Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 708  —  181. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019 (úrbætur á póstmarkaði).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá innviðaráðuneyti, ÖBÍ réttindasamtökum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Íslandspósti ohf.
    Nefndinni bárust níu umsagnir sem aðgengilegar eru á vef Alþingis. Málið var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi ( 531. mál) og hafði nefndin einnig hliðsjón af umsögnum sem bárust þá.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019. Í fyrsta lagi er lagt til að heiti Byggðastofnunar, sem nú fer með póstmálefni, komi í stað heitis Póst- og fjarskiptastofnunar í lagatextanum. Þá er í frumvarpinu lagt til að heimildir til að nýta bréfakassasamstæður verði rýmkaðar, en auk þess að bætt verði úr gildandi lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 2018/644 og sett verði heimild til innleiðingar framkvæmdarreglugerðar (ESB) 2018/1263 um eyðublöð fyrir veitendur bögglaútburðarþjónustu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Á 151. löggjafarþingi (534. mál) voru póstmálefni flutt frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, sbr. lög nr. 76/2021. Meiri hlutinn tekur undir það sem segir í greinargerð með frumvarpinu um nauðsyn þess að bæta úr þeim annmörkum sem eru á lögum um póstþjónustu í dag og tryggja að heiti Byggðastofnunar komi í stað heitis Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem við á.
    Í 3. og 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að styrkja lagastoð fyrir innleiðingu framangreindra reglugerða. Um nánara efni reglugerðanna vísast til umfjöllunar í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir það sem fram kemur í greinargerð að brýnt sé að frumvarpið nái fram að ganga svo unnt sé að innleiða reglugerðirnar í íslenskan rétt.

Greining á tækifærum til úrbóta á póstmarkaði.
    Nefndin fjallaði um markmið laga um póstþjónustu eins og þau eru skilgreind í 1. gr. laganna. Á 151. löggjafarþingi voru eins og fyrr segir gerðar breytingar á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun (534. mál) og verkefni póstmála flutt til Byggðastofnunar. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar (þskj. 1633) kom fram að bæta þyrfti grundvöll fyrir heilbrigða samkeppni á póstmarkaði ásamt því að tryggja aðgengi landsmanna að póstþjónustu óháð búsetu.
    Með vísan til þessa leggur meiri hlutinn til við ráðuneytið að heildstæð vinna verði hafin við að greina möguleg tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, þ.e. svonefndan alþjónustukostnað, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, byggða- og samkeppnissjónarmiða. Telur meiri hlutinn að byggja þurfi frekar undir grundvöll fyrir samkeppni á póstmarkaði eins og lagt var til í framangreindu nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar. Þá hvetur meiri hlutinn til þess að ráðist verði í heildstæða stefnumótun á póstmarkaði hér á landi um framtíðarskipan póstmála, sem taki mið af breyttum aðstæðum og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á póstmarkaði, svo sem með fækkun bréfa, breytingum í tækni og þjónustuþörfum á landsvísu með markmið laganna að leiðarljósi.

Breytingartillögur.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting þess efnis að alþjónustuveitanda verði heimilt að setja upp bréfakassasamstæður fyrir alla móttakendur póstsendinga á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli. Meiri hlutinn leggur til að ákvæðið falli brott, en hinn 7. nóvember sl. fór innviðaráðuneyti þess á leit við nefndina að ákvæðið yrði fellt úr frumvarpinu.
    Ráðuneytið tekur fram í erindi sínu til nefndarinnar að ástæðan sé sú að fulltrúar þess hafi fundað með ÖBÍ réttindasamtökum um ákvæðið og nauðsynlega reglugerðavinnu, en í ljós hafi komið að sú reglusetning sé tímafrek og útfærslan flóknari en vonir ráðuneytisins stóðu til. Meiri hlutinn bendir í því samhengi á umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um málið, bæði á yfirstandandi löggjafarþingi og 153. þingi, þar sem gerðar voru verulegar athugasemdir við þetta ákvæði frumvarpsins. Vísast að öðru leyti til umsagnar samtakanna. Telur meiri hlutinn rétt að bregðast við erindi ráðuneytisins með þeim hætti sem gerð hefur verið grein fyrir en leggur ríka áherslu á að ráðuneytið vinni að fyrirhuguðum breytingum í nánu samstarfi við hagaðila.
    Þá leggur meiri hlutinn til tæknilegar breytingar á frumvarpinu. Lögð er til breyting á 1. gr. frumvarpsins, en í ákvæðinu er lagt til að hvarvetna í lögunum verði vísað til Byggðastofnunar í stað Póst- og fjarskiptastofnunar. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt yrði tilvísun í d-lið 7. gr. laganna um rekstrargjald í samræmi við lög um Byggðastofnun, en ekki er kveðið á um rekstrargjöld póstrekenda í þeim lögum. Kveðið er á um rekstrargjöld póstrekenda í lögum um póstþjónustu og er því lagt til að vísað verði til þeirra laga.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      1. gr. orðist svo:
             Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 1. mgr. og „Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 5. mgr. 5. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum nema í d-lið 7. gr. og ákvæði til bráðabirgða I kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Byggðastofnun.
     2.      2. gr. orðist svo:
             D-liður 7. gr. laganna orðast svo:
                  Rekstrargjald hafi verið greitt, eða samið um greiðslu á því, í samræmi við lög þessi.

Alþingi, 8. desember 2023.

Bjarni Jónsson,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Orri Páll Jóhannsson.
Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson. Vilhjálmur Árnason.