Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 664  —  383. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið), nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi), nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Sigríði Hallgrímsdóttur, Ingólf Friðriksson og Sigríði Eysteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Helgu Hauksdóttur frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Huga Ólafsson og Láru Kristínu Traustadóttur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Höllu Einarsdóttur frá Umhverfisstofnun.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
     2.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttökuaðstöðu í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum, um breytingu á tilskipun 2010/65/ESB og um niðurfellingu tilskipunar 2000/59/EB.
     3.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/369 frá 1. mars 2021 um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849.
     4.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 frá 20. júní 2019 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar.
    Framsetning tillögunnar telst að mati meiri hluta nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sat hjá við afgreiðslu málsins. Birgir Þórarinsson, Jón Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. desember 2023.

Diljá Mist Einarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, frsm. Bjarni Jónsson.
Jakob Frímann Magnússon. Logi Einarsson.