Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 731  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpi þessu, hinum árlega bandormi, eru lagðar til breytingar á ýmsum lagaákvæðum til samræmis við stefnumótun í ríkisfjármálum og með tilliti til verðlagsþróunar. Að meginstefnu er um að ræða breytingar á sköttum og gjöldum, en einnig er fjallað um hvaða tímabundnu úrræði og tímabundnu bráðabirgðaheimildir í lögum verða framlengdar um ár.
    Þegar við ræðum ríkisfjármál er nauðsynlegt að hafa í huga efnahagsástand í þjóðfélaginu. Regluleg útgjöld heimilanna hafa aukist verulega undanfarin misseri. Verð á nauðsynjavörum hefur hækkað statt og stöðugt og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa stóraukið mánaðarlega greiðslubyrði hjá þeim sem tóku óverðtryggð húsnæðislán. Þá er útlit fyrir að á næstu misserum muni vextir losna á óverðtryggðum lánum hjá þeim sem enn eru í skjóli, með tilheyrandi afleiðingum fyrir heimilisbókhald þeirra. Fram undan eru kjarasamningsviðræður og það er afar mikilvægt að forsendur þeirra samninga haldi. Því hefur t.d. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kallað eftir því að ríki, sveitarfélög, verslun og þjónusta skuldbindi sig til að hækka ekki gjaldskrár umfram 2,5% á næsta ári. Í þessu samhengi þurfum við að ræða áform ríkisstjórnarinnar um að hækka skatta og gjöld.
    Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka krónutöluskatta um 3,5% milli ára. Hækkunin er rökstudd með vísan til samræmis við almennar verðlagsbreytingar í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024. Þessar skattahækkanir leggjast á alla, óháð efnahag, og bitna því hlutfallslega meira á þeim efnaminni. Tekjulægsta fólkið greiðir hærra hlutfall af sínum ráðstöfunartekjum í slíka skatta og ver hæstu hlutfalli tekna sinna til nauðsynja. Auk þess má leiða að því líkur að krónutöluhækkanir geti haft ólík áhrif á karla og konur, og komið að meðaltali hlutfallslega verr niður á konum en körlum, enda eru þær að meðaltali með lægri tekjur en karlar. Vert er að hafa í huga að krónutöluskattar hafa alls ekki alltaf fylgt verðlagi. Flestir hagsmunaaðilar, svo sem heildarsamtök launþega og vinnuveitenda og ÖBÍ réttindasamtök, eru sammála um að hækkun krónutöluskatta um 7,7% um síðustu áramót hafi aðeins aukið verðbólguþrýsting. Í aðdraganda komandi kjarasamningsviðræðna, þegar mikilvægt er að ríkið sýni gott fordæmi, leggur 2. minni hluti til að krónutöluskattar taki ekki breytingum næstu áramót.
    Ekki stendur til að gera breytingar á fjárhæðum eða viðmiðum vaxtabóta milli ára, þrátt fyrir að vaxtakostnaður heimilanna sé í hæstu hæðum. Ekki er ósennilegt að fjöldi fólks muni fá lægri vaxtabætur á næsta ári eða jafnvel detta út úr vaxtabótakerfinu. Ein algengasta skýring þess að fólk fær greiddar lægri vaxtabætur á milli ára er hækkun fasteignamats. Það eitt og sér getur þýtt að fólk fái lægri vaxtabætur, jafnvel þótt tekjur og afborganir haldist óbreyttar. Árið 2023 hækkaði heildarmat fasteigna á Íslandi um 19,9% frá árinu áður og fasteignamat fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir 11,7% hækkun. Þessi hækkun samsvarar 31,6% hækkun á tveimur árum. Hærra fasteignamat felur hvorki í sér lægri afborganir af húsnæðislánum né auknar mánaðarlegar tekjur. Tekið er undir sjónarmið ÖBÍ um að mikilvægt sé að eignamörk séu í takti við breyttar forsendur svo að einstaklingar sem búa í eigin fasteign en standa höllum fæti fjárhagslega fái ekki skertar vaxtabætur sökum þenslu á húsnæðismarkaði. 2. minni hluti tekur undir ábendingu ÖBÍ og leggur til að eignarskerðingarmörk vaxtabóta verði hækkuð um 12% milli ára.
    Þó má segja að fjármagnseigendur og fyrirtæki hafi hagnast mikið á árinu, enda kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti verði 18 milljarðar króna vegna hærra vaxtastigs og meiri söluhagnaðar en gert hafði verið ráð fyrir. Einnig er gert ráð fyrir því að tekjuskattur lögaðila verði hækkaður um 1% og mun sú hækkun falla jafnt á öll hlutafélög og einkahlutafélög. Þessar breytingar eru sagðar hluti af aðgerðum stjórnvalda sem hafa það markmið að draga úr þenslu í hagkerfinu, en væri ekki betra að tengja þær við fyrirtæki sem skila meiri hagnaði? 2. minni hluti leggur ekki til breytingu þess efnis en telur að stjórnvöld ættu að skoða þrepaskiptingu tekjuskatts lögaðila og greina nánar mögulegar útfærslur og áhrif hennar.
    Árið 2019 var smánarlega lágur bankaskattur upp á 0,376% lækkaður í 0,145%, en ástæða lækkunar var sögð vera að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra. Auk þess var talið að þessi lækkun á bankaskatti ætti að leiða til ódýrari lána til heimila og fyrirtækja, sem er þó ljóst að hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun og er hann svipaður nú og hann var árið 2018. Bankarnir hafa undanfarin misseri skilað miklum hagnaði í skjóli fákeppni og hárra stýrivaxta. Kominn er tími til að þeir skili samfélaginu til baka þó ekki nema hluta af þeim ágóða. Því er lagt til að bankaskatturinn verði hækkaður í 0,838% sem myndi auka tekjur ríkissjóðs um rúma 30 milljarða króna á næsta ári. Þann tekjuauka yrði hægt að nýta til að draga úr hörðustu áhrifum verðbólgunnar á fátækt fólk og jafnframt draga úr skuldasöfnun ríkissjóðs.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að fé verði tekið úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstri hjúkrunarrýma. Í frumvarpinu sem hér um ræðir er það útfært með því að leggja til framlengingu á ákvæði til bráðabirgða sem hefur áður verið framlengt tíu sinnum. Það fer þvert gegn upphaflegum tilgangi sjóðsins að nýta fjármuni hans í rekstur hjúkrunarheimila en ekki raunverulegar framkvæmdir, uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem sannarlega er skortur á. Vegna þess leggur 2. minni hluti til að umrædd heimild verði felld brott.
    Sjaldan hefur verið erfiðara en nú að komast inn á húsnæðismarkað. Meðal þess sem stendur í vegi fyrir því eru stimpilgjöld. Þetta er ekkert annað en skattur á þá lífsnauðsyn sem íbúðarhúsnæði er. 2. minni hluti leggur því til að stimpilgjöld af íbúðarhúsnæði sem aflað er til eigin nota verði afnumin. Er það til þess fallið að auka hreyfanleika á húsnæðismarkaði. Jafnframt myndi það lækka þröskuldinn fyrir ungt fólk sem er að reyna að komast inn á húsnæðismarkað og bæta samkeppnisstöðu þeirra sem eru að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið gagnvart fjárfestum sem stunda fasteignakaup í öðrum tilgangi en til eigin nota.
    Það er eins og enginn skilningur sé á því hjá ríkisstjórninni hversu erfið staðan er á heimilum sem eru undir meðaltekjum. Það má ekki gleymast að á þeim enda tekjustigans er fólk sem nú berst fyrir heimilum sínum. Undirrituð þekkir af eigin reynslu örvæntinguna sem fylgir yfirvofandi heimilismissi og finnur virkilega til með foreldrum í fjárhagserfiðleikum sem nú reyna að setja upp gleðigrímu fyrir börnin sín um jólin. Það er því miður ekkert fyrir þetta fólk í þessu frumvarpi. Þvert á móti munu þessar hækkanir gera því erfiðara fyrir. Þær fara auk þess beint í vísitöluna. Á sama tíma segist ríkisstjórnin vera að berjast gegn verðbólgunni. Veruleikafirringin er algjör.
    Annar minni hluti leggur til breytingar á frumvarpinu sem lagðar eru fram í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. desember 2023.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.