Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Nr. 5/154.

Þingskjal 811  —  484. mál.


Þingsályktun

um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, að á árunum 2024–2028 skuli unnið að þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við eftirfarandi stefnu.
    Þær fjölþættu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir ógna ekki aðeins framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna heldur hefur árangri síðastliðinna áratuga verið stefnt í hættu. Fátækt og ójöfnuður fer víða vaxandi og afleiðingar loftslagsbreytinga ógna velsæld mannkyns og velferð jarðar. Fjöldi fólks á flótta og á vergangi hefur aldrei verið meiri en nú, en vaxandi óstöðugleiki virðir engin landamæri. Hluta þess má rekja til ólöglegs innrásarstríðs Rússlands, sem hefur ekki aðeins valdið óbætanlegu tjóni í Úkraínu og nærliggjandi ríkjum heldur einnig haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fátækari ríki, m.a. Afríku sunnan Sahara.
    Alþjóðleg þróunarsamvinna gegnir lykilhlutverki við úrlausn þessara áskorana því hún stuðlar að aukinni velsæld, sjálfbærni og jöfnuði sem getur af sér stöðugleika, allri heimsbyggðinni til hagsbóta. Vegferð Íslands frá því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu sem þáði aðstoð alþjóðasamfélagsins til þess að verða eitt auðugasta lýðræðisríki álfunnar varpar ljósi á mikilvægi þess háttar stuðnings. Sem smáríki hefur Ísland jafnframt grundvallarhagsmuni af auknum stöðugleika, bættum mannréttindum og sterkara lýðræði á heimsvísu. Þessara hagsmuna verður einungis gætt með árangursríku alþjóðasamstarfi og með öflugu samstarfi við fátækustu ríkin verður best stuðlað að víðtækri sátt um alþjóðakerfið og virðingu fyrir alþjóðalögum á umbrotatímum á heimsvísu. Ljóst er af áratugalangri reynslu að hagur fátækari ríkja vænkast ekki af þróunarsamvinnu einni saman og mikilvægt er að samhliða henni fari aukin pólitísk samskipti, fjárfestingar og viðskipti.
    Stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028 hafi framtíðarsýn til ársins 2030 og byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Parísarsamkomulaginu um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum og öðrum alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt auk alþjóðlegra skuldbindinga um fjármögnun þróunar.
    Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum verði áfram einn helsti grundvöllur þróunarsamvinnu Íslands og aðild að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) veiti faglega umgjörð um framkvæmdina. Íslensk stjórnvöld verði áfram áreiðanlegur samstarfsaðili í þróunarsamvinnu sem taki mið af bestu starfsvenjum sem felast bæði í því að veita fyrirsjáanleika í samstarfi og sveigjanleika og viðbragðsflýti þegar þörf krefur. Farnar verði fjölbreyttar leiðir við framkvæmd þróunarsamvinnu, leitast við að efla nýsköpun í starfi og nýta sérþekkingu Íslands þegar við á við úrlausn staðbundinna og alþjóðlegra verkefna.
    Alþjóðleg þróunarsamvinna verði áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og lögð verði áhersla á að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkis- og þróunarsamstarfi með tilliti til þeirra hnattrænu áskorana sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Í því ljósi sé brýnt að brugðist verði við víðtækum áhrifum og afleiðingum ólöglegs innrásarstríðs Rússlands á Úkraínu, nærliggjandi ríki og víðar, þar á meðal fátækustu ríkin.
    Ísland leggi mannréttindi til grundvallar stefnu sinni, setji jafnrétti kynjanna og réttindi barna í öndvegi og styðji við berskjaldaða hópa, þar á meðal hinsegin fólk og fatlað fólk. Þróunarsamvinna Íslands endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu.
    Eignarhald heimamanna verði lagt til grundvallar í öllu starfi þar sem ábyrgð, árangur og áreiðanleiki verði áfram hafður að leiðarljósi.

1. Framlög.
    Íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu og með það í huga fari framlög Íslands til þróunarsamvinnu hækkandi á gildistíma stefnunnar. Þau fari úr 0,35% af VÞT árið 2024 í 0,46% af VÞT árið 2028 eins og fram kemur í eftirfarandi töflu og verði svipaðri árlegri hækkun fram haldið muni íslensk stjórnvöld ná 0,7% markmiðinu árið 2035.

2024 2025 2026 2027 2028
% af VÞT 0,35 0,37 0,40 0,43 0,46

    Hækkandi framlög skili sér til fátækustu ríkjanna enda stefni íslensk stjórnvöld að því að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um að veita a.m.k. 0,15–0,2% af VÞT til fátækustu landanna. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við mannúðaraðstoð og uppbyggingu í Úkraínu verði ekki á kostnað fátækari ríkja og komi áfram til viðbótar við framlög til þróunarsamvinnu. Sérstök áætlun til næstu fimm ára um stuðning við Úkraínu verði lögð fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Sem fyrr verði lögð rík áhersla á að framlögin séu vel nýtt og sýnt sé fram á árangur af starfi Íslands.

2. Áherslur og markmið.
     Útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði verði yfirmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og grundvallist í framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
     Mannréttindi, jafnrétti kynjanna, umhverfis- og loftslagsmál verði bæði sértæk og þverlæg áhersluatriði sem lögð skuli til grundvallar í öllu starfi. Samþætta skuli kynja- og umhverfissjónarmið í verkefni á vegum íslenskra stjórnvalda og þess gætt að í vöktun og úttektum á verkefnum fái þessi málefni vandaða umfjöllun. Íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn fátækt og hungri og beiti sér fyrir að aukin hagsæld samfélaga skili sér til þeirra fátækustu, efli mannauð, leiði til aukins jafnaðar og stuðli að stöðugleika í samræmi við heimsmarkmið 1. Með framangreint í huga leggi íslensk stjórnvöld áherslu á eftirfarandi fjögur áherslusvið, en nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra í aðgerðaáætlun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu 2024–2025.

2.1. Mannréttindi og jafnrétti kynjanna – heimsmarkmið 5 og 10.
    Þróunarsamvinna Íslands byggist á reynslu Íslands sem staðfesti að virðing fyrir mannréttindum, jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna og stúlkna sé undirstaða framfara, velsældar og efnahagsþróunar. Mikilvægt sé að verjast því alvarlega bakslagi sem víða hefur orðið undanfarin ár hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum, kynjajafnrétti og lýðræði. Ísland beiti því mannréttindamiðaðri nálgun í þróunarsamvinnu á þeim forsendum að takmarkanir á og virðingarleysi fyrir mannréttindum, þ.m.t. kynjamisrétti, séu orsakavaldur annarra vandamála, svo sem misskiptingar eða fátæktar, ekki afleiðing þeirra. Gætt verði sérstaklega að virðingu fyrir mannréttindum þar sem neyð ríkir og átök geisa og viðbrögð við og forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi verði efldar. Lögð verði áhersla á valdeflingu kvenna og stúlkna annars vegar og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni hins vegar, sem áhrifaríkar leiðir til að takast á við áskoranir samtímans og stuðla að framgangi heimsmarkmiðanna. Fylgt verði stefnumiðum í jafnréttismálum sem veiti nánari ramma um starfið. Íslensk stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á eftirfarandi markmið:
          valdeflingu kvenna og stúlkna,
          aukin borgaraleg réttindi,
          bætta lagalega og félagslega stöðu hinsegin fólks,
          bætt kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi,
          upprætingu kynbundins og kynferðislegs ofbeldis,
          aukna þátttöku karla og drengja í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

2.2. Mannauður og grunnstoðir samfélaga – heimsmarkmið 3, 4 og 6.
    Uppbygging mannauðs og samfélagslegra grunnstoða verði áfram einn af hornsteinum þróunarsamvinnu Íslands, enda forsenda þess að ná megi heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Fjárfesting í mannauði sé uppspretta efnahagslegrar þróunar og grundvöllur bættra lífskjara einstaklinga og samfélaga. Áhersla verði lögð á grunnstoðir samfélaga, þ.m.t. innviði og þjónustu á borð við góða menntun, næringu, heilbrigðisþjónustu, vatn og hreinlætisaðstöðu sem gegni lykilhlutverki við uppbyggingu mannauðs, enda aðgangur að slíkri þjónustu grundvallarmannréttindi. Sérstaklega verði hugað að berskjölduðum hópum, þar á meðal fötluðu fólki. Auk þess verði réttindi barna og ungmenna höfð að leiðarljósi. Stutt verði við stofnanir og aðra félagslega innviði með úrbótum þar sem lögð verði áhersla á gæði, jafnan aðgang og viðnámsþrótt.
    Íslensk stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á eftirfarandi markmið:
          bætta menntun, námsumhverfi og næringu barna og ungmenna,
          aðgang að bættri grunnheilbrigðisþjónustu, með áherslu á mæður og börn,
          aðgang að hreinu vatni og bættri hreinlætisaðstöðu.

2.3. Loftslagsmál og náttúruauðlindir – heimsmarkmið 7, 13, 14 og 15.
    Aukinn þungi verði lagður í viðbrögð við loftslagsvánni og grundvallist starf Íslands á ákvæðum Parísarsamkomulagsins og niðurstöðum loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (Conference of the Parties, COP). Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á alþjóðlega samvinnu um lausn loftslagsvandans og auki stuðning bæði við mótvægis- og aðlögunaraðgerðir. Litið sé svo á að slíkar aðgerðir séu mikilvægur hluti af þróunarsamvinnu og forsenda fyrir auknum viðnámsþrótti samfélaga. Áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda verði fram haldið með það fyrir augum að hún stuðli að bættum lífskjörum almennings. Áfram verði jafnvægi milli verndunar, viðhalds líffræðilegs fjölbreytileika og lífríkis og sjálfbærrar nýtingar haft að leiðarljósi. Þá verði mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa, þar á meðal jarðhita, áfram í forgrunni og áhersla lögð á upprætingu orkufátæktar sem bitni einna helst á konum. Þá verði lögð áhersla á heilbrigði hafs og vatna sem lið í brýnni aðlögun fæðukerfanna að sjálfbærum lausnum. Stuðningur við sjálfbæra landnýtingu, takmörkun landhnignunar og endurheimt vistkerfa verði einnig áhersluatriði í starfinu fram undan.
    Íslensk stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á eftirfarandi markmið:
          bætta mótvægis- og aðlögunarhæfni samfélaga,
          aukna nýtingu og jafnan aðgang að endurnýjanlegri orku,
          verndun og sjálfbæra nýtingu hafs og vatna,
          sjálfbæra landnýtingu og endurheimt vistkerfa.

2.4. Mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar – heimsmarkmið 2 og 16.
    Áfram verði lögð áhersla á mannúðaraðstoð og störf í þágu friðar.
    Á sviði mannúðaraðstoðar haldi íslensk stjórnvöld áfram að leggja sitt af mörkum, einkum í samstarfi við stofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna sem gegni forystuhlutverki á þessu sviði. Störf Íslands verði unnin í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög og mannréttindasamninga og samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði. Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á að vera áreiðanlegur samstarfsaðili í mannúðarmálum og hafi fyrirsjáanleika og viðbragðsflýti að leiðarljósi. Lögð verði áhersla á mikilvægi samhæfingar aðgerða á vettvangi og að lífsbjargandi aðstoð nái til þeirra sem standa höllum fæti, þar á meðal fatlaðs fólks, og taki mið af þörfum allra kynja auk barna og ungmenna. Jafnframt verði lögð áhersla á að þarfagreining og ákvarðanataka um veitta aðstoð sé nærri haghöfum. Þá verði sjónum beint að viðbrögðum við og forvörnum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi þar sem neyð ríkir og hugað að samvirkni milli mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar. Íslensk stjórnvöld beini stuðningi sínum áfram til ríkja í Mið-Austurlöndum og í Afríku sunnan Sahara samkvæmt stefnumiðum í mannúðaraðstoð sem veiti nánari ramma um starfið.
    Hvað störf í þágu stöðugleika og friðar áhrærir verði áhersla lögð á að styrkja félagslega og borgaralega innviði í kjölfar átaka og bæta stjórnarhætti til að stuðla að stöðugleika og efla viðnámsþol samfélaga. Ísland styðji við uppbyggingu á þeim sviðum sem lögð er áhersla á í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð í samræmi við þarfir stjórnvalda og mat alþjóðlegra samstarfsaðila hverju sinni. Ísland beiti sér í þágu lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis þar sem stöðugleika er ógnað. Í ljósi ólöglegs innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu verði sérstaklega horft til Úkraínu og nærliggjandi ríkja.
    Í mannúðaraðstoð og störfum í þágu stöðugleika og friðar verði lögð áhersla á framkvæmd áætlunar Íslands um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og síðari ályktanir.
    Íslensk stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á eftirfarandi markmið í mannúðaraðstoð:
          að draga úr hungri og stuðla að fæðuöryggi,
          verndun og bætt lífskjör fólks á flótta,
          að framlög Íslands stuðli að bættu mannúðaraðgengi.
    Íslensk stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á eftirfarandi markmið í störfum í þágu stöðugleika og friðar:
          styrkingu félagslegra og borgaralegra innviða,
          virkt lýðræði og bætta stjórnarhætti.

3. Framkvæmd og samstarfsaðilar.
    Íslensk stjórnvöld haldi áfram að nýta fjölbreyttar leiðir við framkvæmd þróunarsamvinnu með það fyrir augum að vinna að framgangi framangreindra málaflokka. Þar beri hæst samstarf við tvíhliða samstarfslönd, fjölþjóðlegar stofnanir, félagasamtök, GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, aðila atvinnulífs og fræðasamfélagið. Gagnkvæm ábyrgð og traust verði leiðarstefið í samstarfi við fjölbreytta aðila til að vinna að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Eignarhald heimamanna verði lagt til grundvallar í öllu starfi, viðurkenndum starfsháttum fylgt og gagnsæi ávallt viðhaft. Verkefni sem íslensk stjórnvöld fjármagna skuli hafa mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfis- og loftslagsmál að leiðarljósi og virðing fyrir alþjóðlegum skuldbindingum skuli ævinlega höfð í heiðri. Með aukinn árangur og skilvirkni að leiðarljósi verði lögð áhersla á að auka samlegðaráhrif tvíhliða og fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu, mannúðaraðstoðar og starfa í þágu friðar. Íslensk stjórnvöld verði áreiðanlegur samstarfsaðili og veiti fyrirsjáanleg framlög en sýni jafnframt sveigjanleika þegar þörf krefur, t.d. þegar bregðast þarf skjótt við, með það fyrir augum að framlögin komi að sem mestu gagni. Við val á samstarfsaðilum verði litið til áherslna Íslands og miðað við að sem best samsvörun sé á milli þarfa viðtakenda og þess sem Ísland hefur fram að færa.

3.1. Tvíhliða þróunarsamvinna.
    Í tvíhliða þróunarsamvinnu verði lögð áhersla á samstarf við Malaví, Úganda og Síerra Leóne sem eru meðal allra fátækustu ríkja heims. Í gegnum tvíhliða þróunarsamvinnu taki íslensk stjórnvöld beinan þátt í þróunarverkefnum í samstarfslöndum. Þar verði unnið út frá mannréttindamiðaðri nálgun og lykiláhersla lögð á eignarhald heimamanna og leiðandi hlutverk þeirra í undirbúningi og framkvæmd verkefna í samræmi við þróunaráætlanir viðkomandi ríkja. Í samstarfslöndum Íslands verði lögð megináhersla á stuðning við skilgreind héruð og að unnið verði í nánu samstarfi við héraðsstjórnir og ráðuneyti. Með það fyrir augum að hámarka samlegð og árangur af starfi Íslands verði leitast við að starfa með öðrum samstarfsaðilum, til að mynda fjölþjóðlegum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífs og öðrum framlagsríkjum. Við skyndileg áföll og hamfarir í tvíhliða samstarfslöndum Íslands bregðist Ísland jafnframt við með skjótum hætti og hugi að samþættingu þróunarsamvinnu, mannúðaraðstoðar og friðaruppbyggingar þegar slíkt á við. Fylgt verði stefnumiðum í tvíhliða þróunarsamvinnu sem veiti nánari ramma um starfið. Framangreint útiloki hvorki að samstarf við önnur ríki verði skoðað og tekið upp á gildistíma stefnunnar né að samstarfi við eitthvert ríkjanna verði hætt.

3.2. Samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir.
    Í því skyni að hámarka áhrif framlaga og þátttöku Íslands verði samstarf Íslands við fjölþjóðlegar stofnanir áfram markvisst og áhersla lögð á samstarf við tilteknar stofnanir. Í þróunarsamvinnu verði áhersla á samstarf við Alþjóðabankann, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Hvað loftslagsmál áhrærir verði lögð áhersla á samstarf við Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund, GCF), Aðlögunarsjóðinn (Adaptation Fund) og Norræna þróunarsjóðinn (Nordic Development Fund, NDF). Í mannúðaraðstoð verði stuðningi beint til lykilstofnana Sameinuðu þjóðanna á því sviði: Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) og samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Því til viðbótar verði áfram haft samstarf við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC). Stuðningur íslenskra stjórnvalda við fjölþjóðlegar stofnanir felist áfram í samningsbundnum kjarnaframlögum í samræmi við bestu starfsvenjur, enda geri slík framlög stofnunum kleift að skipuleggja starf sitt í takt við stefnumótun sína og markmið. Jafnframt verði veitt framlög sem tengjast stefnu íslenskra stjórnvalda í tengslum við ákveðna málaflokka, ríki eða útsenda sérfræðinga á vettvangi. Fylgt verði stefnumiðum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu sem veiti nánari ramma um samstarfið.

3.3. Félagasamtök.
    Áfram verði veitt framlög til verkefna á vegum félagasamtaka á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, m.a. í gegnum rammasamninga til að auka skilvirkni og fyrirsjáanleika. Stuðningur við félagasamtök miði að því að efla og styrkja hið borgaralega samfélag sem gegni veigamiklu hlutverki, m.a. við að standa vörð um mannréttindi þeirra fátækustu og þeirra sem búa við mismunun. Unnið verði samkvæmt stefnumiðum um samstarf við félagasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð sem veita nánari ramma um starfið og verklagsreglum þar að lútandi. Enn fremur verði leitað leiða til þess að styðja félagasamtök á vettvangi í samstarfsríkjum.

3.4. GRÓ — Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu.
    Mikilvægt sé að þekking og reynsla Íslands nýtist áfram einstaklingum og stofnunum í lág- og millitekjuríkjum svo efla megi færni á þeim sviðum sem Ísland hefur sérþekkingu á. GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO og starfrækir Jafnréttisskóla, Jarðhitaskóla, Landgræðsluskóla og Sjávarútvegsskóla í samstarfi við íslenskar sérfræðistofnanir, gegnir mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Með niðurstöður jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) í huga verði skoðað með hvaða hætti hægt sé að efla starfið í því skyni að tryggja að þróunarframlög Íslands nýtist sem best og að sem mestur árangur náist af starfinu.

3.5. Aðilar atvinnulífs.
    Mikilvægt sé að íslenskt atvinnulíf styðji við sjálfbæra uppbyggingu í þróunarlöndum, t.d. með tekju- og atvinnuskapandi fjárfestingum og verkefnum sem stuðla að aukinni hagsæld og draga úr fátækt. Hvatt verði til eflingar nýsköpunar og áhersla lögð á að fjármögnun verkefna geti leitt til aukinna fjárfestinga annarra aðila. Áfram verði unnið að því að nýta íslenska sérþekkingu þegar færi gefst, enda búi íslensk fyrirtæki, háskólar, stofnanir og einstaklingar yfir margs konar þekkingu sem nýst geti við uppbyggingu í lágtekjuríkjum. Áfram verði unnið að því að efla þennan þátt starfsins og sérstaklega litið til ábendinga í jafningjarýni OECD (DAC) þar að lútandi. Mótuð verði stefnumið um samstarf við aðila atvinnulífs.

3.6. Fræðasamfélagið.
    Samstarf við fræðasamfélagið verði eflt, enda gegni það mikilvægu hlutverki þegar kemur að nýsköpun, menntun og rannsóknum og búi að ríkri sérþekkingu sem getur nýst á sviði þróunarsamvinnu. Jafnframt gegni fræðasamfélagið mikilvægu hlutverki í að auka þekkingu og skilning á málefninu. Með framangreint í huga verði sérstaklega hugað að möguleikum til að hvetja til aukinnar þátttöku fræðasamfélagsins í þróunarsamvinnu og efla samstarf milli háskóla á Íslandi og í tvíhliða samstarfslöndum á áherslusviðum Íslands. Þá verði hugað að því með hvaða hætti efla megi þátttöku nemenda og kennara og styðja við aukið háskólasamstarf til þekkingarmótunar og -miðlunar um þróunarsamvinnu á Íslandi.

4. Innra starf.
4.1. Kynning og fræðsla.
    Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á upplýsingagjöf og fræðslu um þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðarstarfi með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Lögð verði áhersla á að nýta nýjar hugmyndir og nálganir við kynningarstarf. Fjölbreyttar leiðir verði nýttar til að ná til almennings, m.a. með gagnvirkum gagnaveitum, samfélagsmiðlum og samstarfi við menntastofnanir, fjölmiðla, félagasamtök, fræðasamfélagið, félag og landsskrifstofur stofnana Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Árangri af þróunarsamvinnu og mannúðarstarfi verði komið á framfæri við almenning með viðeigandi umfjöllun sem byggist á virðingu fyrir fólki, ekki síst berskjölduðum hópum. Stefnumið upplýsingamiðlunar, kynningar og fræðslu um þróunarsamvinnu Íslands veiti nánari ramma um starfið.

4.2. Skilvirkni, árangur og eftirlit.
    Ábyrgð og heilindi verði höfð að leiðarljósi í allri þróunarsamvinnu Íslands. Fagleg vinnubrögð verði lögð til grundvallar þar sem árangur, skilvirkni og gagnsæi verði sett í forgrunn. Íslensk stjórnvöld hafi jafnframt upplýsingaskyldu gagnvart íslenskum almenningi, samstarfsaðilum og haghöfum um það hvernig þróunarframlögum Íslands er varið. Í því skyni verði upplýsingar um framlög, verkefni, samstarfsaðila og árangur af starfi gerðar aðgengilegar. Vinnulag sé ávallt í takt við bestu starfsvenjur og stuðli að því að auka gagnsæi og sporna gegn spillingu. Mat og úttektir unnar af utanaðkomandi aðilum verði mikilvægur þáttur í því að meta framkvæmd, skilvirkni og árangur. Niðurstöður úttekta, þ.m.t. af hálfu þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC), verði nýttar til umbóta í starfi.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 2023.