Ferill 592. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 882  —  592. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993 (leiðrétting).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (TBE, ÁBG, DME, GE, JFF, SÞÁ).


1. gr.

    Í stað orðanna „á árunum 2022–2023“ í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögunum kemur: frá 1. janúar 2022 til 1. október 2024.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Við þinglega meðferð frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., sbr. 468. mál á yfirstandandi þingi, voru gerð tæknileg mistök sem þarf að leiðrétta.
    Um nýliðin áramót tóku gildi lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.), nr. 102/2023. Í 24. gr. breytingalaganna segir að orðin „frá 1. janúar 2020 til 1. október 2024“ skuli koma í stað orðanna „á árunum 2020–2023“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögum nr. 29/1993. Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII er ekki vísað til áranna „2020–2023“ heldur „2022–2023“. Af þeim sökum nær 24. gr. breytingalaganna ekki til 2. mgr. ákvæðisins. Er hér lagt til að þessi tæknilegu mistök verði leiðrétt þannig að ákvæðið, sem varðar skráða losun húsbíla, haldi gildi sínu til 1. október 2024.