Ferill 555. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 678  —  555. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (hækkun skattleysisaldurs).

Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Í stað orðanna „16 ára“ í 6. gr., 1. og 5. mgr. 58. gr. og 64. gr. kemur: 18 ára.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmið þessa frumvarps er að börn, óháð aldri, greiði ekki tekjuskatt að fullu heldur í samræmi við tekjuskatt af tekjum barna skv. 2. mgr. 66. gr laga um tekjuskatt. Þannig myndu aðilar byrja að greiða tekjuskatt skv. 1. mgr. 66. gr. þegar þeir verða sjálfráða við 18 ára aldur. Réttindi 16 og 17 ára til vinnu eru takmörkuð með reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 og þykir m.a. vegna þess ekki rétt að skattleggja ungmenni með sama hætti og sjálfráða einstaklinga. Þegar einstaklingar verða sjálfráða við 18 ára aldur öðlast þeir einnig kosningarrétt og fá þannig tækifæri til þess að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru um stefnu ríkisins, m.a. í skattamálum.
    Áhrif á ríkissjóð eru talin óveruleg þar sem fæst börn á aldrinum 16 og 17 ára vinna meira en sem nemur skattleysismörkum. Þannig var álagður tekjuskattur á 16 og 17 ára um 13,5 millj. kr. árið 2022.