Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 751  —  574. mál.




Beiðni um skýrslu


frá mennta- og barnamálaráðherra um ofbeldi og vopnaburð í skólum.


Frá Jódísi Skúladóttur, Bjarna Jónssyni, Steinunni Þóru Árnadóttur, Orra Páli Jóhannssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Ingu Sæland, Tómasi A. Tómassyni, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Gísla Rafni Ólafssyni og Oddnýju G. Harðardóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og barnamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um ofbeldi og vopnaburð nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Í skýrslunni verði fjallað um:
     1.      Þróun alvarlegs ofbeldis og vopnaburðar í skólum frá árinu 2000, þ.m.t. fjölda skráðra tilvika alvarlegs ofbeldis, vopnaburðar og ofbeldis þar sem vopnum er beitt.
     2.      Þá ferla og/eða áætlanir innan einstakra skóla sem fylgt er ef upp koma ofbeldismál eða upp kemst um vopnaburð eða ofbeldi þar sem vopnum er beitt.
     3.      Þá aðstoð eða úrræði sem standa þolendum og gerendum í ofbeldismálum til boða, bæði innan einstakra skóla og sveitarfélaga og í gegnum önnur úrræði.
     4.      Afleiðingar ofbeldis á börn og starfsfólk í grunn- og framhaldsskólum.
     5.      Þá þætti sem snúa annars vegar að því að koma í veg fyrir ofbeldi og/eða vopnaburð í grunn- og framhaldsskólum og hins vegar hvernig unnið er gegn slíku ofbeldi.
     6.      Hvort þörf sé á að efla skimun fyrir andfélagslegri hegðun og auka forvarnafræðslu um ofbeldi.
     7.      Kerfisbundna, félagslega og efnahagslega þætti sem ýtt geta undir alvarlegt ofbeldi og/ eða vopnaburð nemenda í grunn- og framhaldsskólum.

Greinargerð.

    Samkvæmt upplýsingum frá Barnavernd Reykjavíkur hefur tilkynningum um að börn og ungmenni beiti ofbeldi fjölgað. Skortur er á upplýsingum og rannsóknum um ofbeldi og/eða vopnaburð á meðal nemenda í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Með þessari skýrslubeiðni er þess farið á leit að teknar verði saman upplýsingar um ofbeldi og vopnaburð í skólum, tíðni þess og afleiðingar á börn og starfsfólk. Mikilvægt er að greint sé á milli tilvika ofbeldis sem rætt er um í skýrslunni eftir alvarleika þeirra. Auk þess er óskað eftir upplýsingum um félagslegar og efnahagslegar breytur sem kunna að leiða til þess að nemendur beiti alvarlegu ofbeldi innan skóla. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvort þörf sé á að bæta ofbeldisfræðslu eða aðra þætti til að koma í veg fyrir ofbeldi og/eða vopnaburð í skólum.
    Samkvæmt tölum UNICEF er um fimmtungur barna á Íslandi beittur ofbeldi og í hluta tilfella á það ofbeldi sér stað innan skólanna. Staða skólanna og starfsfólks þeirra skiptir miklu máli þegar kemur að viðbrögðum og forvörnum gegn ofbeldi. Öll börn skulu sækja nám í grunnskólum samkvæmt íslenskum lögum og er það á ábyrgð stjórnvalda að tryggja öryggi og besta mögulega aðbúnað bæði nemenda og starfsfólks.