Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 736  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki virkað. Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 var lagt fram gerði Hagstofa Íslands ráð fyrir 4,9% verðbólgu á árinu 2023. Sú spá hækkaði upp í 5,6% í árslok 2022. Nú er verðbólga 8% og gert ráð fyrir 8,7% verðbólgu í árslok 2023. Samt átti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að vinna gegn verðbólgu. Á sama tíma hefur verðbólga í Evrópu farið minnkandi, úr 8,6% í upphafi árs niður í 2,4% í nóvember 2023. Í upphafi árs var verðbólga á Íslandi hins vegar 9,9% og er nú komin niður í 8%. Á Íslandi hafa stýrivextir hækkað úr 6% upp í 9,25% samanborið við hækkun úr 2% stýrivöxtum hjá Seðlabanka Evrópu í upphafi árs upp í 4%.
    Skattstefna ríkisstjórnarinnar er annar helmingur efnahagsstefnunnar. Peningahagkerfið stjórnast í stórum dráttum af umfangi lána, útgjöldum ríkisins, stýrivöxtum og sköttum. Á móti kemur verðmætasköpun og viðskiptajöfnuður við útlönd.
    Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar getur aðallega haft áhrif á hagkerfið á tvennan hátt: Annars vegar með því að hafa stjórn á útgjöldum og hins vegar með skattheimtu. Ekki eru hins vegar öll útgjöld eins, og heldur ekki allir skattar. Sum útgjöld skapa verðmæti en önnur gera það ekki og sumir skattar eru hamlandi en aðrir eru hvetjandi. Til dæmis má nefna kolefnisgjald. Einhverjir myndu segja að kolefnisgjald sé hamlandi skattur, en markmið þeirrar skattlagningar er í raun að úrelda kolefni og þar með skattlagninguna. Skattlagningin snýst um að láta mengun kosta og að þau sem mengi borgi. Því er hvati til að menga ekki og samfélag sem mengar ekki er betra samfélag en samfélag sem mengar.
    Skattlagning er efnahagslegt stjórntæki. Það hefur áhrif á verðmæti peninga með því að eyða peningum úr hagkerfinu í raun, sem eykur andvirði þeirra peninga sem eftir eru. Þessu stjórntæki er beitt á mismunandi hátt, t.d. með því að skattleggja laun fólks, verslun með vörur, þjónustu, fjármagnstilfærslur og arðgreiðslur. Vegna þess hefur skattkerfið áhrif á það hvernig peningar flæða í hagkerfinu. Til dæmis getur lágur fjármagnstekjuskattur haft þau áhrif að í stað þess að arður af starfsemi sé greiddur sem launatekjur sé arður frekar greiddur sem fjármagnstekjur. Við slíkar aðstæður er hægt að spyrja hvort skattkerfið sé sanngjarnt.
    Í þessu verðbólguástandi, sem hefur varað í um tvö ár, hefur ríkisstjórnin ekki beitt skattheimtu sem hagstjórnartæki, aðallega vegna þess að það samræmist ekki hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. En það er ekki nóg að segja að skattar eigi að vera lágir því að það útilokar í raun notkun á einu helsta hagstjórnartæki ríkisstjórnarinnar. Það er að vissu leyti skiljanlegt að ríkisstjórnin forðist að nota skattkerfið sem hagstjórnartæki því að fólk hefur mjög sterkar skoðanir á skattheimtu. Með því að breyta sem minnstu í skattkerfinu eða með því að einbeita sér að því að hafa skatta lága forðast Sjálfstæðisflokkurinn óvinsældir vegna skattheimtu. Það er ekki efnahagslega góð stefna vegna þess að það er efnahagslega heilbrigt að skattkerfið virki til að koma í veg fyrir efnahagsbólur.
    Beita þarf bæði skattkerfi og ríkisútgjöldum á efnahagslega heilbrigðan hátt til að minnka líkur á efnahagslegum óstöðugleika og til að efnahagskerfið virki fyrir alla, ekki bara suma.
    Fjórði minni hluti leggur því fram nokkrar breytingartillögur. Fyrst er lagt til að kolefnisgjald verði hækkað um 50% til að færa það nær markaðsvirði. Þau sem menga eiga að greiða fyrir þá mengun. Það er einfaldlega sanngjarnt. Í öðru lagi er lagt til að skattrannsóknarstjóra verði gefin aukin heimild til að koma í veg fyrir skattsvik með útgáfu tilhæfulausra reikninga. Í þriðja lagi er lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður í 30% til að loka fyrir skattagat sem er milli hátekjuskattþreps og fjármagnstekjuskatts. Eins og er geta sumir komist hjá því að greiða hátekjuskatt með því að greiða sér arð í staðinn fyrir laun. Þessi breyting hefur nær eingöngu áhrif á efstu tekjutíund en lagt er til að persónuafsláttur fjármagnstekna verði hækkaður á móti til að draga úr áhrifum þessarar hækkunar á alla aðra. Í fjórða lagi er lagt til að ónotaður persónuafsláttur fjármagnstekna verði færður yfir í venjulegan persónuafslátt tekjuskatts í lok árs ásamt því að persónuafsláttur fjármagnstekna verði hækkaður í 400.000 kr. á ári til að hækkun fjármagnstekjuskatts hafi ekki áhrif á þau sem hafa einhverjar fjármagnstekjur utan efstu tekjutíundar. Í fimmta lagi er lagt til að almennur tekjuskattur verði lækkaður og að lög um sóknargjöld verði felld brott en trúar- og lífsskoðunarfélög geti ákveðið og innheimt félagsgjöld sín sjálf. Ríkið þurfi ekki að innheimta þau gjöld fyrir félögin. Að lokum er lagt til að gjöld í gjaldskrá Samkeppniseftirlitsins vegna samrunamála verði hækkuð þannig að gjaldskráin endurspegli raunverulegan kostnað eftirlits vegna samrunamála. Með þessu móti má nýta þau úrræði sem löggjafinn hefur á sviði ríkisfjármála til að auka jöfnuð og stuðla að efnahagslegum stöðugleika.

Alþingi, 12. desember 2023.

Björn Leví Gunnarsson.