Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 793  —  2. mál.
Leiðréttur texti.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið á milli 2. og 3. umræðu og fékk til sín gesti frá Bændasamtökum Íslands og matvælaráðuneyti.
    Við umfjöllun málsins barst nefndinni umsögn, dags. 13. desember sl., frá Bændasamtökum Íslands. Í umsögninni lýstu samtökin yfir óánægju með a- og b-lið 8. tölul. breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 727). Breytingartillagan felur í sér tvær reglugerðarheimildir í búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998. Reglugerðarheimildir þessar voru lagðar fram fyrir nefndinni í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 7. nóvember sl., í samráði við matvælaráðuneytið vegna aukins stuðnings til innlendrar framleiðslu á korni til fóðurs og manneldis.
    Í umsögn Bændasamtakanna kemur fram að þau telji að tillögurnar feli í sér grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Benda þau á að í 2. málsl. 3. gr. búnaðarlaga kemur fram að ráðherra skuli gera samning við Bændasamtök Íslands til tíu ára í senn um verkefni samkvæmt lögum þessum og framlög til þeirra. Jafnframt kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að ríkissjóður veiti árlega framlög til verkefna samkvæmt lögunum, eru þar meðal annars taldir upp málaflokkarnir átaksverkefni og þróun. Þá nefna Bændasamtökin að fram komi í orðskýringum 2. gr. laganna að búvörur nái yfir afurðir nytjajurta og þar falla undir m.a. allar tegundir korns.
    Matvælaráðuneytið hefur bent á að ásetningurinn með reglugerðarheimildunum sé sá að útfærsla umfangsmikilla fjárútláta, sem gera ráð fyrir mati stjórnvalda, komi frekar fram í reglugerð. Slíkt sé frekar í anda vandaðrar stjórnsýslu en að útfærslan komi fram í stjórnvaldsfyrirmælum sem hafi ekki sérstaka lagastoð. Þá telur ráðuneytið að aðgerðir vegna framangreinds stuðnings séu víðtækari en jarðræktarstuðningur sem fram kemur m.a. í 6. og 7. gr. reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað nr. 430/2021. Jafnframt telur ráðuneytið æskilegt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og gagnsæi í ráðstöfun fjármuna að tryggja heimildir til handa ráðherra að útfæra slíkan sérstakan stuðning og verkefni sem falla utan búvörusamninga með stjórnvaldsfyrirmælum.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að hafa í huga að ákjósanlegast er að ákvæði sem þessi komi fram við framlagningu frumvarpa, en ekki sem breytingartillaga við 2. umræðu, enda gefist Bændasamtökum Íslands og öðrum hagsmunaaðilum þá ríkari möguleiki á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við fastanefndir þingsins.
    
Breytingartillaga.
Breyting á lögum um úrvinnslugjald (28. gr.).
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skatturinn vöktu athygli nefndarinnar á því að þær breytingar sem í 28. gr. eru lagðar til á viðauka XVI við lög um úrvinnslugjald tækju ekki mið af breytingum sem orðið hafa á tollskrá með auglýsingu um breytingu á tollskrá, skv. 189. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Því væri í viðaukanum að finna tollskrárnúmer sem væru fallin brott. Tilvísun til þess hversu oft hver fjárhæð tæki breytingum í viðaukanum væri því ekki í samræmi við tollskrána. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis að í stað þess að tiltaka nákvæman fjölda þeirra tilvika sem krónutalan tekur breytingum verði notast við orðalagið „hvarvetna í viðaukanum“. Ekki felst í tillögunni efnisleg breyting.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

    BREYTINGU:


    28. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XVI við lögin:
     a.      Í stað „40 kr./kg“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 65 kr./kg.
     b.      Í stað ,,8 kr./kg“ í viðaukanum kemur: 13 kr./kg.
     c.      Í stað ,,20 kr./kg“ í viðaukanum kemur: 33 kr./kg.
     d.      Í stað ,,80 kr./tæki“ í viðaukanum kemur: 130 kr./tæki.
     e.      Í stað ,,320 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 520 kr./tæki.
     f.      Í stað ,,400 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 650 kr./tæki.
     g.      Í stað ,,480 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 780 kr./tæki.
     h.      Í stað ,,640 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 1.040 kr./tæki.
     i.      Í stað ,,1.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 1.625 kr./tæki.
     j.      Í stað ,,1.200 kr./tæki“ í viðaukanum kemur: 1.950 kr./tæki.
     k.      Í stað ,,1.400 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 2.275 kr./tæki.
     l.      Í stað ,,1.600 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 2.600 kr./tæki.
     m.      Í stað ,,1.800 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 2.925 kr./tæki.
     n.      Í stað ,,2.000 kr./tæki“ í viðaukanum kemur: 3.250 kr./tæki.
     o.      Í stað „2.400 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 3.900 kr./tæki.
     p.      Í stað ,,3.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 4.875 kr./tæki.
     q.      Í stað ,,4.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 6.500 kr./tæki.
     r.      Í stað ,,5.600 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 9.100 kr./tæki.
     s.      Í stað „8.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 13.000 kr./tæki.
     t.      Í stað ,,9.200 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 14.950 kr./tæki.
     u.      Í stað ,,18.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 29.250 kr./tæki.
     v.      Í stað ,,21.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 34.125 kr./tæki.
     w.      Í stað ,,24.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 39.000 kr./tæki.
     x.      Í stað ,,28.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 45.500 kr./tæki.
     y.      Í stað ,,32.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 52.000 kr./tæki.
     z.      Í stað ,,36.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 58.500 kr./tæki.
     aa.      Í stað ,,40.000 kr./tæki“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 65.000 kr./tæki.


Alþingi, 14. desember 2023.

Teitur Björn Einarsson,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Stefán Vagn Stefánsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Vilhjálmur Árnason.