Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Nr. 2/154.

Þingskjal 686  —  182. mál.


Þingsályktun

um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.


    Alþingi ályktar, sbr. sveitarstjórnarlög, að fram til ársins 2038 skuli unnið að sveitarstjórnarmálum í samræmi við eftirfarandi stefnumótandi áætlun og að árin 2024–2028 verði unnið í samræmi við meðfylgjandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða stefnumótandi áætlunar.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ

    Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tenging byggða og Íslands við umheiminn verði í jafnvægi við umhverfið.
    Meginmarkmið áætlana innviðaráðuneytis:
     1.      Innviðir mæti þörfum samfélagsins.
     2.      Byggðir og sveitarfélög um allt land verði sjálfbær.

II. LYKILVIÐFANGSEFNI

    Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði sveitarstjórnarmála verði unnið að eftirfarandi sjö lykilviðfangsefnum:
     1.      Öflug, sjálfbær sveitarfélög.
     2.      Búsetufrelsi – áhersla á sambærilega þjónustu og búsetuskilyrði óháð búsetu.
     3.      Fjölbreyttara atvinnulíf með áherslu á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
     4.      Átak í stafrænni umbreytingu.
     5.      Markvissari verkaskipting ríkis og sveitarfélaga.
     6.      Aukinn árangur á sviði loftslags-, umhverfis- og skipulagsmála.
     7.      Virkara lýðræði – aukin þátttaka í sveitarstjórnarkosningum og íbúalýðræði.
    Efling sveitarstjórnarstigsins almennt og jafnréttissjónarmið verði tengd við úrlausn þessara áskorana.

III. MARKMIÐ, MÆLIKVARÐAR OG ÁHERSLUR

Markmið stjórnvalda í sveitarstjórnarmálum.
1.1.     Sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær og ýti undir lýðræðislega virkni íbúa.
Mælikvarðar:

     i.      Hlutfall íbúa í sveitarfélögum með yfir 1.000 íbúa til samanburðar við heildarfjölda íbúa á landinu öllu.
     ii.      Hlutfall íbúa í sveitarfélögum með skuldahlutfall A-hluta undir 100% til samanburðar við heildarfjölda íbúa á landinu öllu.
     iii.      Lýðfræðilegir veikleikar (sjá byggðaáætlun).
     iv.      Hlutfall kosningaþátttöku almennt og sundurgreint eftir kynjum í sveitarstjórnarkosningum.
     v.      Hlutfall íbúa í sveitarfélögum sem hafa samþykkt og innleitt stefnu og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum samkvæmt lögum um loftslagsmál til samanburðar við heildarfjölda íbúa á landinu öllu.

Áherslur til að ná þessu markmiði.
     Sjálfbærni:
     a.      Mótuð verði viðmið á sviði efnahags-, samfélags- og umhverfismála í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þ.m.t. í því skyni að tryggja að tekjur standi undir lögbundinni þjónustu, áföllum og framtíðaráskorunum sveitarfélaga.
     b.      Stuðlað verði að virkara samtali stjórnsýslustiganna tveggja um fjármál sveitarfélaga.
     c.      Skerptur verði lagarammi um hlutverk landshlutasamtaka.
     d.      Stuðlað verði að eflingu sveitarstjórnarstigsins, m.a. með því að styðja markvisst við sameiningu sveitarfélaga.
     e.      Fjölgað verði opinberum störfum á landsbyggðinni.
     f.      Rýmkaðar verði heimildir útlendinga frá löndum utan EES til að starfa við almenn störf á íslenskum vinnumarkaði.
     g.      Fylgt verði eftir ákvörðun stjórnvalda um að auglýsa öll opinber störf án staðsetningar nema eðli þeirra kalli á ákveðna staðsetningu.
     h.      Stuðlað verði að markvissari samvinnu ríkis og sveitarfélaga um árangur á sviði loftslags-, umhverfis- og skipulagsmála í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
     Lýðræði og mannréttindi:
     a.      Stuðlað verði að aukinni lýðræðisþátttöku, einkum meðal ungs fólks og minnihlutahópa, svo sem innflytjenda, og samtali á milli hópa.
     b.      Tryggð verði aðkoma breiðs hóps að stefnumótandi ákvörðunum og þróun þjónustu og annarrar starfsemi.

1.2. Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
Mælikvarðar:
     i.      Fækkun samninga um framsal ákvörðunarvalds.
     ii.      Niðurstaða stafræns færnimats sveitarfélaganna.
     iii.      Niðurstaða þjónustukönnunar um viðhorf fólks til þjónustu síns sveitarfélags.

Áherslur til að ná þessu markmiði.
     Sjálfstjórn sveitarfélaga:
     a.      Skilgreind verði viðmið um grunnþjónustu og búsetuskilyrði óháð búsetu.
     b.      Skilgreint verði hvaða þjónustu sveitarfélag þurfi að veita til að uppfylla lágmarksréttindi íbúa.
     c.      Stuðlað verði að umbótum í samræmi við niðurstöður samræmdrar könnunar meðal íbúa um þjónustu og búsetuskilyrði.
     d.      Stutt verði við þróun þjónustu í takti við lýðfræðilegar breytingar, til að mynda hækkandi meðalaldur og fjölgun innflytjenda.
     e.      Stefnt verði að því með öðrum áætlunum að ná árangri í að bæta þjónustu og búsetuskilyrði.
     f.      Unnið verði að samhæfingu stafrænnar þjónustu stjórnsýslustiganna tveggja út frá þörfum notenda.
     Heildarhagsmunir, þróun og nýsköpun:
     a.      Stutt verði við stafræna umbreytingu sveitarstjórnarstigsins.
     b.      Þjónustuvefur stjórnvalda, island.is, verði nýttur eins og kostur er við stafræna umbreytingu hins opinbera.
     c.      Stuðlað verði að markvissari verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í því skyni að efla opinbera þjónustu, auka samhæfingu og tryggja gæði nærþjónustu.
     d.      Tryggð verði samfella í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, þ.m.t. með því að leitast við að afmá grá svæði í þjónustu stjórnsýslustiganna.

IV. SAMSTARF UM FRAMKVÆMD ÁÆTLUNARINNAR OG SAMRÁÐ UM MÁLEFNI SVEITARFÉLAGA

    Framkvæmd stefnumörkunar þessarar verði í nánu samráði milli ríkisins í heild, einstakra ráðuneyta, Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga. Eftirfarandi verði haft til hliðsjónar:
     a.      Haldinn verði árlegur samráðsfundur fulltrúa ríkisstjórnar og fulltrúa stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfsráði, sbr. 1. mgr. 128. gr. sveitarstjórnarlaga.
     b.      Samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. sömu greinar, fundi að lágmarki einu sinni í mánuði.
     c.      Alþingi verði reglulega gefin skýrsla um framkvæmd stefnunnar og álitaefni sem til umræðu eru á hverjum tíma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.
     d.      Kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla, sem hafa fjárhagslegar afleiðingar fyrir sveitarfélögin, verði eflt og tryggt að samantekið yfirlit yfir kostnaðarmat sé birt árlega.
     e.      Fram fari kerfisbundnar rannsóknir, fræðsla, miðlun upplýsinga og alþjóðlegur samanburður um sveitarstjórnarstigið.
     f.      Fram fari reglulega stöðluð mæling á sjálfbærni sveitarfélaga þar sem m.a. verði skoðað samspil tekna og gjalda sem og fjárhagsleg afkoma til skemmri og lengri tíma.
     g.      Innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga fari reglulega yfir stefnumörkun sambandsins og áherslur eins og þær koma fram á hverjum tíma með það að markmiði að samþætta þær reglulegu endurmati þessarar áætlunar og öðrum verkefnum sem ráðuneytið kann að vilja taka upp.
    Innviðaráðuneyti hafi yfirumsjón með framkvæmd stefnunnar í samstarfi við einstök ráðuneyti, eftir því sem við á, og Samband íslenskra sveitarfélaga.

V. AÐGERÐAÁÆTLUN FYRIR ÁRIN 2024–2028

    Unnið verði í samræmi við eftirfarandi fimm ára aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða stefnumótandi áætlunar fyrir sveitarstjórnarstigið.
1.1.     Sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær og ýti undir lýðræðislega virkni íbúa.
    1. Sjálfbær þróun sveitarfélaga.
          Verkefnismarkmið: Viðmið um sjálfbæra þróun sveitarfélaga á sviði fjármála og samfélags verði mótuð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að stuðla að því að þörfum nútímans sé mætt án þess að gengið sé á gæði komandi kynslóða. Með vísun til þriggja stoða sjálfbærni, á sviði fjármála, samfélags og umhverfis, verði viðmið um sjálfbærni á sviði umhverfis mótuð innan starfshóps um markvissari árangur og sjálfbærni sveitarfélaga í málaflokki umhverfis- og loftslagsmála, sbr. aðgerð 7 hér á eftir.
          Stutt lýsing: Aðgerðin feli í sér skipun tveggja starfshópa, annars vegar um mótun viðmiðs um sjálfbærni sveitarfélaga á sviði fjármála og hins vegar um sjálfbærni sveitarfélaga á sviði samfélags. Viðmið á sviði fjármála miði að því að tekjur standi undir lögbundinni þjónustu, áföllum og framtíðaráskorunum sveitarfélaga. Viðmið á sviði samfélags feli í sér verndun menningarlegra, félagslegra og umhverfislegra verðmæta.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og forsætisráðuneyti.
          Tímabil: 2024–2025.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, áætlunum innviðaráðuneytis á sviði byggða-, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismála og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

     2. Endurskoðun sveitarstjórnarlaga.
          Verkefnismarkmið: Ákveðnir kaflar sveitarstjórnarlaga verði endurskoðaðir til að fylgja eftir framþróun í starfsemi sveitarfélaga og tryggja að ákvæði laganna séu skýr og aðgengileg.
          Stutt lýsing: Endurskoðunin beinist einkum að ákvæðum um fjármál sveitarfélaga, birtingu fyrirmæla, þátttöku í atvinnurekstri, samráði við íbúa, heimildum um persónuupplýsingar, reikningsskilum, siðareglum og hagsmunaskráningu. Jafnframt verði hugað að sambærilegri framsetningu fjármála ríkis og sveitarfélaga. Metið verði hvernig eftirliti með stjórnsýslu sveitarfélaga og störfum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga verði best fyrir komið. Lagarammi landshlutasamtaka sveitarfélaga verði skýrður ásamt því að skoðaðar verði reglur um samvinnu sveitarfélaga. Síðast en ekki síst verði tekin afstaða til ábendinga verkefnisstjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa um kjaraákvæði og fleiri ákvæði sveitarstjórnarlaga um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Skipaður verði starfshópur til að hafa yfirumsjón með vinnunni ásamt því að gert verði ráð fyrir aðkeyptri vinnu sérfræðinga.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2024–2025.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði að hluta til framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög og 16. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um frið og réttlæti.

     3. Endurskoðun tekjustofna.
          Verkefnismarkmið: Tekjustofnar sveitarfélaga verði endurskoðaðir til að styrkja fjárhagslegan grundvöll þeirra til lengri tíma.
          Stutt lýsing: Byggt verði á upplýsingum úr vinnu tekjustofnanefndar við mat á því hvort hægt sé að styrkja núverandi tekjustofna sveitarfélaga og leita lausna til að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Niðurstaða vinnunnar verði nýtt til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Jafnframt verði unnið að endurskoðun vinnubragða og samráðs ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál. Skoðað verði hvort ástæða sé til að gera ráð fyrir sérstökum tekjustofni vegna reksturs almenningssamgangna.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

     4. Endurskoðun fjármálaviðmiða.
          Verkefnismarkmið: Lagaákvæði um fjármál sveitarfélaga verði endurskoðuð.
          Stutt lýsing: Afstaða verði tekin til fyrirliggjandi tillagna starfshóps um endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga. Með aðgerðinni verði stuðlað að sátt um lokaniðurstöðu hópsins. Í framhaldi af því renni niðurstaðan inn í endurskoðun sveitarstjórnarlaga.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

     5. Endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
          Verkefnismarkmið: Stuðlað verði að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
          Stutt lýsing: Lokið verði við gerð frumvarps til heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í því skyni að skapa traustari umgjörð um starfsemi sjóðsins og úthlutanir úr honum. Frumvarpið verði unnið á grundvelli niðurstaðna starfshóps tekjustofnanefndar um endurskoðun á regluverki sjóðsins. Markmið breytingarinnar verði að stuðla að markvissari jöfnun, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Við endurskoðun regluverks verði byggðasjónarmiðum áfram haldið á lofti.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, húsnæðisstefnu innviðaráðuneytis og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

     6. Ferill kostnaðarmats.
          Verkefnismarkmið: Tryggður verði faglegur ferill kostnaðarmats lagafrumvarpa og annarrar opinberrar stefnumótunar þegar kostnaður gæti fallið á sveitarfélögin.
          Stutt lýsing: Skipaður verði starfshópur til að skilgreina feril kostnaðarmats í því skyni að tryggja sátt um matið og fjármögnun viðkomandi verkefna. Gengið verði út frá því að kostnaðarmatið feli í sér skýrar þjónustukröfur, mat á fjárhagslegum áhrifum og fullnægjandi upplýsingar um fjármögnun. Jafnframt verði matið ávallt borið undir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga um kostnaðarmat. Starfshópurinn taki afstöðu til þess hvernig farið verði með úrlausn ágreiningsmála milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarmat.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneyti og önnur hlutaðeigandi ráðuneyti.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

     7. Markvissari árangur á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
          Verkefnismarkmið: Aðgerðir sveitarfélaganna á sviði umhverfis- og loftslagsmála verði kortlagðar í því skyni að skapa grundvöll fyrir markvissari árangri, samtali og samstarfi á þessu sviði.
          Stutt lýsing: Á grundvelli yfirlitsins verði mótaðar tillögur um samhæfð vinnubrögð og frekari aðgerðir til að tryggja markvissari árangur við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, auka viðnámsþol og aðlaga sveitarfélögin að framkomnum og væntanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Stuðlað verði að bættum umhverfisgæðum og heilnæmara umhverfi með sérstakri áherslu á loftgæði og stuðningi við vistvænan lífsstíl almennings í allri starfsemi sveitarstjórnarstigsins.
          Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2024–2026.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, áætlunum innviðaráðuneytis á sviði byggða-, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismála, 13. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum, 14. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um líf í vatni, 15. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um líf á landi og aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum.

     8. Aukin lýðræðisþátttaka.
          Verkefnismarkmið: Stuðlað verði að aukinni kosningaþátttöku og almennri lýðræðisþátttöku íbúa.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram að standa fyrir fræðslu til sveitarfélaga um markvissar aðferðir til íbúasamráðs og þátttöku á grundvelli handbókar Sambands íslenskra sveitarfélaga um íbúasamráð. Þeim verði jafnframt veittur stuðningur til að tileinka sér slíkar aðferðir, ekki síst til að auka lýðræðislega virkni ungs fólks og fólks af erlendum uppruna. Jafnframt verði staðið fyrir sérstökum aðgerðum til að auka kosningaþátttöku þessara hópa og styðja við hagnýtingu á stafrænum lýðræðislausnum. Áfram verði leitað leiða til að einfalda regluverk um íbúakosningar sveitarfélaga án þess að vega að öryggi og vandaðri framkvæmd slíkra kosninga.
          Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og viðeigandi stofnanir.
          Tímabil: 2024–2028.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist áætlunum innviðaráðuneytis á sviði byggða-, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismála og 16. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um frið og réttlæti.

     9. Fagteymi vegna kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni.
          Verkefnismarkmið: Kjörnir aðal- og varafulltrúar í sveitarstjórnum verði verndaðir gagnvart einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni.
          Stutt lýsing: Fagteymi verði stofnað og taki við beiðnum um aðstoð, meti þær og komi í viðeigandi farveg og eftir atvikum fylgi eftir tilkynningum til teymisins og tryggi að þær fái viðhlítandi málsmeðferð. Á vegum fagteymisins verði komið upp miðlægum gagnagrunni með almennum upplýsingum, lagaramma og úrræðum í tengslum við áreitni og ofbeldi af ýmsu tagi. Jafnframt verði litið til þess hvernig hindra megi áreitni í garð kjörinna fulltrúa á viðburðum í tengslum við hlutverk þeirra innan sveitarstjórna og á þingi.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Samstarfsaðilar: Viðeigandi fagaðilar.
          Tímabil: 2024–2025.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin fylgi tillögu starfshóps um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, aðgerð C.16 í byggðaáætlun og 5. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna.

     10. Mælaborð um jafnrétti.
          Verkefnismarkmið: Unnið verði með forsætisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofu og Hagstofu Íslands um þróun mælaborðs yfir tölfræði á sviði jafnréttismála í anda Evrópuverkefnisins Tea for two.
          Stutt lýsing: Mælaborðið feli í sér myndræna framsetningu á breytum eins og hlutfalli kynjanna í sveitarstjórnum, nefndum og ráðum, upplýsingum um hlutfall sveitarfélaga með jafnlaunavottun og jafnréttisáætlanir, svo dæmi séu nefnd. Mælaborðið verði sérstaklega kynnt fyrir sveitarstjórnum í því skyni að mynda grundvöll aðgerða til að stuðla að auknu jafnrétti.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Forsætisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Hagstofa Íslands og Jafnréttisstofa.
          Tímabil: 2024–2025.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin fylgi tillögu verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, aðgerð C.16 um jafnrétti í sveitarstjórnum í byggðaáætlun og 5. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna.

1.2. Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
     11. Búsetufrelsi.
          Verkefnismarkmið: Áskoranir búsetufrelsis verði greindar út frá gildandi lögum.
          Stutt lýsing: Skoðað verði sérstaklega hvort ástæða sé til breytinga á lögum um lögheimili og aðsetur í tengslum við markmið um búsetufrelsi. Við lagabreytingar verði unnið út frá þeirri meginreglu að skipulag sveitarfélaga ráði því hvar heimilt sé að skrá lögheimili og einnig hvar sveitarfélögum sé skylt að veita þjónustu við íbúa.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, áherslu innviðaráðherra á búsetufrelsi og aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.

     12. Lágmarksþjónusta sveitarfélaga.
          Verkefnismarkmið: Skilgreint verði hvaða þjónustu sveitarfélag þurfi að veita til að uppfylla lágmarksrétt íbúa til þjónustu.
          Stutt lýsing: Skipaður verði starfshópur til að skilgreina hvaða þjónusta teljist lágmarksþjónusta sveitarfélaga án þess að gengið sé á rétt íbúa til þjónustu og annarra réttinda. Mið verði tekið af skilgreiningu Byggðastofnunar á grunnþjónustu. Hugað verði sérstaklega að þjónustu við hópa á borð við barnafjölskyldur, fólk af erlendum uppruna, aldraða og fólk með fötlun. Afstaða verði tekin til þjónustuframboðs og samvinnu sveitarfélaga um veitingu ólíkrar þjónustu.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 3. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan, 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, áherslu innviðaráðherra á búsetufrelsi og aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.

     13. Þróun þjónustu sveitarfélaga.
          Verkefnismarkmið: Stuðlað verði að umbótum í þjónustu sveitarfélaga.
          Stutt lýsing: Þegar fyrir liggur skilgreining á grunnþjónustu samkvæmt byggðaáætlun verði ánægja íbúa með þjónustuna mæld í þjónustukönnun í samvinnu við Byggðastofnun. Skipaður verði þróunarhópur á sviði þjónustu til að bregðast við niðurstöðum mælinga með viðeigandi umbótum og þróun þjónustu, m.a. með því að miðla reynslu af fyrirmyndarverkefnum/-þjónustu. Við þróun þjónustu verði sérstaklega litið til stuðnings við viðkvæma hópa á borð við börn undir sex ára aldri, barnafjölskyldur, fólk af erlendum uppruna, aldraða og fatlað fólk.
          Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Samstarfsaðilar: Byggðastofnun, innviðaráðuneyti og önnur hlutaðeigandi ráðuneyti.
          Tímabil: 2024–2028.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, áherslu innviðaráðherra á búsetufrelsi og aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.

     14. Fjölmenning í starfsliði sveitarfélaganna.
          Verkefnismarkmið: Stutt verði við sveitarfélögin við að nýta betur krafta innflytjenda og fjölga þeim í starfsliði sínu, m.a. í þeim tilgangi að bæta þjónustu við íbúa í hópi innflytjenda og fjölga starfstækifærum innflytjenda.
          Stutt lýsing: Stofnaður verði starfshópur til að efla stuðning við sveitarfélögin í því að greina menntun, starfsreynslu og tungumálafærni innflytjenda í starfsliði sveitarfélaganna, aðstoða þá við að fá menntun þeirra metna og stuðla að því að hún nýtist sveitarfélaginu sem best. Jafnframt hljóti sveitarfélögin stuðning við greiningu og stefnumótun starfstækifæra fyrir starfsmenn með annað móðurmál en íslensku í starfsliði viðkomandi sveitarfélaga í því skyni að auka fjölbreytni í starfsmannahópnum, bæta þjónustu og stuðning við innflytjendur ásamt því að stuðla að virkara fjölmenningarsamfélagi. Liður í aðgerðinni felist í því að miðla reynslu milli sveitarfélaga á þessu sviði. Samhliða taki fulltrúar sveitarfélaganna þátt í víðtækri stefnumótun stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttafólks í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.
          Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Vinnumálastofnun, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, ENIC-NARIC á Íslandi, IÐAN fræðslusetur og aðrir viðurkenndir aðilar um mat á menntun.
          Tímabil: 2024–2026.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, aðgerð A.7 í byggðaáætlun og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð. Aðgerðin samræmist aðgerð 3.2 og 4.2 í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.

     15. Þróun þjónustu við fatlað fólk.
          Verkefnismarkmið: Unnið verði að frekari þróun þjónustu við fatlað fólk.
          Stutt lýsing: Á grundvelli landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og niðurstaðna starfshóps um mótun tillagna um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk verði ábyrgð, hlutverk, fjármögnun og skipulag í samstarfi sveitarfélaga og ríkisins í þjónustu við fatlað fólk afmarkað með skýrari hætti. Meðal annars verði tekið mið af því að samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga færist ábyrgð á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) og þróun hennar til sveitarfélaga árið 2025.
          Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
          Tímabil: 2024–2028.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála og 1., 3., 4., 5., 8., 9., 10., 11., 16. og 17. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

     16. Stafræn umbreyting.
          Verkefnismarkmið: Unnið verði að heildstæðri stefnumörkun um stafræna umbreytingu sveitarfélaga og samstarf milli sveitarfélaga og við ríkið til að ná þeim markmiðum.
          Stutt lýsing: Við vinnuna verði lögð áhersla á samnýtingu stafrænna innviða fyrir hið opinbera ásamt því að stafrænar lausnir verði þróaðar út frá þörfum almennings og fyrirtækja fyrir heildstæða þjónustu, óháð því hvort ríki eða sveitarfélög beri ábyrgð á henni. Í því augnamiði verði áfram unnið að veitingu opinberra þjónustuferla í gegnum island.is. Hugað verði að þekkingaruppbyggingu meðal sveitarfélaga og því að efla samstarf milli sveitarfélaga og við ríkið til að ná fram hagkvæmari uppbyggingu og rekstri stafrænnar þjónustu.
                  Við þróun og innleiðingu stafrænna lausna verði gætt að mannréttindum og því að lausnir séu aðgengilegar fyrir alla hópa samfélagsins. Jafnframt verði tekið mið af því að stafræn umbreyting feli í sér umhverfisvænar lausnir. Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna þróun hins opinbera verði falið að vinna að stefnumörkun og innleiðingu.
          Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, innviðaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, hlutaðeigandi ráðuneyti og ríkisstofnanir.
          Tímabil: 2024.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, húsnæðisstefnu innviðaráðuneytis, 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð og 9. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um nýsköpun og uppbyggingu.

     17. Ábyrgðarskipting og samfelld þjónusta.
          Verkefnismarkmið: Að stuðla að eflingu sveitarstjórnarstigsins og tryggja samfellu í opinberri þjónustu.
          Stutt lýsing: Fram fari greining á ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, tekin verði afstaða til þess hvort færa beri verkefni milli stjórnsýslustiga og mótuð aðgerðaáætlun þar um. Stefnt verði að því að útrýma til frambúðar gráum svæðum í opinberri þjónustu. Sérstök áhersla verði lögð á að ljúka vinnu vegna talmeinaþjónustu og þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Jafnframt verði lögð áhersla á að skýra hlutverk og ábyrgð varðandi yngri hjúkrunarsjúklinga, fólk í leit að alþjóðlegri vernd og heimilislausa. Einnig verði skoðað hvernig hægt sé að stuðla að aukinni samfellu og skýrari ábyrgð í þjónustu við fatlað fólk, þjónustu við eldra fólk, lýðheilsu og forvarnamálum ásamt því að bæta samspil á milli bótakerfa ríkis og sveitarfélaga. Skipaðir verði þrír starfshópar til að vinna að mótun aðgerðaáætlunar til ársins 2040, þ.e. stýrihópur þriggja ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafahópur sérfræðinga annars vegar og ráðgjafahópur notenda hins vegar.
          Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti og önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt viðeigandi sérfræðingum og fulltrúum notenda.
          Tímabil: 2024–2026.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin miðist við fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, 3. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð.

     18. Vellíðan ungra barna og barnafjölskyldna.
          Verkefnismarkmið: Stuðlað verði að bættum hag ungra barna og fjölskyldna þeirra innan sveitarfélaganna.
          Stutt lýsing: Þjónusta ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur fyrstu ár ævinnar verði greind og endurskoðuð í því skyni að bæta þjónustu við þennan hóp. Hugað verði sérstaklega að aðstæðum barna í viðkvæmum hópum, til að mynda barna með andlegar og/eða líkamlegar skerðingar, barna af erlendum uppruna og barna í erfiðum félagslegum og/eða efnahagslegum aðstæðum.
          Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga o.fl.
          Tímabil: 2024–2028.
          Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, 1. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um enga fátækt og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð.

Samþykkt á Alþingi 5. desember 2023.