Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 758  —  484. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Davíð Bjarnason, Þórarinnu Söebech, Benedikt Höskuldsson og Gunnlaugu Guðmundsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Bryndísi Marteinsdóttur frá Landgræðslunni, Stellu Samúelsdóttur frá UN Women á Íslandi og Þóri Guðmundsson frá þróunarsamvinnunefnd.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Barnaheillum, Landgræðslunni og UN Women á Íslandi.
    Í lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, er kveðið á um að ráðherra skuli fimmta hvert ár leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fimm ára í senn þar sem fram komi markmið og áherslur í málaflokknum. Tillögunni er ætlað að marka þessa stefnu fyrir árin 2024–2028. Þá er lögð fyrir aðgerðaáætlun á tveggja ára fresti, sbr. fylgiskjal I með tillögunni.
    Í tillögunni kemur fram að stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024– 2028 byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Parísarsamkomulaginu um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum og öðrum alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, auk alþjóðlegra skuldbindinga um fjármögnun þróunar. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum verði áfram einn helsti grundvöllur þróunarsamvinnu Íslands, og aðild að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) veiti faglega umgjörð um framkvæmdina. Þá kemur fram að alþjóðleg þróunarsamvinna verði áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og lögð verði áhersla á að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkis- og þróunarsamstarfi með tilliti til þeirra hnattrænu áskorana sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Í því ljósi sé brýnt að brugðist verði við víðtækum áhrifum og afleiðingum ólöglegs innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu fyrir það land, nærliggjandi ríki og fleiri lönd, þar á meðal fátækustu ríkin. Enn fremur er undirstrikað að Ísland leggi mannréttindi til grundvallar stefnu sinni, setji jafnrétti kynjanna og réttindi barna í öndvegi og styðji við berskjaldaða hópa, þar á meðal hinsegin fólk og fatlað fólk. Þróunarsamvinna Íslands endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu.
    Í áherslu- og markmiðskafla tillögunnar er kveðið á um að útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði verði yfirmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og grundvallist á framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá er kveðið á um að mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál verði bæði sértæk og þverlæg áhersluatriði sem lögð skuli til grundvallar í öllu starfi.
    Samkvæmt tillögunni verður í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands lögð áhersla á samstarf við Malaví, Úganda og Síerra Leóne sem eru meðal allra fátækustu ríkja heims. Hvað fjölþjóðlegar stofnanir varðar verði áhersla á samstarf við Alþjóðabankann, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Hvað loftslagsmál áhrærir verði lögð áhersla á samstarf við Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund, GCF), Aðlögunarsjóðinn (Adaptation Fund) og Norræna þróunarsjóðinn (Nordic Development Fund, NDF). Í mannúðaraðstoð verði stuðningi beint til lykilstofnana Sameinuðu þjóðanna á því sviði; Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) og samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Því til viðbótar verði áfram haft samstarf við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC).
    Tillagan felur í sér að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Með það í huga fari framlög Íslands úr 0,35% af VÞT árið 2024 í 0,46% af VÞT árið 2028. Ef svipaðri árlegri hækkun verður fram haldið munu íslensk stjórnvöld ná markmiði um 0,7% af VÞT árið 2035. Sérstaklega er tilgreint að stuðningur íslenskra stjórnvalda við mannúðaraðstoð og uppbyggingu í Úkraínu verði ekki á kostnað fátækari ríkja og komi áfram til viðbótar við framlög til þróunarsamvinnu. Sérstök áætlun til næstu fimm ára um stuðning við Úkraínu verði lögð fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Nefndin fagnar framkominni tillögu og lýsir sérstakri ánægju með það víðtæka samráð sem átti sér stað við mótun hennar, sbr. kafla þar um í greinargerð og upplýsingar sem fram komu við umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 13. desember 2023.

Diljá Mist Einarsdóttir,
form., frsm.
Birgir Þórarinsson. Bjarni Jónsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jakob Frímann Magnússon. Jón Gunnarsson.
Logi Einarsson. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.