Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 712  —  181. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019 (úrbætur á póstmarkaði).

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 153. löggjafarþingi (531. mál), en þá kom skýrt fram í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka að ekkert samráð hafi verið haft við samtökin, þó svo að ákvæði frumvarpsins snertu með beinum hætti aðgengi að grunnþjónustu. Það sætir því furðu að málið hafi verið lagt fram óbreytt á 154. löggjafarþingi. Frekar en að nýta tímann á milli þinga til að uppfylla samráðsskyldu sína samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kaus ráðuneytið að skila málinu aftur ófrágengnu til Alþingis. Fyrsti minni hluti nefndarinnar telur þessi vinnubrögð ámælisverð, en fagnar því að ráðuneytið hafi séð að sér og lagt til að 2. gr. frumvarpsins falli brott í ljósi þessa samráðsleysis. Það hlýtur að teljast harla óvenjulegt að ráðuneyti geri sig sjálft afturreka með mál á grundvelli slælegra vinnubragða.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að alþjónustuveitanda verði heimilt að setja upp bréfakassasamstæður fyrir alla móttakendur póstsendinga í þéttbýli. Þar með geti alþjónustuveitandi hætt að bera út póst á heimili fólks. Aðgengi allra að slíkum bréfakassasamstæðum er engan veginn sjálfgefið, hvort sem það er vegna líkamlegrar getu, vegalengdar eða ástands gatna. Þetta virðast frumvarpshöfundar vera meðvitaðir um, en í greinargerð segir að koma þurfi til móts við þá aðila sem ekki geta sótt póstinn sinn af einhverjum ástæðum, t.d. sökum fötlunar, aldurs eða veikinda. Við umfjöllun málsins kom hins vegar fram að ráðuneytið hafði ekki á nokkurn hátt skoðað hvernig hægt væri að útfæra það með þeim reglugerðarheimildum sem fyrir liggja. ÖBÍ réttindasamtök benda í umsögn sinni á að af gefnu tilefni megi efast um að slík útfærsla í reglugerð virki vel í reynd, enda sé þá um að ræða viðbót sem ekki hafi verið hugsuð frá upphafi. Fyrsti minni hluti tekur undir þetta og bendir á að viðhorf ráðuneytisins endurspeglar grundvallarmisskilning á hugmyndafræði algildrar hönnunar, sem ætti að vera kjarninn í öllum breytingum á grunnkerfum samfélagsins. Þar er lykilatriði að hanna allar kerfisbreytingar frá upphafi út frá aðstæðum viðkvæmustu hópanna til að tryggja að þær bitni ekki á þeim þegar á hólminn er komið.
    Hinn 7. nóvember sl. fór innviðaráðuneytið þess á leit við nefndina að hún hraðaði afgreiðslu málsins, enda væri farið styttast í að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) stigi formleg skref vegna tafa við innleiðingar á tveimur reglugerðum sem setja á lagastoð fyrir í 3. og 4. gr. frumvarpsins. Til að svo mætti verða lagði ráðuneytið til að 2. gr. frumvarpsins yrði felld brott þar sem í ljós kom að nauðsynleg reglusetning er tímafrek og útfærslan flóknari en vonir ráðuneytisins stóðu til. Þá uppgötvun gerði ráðuneytið þegar það settist loks til fundar með fulltrúum frá ÖBÍ réttindasamtökum, mörgum mánuðum eftir að bent var á þennan annmarka í fyrsta sinn. Fyrsti minni hluti lýsir ánægju með að ráðuneytið hafi loks tekið upp samráð við ÖBÍ, en ítrekar að það hefði átt að eiga sér stað strax við upphaf vinnslu málsins. Beinir 1. minni hluti því til ráðuneytisins að taka til endurskoðunar verklag við vinnslu þingmála þannig að mistök af þessu tagi endurtaki sig ekki. Þegar kemur að aðgengi fatlaðs fólks að grunnþjónustu getur ráðuneyti ekki láti undir höfuð leggjast að kanna hver áhrif lagasetningar eru og hvernig hægt er að tryggja að ekki sé gengið á réttindi fatlaðs fólks.

Alþingi, 11. desember 2023.

Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.