Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 922  —  616. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um tekjuskatt (náttúruhamfarir í Grindavíkurbæ).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um skil á afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024, og skal nýr gjalddagi og eindagi þeirra vera 15. janúar 2025.
     b.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Með sama hætti verður ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða sem réttlæti frestun greiðslu skv. 3. málsl. 1. mgr. hafi arði verið úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2024 eða úttekt eigenda innan ársins 2024 farið umfram reiknað endurgjald þeirra. Fari arðgreiðsla, kaup eigin hluta eða úttekt skv. 2. málsl. fram eftir frestun greiðslu skv. 3. málsl. 1. mgr. skal um þá greiðslu fara eftir ákvæði 5. mgr.
     c.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Launagreiðanda sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 skv. 3. málsl. 1. mgr. er heimilt að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra vera 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025. Umsókn um aukinn frest skal beina til Skattsins á því formi sem hann ákveður eigi síðar en 31. janúar 2025. Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2025 eða úttekt eigenda innan ársins 2025 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á frestun greiðslna samkvæmt þessu ákvæði. Önnur skilyrði fyrir frestun samkvæmt þessu ákvæði eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 1. ágúst 2024 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, sl. þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi. Bú aðila skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal launagreiðandi ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna eða skiptingu rekstraraðilans og fyrirhugað er að halda rekstri sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um skil á staðgreiðslu tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024, og skal nýr gjalddagi og eindagi þeirra vera 15. janúar 2025.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Launagreiðanda sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 skv. 3. málsl. 1. mgr. er heimilt að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær greiðslur skiptist á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra vera 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
3. gr.

    Á eftir orðinu „janúar“ í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXXVII í lögunum kemur: febrúar, mars og apríl.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það kveður annars vegar á um framlengingu heimildar launagreiðenda í Grindavíkurbæ til að fresta staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds og má gera ráð fyrir að það hafi í för með sér mildun neikvæðra áhrifa jarðhræringa og eldsumbrota, sem hófust í og við bæinn 10. nóvember 2023, á lausafjárstöðu rekstraraðila. Hins vegar kveður frumvarpið á um að ákvæði til bráðabirgða LXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði framlengt um þrjá mánuði, þ.e. til loka aprílmánaðar 2024, en ákvæðið kveður á um að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, teljist ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025 að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Mikil röskun hefur orðið á allri starfsemi og búsetu vegna jarðhræringa og eldsumbrota í Grindavíkurbæ og óvíst er hver framvinda þeirra verður. Öllum íbúum Grindavíkurbæjar hefur verið gert að rýma hús sín og yfirgefa bæinn. Sú staða er því uppi að forsendur til atvinnurekstrar og búsetu í sveitarfélaginu hafa gjörbreyst á undanförnum rúmum tveimur mánuðum.
    Ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að draga úr tjóni rekstraraðila og íbúa vegna jarðhræringanna og eldsumbrotanna. Auk byggingar varnargarða í Svartsengi og við Grindavík hefur verið lögfest sérstakt tímabundið úrræði til að standa undir greiðslu launa til starfsmanna í fyrirtækjum á svæðinu. Þá hafa eftirfarandi fjórar ívilnandi aðgerðir verið lögfestar varðandi skattskil rekstraraðila og einstaklinga:
          Greiðslufrestur staðgreiðslu og tryggingagjalds. Heimild til handa launagreiðendum, sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls vegna náttúruhamfara í Grindavík, til að óska eftir greiðslufresti til ríkisskattstjóra á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð af afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem falla mun í gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Greiðslur sem frestað er falla í gjalddaga og eindaga 15. apríl 2024.
          Lækkun eða niðurfelling fyrirframgreiðslu tekjuskatts. Heimild til handa ráðherra að ákvarða með reglugerð að á árinu 2024 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu gjaldenda upp í tekjuskatt sem lagður er á á því ári vegna tekna ársins 2023 eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í lögum um tekjuskatt.
          Niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt. Heimild ríkisskattstjóra, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, til að fella niður álag á vangreiddan virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, vegna uppgjörstímabila frá og með 1. september 2023 til og með 31. desember 2024.
          Sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta ekki skattskyld. Sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003, og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum, telst ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025 að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði.
    Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í Grindavíkurbæ og hinnar erfiðu stöðu sem flestir rekstraraðilar og einstaklingar hafa þurft að búa við síðastliðna mánuði er talið tilefni til að leggja til framlengingu á þremur bráðabirgðaákvæðum sem kveða á um heimild til að fresta staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds annars vegar og skattfrelsi sérstakrar eftirgjafar vaxta og verðbóta af skuldum manna utan atvinnurekstrar af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, hins vegar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lögð til framlenging á þremur bráðabirgðaákvæðum á sviði skattamála til að koma til móts við vanda einstaklinga og rekstraraðila vegna jarðhræringanna og eldsumbrotanna í Grindavíkurbæ. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., nr. 102/2023, var lögfest heimild til að launagreiðendur sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, geti óskað eftir greiðslufresti á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð á afdregnum skatti í staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem falla munu í gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Greiðslur sem frestað er samkvæmt fyrrgreindum lögum falla í gjalddaga og eindaga 15. apríl 2024 enda hafi skilyrði frestunar verið til staðar. Í frumvarpi þessu er nú lagt til að fyrrnefndir launagreiðendur sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls geti óskað eftir greiðslufresti á greiðslum í ríkissjóð á afdreginni staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem falla mun í gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024, og verður nýr gjalddagi og eindagi þeirra 15. janúar 2025. Jafnframt er lagt til að launagreiðendum sem frestað hafa greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 verði heimilað að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og verða gjalddagar og eindagar þeirra 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025. Verði breytingatillögurnar að lögum verður launagreiðendum gert auðveldara að standa í skilum og má gera ráð fyrir að það styrki áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra.
    Þrír stærstu viðskiptabankar landsins í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja gerðu samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af skuldum vegna íbúðalána Grindvíkinga í nóvember og desember 2023 og janúar 2024. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að niðurfellingin takmarkist við allt að 50 millj. kr. lánsfjárhæð að hámarki. Útfærslan á niðurfellingunni er á forræði bankanna og takmarkar hún ekki að þeir geti veitt viðskiptavinum sínum frekari fyrirgreiðslu.
    Auk niðurfellingarinnar hafa viðskiptabankarnir boðið Grindvíkingum greiðsluskjól en í því felst frestun á öllum afborgunum á íbúðalánum. Samkvæmt lögum um tekjuskatt teljast til skattskyldra tekna hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Tekjuákvæði laganna eru víðtæk og taka til hvers konar verðmæta sem metin verða til fjár, í hvaða formi sem slíkur tekjuauki fellur skattskyldum aðila í hlut.
    Undantekningar frá skattskyldu eru sérstaklega tilgreindar í lögunum og ber samkvæmt almennri lögskýringarreglu að túlka þær þröngt. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., nr. 102/2023, var með bráðabirgðaákvæði LXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, gerð sú breyting að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003, og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum, telst ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025 að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði. Ákvæðið gildir um eftirgjöf sem reiknast af allt að 50 millj. kr. lánsfjárhæð hjá einstaklingi, hjónum eða samsköttuðum og hlutfallslega sé lánsfjárhæð hærri. Ákvæðið á ekki við gildi 3. tölul. 28. gr. tekjuskattslaga um eftirgjöf skulda við nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða í sérstökum tilvikum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum ákvæðisins. Kröfuhafi skal varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar eru byggðar á og uppfylla þannig upplýsingaskyldu skv. 92. gr. laga um tekjuskatt og skal veita upplýsingar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Þá er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd eftirgjafarinnar á grundvelli ákvæðisins.
    Í ljósi þess að þrír stærstu viðskiptabankar landsins hafa boðið Grindvíkingum að frysta íbúðalán sín hjá bankanum í þrjá mánuði til viðbótar og jafnframt fella niður vexti og verðbætur lánanna til aprílloka er í frumvarpi þessu lögð til framlenging á ákvæði til bráðabirgða LXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um þrjá mánuði, þ.e. til loka aprílmánaðar 2024.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess sérstaklega gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Þá segir í 1. mgr. 77. gr. að skattamálum skuli skipað með lögum, ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Að öðru leyti gefur efni frumvarpsins ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Aðstoð til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða samrýmist þó framkvæmd samningsins, sbr. b-lið 2. mgr. 61. gr. samningsins. Við undirbúning aðgerða til stuðnings íbúum og fyrirtækjum í Grindavíkurbæ sem lögfestar voru í desember 2023 var haft samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem hefur eftirlit með framkvæmd EFTA-ríkjanna á EES-samningnum. Á fundi með ESA kom fram að aðstoð sem afmarkaðist við fyrirtæki og einstaklinga innan skilgreinds svæðis sem hefðu orðið fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara væri ekki tilkynningarskyld. Voru því af hálfu ESA ekki gerðar athugasemdir við úrræðin sem samþykkt voru á haustþingi 2023, og að mati ESA ekki talin ástæða til að tilkynna um önnur sambærileg úrræði.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Skattinn.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 154. löggjafarþing 2023–2024. Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi sem fyrst var ekki kostur á að hafa samráð um áform og drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Heimild til að fresta staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem mælt er fyrir í frumvarpi þessu er ætlað að milda neikvæð áhrif tekjusamdráttar af völdum náttúruhamfara á lausafjárstöðu rekstraraðila í Grindavíkurbæ. Heimildin frestar gjalddögum og gerir rekstraraðilum því kleift að halda viðkomandi fjármunum tímabundið. Ekki er talið að áhrif á ríkissjóð af úrræðinu verði veruleg sökum þess að hve afmörkuðum hópi launagreiðenda það beinist og að um er að ræða frestun en ekki endanlega niðurfellingu. Lítil nýting núgildandi úrræðis í desember 2023 og janúar 2024 styður þá ályktun. Nýting þeirrar framlengingar sem hér er heimiluð veltur þó á ýmsum þáttum sem mikil óvissa er um og ekki síst framhaldi þeirra atburða sem enn er í gangi við Grindavík. Greiðslufrestun á staðgreiðslu hefur þau áhrif á ríkissjóð að tekjuinnstreymi tefst. Ríkissjóður mun fjármagna þann hluta staðgreiðslu launagreiðenda sem tilheyrir sveitarfélögum þannig að útsvarsgreiðslur berist þeim á réttum tíma. Það hefur í för með sér fjármagnskostnað fyrir ríkissjóð. Aukinn viðnámsþróttur þeirra fyrirtækja sem nýta sér úrræðið er þó einnig til þess fallinn að auka umsvif og skattgreiðslur síðar á árinu. Heildaráhrif á ríkissjóð eru því óviss en í öllu falli hlutfallslega lítil. Úrræðið mun hafa óveruleg áhrif á stjórnsýsluna þar sem það er þekkt fyrir en engu að síður kallar það á áframhaldandi umsjón og utanumhald innan Skattsins og Fjársýslunnar. Auk þess gæti orðið einhver fjölgun á kærum til yfirskattanefndar.
    Gert er ráð fyrir því að framlenging bráðabirgðaákvæðis LXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um skattfrelsi sérstakrar eftirgjafar vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, hafi óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Engar upplýsingar liggja fyrir um hugsanlegar fjárhæðir í því samhengi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. og 2. gr.

    Lagðar eru til breytingar á bráðabirgðaákvæðum XI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og XV í lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, í þá veru að launagreiðendur, sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, geti óskað eftir frestun á skilum á afdreginni staðgreiðslu af launum sem eru á gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024. Nýr gjalddagi og eindagi þeirra verður 15. janúar 2025. Þeim launagreiðendum sem frestað hafa greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 verður heimilað að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og verða gjalddagar og eindagar þeirra 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025.
    Samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæðum verður ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða í skilningi ákvæðanna ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2023 eða úttekt eigenda innan ársins 2023 fer umfram reiknað endurgjald þeirra. Með sama hætti er því lagt til að kveðið verði á um það í ákvæðunum að ekki verði fallist á frestun greiðslna í skilningi ákvæðanna ef launagreiðandi hefur úthlutað arði á árinu 2024 eða úttektir eigenda innan ársins 2024 hafa farið umfram reiknað endurgjald þeirra til þess tíma. Þá er tekið fram að fari arðgreiðsla, kaup eigin hluta eða úttekt fram eftir frestun greiðslu skuli um þá greiðslu fara eftir ákvæði 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í málsgreininni er kveðið á um að ef síðari skoðun leiði í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið til staðar skuli launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins skv. 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans sæta ekki öðrum viðurlögum.
    Gert er ráð fyrir að umsókn um aukinn frest verði beint til Skattsins á því formi sem hann ákveður eigi síðar en 31. janúar 2025. Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2025 eða úttekt eigenda innan ársins 2025 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á frestun greiðslna samkvæmt ákvæðunum. Önnur skilyrði fyrir frestun eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 1. ágúst 2024 og að hann hafi staðið skil á skattframtölum og lögboðnum fylgiskjölum sl. þrjú ár eða frá upphafi starfsemi. Þá skal bú aðila ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna eða skiptingu rekstraraðilans og fyrirhugað er að halda rekstri sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur.

Um 3. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða LXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði framlengt um þrjá mánuði, þ.e. til loka aprílmánaðar 2024, en ákvæðið kveður á um að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003, og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum, teljist ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025, að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.