Ferill 609. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 914  —  609. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023 (framlenging).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „29. febrúar“ í 1. málsl. 1. gr. laganna kemur: 30. júní.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. maí“ í 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: 30. september.

3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „28. febrúar“ í 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: 30. júní.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti og Vinnumálastofnun. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023. Breytingarnar eru lagðar til í því skyni að framlengja tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ í ljósi þeirrar óvissu sem enn ríkir vegna áframhaldandi jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Áfram ríkir mikil óvissa vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í tengslum við jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesskaga. Samkvæmt áhættumati almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra frá 12. janúar 2024 þykir dvöl í Grindavíkurbæ óásættanleg út frá öryggi almennings. Á grundvelli framangreinds áhættumats hefur embætti ríkislögreglustjóra ákveðið að beita heimild skv. 24. gr laga um almannavarnir, nr. 82/2008, og gefið fyrirmæli um brottflutning íbúa frá Grindavíkurbæ og bannað tímabundið alla dvöl og starfsemi á svæðinu. Hinn 14. janúar 2024 hófst eldgos skammt norðan Grindavíkur og ákvað ríkislögreglustjóri í kjölfarið, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, að hækka almannavarnastig frá hættustigi yfir í neyðarstig.
    Í ljósi áframhaldandi óvissu á svæðinu þykir mikilvægt að vernda yfir lengra tímabil en lögin ná til afkomu þeirra einstaklinga sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geta ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöðvar viðkomandi eru í sveitarfélaginu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að það tímabil sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023, er ætlað að ná til verði lengt til 30. júní 2024, en tímabilið hefði að óbreyttu liðið undir lok 29. febrúar 2024. Jafnframt er gert ráð fyrir að umsóknarfrestur um stuðning samkvæmt lögunum verði framlengdur til 30. september 2024. Þá er lagt til að komi til úthlutunar arðs hjá atvinnurekanda, sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa á grundvelli laganna, á tímabilinu 1. mars 2024 til og með 30. júní 2025 beri hlutaðeigandi atvinnurekanda að endurgreiða Vinnumálastofnun þann stuðning sem hann hefur fengið en gildandi lög miða við tímabilið 1. mars 2024 til og með 28. febrúar 2025.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalla á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í samráði við forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Vinnumálastofnun. Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í tengslum við jarðhræringar og eldsumbrot í Grindavíkurbæ og þeirrar miklu óvissu sem til staðar er varðandi áframhaldandi þróun hvað það varðar hefur reynst nauðsynlegt að víkja frá ákvæðum samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, sem samþykkt var á fundi ríkisstjórnar 24. febrúar 2023, hvað varðar frekara samráð um efni frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Mat á mögulegum útgjöldum ríkissjóðs byggist meðal annars á fyrirliggjandi mati á áhrifum laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023. Í því frumvarpi sem hér um ræðir er þannig ekki gert ráð fyrir breytingum hvað varðar þá einstaklinga sem lögunum er ætlað að taka til og er því enn gert ráð fyrir að lögin komi til með að ná til 1.500–2.000 einstaklinga. Í ljósi þess að frumvarp þetta gerir ráð fyrir að lögin gildi í lengri tíma en upphaflega var áætlað þegar þau tóku gildi má hins vegar gera ráð fyrir auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð sem nemur um 960–1.400 millj. kr. á mánuði.
    Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður Vinnumálastofnunar í tengslum við framkvæmd laganna komi til með að aukast við þá breytingu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. gr. laganna er kveðið á um að lögin gildi um tímabundinn stuðning til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði, sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ getur ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöð þess er staðsett í sveitarfélaginu, á tímabilinu frá og með 11. nóvember 2023 til og með 29. febrúar 2024. Jafnframt er kveðið á um að lögin gildi um stuðning við starfsfólk vegna launataps geti það af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum á sama tímabili og fær ekki greidd laun frá atvinnurekanda þrátt fyrir að ráðningarsamband sé til staðar. Þá er kveðið á um að lögin gildi um stuðning við sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna launataps geti þeir af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum á sama tímabili.
    Hér er lagt til að það tímabil sem lögunum er ætlað að ná til verði lengt til 30. júní 2024. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að vernda, yfir lengra tímabil en lögin ná til, afkomu þeirra einstaklinga sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geta ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöðvar viðkomandi eru í sveitarfélaginu, ekki síst þar sem ófyrirséð þykir hvort og þá hvenær unnt verður að hefja atvinnustarfsemi að nýju í sveitarfélaginu.

Um 2. gr.

    Í 3. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að umsóknir um stuðning samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 31. maí 2024. Í ljósi þess að frumvarp þetta gerir ráð fyrir að það tímabil sem lögunum er ætlað að ná til verði lengt til 30. júní 2024, sbr. 1. gr., er hér lagt til að umsóknir um stuðning samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 30. september 2024.

Um 3. gr.

    Í 3. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um komi til úthlutunar arðs hjá atvinnurekanda sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa á grundvelli laganna, á tímabilinu 1. mars 2024 til og með 28. febrúar 2025, beri hlutaðeigandi atvinnurekanda að endurgreiða Vinnumálastofnun þann stuðning sem hann hefur fengið á grundvelli laganna áður en til úthlutunar arðs kemur. Í ljósi þess að frumvarp þetta gerir ráð fyrir að það tímabil sem lögunum er ætlað að ná til verði lengt til 30. júní 2024, sbr. 1. gr., er hér lagt til að framangreint tímabil í tengslum við úthlutun arðs hjá atvinnurekanda sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa á grundvelli laganna verði lengt til 30. júní 2025.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.