Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 883  —  184. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun og lögum um ársreikninga (endurskoðunarnefndir,
siðareglur, sektarákvæði o.fl.).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Skattinum, endurskoðendaráði, Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni bárust fjórar umsagnir sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis. Þá barst nefndinni minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti. Málið var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi ( 981. mál) og var afgreitt með nefndaráliti, dags. 6. júní 2023 (þskj. 1988), en kom ekki til 2. umræðu á þingfundi. Við umfjöllun málsins nú hafði nefndin hliðsjón af umsögnum sem bárust nefndinni þá og fyrra áliti nefndarinnar um málið.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB. Innleiðing tilskipunarinnar og reglugerðarinnar kallar á breytingar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, og lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.
    Þá eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun sem lúta að því að skýra betur stöðu siðareglna endurskoðenda og hvaða siðareglum þeim beri að fylgja og breytingar á lögum um ársreikninga til einföldunar á stjórnsýsluframkvæmd mála þar sem lagðar hafa verið á stjórnvaldssektir vegna seinna skila ársreiknings eða samstæðureiknings félags.

Umfjöllun.
    Við framlagningu málsins á yfirstandandi löggjafarþingi var tekið mið af þeim breytingum sem nefndin lagði til á síðasta löggjafarþingi, en að öðru leyti er frumvarpið efnislega óbreytt. Þær umsagnir sem bárust nefndinni vegna málsins eru að mestu leyti samhljóða umsögnum sem bárust við umfjöllun nefndarinnar á fyrra þingi. Í ljósi þess að nefndin afgreiddi málið á fyrra löggjafarþingi, og fyrir liggur nefndarálit með breytingartillögu (þskj. 1988), er vísað til þess nefndarálits að öðru leyti en sérstaklega er fjallað um í áliti þessu.

Mat endurskoðendaráðs á frammistöðu endurskoðunarnefnda.
    Í b-lið 12. gr. frumvarpsins (108. gr. f) er kveðið á um að endurskoðendaráð skuli meta frammistöðu endurskoðunarnefnda. Með ákvæðinu er innleiddur c-liður 1. mgr. 27. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014. Í umsögn sem nefndinni barst er bent á að í 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar eru í a–d-lið talin upp þau atriði sem eftirlitsaðilar skuli einkum meta og því skorti skýringu á ástæðu þess að frumvarpið taki einungis upp c-lið ákvæðisins. Meiri hlutinn vekur athygli á að ákvæði reglugerðarinnar eru í heild sinni lögfest í 42. gr. laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, og falla því allir liðir 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar undir eftirlit endurskoðendaráðs.
    Þá sagði í umsögn sem nefndinni barst að ekki kæmi skýrt fram hvernig endurskoðunarráð eigi að haga eftirliti með endurskoðunarnefndum, m.a. út frá skörun við eftirlit fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands með eftirlitsskyldum aðilum. Fram komu sjónarmið um að undanskilja ætti þá aðila sem lúta eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands eftirliti endurskoðendaráðs. Að höfðu samráði við ráðuneytið telur meiri hlutinn það ekki til bóta af þeim ástæðum sem hér eru raktar.
    Í d-lið 5. gr. er lögð til breyting á lögum um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, nánar tiltekið að kveðið verði sérstaklega á um að endurskoðendaráð hafi eftirlit með frammistöðu endurskoðunarnefnda í samræmi við IX. kafla og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014. Þetta eftirlit ræðst af 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar. Í því ákvæði er fjallað um eftirlit með markaði fyrir þjónustu endurskoðunarfyrirtækja til handa einingum tengdum almannahagsmunum. Til að sinna því eftirliti eiga lögbær yfirvöld að leggja mat á fjögur atriði sem talin eru upp í ákvæðinu. Í fyrsta lagi er um að ræða áhættur sem skapast af tíðum annmörkum á gæðum hjá löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Í öðru lagi er um að ræða eftirlit með samþjöppunarstigi á markaði, í þriðja lagi frammistöðu endurskoðunarnefnda og í fjórða lagi ráðstafanir til að draga úr áhættu vegna atriða sem leitt gætu til þess að endurskoðunarfyrirtæki detta af markaði og rofs á veitingu endurskoðunarþjónustu. Eftirlitið snýr því aðallega að uppbyggingu endurskoðunarmarkaðarins. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar segir að lögbær yfirvöld skuli taka saman skýrslu þriðja hvert ár um þróun á markaðnum fyrir lögboðna endurskoðunarþjónustu til handa einingum tengdum almannahagsmunum og leggja hana fyrir evrópskar eftirlitsstofnanir. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands sinnir ekki umræddu eftirliti um þróun á markaði fyrir lögboðna endurskoðunarþjónustu skv. 27. gr. reglugerðarinnar og því er ekki um eiginlega skörun að ræða.
    Jafnframt er eins og áður segir lagt til í b-lið 12. gr. að við lög um ársreikninga bætist ný grein sem kveði á um að endurskoðendaráð skuli meta frammistöðu endurskoðunarnefnda. Í skýringum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu er vísað til 27. gr. reglugerðarinnar og sagt að eftirlit endurskoðendaráðs sé talið nauðsynlegt til að fylgjast með markaði fyrir þjónustu endurskoðunarfyrirtækja til handa einingum tengdum almannahagsmunum. Með vísan til sömu röksemda og fyrr greinir verður að telja að ekki sé um að ræða skörun á eftirliti endurskoðendaráðs og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Oddný G. Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. janúar 2024.

Teitur Björn Einarsson,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Steinunn Þóra Árnadóttir.