Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 773  —  234. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Fyrsti minni hluti styður almennt markmið þingsályktunartillögunnar og er sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans. Hins vegar leggur 1. minni hluti til ákveðnar breytingar með hliðsjón af umsögnum sem bárust nefndinni.
    Í I. kafla þingsályktunartillögunnar, Framtíðarsýn, segir að hugvitið skuli verða grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Þetta er verðugt markmið og 1. minni hluti tekur undir þessa framtíðarsýn. Það samræmist markmiðinu að hvetja til nýsköpunar meðal almennings og stuðnings við hugmyndir á frumstigum, til dæmis með því að styrkja hugvit í landinu, kynna árangur hugvitsmanna hérlendis og erlendis og með því að styðja við fræðslu á sviði nýsköpunar.
    Meginmarkmiði stefnumótandi aðgerða um þekkingarsamfélag á Íslandi er lýst í II. kafla, en þar kemur fram að aðgerðirnar skuli byggjast á þremur meginsviðum, sem eru háskóla- og vísindastarf, nýsköpun og hugverkaiðnaður, og fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi. Nýsköpun er hér grundvallarhugtak þegar talað er um að hugvit verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar, sbr. meginmarkmið tillögunnar, einnig þegar litið er til stefnumótandi aðgerða til ársins 2025 til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi, líkt og gert er í inngangsorðum tillögunnar. Þegar efla á þekkingarsamfélag er mikilvægt að það nái til allra í samfélaginu og að stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi hafi ætíð inngildingu að leiðarljósi en ekki útilokun einhverra hópa.
    Í II. kafla er ekki minnst á verkþekkingu. Háskóla- og vísindastarf er mikilvægt þegar kemur að nýsköpun en hugmyndir spretta einnig upp utan þessara sviða og frá hugviti og frumkvöðlastarfi sem byggist á verkþekkingu.
    Í III. kafla tillögunnar kemur fram að til þess að ná fram markmiðum um eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi þurfi að vinna í samstarfi við hagaðila og endurskoða aðgerðir árlega í tengslum við undirbúning fjármálaáætlunar og fjárlaga. 1. minni hluti telur að í ljósi þessa markmiðs ætti að taka tillit til og hafa samráð við helstu hagaðila þekkingarsamfélags, svo sem Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN (félag kvenna í nýsköpun), þegar kemur að eflingu þekkingarsamfélagsins á Íslandi. Fámenn þjóð þarf á öllum sínum mannauði, hugviti og nýsköpun að halda þegar kemur að eflingu þekkingarsamfélagsins og þar þarf að vera rými fyrir alla.
    Fyrsti minni hluti telur að okkur beri að líta til mikilvægis lista í þeirri framtíðarsýn sem við erum að móta til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi og að hugvitið, hin ótakmarkaða auðlind, verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Listir eru stór hluti íslensks samfélags og íslensk list hefur vakið athygli víða um heim, sérstaklega tónlist og bókmenntir, bæði fornar og nýjar. Á síðastliðnum árum hefur hróður íslenskra sakamálabókmennta farið víða. Einnig má vísa hér til kvikmyndalistarinnar sem vakið hefur athygli víða og býr yfir miklum möguleikum. 1. minni hluti telur því mikilvægt að listir séu nefndar sérstaklega í þessum stefnumótandi aðgerðum þar sem hlutverk lista er afar mikilvægur þáttur í eflingu þekkingarsamfélagsins. Tekur 1. minni hluti því hér undir þau sjónarmið sem koma fram í umsögn Listaháskóla Íslands.
    Fyrsti minni hluti tekur einnig undir með Listaháskóla Íslands um að leggja ætti áherslu á ótvírætt sjálfstætt vægi listanna, en ekki einungis listir sem verkfæri í samhengi við kennslu raungreina, þar sem A-ið í STEAM vísar til aðferðafræði lista í kennslu STEM-greina, þ.e. vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði. Með þetta markmið í huga er 1. minni hluti sammála þeim sjónarmiðum að það þurfi að líta til fleiri þátta þegar það kemur að menntun, uppbyggingu þverfaglegs náms og aukins vægis listgreina í samhengi við kennslu STEM-greina.
    Mikilvægt er að hlutfall STEM-menntaðra hækki hér á landi til að mögulegt sé að mæta þeim gríðarlega miklu tæknibreytingum sem er fyrirséð að eigi sér stað á næstu árum. Ísland verður að vera fullur þátttakandi í upplýsingabyltingunni og þeirri byltingu sem mun eiga sér stað með framkomu gervigreindar. Hér verðum við einnig að líta til stöðu íslenskunnar í umróti þessarar miklu byltingar sem kölluð hefur verið fjórða iðnbyltingin og vísar til hinna gríðarlegu tækniframfara síðastliðinna ára og þeirra sem eru í vændum. Hér er aðallega átt við gervigreind, róbótatækni, internet hlutanna, sjálfvirknivæðingu og nú síðast gervigreind og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum.
    Ljóst er að þverfræðileg kennsla raungreina með skapandi aðferðafræði lista er til góðs, en einnig þarf að leggja áherslu á að auka og styðja við listir og menntun á fræðasviði lista. Í því skyni eru lagðar til ákveðnar breytingar þar sem tekið verði mið af listum sem sjálfstæðri menntunargrein í greinum þingsályktunartillögunnar.
    Með hliðsjón af ofangreindu leggur 1. minni hluti til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Eftirfarandi breytingar verði á I. kafla:
                  a.      Á eftir orðinu „þekkingu“ komi: listir.
                  b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í samfélaginu verði hvatt til nýtingar hugvits og árangur hugvitsmanna kynntur almenningi. Stutt verði við fræðslu á sviði nýsköpunar og hlúð að vænlegum hugmyndum á fyrstu stigum.
     2.      Eftirfarandi breytingar verði á II. kafla:
                  a.      Í stað orðsins „vísindafólk“ í 2. málsl. 1. tölul. komi: sérfræðinga af margvíslegum fræðasviðum háskólanna.
                  b.      Á eftir orðunum „háskóla- og vísindafólks“ í 4. málsl. 1. tölul. komi: og listafólks.
                  c.      Á eftir orðinu „nýsköpun“ í 1. málsl. 2. tölul. komi: listum.
                  d.      Á eftir orðinu „nýsköpun“ í 2. málsl. 2. tölul. komi: listum.
     3.      Eftirfarandi breytingar verði á III. kafla:
                  a.      Á eftir orðinu „nýsköpun“ í 2. lið komi: listum.
                  b.      Á eftir orðinu „nýsköpunar“ í tölul. 2.8 komi: lista.

Alþingi, 13. desember 2023.

Eyjólfur Ármannsson.