Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 782  —  579. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og lögum um Landmælingar og grunnkortagerð (tímabundin setning forstjóra).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar (BjarnJ, OPJ, HSK, IÓI, VilÁ, NTF).


I. KAFLI
Breyting á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að framlengja tímabundna setningu forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til 30. september 2024. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um setningu í embættið til þess tíma.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að framlengja tímabundna setningu forstjóra Landmælinga Íslands til 30. september 2024. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um setningu í embættið til þess tíma.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Á yfirstandandi löggjafarþingi liggur fyrir frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til laga um Náttúrufræðistofnun (þingskjal 527, 479. mál). Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við gildistöku laganna flytjist Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn til Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem muni frá sama tíma bera heitið Náttúrufræðistofnun.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur unnið að stofnanabreytingum í nokkurn tíma þar sem gert er ráð fyrir fækkun stofnana ráðuneytisins. Núverandi forstjórar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands voru settir í embætti tímabundið til ársloka 2023 á grundvelli 24. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, í stað hefðbundins ráðningarferlis og skipunar viðkomandi forstöðumanna í embætti til fimm ára á grundvelli 23. gr. laganna. Í því ljósi er lagt til í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í áðurgreindu frumvarpi að ráðherra sé heimilt að setja tímabundið forstjóra Náttúrufræðistofnunar í embætti þar til ferli vegna ráðningar nýs forstjóra er lokið, en það ferli hefst við gildistöku laganna.
    Fyrir liggur að frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun verður ekki lögfest nú fyrir árslok, sem hefur m.a. þá þýðingu að ekki verður til staðar í upphafi árs 2024 heimild í lögum fyrir ráðherra til að setja forstjóra yfir Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands tímabundið þar til fyrir liggur hvort frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun verður samþykkt á Alþingi.
    Meiri hluti nefndarinnar telur ekki rétt að auglýsa stöðu forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og stöðu forstjóra Landmælinga Íslands í óbreyttri mynd meðan frumvarp er til meðferðar hjá nefndinni sem gerir ráð fyrir framangreindum breytingum á stofnununum. Vegna þessa telur meiri hlutinn mikilvægt að kveða á um þessa heimild ráðherra meðan óvissa ríkir um stofnanirnar.
    Með vísan til þess leggur meiri hluti nefndarinnar til í frumvarpi þessu að ráðherra verði heimilt að framlengja tímabundið setningu forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands til 30. september 2024 eða þar til ráðningarferli vegna nýs forstjóra Náttúrufræðistofnunar er lokið, verði frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun að lögum, eða eftir atvikum ráðningarferli vegna nýs forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og nýs forstjóra Landmælinga Íslands er lokið og nýir forstjórar hafa verið skipaðir.