Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 705  —  544. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæða um rafræna meðferð mála.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá dómsmálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaheimildir stjórnvalda og dómstóla til að beita rafrænum lausnum við meðferð mála og notkun fjarfundarbúnaðar verði framlengdar.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Ljóst er að heimildir til að beita rafrænum lausnum og nota fjarfundarbúnað voru í upphafi settar í lög til bráðabirgða í því skyni að koma í veg fyrir réttarspjöll af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Í greinargerð með frumvarpinu er aðdragandi málsins rakinn nánar og hvernig heimildir til bráðabirgða hafa reynst í framkvæmd. Nefndin telur ljóst að rafrænar lausnir við meðferð mála og notkun fjarfundarbúnaðar þurfa að vera fyrir hendi.
    Gildistími heimildanna var síðast framlengdur með lögum nr. 136/2021 (151. mál á 152. löggjafarþingi) en í áliti allsherjar- og menntamálanefndar á þeim tíma fjallaði nefndin um mikilvægi þess að gerðar yrðu nauðsynlegar lagabreytingar til að innleiða varanlegar heimildir fyrir dómstóla og stjórnvöld til að nýta rafrænar lausnir þar sem það er mögulegt til að bæta þjónustu. Lagði nefndin því til að tilgreindar bráðabirgðaheimildir yrðu framlengdar til ársloka 2023, á þeim grundvelli að sá tími yrði nýttur til að ljúka vinnu við endurskoðun á löggjöf varðandi varanlegar heimildir. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að sú vinna er nú langt á veg komin hvað varðar lög um meðferð sakamála og lög um meðferð einkamála en jafnframt hefur verið unnið að frekari breytingum sem myndu heimila að nýta í auknum mæli þá tækni sem til staðar er við meðferð mála m.a. hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Fyrirhugað er að frumvarp þess efnis verði lagt fram á yfirstandandi þingi og því er lagt til að framlengja heimildir til bráðabirgða í þeim lögum til 30. júní 2024. Þörf er á lengri tíma hvað varðar breytingar á erfðalögum og lögum um skipti á dánarbúum og því lagt til að framlengja þeim bráðabirgðaheimildum til 31. desember 2025.
    Nefndin telur brýnt að framlengja heimildir til bráðabirgða nú í ljósi þess að unnið er að frumvörpum þar sem lagt verður til að sams konar heimildir verði útfærðar varanlega í lögum. Að öðrum kosti myndu heimildirnar falla niður.
    Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu takmarkast beiting þeirra heimilda sem um ræðir við 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Nefndin áréttar að meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvort forsendur fyrir beitingu þeirra sé fyrir hendi með það fyrir augum að tryggð verði að fullu réttindi málsaðila. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Bergþór Ólason og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, tekur undir álitið.

Alþingi, 8. desember 2023.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Eyjólfur Ármannsson. Birgir Þórarinsson.
Dagbjört Hákonardóttir. Jódís Skúladóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Greta Ósk Óskarsdóttir.