Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 735  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Íslenskt efnahagsumhverfi hefur einkennst af öfgum. Kaupmáttur, byggingamarkaður, gengi krónunnar, verðbólga og vextir; allt er þetta undirorpið tíðari og meiri sveiflum á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Þessum óstöðugleika fylgir aukinn kostnaður fyrir almenning. Í því ljósi er hlutverk opinberra fjármála í sveiflujöfnun mikilvægara hér en í öðrum löndum. Ábyrg fjármálastjórn og gott samspil fjármálastefnu og peningastefnu er til þess fallið að draga úr þessum sveiflum á meðan rangar ákvarðanir í því þensluástandi sem nú ríkir munu ýta undir frekari verðbólgu. 3. minni hluti harmar að í frumvarpi þessu séu ekki skýr merki um að unnið sé að auknum stöðugleika í íslensku efnahagsumhverfi.

Hallarekstur ríkissjóðs.
    Þriðji minni hluti lýsir áhyggjum af veikleikum í undirliggjandi afkomu ríkissjóðs sem hafa verið ljósir frá árinu 2019. Í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024–2028 er athygli vakin á því að fyrri fjármálaáætlanir hafi ekki gengið eftir. Þar segir að ástæðurnar séu af tvennum toga. Annars vegar hafi efnahagsframvindan ekki verið í samræmi við hagspár sem lagðar voru til grundvallar. Hins vegar sé um að kenna lausung í fjármálastjórninni sjálfri, þar sem ófyrirséður tekjuauki hafi verið nýttur til aukinna útgjalda í stað þess að fylgja boðaðri stefnu um ráðstöfun slíkra tekna. Þetta telur 3. minni hluti vera til marks um alvarlega bresti í efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar.
    Þegar þensla er í efnahagsmálum er erfitt að rökstyðja hallarekstur ríkissjóðs, enda ýtir hann undir frekari þenslu, hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og dregur úr svigrúmi til að mæta áföllum í framtíðinni. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs muni halda áfram að aukast að nafnvirði út allt tímabil þessarar ríkisstjórnar. Í því ljósi er áhyggjuefni að ríkisstjórnin nýti ekki frumvarp þetta til þess að styrkja tekjustofna hins opinbera með ábyrgum og varanlegum hætti, t.d. með því að fylgja tillögum Viðreisnar um að leggja kolefnisgjald á stóriðju til samræmis við annan atvinnurekstur og með breytingum á veiðigjaldi til að það endurspegli betur markaðsvirði aflaheimilda. Eins er áhyggjuefni að ríkisstjórnin hafi ekki með fjárlagafrumvarpi því sem er til umræðu um þessar mundir framkvæmt ítarlegt mat á útgjöldum ríkisins og forgangsraðað verkefnum til að mæta ábendingum fjármálaráðs um að draga úr hallarekstri. Gott fyrsta skref í því hefði verið að minnka yfirbyggingu hins opinbera og fækka ráðuneytum.

Skattar og gjöld.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til verulegar hækkanir á ýmsum sköttum og gjöldum. Í stað þess að breytingar á gjaldtöku hins opinbera miði að því að styrkja tekjustofna ríkisins með ábyrgum og varanlegum hætti, líkt og Viðreisn hefur talað fyrir, er sú leið farin í frumvarpinu að hækka fyrst og fremst gjöld sem almenningur greiðir. Almenningur á Íslandi greiðir þegar eina hæstu skatta í heimi án þess að njóta þjónustu í samræmi við það. Viðreisn leggur áherslu á það að staðinn sé vörður um heimilin í landinu og ekki síst millistéttina sem hefur borið mestan þunga í yfirstandandi verðbólguástandi.

Tekjuskattur lögaðila.
    Undantekning frá þessu er að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er lagt til að tekjuskattur lögaðila verði hækkaður tímabundið til eins árs um 1 prósentustig. Er áætlað að sú hækkun muni skila ríkissjóði tæplega 6,4 milljörðum kr. Við þessa ákvörðun gerir 3. minni hluti tvær athugasemdir. Annars vegar er athyglisvert hvað ríkisstjórn með ráðherra Sjálfstæðisflokksins í fjármála- og efnahagsráðuneyti er skattaglöð. Skattar skulu hækkaðir af þessari ríkisstjórn en þeir mega að hennar mati ekki bitna sérstaklega á hinum breiðu bökum, t.d. með kolefnisgjaldi á stóriðju eða markaðsgjaldi í sjávarútvegi. Hins vegar er skattahækkunin að sögn meiri hlutans hluti af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Álagningin fer þó fram með árstöf og kemur því ekki fram fyrr en á árinu 2025 þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að draga úr þenslu eins fljótt og unnt er. Þessi aðgerð er því hvorki til þess fallin að styrkja tekjustofna hins opinbera varanlega né að ná tökum á verðbólgu hratt og vel.

Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda verði lækkuð úr 1.192 kr. á mánuði í 1.107 kr. fyrir árið 2024. Kemur sú lækkun til vegna þess að í meðferð Alþingis á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 voru sóknargjöld hækkuð tímabundið en í frumvarpinu er lagt til að sú hækkun verði nú felld niður. Í umsögnum Þjóðkirkjunnar og Víðistaðakirkju er þessu mótmælt og lagt til að sóknargjöld verði þess í stað hækkuð „að lágmarki samkvæmt vísitölu“. Meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram breytingartillögu við ákvæði frumvarpsins um sóknargjöld þess efnis að gjöldin haldist óbreytt árið 2024. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra í nefndaráliti sínu að þeir hugi að varanlegri útfærslu á tilhögun sóknargjalda í stað ákvarðana í formi bráðabirgðaákvæða hvert ár.
    Þriðji minni hluti tekur undir það að best væri að koma á varanlegu fyrirkomulagi varðandi sóknargjöld. Hann telur þó rétt að í stað þess að kveðið sé á um tiltekna fjárhæð gjaldanna í lögum færi betur á því að ríkið hætti innheimtu sóknargjalda fyrir trú- og lífsskoðunarfélög og viðkomandi félög ákveði þess í stað fjárhæð félagsgjalda sinna og annist sjálf innheimtu þeirra, líkt og önnur félagasamtök gera. Það væri mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði Þjóðkirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu.

Krónutöluskattar.
    Hinir svonefndu krónutöluskattar, þ.e. kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald, áfengisgjald og tóbaksgjald, sem kveðið er á um í lögum að nemi hvert fyrir sig tiltekinni fjárhæð, eru hækkaðir í frumvarpinu um 3,5% með flatri aðferðafræði. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald. 3. minni hluti gerir athugasemd við það að pólitísk ákvörðun liggi ekki að baki breytingum á hverjum lið fyrir sig. Til dæmis er hækkun á bensín-, olíu- og kolefnisgjöldum til þess fallin að styðja við markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en það er hækkun á útvarpsgjaldi ekki. Breytingar á þessum gjöldum lýsa skorti á pólitískum áherslum.
    Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir því að verðbólga á næsta ári verði 5,6%. Gangi það eftir lækka krónutöluskattar að raunvirði um 2,4%. 3. minni hluti telur það ekki vera náttúrulögmál að umrædd gjöld hækki í takti við verðlag og virðist ríkisstjórnin vera sammála í ár, ólíkt fyrri árum. Hækkanirnar sem ríkisstjórnin leggur til eru þó til þess fallnar að hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs um 0,1% samkvæmt greinargerð með frumvarpinu. 3. minni hluti telur að í frumvarpinu ætti almenn hækkun krónutöluskatta ekki að vera hærri en langtímamarkmið Seðlabanka Íslands um verðbólgu, eða 2,5%, og að hækkunin ætti ekki að gilda jafnt um alla liði heldur ættu gjöld á bensín, olíu og kolefnislosun að endurspegla mengunarbótaviðmið sem væru til þess fallin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hjúkrunarheimili.
    Þriðji minni hluti vill vekja á því athygli að 800 einstaklingar bíða eftir því að komast á hjúkrunarheimili, þar af 400 í Reykjavík. Á Landspítala dvelja nú 93 einstaklingar sem búið er að útskrifa en vegna skorts á úrræðum komast þeir hvergi. Á sama tíma þurfa um 70 veikir einstaklingar að dvelja á göngum spítalans þar sem sjúkrastofur skortir. Ástand þetta lýsir ekki góðri hagstjórn. Dvöl á spítala er dýrasta umönnunarúrræðið og þrátt fyrir að hjúkrunarrými séu dýr myndi það margborga sig að fjölga þeim, bæði til að skapa veikum eldri einstaklingum úrræði við hæfi en ekki síður til að létta á Landspítala og auka möguleika hans á að sinna þeim sem þurfa á sértækum úrræðum spítalans að halda. Landspítali má ekki vera dýrasta hjúkrunarheimili landsins.

Tollfrelsi á vörur upprunnar í Úkraínu.
    Undir lok vorþings árið 2022 samþykkti Alþingi einróma frumvarp fjármálaráðherra um niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu. Var það mikilvægur táknrænn stuðningur við Úkraínu vegna innrásar Rússa og áhrifa átakanna á efnahag landsins. Niðurfellingin var tímabundin til eins árs en að þeim tíma loknum lögðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar ekki fram frumvarp um að framlengja undanþáguna, þrátt fyrir ríkan vilja til þess á þinginu og meðal tiltekinna ráðherra. Evrópusambandið felldi einnig niður tolla á sama tíma og Ísland en hefur síðan framlengt gildistíma niðurfellingarinnar a.m.k. fram til júní 2024.
    Það er mikilvægt að styðja úkraínskt atvinnulíf enda hefur úkraínska þjóðin orðið fyrir gífurlegum samdrætti á sama tíma og hún stendur vörð um landamæri sín og þá heimsmynd og gildi sem öryggi Vesturlanda byggist á. Því leggur 3. minni hluti til breytingu á frumvarpinu um að niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu verði komið á aftur og að hún gildi til 12 mánaða.
    Að framansögðu virtu leggur 3. minni hluti til eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 31. gr. komi nýr kafli, XXII. kafli, Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með einni nýrri grein, 32. gr., svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skal til og með 31. desember 2024 fella niður tolla af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins og eru að öllu leyti upprunnar í Úkraínu. Við ákvörðun um uppruna vöru skal fara eftir ákvæðum fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu sem tók gildi 1. júní 2012.

Alþingi, 12. desember 2023.

Guðbrandur Einarsson.