Ferill 472. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 894  —  472. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um upprunaábyrgðir á raforku.


     1.      Hvaða stórnotendur hér á landi kaupa upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum?
    Eftirfarandi stórnotendur keyptu upprunaábyrgðir fyrir alla eða hluta af sinni notkun á árinu 2022:
          *      Borealis Data Center (Etix)
          *      Verne Global

     2.      Hversu stór hluti raforku sem notuð er við álframleiðslu hér á landi er vottaður með upprunaábyrgðum? Telur ráðuneytið það hlutfall réttlæta þá staðhæfingu á vef Samtaka álframleiðenda að á Íslandi sé eingöngu notuð endurnýjanleg orka við álframleiðslu?
    Enginn álframleiðandi á Íslandi kaupir upprunaábyrgðir fyrir þá orku sem þeir nota. Eins og fram kemur í stöðuskýrslu Orkustofnunar frá nóvember 2023 (bls. 14) eru samningsaðilar ekki sammála um hver eigi tilkall til upprunaábyrgða orkunnar.

     3.      Hve mikill hefði kostnaður íslenskra álframleiðenda verið af því að votta framleiðslu sína með upprunaábyrgðum árið 2022, ef miðað er við meðalmarkaðsverð?
    Vegið meðalverð á upprunaábyrgðum fyrir vatnsafl á Norðurlöndum (Nordic Hydro) var samkvæmt Greenfact 332,23 evrusent/MWst árið 2022. Áliðnaðurinn notaði um 12,5 TWst árið 2021 og má því áætla að kostnaður við að kaupa á meðalverði hefði kostað áliðnaðinn um 41,5 milljónir evra árið 2022. Meðalmiðgengi evru árið 2022 var samkvæmt Seðlabankanum 148,15 kr. og hefði þessi kostnaður því verið um 6,1 milljarður kr. árið 2022.

     4.      Liggur fyrir mat á því hvaða áhrif það hafði á almenna neytendur að hætt var að láta upprunaábyrgðir fylgja sölu á raforku á heildsölumarkaði?
    Það er ekki algilt að upprunaábyrgðir fylgi ekki lengur sölu á raforku. Það er mismunandi eftir söluaðilum. Sumir framleiðendur hafa tekið þá ákvörðun að láta upprunaábyrgðir fylgja til neytenda fyrir eigin framleiðslu (t.d. Orkubú Vestfjarða). Aðrir framleiðendur hafa tekið þá ákvörðun að upprunaábyrgðir fylgi ekki (t.d. Landsvirkjun frá 1. janúar 2023).
    Í kjölfar ákvörðunar Landsvirkjunar um að hætta að láta upprunaábyrgðir fylgja með allri sinni sölu á heildsölumarkaði hættu margir smásalar að láta þær fylgja með sölu og buðu þess í stað upp á val um að kaupa upprunaábyrgðir. Orkusalan býður sínum viðskiptavinum að velja mismunandi leiðir. Þannig er hægt að kaupa SparOrku sem kostar 7,24 kr./kWst en GrænOrka sem er með upprunaábyrgðum kostar 10,99 kr./kWst, eða 52% meira.