Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 797  —  542. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir (úrbætur í brunavörnum).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar (BjarnJ, IÓI, HSK, NTF, OPJ, VilÁ, ÞorbG, ÞSv).


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráning aðseturs innan lands vegna óviðráðanlegra atvika.

                  Skráning aðseturs innan lands er heimil þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sitt að skipan yfirvalda vegna náttúruhamfara, saknæmrar háttsemi eða annarra óviðráðanlegra atvika. Skilyrði er að fyrir liggi ákvörðun lögreglustjóra um rýmingu húsnæðis á tilteknu svæði vegna hættuástands eða yfirvofandi hættuástands.
                  Í ákvörðun lögreglustjóra skal koma fram til hvaða svæðis eða svæða umrædd ákvörðun nær. Einungis þeim einstaklingum sem ákvörðun nær til er heimil aðsetursskráning á grundvelli 1. mgr. Skráning gildir þar til lögreglustjóri tilkynnir Þjóðskrá Íslands að skilyrði hennar séu ekki lengur fyrir hendi. Einstaklingum er heimilt að halda aðsetursskráningu í allt að eitt ár frá tilkynningu lögreglustjóra meðan húsnæði er gert íbúðarhæft.
                  Skráning aðseturs innan lands er einnig heimil þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sitt tímabundið vegna bruna eða annars tilfallandi tjóns á húsnæði sem krefst umfangsmikilla viðgerða. Skilyrði er að fyrir liggi staðfesting lögreglustjóra á brunanum eða frá viðkomandi tryggingafélagi. Einstaklingar skulu sjálfir tilkynna um brottfall aðsetursskráningar en að öðrum kosti fellur hún sjálfkrafa niður þegar ár er liðið frá upphaflegri skráningu.
                  Skráning aðseturs samkvæmt þessari grein nær einnig til skráningar í fjöldahjálparstöðvum, frístundabyggð og öðru húsnæði sem tilgreint er í reglugerð sem ráðherra setur.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „sem óleyfisbúseta er í hvað varðar skráningu sérstaks aðseturs“ í a-lið komi: þar sem einstaklingur hefur skráð sérstakt aðsetur sitt.
                  b.      Í stað orðanna „á eigninni“ í b-lið komi: á eignina.
     3.      Í stað orðanna „skráningu þeirra í skráninguna „án tilgreinds heimilisfangs“ eða í aðra skráningu“ í 4. gr. komi: skráningu og skráð þá án tilgreinds heimilisfangs eða á annan hátt.
     4.      Í stað orðanna „merktar með stafliðum“ í 8. gr. komi: tölusettar.
     5.      Orðin „3. tölul.“ í b-lið 11. gr. falli brott.
     6.      A-liður 14. gr. orðist svo: Í stað orðanna „þjónustuaðili“ og „þjónustuaðila“ í 2. málsl. 1. mgr. og tvívegis í 4. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: ábyrgðarmaður.
     7.      Á eftir 14. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal ráðast í átak í skjalfestingu brunavarna í eldri timburhúsum með því að hvetja eigendur eða forráðamenn slíkra húsa til að framkvæma sjálfsmat á stöðu brunavarna og skrá niðurstöður matsins í gagnagrunn stofnunarinnar óski viðkomandi þess. Skal stofnunin sækja upplýsingar um þinglýsta eigendur viðkomandi fasteigna í fasteignaskrá.
                  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að miðla niðurstöðum sjálfsmats til slökkviliða til að tryggja rétt viðbrögð og aukið öryggi íbúa komi upp eldur. Stofnuninni er jafnframt heimilt að nýta upplýsingar sem aflað er á grundvelli ákvæðisins til að leggja mat á aðferðir við að ná fram hvötum til að bæta brunavarnir og í tölfræðivinnslu um stöðu brunavarna almennt.
     8.      Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Breyting á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019, með einni grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingagjöf slökkviliðs.

                  Fái Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við framkvæmd lögbundinna verkefna sinna upplýsingar um búsetu fólks í húsnæði sem leigt er til íbúðar og fullnægir ekki kröfum um brunavarnir íbúðarhúsnæðis sem settar eru fram í lögum og reglugerðum skal stofnunin þrátt fyrir 9. og 10. gr. tilkynna slökkviliði hlutaðeigandi sveitarfélags þar um.
     9.      Við 1. mgr. 15. gr. bætist: nema b-liður 3. gr. sem öðlast gildi 1. febrúar 2025.
     10.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur og fleiri lögum (úrbætur í brunavörnum).