluðum kostnaði vegna kaupa á innréttingum, skrifborðum, stólum og öðrum húsgögnum vegna flutnings ráðuneytisins í nýtt húsnæði á Austurbakka.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Lagt er til að 12 m.kr. framlag vegna UNESCO verði fært frá mennta- og barnamálaráðuneyti til menningar- og viðskiptaráðuneytis þar sem verkefnið heyrir þar undir í kjölfar uppskiptingar ráðuneytanna árið 2022.
    Lagt er til að 15 m.kr. fjárveiting vegna SAFT-verkefnis verði flutt frá mennta- og barnamálaráðuneyti til fjölmiðlanefndar sem mun taka við verkefninu frá og með árinu 2024.

22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Gerð er tillaga um áframhaldandi 115 m.kr. framlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga sem veitt var tímabundið í fjárlögum fyrir árið 2023. Fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur ekki dregist saman og því er enn mikil þörf á framlaginu. Einnig er verið að auka, bæta og þróa þá möguleika og tækifæri sem innflytjendum bjóðast til að læra íslensku.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 16,5 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 á lið fullorðinsfræðslu fatlaðs fólks.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og barnamála.
    Gerð er tillaga um 1,8 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um lækkun á ráðstöfunarfé allra ráðherra um 30%.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 2,5 m.kr. af málaflokki 23.20 á málaflokk 23.10 í samræmi við sameiginlega ákvörðun sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að sjúkrahúsið taki að sér alla umsýslu og kostnað vegna sjúkraflutninga á Akureyri og að framlag heilbrigðisstofnunarinnar verði fært til sjúkrahússins.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 9 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 23.10. Tilefnið er breytt skipulag skimunar fyrir brjóstakrabbameini. Brjóstamiðstöð Landspítala sér framvegis um að bóka í skimanir.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 26 m.kr. af málaflokki 23.10 á málaflokk 24.10. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um að senda sýni og greiða fyrir rannsóknir á sýnum vegna leghálsskimana.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 50 m.kr. af málaflokki 23.10 á málaflokk 24.10. Tilefnið er að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins skipuleggur skimun fyrir krabbameini í leghálsi kvenna og ber kostnað af rannsóknunum.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu nýs Landspítala verði 4 ma.kr. lægri á næsta ári en gert var ráð fyrir við framlagningu frumvarpsins samkvæmt framkvæmdaáætlun fyrir næsta ár og lækka framlög í samræmi við það.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 164 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 23.10. Tilefnið er átak í stuðningi við aðgerðir sem tengjast félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gert er ráð fyrir millifærslu 270 m.kr. fjárveitingar af lið heilbrigðisstofnana til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til fjölgunar liðskiptaaðgerða innan lands. Liðskiptasetur hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands var opnað haustið 2022.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 2,5 m.kr. af málaflokki 23.20 á málaflokk 23.10. í samræmi við sameiginlega ákvörðun sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að sjúkrahúsið taki að sér alla umsýslu og kostnað vegna sjúkraflutninga á Akureyri og að framlag heilbrigðisstofnunarinnar verði fært til sjúkrahússins.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 150 m.kr. af málaflokki 24.10 Heilsugæsla á málaflokk 25.20 Endurhæfingarþjónusta. Fjárframlag til að sporna við skaða af völdum ópíóða var allt sett á málaflokk heilsugæslu en eftir nánari útfærslu á fjárheimildin betur heima á málaflokki endurhæfingar þar sem hægt er að millifæra á rétta staði.
    Gert er ráð fyrir að færa 270 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 24.20. Tilefnið er lækkun greiðsluþátttöku lífeyrisþega í tannlækningum.
    Gert er ráð fyrir að færa 250 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 24.20 þar sem styrkir til tannréttinga barna hækka.
    Gert er ráð fyrir að færa 92 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 26.30. Réttindi fatlaðra barna sem búa á tveimur heimilum aukast með heimild til að kaupa baðhjálpartæki á bæði heimili.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 25 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 26.30. Aukin heimild hjúkrunarheimila til að kaupa hjálpartæki fyrir heimilin bætir líðan fólks ásamt því að auðvelda starfsfólki heimilanna störfin.
    Gert er ráð fyrir að færa 50 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 24.20 til að mæta kostnaði við uppsetningu frystra fósturvísa.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 164 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 23.10. Tilefnið er átak í stuðningi við aðgerðir sem tengjast félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 9 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 23.10. Tilefnið er breytt skipulag skimunar fyrir brjóstakrabbameini. Brjóstamiðstöð Landspítala sér framvegis um að bóka í skimanir.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 26 m.kr. af málaflokki 23.10 á málaflokk 24.10. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um að senda sýni og greiða fyrir rannsóknir á sýnum vegna leghálsskimana.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 50 m.kr. af málaflokki 23.10 á málaflokk 24.10. Tilefnið er að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins skipuleggur skimun fyrir krabbameini í leghálsi kvenna og ber kostnað af rannsóknunum.
    Gerð er tillaga um aukið framlag á grundvelli bókunar í kjarasamningi hjá þremur stofnunum; 9,5 m.kr. hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 25 m.kr. hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, og 50 m.kr. hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Félagið Fjárföng ehf. er að fullu í eigu ríkisins og til þess var stofnað til að hraða loftslagsvænum og rekstrarhagkvæmum fjárfestingum stofnana í A-hluta ríkisins sem stofnanir greiddu fyrir af rekstrarfé sínu. Fjárföng hafa fjárfest í eignum til notkunar hjá nokkrum ríkisaðilum í A1-hluta. Við skoðun á fyrirkomulaginu er talið æskilegt að færa eignarhald bifreiðanna á stofnanirnar. Vegna þess var lagt til í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 að fjárfestingarheimild ársins 2023 yrði hækkuð og rekstrargjaldaheimild ársins 2023 var sömuleiðis lækkuð að hluta þar sem gert var ráð fyrir að stofnanir hafi haft bifreiðarnar í rekstri frá september 2023. Nú er gerð tillaga um að rekstrargjaldaheimild á árunum 2024–2027 verði lækkuð sem nemur því sem eftir stendur af fjárfestingarheimild, eða um 27,8 m.kr., svo að nettóáhrif á ríkissjóð á tímabilinu verði engin.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Gert er ráð fyrir að færa 50 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 24.20 til að mæta kostnaði við uppsetningu frystra fósturvísa.
    Gert er ráð fyrir að hækka framlög til liðarins Lækniskostnaður um 1 ma.kr. til að stytta biðlista eftir tilteknum skurðaðgerðum. Um er að ræða augasteinsaðgerðir, liðskiptaaðgerðir, bakaðgerðir og kvenaðgerðir, þ.m.t. endómetríósuaðgerðir og aðgerðir til brjóstaminnkunar. Gert er ráð fyrir að samið verði um þjónustuna við þjónustuveitendur utan heilbrigðisstofnana ríkisins.
    Leiðrétt er hagræn skipting á liðnum Hjúkrun í heimahúsum, 15 m.kr. færast af öðrum gjöldum á tilfærslur.
    Gert er ráð fyrir að færa 270 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 24.20. Tilefnið er lækkun greiðsluþátttöku lífeyrisþega í tannlækningum.
    Gert er ráð fyrir að færa 250 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 24.20 þar sem styrkir til tannréttinga barna hækka.
    Gert er ráð fyrir að hækka fjárheimildir vegna umframútgjalda á liðnum tannlækningar á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að hallinn verði 500 m.kr. Með þessari tillögu eru bundnar vonir við að búið sé að ná utan um útgjöld til tannlækninga á komandi ári.
    Leiðrétt er hagræn skipting á lið tannlækninga, 59,5 m.kr. færast af öðrum gjöldum á tilfærslur.
    Leiðrétt hagræn skipting á liðnum Sjúkratryggingar, annað, 14 m.kr. færast af öðrum gjöldum á tilfærslur.
    Gert er ráð fyrir 300 m.kr. hækkun fjárheimilda vegna umframútgjalda á liðnum Sjúkratryggingar, annað. Með þessari tillögu eru bundnar vonir við að búið sé að ná utan um útgjöldin á komandi ári.

24.40 Sjúkraflutningar.
    Leiðrétt er hagræn skipting á lið sjúkraflutninga og ferða innan lands, 59,5 færast af öðrum gjöldum á tilfærslur.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Gert er ráð fyrir breytingum á fjárveitingu í samræmi við áætlun um tekjur af gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt tekjuáætlun. Framlag til sjóðsins lækkar um 50 m.kr.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 18,4 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 hjá Sóltúni og jafnframt er þar gerð leiðrétting á launabótum sem nemur 11,9 m.kr. til hækkunar.
    
25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 120 m.kr. tímabundna hækkun framlaga til SÁÁ. Því er beint til heilbrigðisráðuneytisins að skoða samning SÁÁ við Sjúkratryggingar Íslands með það að markmiði að hægt verði að tryggja nægt framboð á þjónustu SÁÁ til framtíðar.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 150 m.kr. af málaflokki 24.10 Heilsugæsla á málaflokk 25.20 Endurhæfingarþjónusta. Fjárframlag til að sporna við skaða af völdum ópíóða var allt sett á málaflokk heilsugæslu en eftir nánari útfærslu á fjárheimildin betur heima á málaflokki endurhæfingar þar sem hægt er að millifæra á rétta staði.
    Gerð er tillaga um að veita samtals 25 m.kr. tímabundið framlag til Reykjalundar og Hleinar til að styrkja rekstrargrunn stofnananna.
    Gerð er tillaga um 40 m.kr. tímabundið framlag til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar.
    Gerð er tillaga um tímabundið 15 m.kr. framlag til Parkinsonsamtakanna vegna fjármögnunar Takts, endurhæfingar. Fjárhæðin er til viðbótar við 25 m.kr. samning við SÍ.

26 Lyf og lækningavörur.
26.10 Lyf.
    Gert er ráð fyrir að hækka fjárheimildir vegna umframútgjalda á liðnum almenn lyf á yfirstandandi ári. Áætlað er að hallinn verði 2,5 ma.kr. en í frumvarpinu var gert ráð fyrir 1,3 ma.kr. hækkun sem er umfram hækkun vegna reiknaðs raunvaxtar. Með þessari tillögu eru bundnar vonir við að búið sé að ná utan um útgjöld til almennra lyfja á komandi ári.
    Þá er lagt til að lækka fjárheimild til almennra lyfja um 1 ma.kr. Tillagan byggist á frummati á áhrifum breyttrar greiðsluþátttöku í blóðsykurslækkandi lyfjum, en lyfin voru að hluta notuð í öðrum tilgangi en ætlast er til og tekur breytingin á þeim vanda.
    Leiðrétt er tegundasundurliðun á almennum lyfjum. Þar á öll fjárheimild að vera á rekstrartilfærslum. Þannig færast 270,5 m.kr. af launum á tilfærslur.
    Þá er leiðrétt hagræn skipting á almennum lyfjum. Þar á öll fjárheimild að vera á rekstrartilfærslum. Þannig færast 119,4 m.kr. af öðrum gjöldum á tilfærslur.
    Gert er ráð fyrir 600 m.kr. hækkun fjárheimilda vegna umframútgjalda á liðnum leyfisskyld lyf á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að útkoma ársins verði nærri núlli en óvissa ríkir með næsta ár vegna aukinna réttinda og ný lyf eru að koma inn auk þess sem samsetning þeirra lyfja sem notuð eru er að breytast.
    Þá er leiðrétt hagræn skipting á liðnum leyfisskyld lyf. Öll fjárheimild leyfisskyldra lyfja á að vera á öðrum gjöldum. Þannig færast 28,7 m.kr. af tilfærslum á önnur gjöld.

26.30 Hjálpartæki.
    Gert er ráð fyrir að hækka fjárheimildir um 200 m.kr. vegna umframútgjalda á liðnum hjálpartæki á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að hallinn verði 300 m.kr. en í frumvarpinu var gert ráð fyrir 100 m.kr. hækkun sem er umfram þá hækkun sem gerð var vegna reiknaðs raunvaxtar. Með þessari tillögu eru bundnar vonir að búið sé að ná utan um útgjöld til hjálpartækja á komandi ári.
    Gert er ráð fyrir að færa 92 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 26.30. Réttindi fatlaðra barna sem búa á tveimur heimilum aukast með heimild til að kaupa baðhjálpartæki á bæði heimili.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 25 m.kr. af málaflokki 24.10 á málaflokk 26.30. Aukin heimild hjúkrunarheimila til að kaupa hjálpartæki fyrir heimilin bætir líðan fólks ásamt því að auðvelda starfsfólki heimilanna störfin.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    Gert er ráð fyrir að útgjöld til tekjutryggingar örorkulífeyris lækki um 1.400 m.kr. vegna uppfærðrar áætlunar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 2024. Áætlun Tryggingastofnunar byggist á raungögnum núverandi og síðasta árs að teknu tilliti til sögu fyrri ára. Gert er ráð fyrir að fjöldi örorkulífeyrisþega verði svipað hlutfall mannfjölda og nú er. Árið 2022 er nokkuð óvenjulegt þar sem fækkun varð bæði á nýgengi örorku og nýgengi endurhæfingar, en vísbending er um að aukning verði á nýgengi endurhæfingar á yfirstandandi ári umfram síðasta ár. Hlutfall endurhæfingarlífeyrisþega er um tíundi hluti af fjölda örorkulífeyrisþega og er því gert ráð fyrir um 10% fjölgun endurhæfingarlífeyrisþega á meðan fjöldi örorkulífeyrisþega standi að mestu í stað og því er um 1% heildarfjölgun að ræða. Uppfærð áætlun Tryggingastofnunar fyrir bætur almannatrygginga gerir þannig ráð fyrir að nýgengi örorku- og endurhæfingar muni að stærstum hluta falla til á bótaliðnum endurhæfingarlífeyrir.

27.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka.
    Gert er ráð fyrir að útgjöld til endurhæfingarlífeyris hækki um 1.300 m.kr. vegna uppfærðrar áætlunar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 2024. Áætlun Tryggingastofnunar byggist á raungögnum núverandi og síðasta árs að teknu tilliti til sögu fyrri ára. Árið 2022 er nokkuð óvenjulegt þar sem fækkun varð bæði á nýgengi örorku og nýgengi endurhæfingar, en vísbending er um að aukning verði á nýgengi endurhæfingar á yfirstandi ári umfram síðasta ár. Hlutfall endurhæfingarlífeyrisþega er um tíundi hluti af fjölda örorkulífeyrisþega og er gert ráð fyrir um 10% fjölgun þeirra á meðan fjöldi örorkulífeyrisþega standi að mestu í stað og því er um 1% heildarfjölgun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega að ræða. Uppfærð áætlun Tryggingastofnunar fyrir bætur almannatrygginga gerir þannig ráð fyrir að nýgengi örorku- og endurhæfingar muni að stærstum hluta falla til á bótaliðnum endurhæfingarlífeyrir auk þess sem lenging greiðslutímabila endurhæfingarlífeyris úr þremur árum í fimm ár seinkar að hluta til lokum greiðslu endurhæfingarlífeyris og býr til töf sem hækkar tímabundið greiðslur. Er þess vænst að lengingin muni skila sér í frekari árangri af endurhæfingu fyrir tiltekna sjúkdómahópa.
    Gert er ráð fyrir að veita 100 m.kr. framlag til að hækka fjárhæðir vegna uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra einstaklinga. Fjárhæðir vegna uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa hækkuðu síðast í nóvember 2015 en hámarksfjárhæð styrkja vegna sérútbúinna bifreiða hækkaði síðast í júní 2020. Til að mæta breytingum verðlags sl. ár er lagt til að fjárhæðir til bifreiðakaupa verði hækkaðar. Þá er í ljósi loftslagsmarkmiða íslenskra stjórnvalda lagt til að uppbætur og styrkir vegna kaupa á hreinum rafbílum taki mið af stuðningi stjórnvalda vegna orkuskipta.

27.50 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
    Lagt er til að hækka fjárveitingu málaflokksins um 53 m.kr. Hækkunin er í samræmi við útgjaldaferil sem ræðst af fyrirliggjandi tekjuáætlun. Lög kveða á um að 0,325% af almennu tryggingagjaldi næstliðins árs skuli ráðstafa til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða sem fylgir þá vexti tryggingagjaldsstofnsins. Við þessa breytingu verður framlagið til jöfnunar á örorkubyrði 7.186 m.kr. á árinu 2024.

28 Málefni aldraðra.
28.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, lífeyrir aldraðra.
    Gert er ráð fyrir að fjárheimild vegna ellilífeyris verði lækkuð um 5,4 ma.kr. Lækkunin tekur mið af uppfærðri áætlun Tryggingastofnunar sem gerð er á grunni almannatrygginga þar sem þróun síðustu ára er lægri en forsendur fjárlaga um kerfislægan vöxt gerðu ráð fyrir. Um er að ræða leiðréttingu á framlagi vegna lægri útgjalda síðustu ára sem skýrist einkum af hækkandi tekjum ellilífeyrisþega. Breytingin hefur ekki áhrif á réttindi lífeyrisþega.

29 Fjölskyldumál.
29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Félagið Fjárföng ehf. er að fullu í eigu ríkisins og til þess var stofnað til að hraða loftslagsvænum og rekstrarhagkvæmum fjárfestingum stofnana í A-hluta ríkisins sem stofnanir greiddu fyrir af rekstrarfé sínu. Fjárföng hafa fjárfest í eignum til notkunar hjá nokkrum ríkisaðilum í A1-hluta. Við skoðun á fyrirkomulaginu er talið æskilegt að færa eignarhald bifreiða á stofnanirnar. Vegna þess var lagt til í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 að fjárfestingarheimild ársins 2023 yrði hækkuð og rekstrargjaldaheimild ársins 2023 var sömuleiðis lækkuð að hluta þar sem gert var ráð fyrir að stofnanir hefðu haft bifreiðarnar í rekstri frá september 2023. Nú er gerð tillaga um að rekstrargjaldaheimild á árunum 2024–2027 verði lækkuð sem nemur því sem eftir stendur af fjárfestingarheimild, eða um 4 m.kr., svo að nettóáhrif á ríkissjóð á tímabilinu verði engin.
    Lagt er til að framlag til umboðsmanns skuldara hækki um 14,8 m.kr. í samræmi við uppfærða tekjuáætlun.
    Gerð er tillaga um 35 m.kr. tímabundið framlag til kaupa á hjálpartækjum fyrir Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta.
    Gerð er tillaga um að Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, sem staðsett er á Akureyri hljóti tímabundinn rekstrarstyrk að upphæð 14 m.kr. Miðstöðin var opnuð árið 2019 og er hugsuð aðallega fyrir íbúa Norður- og Austurlands. Breiður hópur kemur að starfseminni og má þar nefna Aflið, Kvennaathvarfið, lögregluna, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kvennaráðgjöf, Akureyrarbæ, heilsugæsluna, Sjúkrahúsið á Akureyri og Háskólann á Akureyri.
    Gerð er tillaga um að Samtök um kvennaathvarf fái 8,8 m.kr. tímabundið framlag til eflingar á þjónustu Kvennaathvarfsins á Akureyri.
    Gerð er tillaga um 11 m.kr. tímabundið rekstrarframlag til Sigurhæða, þolendamiðstöðvar vegna kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis á Suðurlandi.

29.60 Bætur vegna veikinda og slysa.
    Gert er ráð fyrir 11,9 m.kr. millifærslu af varasjóði málaflokksins á varasjóð málaflokks 32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.

29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 2,9 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Lagt er til að veita 170 m.kr. aukið framlag til Ábyrgðasjóðs launa vegna endurmats á áætluðum útgjöldum á árinu 2024 með hliðsjón af þróun útgjalda á árinu 2023.
    Lagt er til að framlag til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs lækki um 3 m.kr. sem skýrist af breytingu frá fyrri áætlunum um tryggingagjaldsstofn.

31 Húsnæðis- og skipulagsmál.
31.10 Húsnæðismál.
    Gert er ráð fyrir að framlag vegna vaxtabóta lækki um 700 m.kr. til samræmis við áætlaðar rauntölur í útgreiðslu vaxtabóta árið 2023. Miðað er við óbreytt kerfi sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verða þær sömu á árinu 2024 og 2023.
    Gert er ráð fyrir að 100 m.kr. framlag færist varanlega frá stofnframlögum yfir á rekstur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna umsýslu stofnunar á stofnframlögum, enda segir í 3. kafla greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019: „Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði fyrst og fremst greiddur með framlögum úr ríkissjóði á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum hverju sinni en gert er ráð fyrir að tiltekin verkefni sem stofnunin sinnir verði að fullu fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði í samræmi við fjárlög á hverjum tíma og ber þar helst að nefna stofnframlög til almennra íbúða og húsnæðisbætur.“
    Gerð er leiðrétting á gjaldfærðum framlögum til hlutdeildarlána sem nemur 300 m.kr. til lækkunar. Hlutdeildarlán eru vaxtalaus lán sem veitt eru einstaklingum undir ákveðnum tekjumörkum til kaupa á íbúðarhúsnæði. Lánin eru veitt af Húsnæðissjóði á grundvelli lánsheimildar í 5. gr. fjárlaga. Þar sem lánin eru vaxtalaus er um ríkisstuðning að ræða og er hann gjaldfærður í samræmi við reikningsskilareglur. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 1.100 m.kr. gjaldfærslu á árinu 2024 vegna hlutdeildarlána en með leiðréttingunni nemur gjaldfærslan 800 m.kr.

31.20 Skipulagsmál.
    Gert er ráð fyrir að flytja 2,8 m.kr. af fjárfestingu í tækjum og búnaði yfir á rekstur hjá Skipulagsstofnun.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 15 m.kr. fjárveitingu af málaflokki 32.30 á 32.10 til að mæta kostnaði við verkefnisstjóra í sjálfsvígsforvörnum.
    Gerð er tillaga um 20 m.kr. einskiptisframlag til Lýðheilsusjóðs. Hlutverk sjóðsins er að styrkja lýðheilsustarf í þeim tilgangi að stuðla að heilsueflingu og forvörnum. Lýðheilsusjóður fjármagnar fyrir sveitarfélög, félagasamtök, fræðasamfélag og almannaheillasamtök verkefni á sviði heilsueflingar og forvarna. Má þar nefna forvarnir á sviði offitu barna, hreyfingu eldra fólks, heilsueflingu í minni sveitarfélögum og vímuefnaforvarnir auk rannsókna og þróunar svo eitthvað sé nefnt.
    Gert er ráð fyrir 11,9 m.kr. millifærslu á málaflokkinn af varasjóði málaflokks 29.60 Bætur vegna veikinda og slysa.

32.20 Jafnréttismál.
    Gerð er tillaga um 12 m.kr. tímabundið framlag til Samtakanna '78.

32.30 Stjórnsýsla heilbrigðismála.
    Gerð er tillaga um að Alzheimersamtökin fái tímabundna fjármögnun að upphæð 5,3 m.kr. til rekstur Seiglunnar, þjónustumiðstöðvar fyrir einstaklinga með heilabilun, til viðbótar við það sem fram kemur í frumvarpinu.
    Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár allra ráðherra um 30%.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 15 m.kr. fjárveitingu af málaflokki 32.30 á 32.10 til að mæta kostnaði við verkefnisstjóra í sjálfsvígsforvörnum.

32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Endurmat á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2023 vegna kjarasamninga ársins leiðir til 4,5 m.kr. hækkunar á ársgrundvelli árið 2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.
    Millifærð er fjárheimild að fjárhæð 14,5 m.kr. til innviðaráðuneytisins. Kærunefnd húsamála fluttist til innviðaráðuneytis samkvæmt forsetaúrskurði nr. 6/2022. Nefndin var vistuð hjá úrskurðarnefnd velferðarmála en umsýsla nefndarinnar varð eftir hjá úrskurðarnefndinni við uppskiptingu Stjórnarráðsins 2022. Með millifærslunni er stöðugildi lögfræðings auk starfstengds kostnaðar flutt frá úrskurðarnefnd velferðarmála til aðalskrifstofu innviðaráðuneytisins.
    Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Foreldrahúss sem hefur það markmið að styðja og efla foreldra sem eiga börn í vímuefnavanda og eru með áhættuhegðun ásamt því að stuðla að viðhorfsbreytingu í samfélaginu gegn umburðarlyndi gagnvart unglingadrykkju og neyslu annarra vímuefna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að hægt sé að halda þessari mikilvægu starfsemi úti og leggur til að Foreldrahús fái 5 m.kr. aukalega á fjárlögum fyrir árið 2024.
    Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til Hugarafls.
    Gerð er tillaga um 0,9 m.kr. tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár ráðherra. Tillagan er hluti af ákvörðun um tímabundna lækkun ráðstöfunarfjár allra ráðherra um 30%.

33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
33.10 Fjármagnskostnaður.
    Vaxtagjöld aukast um 6,9 ma.kr. frá frumvarpinu, einkum vegna endurmats á gjaldfærslu verðbóta verðtryggðra lána sem hækkar um 5,2 ma.kr. í ljósi spár um 0,7 prósentustiga hærri verðbólgu á næsta ári en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Jafnframt er gert ráð fyrir hærra vaxtastigi og uppfærðum lánsfjárjöfnuði sem samanlagt leiðir til 1,7 ma.kr. hækkunar á gjaldfærðum og greiddum vöxtum.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10 Almennur varasjóður.
    Gerð er tillaga um 2.750,5 m.kr. aukið framlag vegna endurmats á launa-, gengis-, bóta- og verðlagsútreikningi frumvarpsins við 2. umræðu. Sömuleiðis er gerð tillaga um 42,7 m.kr. aukið framlag á stofnkostnaðarlið. Um er að ræða endurmat með hliðsjón af uppfærðum gengisforsendum og uppfærðri þjóðhagsspá frá Hagstofu Íslands í nóvember. Tillagan er staðsett á almennum varasjóði en skipting fjárheimildarinnar niður á einstaka málaflokka er sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hlutans og munu þær koma fram í fjárheimildum viðkomandi málaflokka í frumvarpinu eftir 2. umræðu.
    Gerð er tillaga um 500 m.kr. aukið framlag vegna endurmats á launaforsendum frumvarpsins fyrir 2. umræðu. Í ljósi þess að ekki liggja fyrir kjarasamningsbundnar hækkanir á árinu 2024 er gert ráð fyrir fjárheimild fyrir launabætur á almennum varasjóði á málefnasviði 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir með hliðsjón af þróun verðbólgu á næsta ári. Eftir því sem niðurstöður kjarasamninga liggja fyrir verða millifærðar fjárveitingar á stofnanir og verkefni af almenna varasjóðnum til samræmis við niðurstöður samninganna og verður fjárlaganefnd gerð grein fyrir þeirri ráðstöfun líkt og lög kveða á um.
    Gerð er tillaga um 87,3 m.kr. hækkun á rekstrarlið almenns varasjóðs og lækkun um sömu fjárhæð á stofnkostnaðarlið í samræmi við endurmat á launa-, gengis-, bóta- og verðlagsútreikningi frumvarpsins fyrir 2. umræðu.

34.20 Sértækar fjárráðstafanir.
    Gerð er tímabundin tillaga um 4,2 m.kr. lækkun á ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Það jafngildir 2,5% aðhaldskröfu og er í samræmi við aðhaldskröfu sem nú þegar er í gildi á ýmsum liðum fjárlaga.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
35.10 Þróunarsamvinna.
    Lagt er til að veita 500 m.kr. til mannúðar- og efnahagsstuðnings í Úkraínu. Framlög vegna mannúðar- og efnahagsaðstoðar eru skilgreind sem opinber þróunaraðstoð (e. ODA) og komu til viðbótar við önnur framlög á málaflokki 35.10 Þróunarsamvinna. Á árunum 2022 og 2023 samþykkti Alþingi sérstaka fjárveitingu til stuðnings Úkraínu en ekki er gert ráð fyrir slíkum framlögum í frumvarpinu. Til þess að bregðast við alvarlegu mannúðarástandi í kjölfar innrásar Rússlands, sem og til þess að aðstoða Úkraínu við að halda grunnþjónustu gangandi, hefur Ísland lagt áherslu á mannúðar- og efnahagsstuðning í samræmi við óskir og þarfir Úkraínu. Þunganum af aðstoð Íslands á þessu sviði hefur verið beint í gegnum fjölþjóðlegar stofnanir, annars vegar Alþjóðabankann og hins vegar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, og er lagt til að svo verði gert áfram. Er það gert með það að leiðarljósi að stuðla að sem mestri skilvirkni í framkvæmd verkefna, en umræddar stofnanir hafa áratuga reynslu af samstarfi við Úkraínu, sem og kerfisbundið eftirlit með fjármagni og góða verkefnastjórn, sem tryggir gagnsæi og traust.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 28. nóvember 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form., frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson. Jódís Skúladóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Árnason.