Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 691  —  558. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu sem undirritaður var 27. júní 2023 í Schaan í Liechtenstein.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu sem undirritaður var í Schaan í Liechtenstein 27. júní 2023. Meginmál fríverslunarsamningsins er birt sem fylgiskjal I með tillögu þessari og ensk útgáfa sem fylgiskjal II. Viðaukar við samninginn verða sendir utanríkismálanefnd og birtir á vef Alþingis.
    EFTA-ríkin og Moldóva hófu viðræður um gerð fríverslunarsamnings vorið 2021 og lauk þeim í mars 2023. Samningurinn kveður á um gagnkvæma niðurfellingu, lækkun og bindingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Moldóvu, falla niður frá gildistöku samningsins og sama á við um tilteknar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.
    Útflutningur frá Íslandi til Moldóvu hefur verið lítill í gegnum tíðina, þótt merkja megi aukningu undanfarin ár sem samanstendur nær alfarið af sjávarafurðum. Innflutningur frá Moldóvu hefur einnig verið lítill. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli ríkjanna. Gerð samningsins felur einnig í sér stuðning EFTA-ríkjanna við viðleitni stjórnvalda í Moldóvu til vestrænnar samvinnu.
    EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa nú gert 30 fríverslunarsamninga við alls 41 ríki, að samningnum við Moldóvu meðtöldum.

2. Nánar um fríverslunarsamninginn.
    Efni fríverslunarsamningsins skiptist í 12 kafla og 16 viðauka þar sem m.a. er kveðið á um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, rétt til stofnsetningar, rafræn viðskipti, verndun hugverkaréttar, opinber innkaup og viðskipti og sjálfbæra þróun, auk hefðbundinna ákvæða um sameiginlega nefnd samningsaðila og lausn deilumála.
    Í formálsorðum samningsins er gerð grein fyrir ýmsum forsendum og markmiðum samningsaðila við gerð samningsins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
          Lýst er yfir vilja ríkjanna til að efla tengsl milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu og skapa hagstæð skilyrði fyrir þróun og fjölbreytni í viðskiptum og fyrir aukna samvinnu á grundvelli jafnréttis, með það að markmiði að skapa ný atvinnutækifæri, bæta lífskjör og auka heilsuvernd og vernd öryggis og umhverfis.
          Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, meðal annars eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
          Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að stefna að sjálfbærri þróun sem og viðurkenning þeirra á mikilvægi samræmis í stefnumálum á sviðum viðskipta, umhverfis og vinnu.
          Ítrekaður er vilji samningsaðila til að beita ákvæðum samningsins í samræmi við markmið um vernd umhverfisins og hagkvæma auðlindanýtingu.
          Staðfest er skuldbinding ríkjanna um að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu í viðskiptum og fjárfestingum ríkja í milli og að halda á lofti meginreglunum um gagnsæi og góða opinbera stjórnunarhætti.
          Ítrekað er mikilvægi góðra stjórnunarhátta og samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja í þágu sjálfbærrar þróunar og staðfest ætlun ríkjanna um að hvetja fyrirtæki til að virða alþjóðlega viðurkenndar leiðbeiningar og meginreglur í því tilliti, þ.m.t. leiðbeiningar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki, meginreglur OECD um stjórnunarhætti fyrirtækja og hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum.

2.1. Kaflar samningsins.
    Í 1.–2. kafla og viðaukum I–VII er að finna almenn ákvæði og ákvæði um niðurfellingu tolla og önnur ákvæði tengd viðskiptum með vörur. Auk ákvæða um tollaniðurfellingar eru þar ákvæði um m.a. upprunareglur, tæknilegar reglur, ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna, viðskiptaliprun, ríkisrekin fyrirtæki á sviði verslunar, styrki og jöfnunarráðstafanir, ráðstafanir gegn undirboðum og verndarráðstafanir. Kveðið er á um gagnkvæma niðurfellingu og bindingu tolla af hvers kyns iðnaðarvörum og sjávarafurðum sem framleiddar eru í ríkjum samningsaðila og fluttar inn til gagnaðila. Tollar munu jafnframt falla niður af mörgum helstu landbúnaðarvörum sem framleiddar eru til útflutnings hér á landi, svo sem lambakjöti, hrossakjöti, skyri, vatni, bjór og öðrum áfengum drykkjum.
    Í 3.–4. kafla og viðaukum VIII–XIV eru ákvæði um þjónustuviðskipti, þ.m.t. skuldbindingar samningsaðila hvað varðar markaðsaðgang til handa þjónustuveitendum frá ríkjum gagnaðila, svo og rétt til stofnsetningar fyrirtækja í landi gagnaðila. Í þeim er að mestu byggt á skuldbindingum ríkjanna samkvæmt ákvæðum GATS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um þjónustuviðskipti.
    Kafli 5 fjallar um rafræn viðskipti, en það er í fyrsta sinn sem það er gert með þessum hætti í fríverslunarsamningi á vegum EFTA-ríkjanna fjögurra. Samningsaðilar ítreka þau tækifæri sem felast í rafrænum viðskiptum með vörur og þjónustu og skuldbinda sig til að leggja ekki tolla á rafrænar sendingar. Mikilvægi öflugrar verndar persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs er ítrekað sem og beiting reglna um miðlun persónuupplýsinga yfir landamæri. Þá er fjallað um rafræna samvottun og viðurkenningu á réttaráhrifum rafrænna skjala og undirskrifta. Samningsaðilar skuldbinda sig einnig til að tryggja gagnaflæði yfir landamæri.
    Í 6. kafla og viðauka XV eru ákvæði um vernd hugverkaréttar. Þau byggjast á ákvæðum TRIPS-samnings WTO um hugverkarétt í viðskiptum. Þá er einnig ákvæði um að geri samningsaðilar viðskiptasamning við aðila utan samningsins sem felur í sér ákvæði um vernd hugverkaréttinda skuli samningsaðilum tilkynnt um það og þeir ekki njóta óhagstæðari meðferðar en veitt er samkvæmt nýja samningnum.
    Í 7. kafla og viðauka XVI er fjallað um opinber innkaup og gagnkvæman rétt til þátttöku í útboðum yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum af hálfu opinberra aðila í ríkjunum. Byggt er á samningi WTO um opinber innkaup sem Ísland er aðili að. Engar breytingar eru á íslenskum reglum hvað þessi mál varðar.
    Í 8. kafla er kveðið á um samkeppnismál. Áréttað er að samráð milli fyrirtækja sem leiðir til röskunar á samkeppni sem og misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé ósamrýmanlegt markmiðum samningsins. Jafnframt er kveðið á um samvinnu milli ríkjanna á sviði samkeppnismála, m.a. með gagnkvæmum upplýsingaskiptum milli samkeppnisyfirvalda ríkjanna.
    9. kafli fjallar um viðskipti og sjálfbæra þróun. Kveðið er á um að samningsaðilar skuli stuðla að sjálfbærri þróun sem nái til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar og umhverfisverndar, þar sem allir þrír þættirnir séu háðir hver öðrum. Einnig er í fyrsta sinn í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna að finna ákvæði um mikilvægi kynjasjónarmiða í opinberri stefnumótun svo efla megi þátttöku kvenna í hagkerfinu og alþjóðaviðskiptum. Samningsaðilar árétta enn fremur skuldbindingar sínar samkvæmt fjölþjóðlegum samningum og grundvallarreglum tengdum umhverfi og vinnumarkaði og ábyrgjast að viðhalda verndarstigi þeirra, jafnframt því sem ítrekað er að ríkin hafi fullan rétt til þess að setja eigin umhverfis- og vinnuverndarlöggjöf. Tekið er fram að samningsaðilar árétti skyldur sínar til að virða, efla og framkvæma þær meginreglur um grundvallarréttindi sem er að finna í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og -réttindi við vinnu, eins og henni var breytt árið 2022. Er þessi kafli sá metnaðarfyllsti sinnar tegundar sem EFTA-ríkin hafa samið um við samstarfsríki til þessa.
    Í 10.–12. kafla eru ákvæði um m.a. framkvæmd samningsins, lausn deilumála, breytingar á samningnum og gildistöku hans. Sett er á stofn sameiginleg nefnd ríkjanna sem ætlað er að fjalla um framkvæmd samningsins, t.d. einstök vandamál í viðskiptum milli ríkjanna. Kveðið er á um lausn ágreiningsmála um túlkun og beitingu samningsins í formi sáttaumleitana, eða eftir atvikum með stofnun gerðardóms ef samkomulag næst ekki með öðrum hætti.


Fylgiskjal I.


Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og lýðveldisins Moldóvu.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0691-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Free trade agreement between the EFTA-states and the Republic of Moldova.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0691-f_II.pdf