Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 726  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, matvælaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Félagi atvinnurekenda, Samtökum ferðaþjónustunnar, Vantrú, Samtökum verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandinu, þjóðkirkjunni, Alþýðusambandi Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landvernd og ÖBÍ réttindasamtökum.
    Nefndinni bárust 23 erindi um málið, þar á meðal sextán umsagnir og fimm minnisblöð, sem eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.

Umfjöllun.
Framlenging á bráðabirgðaákvæði um víxlverkun á greiðslum almannatrygginga og lífeyrissjóða (18. gr.).
    Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, verði framlengt um eitt ár. Bráðabirgðaákvæðið hefur þau áhrif að óheimilt verður á árinu 2024 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði. Í umsögn sem nefndinni barst kom fram að stuðningur væri við þessa framlengingu en þó var ítrekað að mikilvægt væri að fundin yrði framtíðarlausn á víxlverkun á greiðslum almannatrygginga og lífeyrissjóða.
    Meiri hlutinn tekur undir þetta og áréttar að mikilvægt er að fundin verði varanleg lausn á samspili milli greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða í samráði við hagaðila.

Starfsendurhæfing (19. og 23. gr.).
    Í 19. gr. er kveðið á um framlengingu á ákvæði til bráðabirgða XV í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en í ákvæðinu kemur fram að framlag lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóða skuli ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhæð sjóðanna. Í 23. gr. er lagt til að framlengt verði ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, þess efnis að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki hlutdeild í almennu tryggingagjaldi. Í umsögn sem nefndinni barst var þessum framlengingum fagnað en jafnframt bent á að hafin væri vinna við endurskoðun á örorku- og endurhæfingarmálum og að vonir væru bundnar við að sú vinna leiddi til endurskoðunar á örorku- og endurhæfingarmálum.
    Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og hvetur stjórnvöld til áframhaldandi vinnu að varanlegri lausn.

Breytingartillögur.
Sóknargjöld (20. gr.).
    Í 20. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að föst krónutala sóknargjalda verði 1.107 kr. á mánuði fyrir 2024 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna um að fjárhæð sóknargjalda breytist í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Undanfarin ár hafa sóknargjöld verið ákvörðuð með þessum hætti, þ.e. með bráðabirgðaákvæði sem kveður á um fasta krónutölu sóknargjalda. Á síðasta löggjafarþingi ákvað meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar að leggja til hækkun á sóknargjaldi og var gjaldið 1.192 kr. Bráðabirgðaákvæði samkvæmt frumvarpi þessu hljóðar því upp á lækkun gjaldsins um 7,1%.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að sóknargjaldið haldist óbreytt milli ára og verði því 1.192 kr. á árinu 2024. Í því sambandi ítrekar meiri hlutinn að ekki hafi verið ætlun meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að þær hækkanir sem lagðar voru til á sóknargjöldum síðustu ár yrðu tímabundnar. Þótt fastsetning krónutölu sóknargjalda með ákvæði til bráðabirgða sé í eðli sínu ekki varanleg ráðstöfun yrði t.d. miðað við sóknargjöld ársins 2023 við ákvörðun gjaldanna fyrir árið 2024 ef meginreglu 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. um fjárhæð sóknargjalda yrði beitt. Meiri hlutinn beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra að huga nú þegar að varanlegri útfærslu á tilhögun sóknargjalda í stað ákvarðana í formi bráðabirgðaákvæða ár hvert.

Fiskeldisgjald (30. gr.).
    Í 2. mgr. 2. gr. laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019, er kveðið á um fjárhæð fiskeldisgjalds. Miðast fjárhæð gjalds við nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á atlantshafslaxi næst fyrir ákvörðunardag og skal nema 3,5% þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra. Í b- og c-lið 2. mgr. 2. gr. er svo kveðið á um hlutfall gjaldsins af stofninum þegar verðið er lægra. Í 30. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að efsta þrep gjaldsins, þ.e. þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra, hækki úr 3,5% í 5%.
    Meiri hlutinn telur að fara þurfi hægar í sakirnar en lagt er til í frumvarpinu og bendir í því sambandi á að í fyrirliggjandi drögum laga um lagareldi sem birt voru í samráðsgátt er gert ráð fyrir meiri þrepaskiptingu í gjaldtöku en hér er lögð til. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að talsverður munur er á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Miðað við þær tekjuáætlanir sem birtast í fjármálaáætlun sé rétt að hækka gjaldið um 0,8 prósentustig en ekki 1,5 prósentustig eins og lagt er til í frumvarpinu. Leggur meiri hlutinn til breytingu til samræmis við framangreint.

Breyting á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk (viðbót).
    Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 (þskj. 659) er gert ráð fyrir 6 ma.kr. lækkun tekjuskatts einstaklinga vegna tilfærslu tekna til sveitarfélaga vegna reksturs málefna fatlaðs fólks. Útsvar hækki því um 6 ma.kr. á móti tekjuskattslækkuninni. Í kjölfarið barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem fjallað er um þróun á útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Segir þar að útgjaldavöxtur málaflokksins fyrir sveitarstjórnarstigið sé af þeirri stærðargráðu að það kunni að raska þeim meginmarkmiðum um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar fyrir árin 2023–2027. Jafnframt segir að stjórnvöld hafa fallist á það með sveitarfélögum að gera breytingu á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk og flytja 6 ma.kr. frá ríki til sveitarfélaga í því skyni að bæta rekstrarafkomu sveitarfélaga og gera þeim betur kleift að standa við markmið sín um afkomu, skuldaþróun og rekstur málaflokksins. Lagt er til að hámarksútsvar sveitarfélaga, sem nú er 14,74%, verði hækkað um 0,23% samhliða lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutfall í öllum skattþrepum einstaklinga. Gert er ráð fyrir því að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvari aukist til jafns við hækkun hámarksútsvars.
    Með vísan til framangreinds og nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Reglugerðarheimild (nýir kaflar).
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 (1. mál) er gert ráð fyrir aukningu upp á 198 millj. kr. til stuðnings innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og manneldis. Þar er áætlað að verja um 2 milljörðum kr. til verkefnisins á næstu fimm árum. Hér er um að ræða umfangsmikil fjárútlát sem gera ráð fyrir mati stjórnvalda. Því þykir æskilegt að nánari útfærsla, með þeim áherslum sem fjárveitingarvaldið hefur mælt fyrir, komi fram í reglugerð. Í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti og matvælaráðuneyti leggur meiri hlutinn því til breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998. Hún felur í sér nýja almenna reglugerðarheimild fyrir matvælaráðherra svo unnt sé að útfæra hvernig framkvæmdin skuli vera þegar tilfallandi styrkir og framlög eru veitt til einstakra verkefna, í samræmi við markmið laganna.

Aðrar tæknilegar breytingar.
    Í 25. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XLI í lögum um tekjuskatt verði framlengdur um eitt ár. Í ákvæðinu er kveðið á um tímabundna hækkun á vaxtabótum. Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins er vísað til fjárhæða í 11. og 13. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna. Með lögum nr. 28/2021 var einum málslið bætt við ákvæðið, á eftir 10. málsl. þess. Þær fjárhæðir sem vísað er til eru nú tilgreindar í 12. og 14. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. Leggur meiri hlutinn til að vísunin í ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum verði uppfærð til samræmis.
    Í 26. gr. er kveðið á um tímabundna hækkun á tekjuskatti lögaðila til eins árs rekstrarárið 2024 og við álagningu á árinu 2025. Í 11. gr. frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.) (468. mál) er lagt til að tveir nýir töluliðir, sem kveða á um tekjuskatt aðila með takmarkaða skattskyldu, bætist við 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti leggur meiri hlutinn til, í ljósi framangreinds, að tveimur töluliðum verði bætt við 26. gr. frumvarpsins enda er gert ráð fyrir afgreiðslu þessara tveggja frumvarpa samhliða.
    Í 27. gr. er lögð til hækkun á úrvinnslugjaldi hjólbarða úr 40 kr./kg í 65 kr./kg, og hækkun annarra fjárhæða í viðauka XVI við lög um úrvinnslugjald til samræmis. Við yfirlestur frumvarpsins kom í ljós að láðst hafði að leggja til hækkun úrvinnslugjalds á hjólbörðum í tilteknum vöruflokkum. Nánar tiltekið er um að ræða þá flokka sem samkvæmt gildandi lögum eru lagðar á 2.400 kr./tæki og 8.000 kr./tæki. Að auki væri misritun í v-lið þar sem lögð er til lækkun. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu til leiðréttingar á framangreindu þannig að fjárhæðirnar taki hækkun til samræmis við aðrar fjárhæðir viðaukans.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. desember 2023.

Teitur Björn Einarsson,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Jóhann Friðrik Friðriksson.
Vilhjálmur Árnason. Steinunn Þóra Árnadóttir.