Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 873  —  286. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aldurstengda örorkuuppbót.


     1.      Hver yrði kostnaður ríkissjóðs af því að láta réttinn til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldast óbreyttan þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst?
    Árlegur kostnaður ríkissjóðs af því að láta réttinn til aldursviðbótar haldast óbreyttan þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst er áætlaður um 600 millj. kr. á ársgrundvelli. Er þá miðað við fjárhæð bóta 1. júlí 2023 og byggt á fjölda ellilífeyrisþega í júlí 2023.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til slíkrar lagabreytingar eða ráðstafana sem hefðu sambærileg áhrif?

    Afstaða ráðherra er sú að það er vilji til þess að tryggja að greiðslur til örorkulífeyrisþega lækki ekki við það eitt að fólk verður 67 ára og hefur töku ellilífeyris. Á það hefur þó verið bent að almennt lækka tekjur launþega við það að verða ellilífeyrisþegar og einnig hefur því verið haldið fram að ekki sé óeðlilegt að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur nemi hærri fjárhæð en ellilífeyrir þar sem almennt sé fjárþörf aldraðra ekki eins mikil og öryrkja, t.d. í tengslum við uppeldi barna og öflun húsnæðis. Þá kann að orka tvímælis að ellilífeyrisþegar sem áður voru öryrkjar eigi rétt til hærri greiðslna en þeir sem voru það ekki með hliðsjón af jafnræðissjónarmiðum.
    Ráðuneytið hefur aflað upplýsinga um áhrif fyrrgreindrar lagabreytingar í gildandi regluverki. Í ljósi hinna ólíku reglna sem gilda annars vegar um útreikning ellilífeyris og hins vegar örorkulífeyris og tengdra greiðslna hefur verið ákveðið að málið verði skoðað frekar í tengslum við heildarendurskoðun örorku- og endurhæfingarkerfisins og þá einföldun sem fyrirhuguð er á greiðslukerfi örorkulífeyris almannatrygginga.