Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Nr. 4/154.

Þingskjal 723  —  241. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023–2027.


    Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023–2027 þar sem lögð verði áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun.

A. Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar starfi áfram þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna, með stuðningi og í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna, til að ljúka heildarendurskoðun barnaverndarlaga og eftir atvikum annarra laga sem breyta þarf samhliða til að fá heildarsýn í málefnum barna hér á landi og þjónustu við þau.
     Markmið: Að tekin verði þverpólitísk afstaða til breytinga á skipulagi og verklagi barnaverndarstarfs og eftir atvikum einnig annarra stjórnvalda með það í huga að tryggja gæði þjónustu og jöfnuð í barnaverndarstarfi á landsvísu.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti, Barna- og fjölskyldustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og eftir atvikum fleiri stofnanir og aðilar.
     Mælikvarði: Að frumvarp til nýrra laga um barnavernd, og eftir atvikum frumvarp til laga um breytingu á öðrum lögum, verði lagt fram á Alþingi á 154. löggjafarþingi. Setningu og endurskoðun reglugerða á grundvelli nýrra barnaverndarlaga verði lokið árið 2025. Innleiðing breytinga verði komin vel áleiðis árið 2027.

B. Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila.
1. Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði skoðað að innleiða hagnýta fjölskyldumeðferð í barnavernd sem nýtist börnum að 18 ára aldri. Hagnýt fjölskyldumeðferð í barnavernd verði notuð í meðferðarvinnu í tengslum við mismunandi vanda, t.d. uppeldislegan vanda, heimilisofbeldi, tilfinningastjórnun, þunglyndi, áföll, kvíða og fíknivanda. Inngrip beinist að börnum, foreldrum, fjölskyldu eða nærsamfélagi barnsins.
     Markmið: Að aukið verði framboð árangursríkra meðferðarúrræða fyrir börn og fjölskyldur.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarþjónustur sveitarfélaga og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Að einu teymi í fjölkerfameðferð verði breytt í teymi sem veitir hagnýta fjölskyldumeðferð í barnavernd sem þjónustar 32–48 fjölskyldur hverju sinni.

2. Samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum.
    Samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum verði úrræði fyrir fjölskyldur sem hafa þurft að þola líkamlegt ofbeldi og nýtist í þeim tilfellum þar sem foreldrar og börn geta átt áfram samskipti.
     Markmið: Að stutt verði við foreldra í foreldrahlutverkinu og komið í veg fyrir að vandi verði svo alvarlegur að grípa þurfi til íþyngjandi vistunarúrræða.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Barnaverndarþjónustur sveitarfélaga og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Að innleidd verði samþætt hugræn atferlismeðferð ásamt því að veita meðferð fyrir þau börn sem þurfa á meðferðinni að halda. Tvö teymi sem vinna saman með foreldra og barn.

C. Meðferðarfóstur.
    Á tímabili þessarar framkvæmdaáætlunar verði aukin handleiðsla við fósturforeldra og forsjáraðilar verði studdir betur þegar það á við. Þjónusta við fósturforeldra verði bætt með handleiðslu.
     Markmið: Að aukinn verði stuðningur við börn í fóstri og fósturforeldra og komið í veg fyrir fósturrof.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Að handleiðsla verði veitt í 30 fósturmálum hverju sinni auk þess sem þekking verði þróuð sem nýtist öllum fósturforeldrum.

D. Að efla og bæta verklag í barnaverndarþjónustu.
1. Verklag í barnavernd – öryggismerki.
    Skapaðar verði forsendur til að auka stuðning og handleiðslu Barna- og fjölskyldustofu við starfsmenn barnaverndarþjónustu varðandi könnun mála, gerð meðferðaráætlana og mat á meðferðar- og stuðningsþörfum barna og foreldra þeirra. Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði heildræn innleiðing á verklagi og hugmyndafræði öryggismerkis í vinnulagi félagsráðgjafa og annarra fagstétta í barnavernd og félagsþjónustu.
     Markmið: Að verklag og áhættumat um viðbrögð á sviði barnaverndar verði innleitt og samræmt. Að stuðningur og ráðgjöf verði efld við starfsmenn barnaverndarþjónustu svo að mál barna verði unnin með kerfisbundnari og markvissari hætti.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Mennta- og barnamálaráðuneytið og barnaverndarþjónustur sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Að innleitt verði öryggismerki í barnaverndarþjónustu sveitarfélaga. Námskeið verði haldin fyrir starfsfólk barnaverndarþjónustu og handleiðsla við innleiðingu kerfis öryggismerkis í barnaverndarþjónustu.

2. Að auka fræðslu fyrir börn um hlutverk barnaverndarþjónustu.
    Traust milli barna og barnaverndar verði aukið og tryggt að börn séu upplýst um hlutverk barnaverndar og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu. Börn verði frædd um réttindi sín með barnvænum hætti með tilliti til þarfa þeirra hverju sinni. Tryggt verði að umfjöllun um barnavernd og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu verði hluti af fræðsluáætlun um barnvænt Ísland. Með aðgerð þessari verði leitast við að auka þekkingu barna á barnaverndarþjónustu til að auka aðgengi barna að þjónustunni.
     Markmið: Að tryggt verði að börn séu upplýst um hlutverk barnaverndar og réttindi þeirra til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna, Samband íslenskra sveitarfélaga, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og embætti umboðsmanns barna.
     Mælikvarði: Að hlutverk barnaverndar og réttindi barna til verndar gegn ofbeldi og vanrækslu verði hluti af fræðsluáætlun um barnvænt Ísland.

E. Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.
1. Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði unnið að gerð og útgáfu gæðaviðmiða í barnaverndarþjónustu í víðtæku samráði við hlutaðeigandi hagsmunaaðila í málaflokknum.
     Markmið: Að aukin verði gæði og öryggi í þjónustu barnaverndar og hún verði samræmd um allt land.
     Ábyrgð: Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
     Samstarfsaðilar: Mennta- og barnamálaráðuneytið, Barna- og fjölskyldustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félagsráðgjafafélag Íslands og eftir atvikum fleiri stofnanir og aðilar.
     Mælikvarði: Að gefin verði út gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu á tímabili framkvæmdaáætlunar.

2. Málavogin innleidd til þess að meta álag á barnaverndarstarfsmenn.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði Málavogin innleidd til að stuðla að gæðum í starfi barnaverndarstarfsmanna með því að fylgjast með álagi og veita starfsmönnum nauðsynlegt svigrúm til að sinna verkefnum sínum.
     Markmið: Að Málavogin verði innleidd til þess að meta álag í barnavernd á landsvísu í samráði við barnaverndarþjónustu sveitarfélaga og aðra hlutaðeigandi aðila.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Mælikvarði: Að Málavogin verði notuð til að mæla álag í barnaverndarþjónustu á landsvísu. Að árlegar kannanir verði gerðar á því hvernig brugðist hafi verið við niðurstöðum Málavogarinnar.

F. Endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði verklag vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn endurskoðað. Auk þess veiti Barna- og fjölskyldustofa barnaverndarþjónustu sveitarfélaga áfram stuðning og ráðgjöf. Lagt er til að Barna- og fjölskyldustofu verði tryggt stöðugildi á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar.
     Markmið: Að barnaverndarþjónusta víðs vegar um landið komi til móts við fylgdarlaus börn svo að tryggja megi öryggi þeirra og velferð.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Mennta- og barnamálaráðuneytið, Útlendingastofnun, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Rauði krossinn á Íslandi og önnur félagasamtök.
     Mælikvarði: Að endurskoðað verklag verði gefið út og ráðgjöf og fræðsla veitt starfsmönnum barnaverndarþjónustu vegna móttöku fylgdarlausra barna.

G. Könnun alvarlegra atvika sem tengjast börnum.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar skipi ráðherra þverfaglegan starfshóp sem skoði með hvaða hætti best væri að koma á sjálfstætt starfandi viðbragðshópi sem hefði það hlutverk að kanna alvarleg atvik tengd börnum þvert á aðila sem koma að þjónustu barna.
     Markmið: Að ráðherra skipi starfshóp þvert á ráðuneyti til þess að kanna betur með hvaða hætti væri best að koma á sjálfstætt starfandi viðbragðshópi sem hefði það hlutverk að kanna alvarleg atvik tengd börnum og miðla lærdómi vegna þeirra.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barna- og fjölskyldustofa, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, ríkislögreglustjóri, heilbrigðisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Að starfshópur skili tillögum að sjálfstætt starfandi viðbragðshópi sem hafi það hlutverk að gera athugun á alvarlegum málum tengdum börnum.

H. Rannsóknir á sviði barnaverndar.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar verði bætt við stöðugildi hjá Barna- og fjölskyldustofu fyrir verkefnastjóra rannsókna sem hafi það hlutverk að leiða rannsóknir á sviði barnaverndar á vegum stofnunarinnar og sé tengiliður við íslenskt háskólasamfélag og aðrar rannsóknastofnanir. Auk þess komi verkefnastjórinn að þróun og innleiðingu gagnreyndra úrræða í samvinnu við önnur svið Barna- og fjölskyldustofu og miðli upplýsingum, svo sem með því að halda málstofur, greina fyrirliggjandi gögn, skrifa greinar og kynna niðurstöður á ráðstefnum.
     Markmið: Að aukin verði þekking á sviði barnaverndar og þekkingin nýtt til þess að þróa barnaverndarstarf á landinu og móta stefnu í málaflokknum.
     Ábyrgð: Barna- og fjölskyldustofa.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Mælikvarði: Að árlegar rannsóknir og kannanir verði gerðar á sviði barnaverndar. Árlegar kynningar og útgáfa verði á niðurstöðum rannsókna og kannana á sviði barnaverndar.

I. Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.
1. Miðstöð fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.
    Á tímabili þessarar áætlunar verði unnið að því að finna húsnæði fyrir starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu þar sem stofnanirnar samnýti nútímalega aðstöðu með hagræði og samlegð að leiðarljósi í svokallaðri deiglu, sbr. stefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um áherslur og viðmið í húsnæðismálum stofnana.
     Markmið: Að starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu verði í sama húsnæði auk þess sem úrræðum Barna- og fjölskyldustofu samkvæmt framkvæmdaáætlun þessari verði fundið viðeigandi húsnæði.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barna- og fjölskyldustofa, Ráðgjafar- og greiningarstöð og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
     Mælikvarði: Að fundið verði húsnæði sem er vel til þess fallið að hýsa starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.

2. Meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma.
    Á tímabilinu verði áfram unnið að stofnun meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma, sbr. lið E.4 í þingsályktun um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022, nr. 39/149.
     Markmið: Að börnum verði tryggð nauðsynleg meðferðarúrræði og að aukið verði vægi gagnreyndra aðferða í meðferð barna í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Barna- og fjölskyldustofa.
     Mælikvarði: Að byggingu meðferðarheimilisins verði lokið á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar.

J. Eftirfylgni og innleiðing verkefna.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunar þessarar verði skipaður hópur með fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu sem fylgi eftir verkefnum áætlunarinnar. Hópurinn taki saman stöðu verkefnanna og upplýsi stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd um málefni barna um stöðuna.
     Markmið: Að tryggt verði að áætlun þessari verði fylgt eftir og að verkefnin komist til framkvæmda.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Barna- og fjölskyldustofa.
     Mælikvarði: Að hópurinn hittist tvisvar á ári og fari yfir stöðu verkefna. Í það minnsta skal árlega kynna stöðu aðgerða fyrir stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd um málefni barna.

Samþykkt á Alþingi 11. desember 2023.