Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 756  —  513. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rögnu Sigurðardóttur um mannúðaraðstoð til Palestínu og aðgerðir Íslands til að þrýsta á um vopnahlé.


     1.      Hve mikið fjármagn hefur runnið til mannúðaraðstoðar í Palestínu frá árinu 2011, sundurliðað eftir árum? Óskað er upplýsinga um skiptingu fjármagns eftir málaflokkum og svæðum, jafnt sjálfsstjórnarsvæðum sem hernumdum svæðum. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort fjármagn renni milliliðalaust til stjórnvalda í Palestínu eða til alþjóðlegra stofnana eða mannúðarsamtaka á svæðinu.
    Heildarframlög íslenskra stjórnvalda til Palestínu og Palestínuflóttamanna, á verðlagi hvers árs, gefur að líta í eftirfarandi töflu. Hækkun framlaga milli 2022 og 2023 skýrist einkum af viðbótarframlögum íslenskra stjórnvalda til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) vegna stöðu mannúðarmála á Gaza, samtals að upphæð 225 millj. kr. UNRWA er ein af samstarfsstofnunum Íslands í mannúðarmálum og meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem nú ríkir á Gaza. Ísland er meðal þeirra ríkja sem leggur mest til UNRWA miðað við höfðatölu.
    Önnur kjarnaframlög til stofnana Sameinuðu þjóðanna kunna enn fremur að nýtast í störfum þeirra á Gaza, en m.a. ákvað utanríkisráðherra nýlega að veita 100 millj. kr. viðbótarframlag í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (UN Central Emergency Response Fund, CERF) sem hefur úthlutað miklum fjármunum til neyðaraðstoðar á svæðinu.

Heildarframlög Íslands til Palestínu á tímabilinu 2011–2023 (allar tölur í millj. kr.)
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023* Samtals
108,5 127,0 199,4 150,3 106,7 127,6 122,4 169,6 109,4 133,1 137,3 164,7 422,8 2078,8
* bráðabirgðatölur

    Varðandi skiptingu eftir svæðum gerir Þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD DAC) ekki greinarmun á framlögum til Gaza og Vesturbakkans og flokkast framlög Íslands til samræmis.
    Ísland hefur um árabil stutt fjórar stofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna sem veita Palestínumönnum, þar á meðal flóttafólki, grunnþjónustu. Auk UNRWA er um að ræða Svæðasjóð samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA oPt Humanitarian Fund), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Með hækkandi kjarnaframlögum til síðastnefndu stofnananna tveggja verður framlögum til landsskrifstofa þeirra í Palestínu hætt frá og með áramótum en framlög til UNRWA hækkuð sem því nemur, í samræmi við nýlega endurnýjaðan rammasamning við stofnunina fyrir tímabilið 2024–2028.
    Þá hafa tvenn frjáls félagasamtök á Vesturbakkanum og Gaza hlotið árlegan fjárstuðning frá Íslandi frá árinu 2007. Annars vegar er um að ræða Palestinian Medical Relief Society (PMRS) sem sinnir heilbrigðisþjónustu og hins vegar Women's Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC) sem sinnir lögfræðiaðstoð, málsvarastarfi og þjónustu á sviði jafnréttismála, sérstaklega í þágu þolenda heimilisofbeldis. Samkvæmt núgildandi samningi nema þau framlög samtals 29 millj. kr. á ári og voru þau innt af hendi fyrr á þessu ári. Þá hefur stökum framlögum verið veitt á tímabilinu til mannúðarverkefna á vegum frjálsra félagasamtaka, Norwegian Refugee Council (NRC), Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar.
    Í kjölfar árásar Hamas 7. október sl. ákváðu sænsk yfirvöld að stöðva allar greiðslur á framlögum til þróunarsamvinnu í Palestínu þar til úttekt hefði verið gerð á öllum samstarfsaðilum með tilliti til hugsanlegra tengsla þeirra við Hamas eða önnur hryðjuverkasamtök. Úttektinni lauk nýlega og gaf hún grænt ljós á áframhaldandi samstarf við PMRS en Svíþjóð er einn stærsti bakhjarl samtakanna. Svipaða sögu er að segja af WCLAC en svipuð úttekt á vegum ESB hefur gefið grænt ljós á samstarfið. Þá endurnýjaði Noregur samstarfssamning sinn við WCLAC í nóvember sl.
    Íslensk stjórnvöld hafa að öðru leyti ekki veitt „milliliðalausan stuðning“ líkt og spurt er um, enda grundvallaratriði að öflugt, kerfisbundið og óháð eftirlit sé með framlögum sem veitt eru. Mannúðarframlög fara eftir alþjóðlega viðurkenndum starfsháttum og er stuðningur Íslands fyrst og fremst í formi óeyrnamerktra kjarnaframlaga til stofnana Sameinuðu þjóðanna. Stofnanirnar eru vaktaðar af tengslaneti gjafaríkja sem framkvæmir óháðar úttektir á starfi þeirra, MOPAN (Multilateral Organization Performance Assessment Network). MOPAN-skýrslur og aðrar skýrslur og úttektir um einstök verkefni og stofnanir eru rýndar og metnar í utanríkisráðuneytinu. Virk þátttaka í samráði á alþjóðavettvangi er mikilvægur liður í eftirfylgni. Ísland tekur þátt í eftirlitsferðum á vegum samstarfsstofnana og heimsækir stofnanirnar sjálfar til að afla upplýsinga og taka þátt í samráði.
    Hjá UNRWA er það deild innra eftirlits (Department of Internal Oversight) sem annast eftirlit, rannsóknir og ráðgjöf um ábyrga meðferð fjármuna og gagnsæi, sem og eftirlit með framkvæmd verkefna. UNRWA lýtur einnig árlegu óháðu eftirliti af hálfu Sameinuðu þjóðanna (Independent UN Board of Auditors, UNBOA) sem skilar skýrslu sinni til allsherjarþingsins. Þær skýrslur er að finna á heimasíðu UNRWA. Stofnunin lýtur jafnframt sömu meginreglum og gilda um kerfi Sameinuðu þjóðanna í heild.

     2.      Hefur ráðherra beitt sér, með samtali við sendiherra Ísraels eða aðra fulltrúa Ísraels, til að þrýsta á um að án tafar „skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara“, eins og segir í ályktun Alþingis sem samþykkt var samhljóða 9. nóvember sl.? Ef svo er, hvenær, hvernig og á hvaða vettvangi?
    Ákalli Íslands um vopnahlé af mannúðarástæðum, óheft aðgengi neyðaraðstoðar og virðingu við alþjóðalög hefur ítrekað verið komið á framfæri, jafnt á vettvangi SÞ, á opinberum vettvangi og í samtölum við fulltrúa ísraelskra stjórnvalda. Á dögunum sendi Ísland ásamt hinum Norðurlöndunum bréf til stuðnings aðalframkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna þar sem kallað var eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza vegna alvarlegrar stöðu mannúðarmála á svæðinu en Ísland var auk þess meðflytjandi ályktunar sama efnis sem lögð var fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hinn 8. desember sl. Þá var Ísland meðflytjandi að ályktun neyðarfundar allsherjarþingsins 12. desember sl., greiddi atkvæði með ályktuninni og breytingartillögum sem fordæmdu hryðjuverkaárás Hamas og gíslatöku hryðjuverkasamtakanna sem lagðar voru fram við það tilefni.
    Þá hefur ráðherra viðrað áhyggjur og áherslur Íslands vegna stöðu mála á alþjóðlegum fundum, m.a. á fundi norrænna utanríkisráðherra í Osló, á fundi varnarmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Sokkhólmi, á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel og á fundi ÖSE í Norður-Makedóníu. Í málflutningi Íslands eru leiðir til að tryggja varanlegan frið og aukna mannúðaraðstoð þar í forgrunni.
    Að auki má nefna samskipti við sendiherra Ísraels 26. október og opinberar færslur utanríkis- og forsætisráðherra undanfarnar vikur. Þá var sendiherra Ísraels upplýstur um inntak ályktunar Alþingis sama dag og hún var samþykkt. Utanríkisráðherra átti enn fremur símtal við ísraelskan kollega sinn hinn 28. nóvember og kom áhyggjum og áherslum íslenskra stjórnvalda á framfæri.

     3.      Hefur ráðherra átt samtal við utanríkisráðherra annarra ríkja um aðgerðir, svo sem þvingunaraðgerðir, sem hægt væri að ráðast í gagnvart Ísrael, í þeim tilgangi að þrýsta á um vopnahlé og stöðva allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og Alþingi hefur fordæmt?
    Nei. Enn fremur hefur umræða um slíkar aðgerðir hvorki komið upp á vettvangi ESB né í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Engar heimildir eru í íslenskum lögum og engin fordæmi fyrir því að Ísland setji einhliða séríslenskar þvingunaraðgerðir.

    Alls fóru tvær vinnustundir í að taka svarið saman.