Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 729  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Verðbólga hér á landi hefur minnkað minna eftir heimsfaraldur og vegna áhrifa stríðs í Úkraínu en í flestum öðrum löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þráláta verðbólgu hér á landi þarf að skoða í ljósi breytinga á verðbólgu í öðrum ríkjum. Greina þarf hvað það er hér á landi sem veldur þessari þróun og kortleggja hvar við greinum okkur frá öðrum í þessum efnum. Staðan hér á landi bitnar mest á tekjulágu fólki sem ver stærstum hluta launa sinna í húsnæðiskostnað og nauðsynjavörur.
    Þó að íslenska krónan sé augljóslega hluti vandans, þar sem tengsl eru milli gjaldmiðils og vaxta, verðlags og verðbólgu, skýrir krónan ekki allan þennan mun. Ísland sker sig einnig úr vegna mikilla umsvifa ferðaþjónustu í hagkerfinu.
    Samfylkingin hefur gagnrýnt að í frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 og tekjubandorma sem því fylgja vanti markvissar aðgerðir til að draga úr verðbólgu og bregðast við afkomu- og húsnæðisvanda heimila. Fleiri hafa gagnrýnt frumvörpin á sömu nótum, t.d. Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalagið.
    Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta í senn mildað og magnað ójöfnuð við skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Spurningin er aðeins hvort eða hvernig þau beita þeim stýritækjum. Ljóst er að stefna ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er að ekki eigi að beita stýritækjunum til að auka jöfnuð.
    Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur vitnað til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Þær rannsóknir, og fleiri virtar rannsóknir, sýna að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnara samfélags og styrkir hagkerfi og hagsæld.
    Ef stjórnvöld vilja jafna leikinn til að auka samfélagslegt traust þarf að beita bæði skatta- og bótakerfinu.
    Skattstefna stjórnvalda á hverjum tíma segir til um hvernig þau vilja búa að almenningi og hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið þróast. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins og áhrif þess á eignamyndun og tekjudreifingu eru ekki síður mikilvæg en tekjuöflunarhlutverk þess.
Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna sem sýna neikvæð áhrif ójafnaðar á samfélög, ásamt íslenskri og erlendri greiningu sem sýnir skýr áhrif tekjujöfnunaraðgerða, ættu að vera stjórnarmeirihlutanum næg rök fyrir því að hverfa frá stefnu ójafnaðar og forðast að róa enn og aftur á mið vaxandi misskiptingar.
    Ef greiðslur almannatrygginga eða atvinnuleysistrygginga, vaxtabætur, húsnæðisbætur, barnabætur og fæðingarorlofsgreiðslur hækka ekki til samræmis við laun og verðlag er ríkisstjórnin að taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu.

Vaxtabætur.
    Vaxtabætur eru tekju- og eignatengdar bætur til þeirra sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna eigin húsnæðis. Viðmiðunarfjárhæðir stóðu í stað í mörg ár eftir breytingar sem tóku gildi árið 2009. Það ár stóð vaxtabótakerfið undir um 20% vaxta og verðbóta heimila. Í ár er það hlutfall nær 3%. Í umsögn ASÍ kemur fram að árið 2020 hefðu vaxtabætur þurft að vera 14,6 milljarðar kr. til að standa undir 20% af vaxtagjöldum. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er hins vegar aðeins gert ráð fyrir um 2 milljörðum kr. í vaxtabætur.
    Vegna stýrivaxtahækkana, sem hafa leitt til þess að stýrivextir eru nú 9,25%, hefur kostnaður vegna húsnæðislána vaxið umtalsvert og mörg heimili eru í miklum fjárhagsvanda fyrir vikið. Tillaga í kjarapakka Samfylkingarinnar um að styðja tíu þúsund heimili til viðbótar í gegnum vaxtabótakerfið var felld við 2. umræðu fjárlaga.
    Stjórnarmeirihlutinn vill að viðmið fyrir vaxtabætur verði óbreytt milli ára jafnvel þó að fasteignamat hafi hækkað mikið á flestum stöðum á landinu. Áhrifin eru þau að fimm þúsund færri heimili munu njóta vaxtabóta árið 2024 en í ár. Ríkisstjórnin er því í raun að leggja auknar álögur á skuldsett heimili þegar þörf fyrir aukinn stuðning er mikil. Því leggur 1. minni hluti til að ráðstafanir verði gerðar til að heimilum sem njóta vaxtabóta fækki ekki milli ára. Það er það allra minnsta sem stjórnvöld geta gert. Því er gerð tillaga um að viðmið fyrir vaxtabætur hækki um 12% líkt og fasteignamat og að launaviðmið fylgi launavísitölu.

Barnabætur.
    Ef Ísland á að vera barnvænt samfélag, líkt og við jafnaðarmenn ætlum okkur að koma í kring eftir næstu kosningar ef við fáum til þess stuðning, verður að styðja við fleiri barnafjölskyldur. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru barnabætur ekki tekjutengdar líkt og hér á landi en í Danmörku hefjast skerðingar við háar tekjur. Tekjutenging er í hinum norrænu ríkjunum gegnum tekjuskattskerfið. Hugsunin er sú að með barnabótum séu kjör þeirra sem hafa börn á framfæri jöfnuð við kjör þeirra sem hafa ekki börn á framfæri. Barnafjölskyldur fá þannig skattalækkun. En tekjuhæstu einstaklingarnir greiða hins vegar hærri tekjuskatt en hinir hvort sem þau hafa börn á framfæri eða ekki.
    Við í Samfylkingunni – jafnaðarflokki Íslands viljum stíga örugg skref í átt að barnvænu samfélagi. Til þess þarf skilvirkara barnabótakerfi.
    Það allra minnsta sem stjórnvöld geta gert nú er að sjá til þess að óskertar barnabætur skerðist ekki að raunvirði. Því leggur 1. minni hluti til breytingartillögu þar um.

Almennar íbúðir.
    Lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Íbúðakerfið er tilraun til að endurreisa vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
    Markmið laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25% af tekjum þeirra.
    Styrkja þarf almenna íbúðakerfið verulega og halda áfram að byggja óhagnaðardrifnar leiguíbúðir um allt land. Meginmarkmið almenna íbúðakerfisins er aukið framboð leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður fólks verði í samræmi við greiðslugetu.
    Brynja – leigufélag segir í umsögn sinni að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað við nýbyggingar, endurbætur og viðhald íbúða hafi mikil áhrif á rekstur félagsins og getu þess til að viðhalda hóflegu leiguverði. Breytingar sem tóku gildi 1. júlí 2023 og lækkað endurgreiðsluhlutfall úr 60% í 35% hafi haft neikvæð áhrif. Í umsögnum Búseta og Félagsíbúða var uppi sama ákall um að þessi lækkun yrði afturkölluð. Undir það tekur 1. minni hluti og leggur fram breytingartillögu um að falli íbúðarhúsnæði undir lög um almennar íbúðir skuli endurgreiða byggjendum 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.
    Einnig leggur 1. minni hluti til að húsnæðisbætur haldi verðgildi sínu milli ára því að að öðrum kosti væru lagðar auknar byrðar á leigjendur sem eru í mjög erfiðri stöðu fyrir.

Samkomulag við sveitarfélög um málefni fatlaðs fólks.
    Fyrsti minni hluti fagnar því að samkomulag hafi tekist milli ríkis og sveitarfélaga um skref í þá átt að málaflokknum fylgi aukið fjármagn til sveitarfélaga. Það var árið 2011 sem þjónusta við fatlað fólk fluttist til sveitarfélaga. Nær allar götur síðan hafa ríki og sveitarfélög deilt um fjárframlög. Sú deila hefur í einhverjum tilfellum komið niður á þjónustu við fatlað fólk. Það skref sem stigið er með breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er til bóta þó að mikilvægt sé að unnið verði áfram að varanlegri lausn.

Fiskeldisgjald.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir tillögu um að lækka fiskeldisgjald frá því sem ráð er fyrir gert í 30. gr. frumvarpsins. 1. minni hluti telur þá breytingartillögu meiri hlutans vanhugsaða. Atburðir sem tengjast fiskeldi sýna skýrt að ekki er vanþörf á auknu fjármagni til eftirlits með fiskeldi og til rannsókna á því.
    Fyrsti minni hluti mótmælir því að bíða þurfi eftir breytingum á lögum um lagareldi áður en gjaldið tekur meiri breytingum. Bæta þarf stjórnsýslu fiskeldis strax, m.a. til að koma til móts við athugasemdir sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Á þessu ári hafa komið í ljós alvarlegir brestir á eftirliti og starfsemi fyrirtækja í fiskeldi og fjármagn þarf til að bæta þar úr. 1. minni hluti er mótfallinn því að fiskeldisgjald það sem lagt er til í 30. gr. frumvarpsins verði lækkað.

Alþingi, 12. desember 2023.

Oddný G. Harðardóttir.