Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 924  —  618. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023 (framlenging gildistíma stuðningsúrræðis).

Frá innviðaráðherra.



1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. maí 2024“ í 1. málsl. 4. mgr. 10. gr. laganna kemur: 30. september 2024.

2. gr.

    Tafla í 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
Fjöldi heimilismanna Hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings
1 150.000 kr.
2 198.000 kr.
3 232.500 kr.
4 252.000 kr.
5 272.160 kr.
6 eða fleiri 294.000 kr.

3. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „75%“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 90%.

4. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „29. febrúar 2024“ í 4. mgr. 15. gr. laganna kemur: 30. júní 2024.

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Lög þessi skal endurskoða eigi síðar en fyrir lok júní 2024.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 2. og 3. gr. gildi 1. febrúar 2024 og taka þær breytingar því til húsnæðiskostnaðar sem fellur til frá þeim tíma.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innviðaráðuneytinu. Með því er lagt til að gildistími heimildar til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings samkvæmt lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023, verði framlengdur um fjóra mánuði, til 30. júní 2024.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Heimild til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ tók gildi 19. desember 2023 við gildistöku samnefndra laga nr. 94/2003. Er markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurft hafa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkur vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Skv. 4. mgr. 15. gr. laganna nær heimildin til að greiða sértækan húsnæðisstuðning til leigukostnaðar Grindvíkinga sem fellur til á tímabilinu 10. nóvember 2023 til og með 29. febrúar 2024. Þá segir í bráðabirgðaákvæði við lögin að þau skuli endurskoða fyrir lok febrúar 2024. Skal það gert með tilliti til þess hvort þörf verði á framlengingu úrræðisins með hliðsjón af aðstæðum, eftir atvikum með breytingum á fyrirkomulagi þess, eins og segir í greinargerð með frumvarpi til laganna (þskj. 624, 537. mál á 154. lögþ.).
    Eins og kunnugt er var Grindavíkurbær rýmdur 10. nóvember 2023 eftir að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir neyðarstigi í bænum. Voru þá samkvæmt lögheimilisskrá Þjóðskrár um 1.120 heimili skráð í Grindavík, samtals um 3.730 íbúar. Hefur almannavarnastig í bænum ýmist verið á neyðar- eða hættustigi síðan þá. Eldgos sem hófst í nágrenni bæjarins 14. janúar 2024 jók verulega á það hættu- og óvissuástand sem ríkt hefur í bænum og er ekki fyrirsjáanlegt hvenær vænta má breytinga þar á.
    Við rýmingu Grindavíkurbæjar var gripið til ýmissa skammtímaúrræða til að hýsa bæjarbúa en frá þeim tíma hefur verið unnið að varanlegri lausnum á þeim húsnæðisvanda sem íbúar í Grindavík standa frammi fyrir. Má þar nefna kaup leigufélaganna Bríetar og Bjargs á íbúðum til útleigu til Grindvíkinga og sérstakt leigutorg. Sértækur húsnæðisstuðningur til lækkunar á húsnæðiskostnaði íbúa í Grindavík er mikilvægur hluti þessara úrræða.
    Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun höfðu vel á fimmta hundrað heimila í Grindavík sótt um sértækan húsnæðisstuðning frá gildistöku laganna fram í miðjan janúar 2024 er eldgosið hófst í nágrenni bæjarins. Hafði stofnunin þá gert ráð fyrir að um 600 heimili myndu sækja um slíkan stuðning áður en mánuðurinn væri á enda. Í ljósi nýliðinna atburða er hins vegar talið að mun hærra hlutfall íbúa í Grindavík en áður muni nýta þetta úrræði eða allt að 85–95% heimila.
    Ljóst er að á næstu mánuðum verður áfram þörf fyrir bæði sértækan húsnæðisstuðning við íbúa Grindavíkurbæjar sem og önnur þau úrræði sem gripið hefur verið til vegna húsnæðisvanda þeirra. Jafnframt er mikilvægt að reyna að skapa stöðugleika í húsnæðismálum Grindvíkinga eins og hægt er á meðan þetta ástand varir. Því er í frumvarpi þessu lagt til að gildistími sértæks húsnæðisstuðnings samkvæmt lögum nr. 94/2023 verði framlengdur til loka júní 2024.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér framlengingu á gildistíma heimildar til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings til Grindvíkinga um fjóra mánuði, til loka júní 2024. Jafnframt er lagt til að úrræðið verði rýmkað að tvennu leyti. Annars vegar verði þak á hlutfalli sértæks húsnæðisstuðnings af húsnæðiskostnaði hækkað úr 75% í 90%. Hins vegar verði gerð sú breyting á hámarki sértæks húsnæðisstuðnings miðað við fjölda heimilismanna að í stað þess að efsti flokkur verði fjórir heimilismenn eða fleiri verði hann sex heimilismenn eða fleiri og hámarksfjárhæð í efstu flokkunum hækkuð því til samræmis.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Vegna þess hve brýnt þótti að hraða framlagningu frumvarpsins voru áformaskjal og drög að frumvarpinu ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Við mat á áhrifum frumvarpsins hefur verið gert ráð fyrir að 85–95% heimila í Grindavík komi til með að nýta úrræðið. Miðað við það nemur áætlaður kostnaður um 212–237 millj. kr. á mánuði. Á fjögurra mánaða tímabili má því gera ráð fyrir að heildarkostnaður nemi á bilinu 850–950 milljónum kr., þar af eru sex milljónir vegna reksturs hugbúnaðar og almennrar umsýslu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Áhrif gildistöku breytinga varðandi fjölda heimilismanna og hlutfall húsnæðiskostnaðar í febrúarmánuði eru hins vegar talin rúmast innan áhrifamats gildandi laga.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 4. mgr. 10. gr. laganna er kveðið á um mörk umsóknarfrests um sértækan húsnæðisstuðning. Lagt er til að hann verði framlengdur um fjóra mánuði til samræmis við framlengingu úrræðisins, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Kveðið er á um hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðning miðað við fjölda heimilismanna í 1. mgr. 13. gr. laganna. Talin er þörf á því að tekið verði meira tillit til mannmargra heimila við ákvörðun hámarksstyrks. Því er hér lagt til að í stað þess að hámarksstyrkur miðist við fjóra heimilismenn eða fleiri verði miðað við sex heimilismenn eða fleiri og hámarksfjárhæð í efstu flokkunum hækkuð því til samræmis.

Um 3. gr.

    Sértækur húsnæðisstuðningur samkvæmt lögunum getur að hámarki numið 75% af húsnæðiskostnaði, þ.e. þess hluta leigufjárhæðar sem greiddur er fyrir leiguafnot af húsnæði, sbr. 14. gr. þeirra. Það hefur sýnt sig að koma þarf betur til móts við þarfir Grindvíkinga að þessu leyti og hækka þetta þak. Er hér lagt til að það verði hækkað í 90% af húsnæðiskostnaði.

Um 4. gr.

    Greinin felur í sér að gildistími heimildar til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ verði framlengdur um fjóra mánuði, til 30. júní 2024. Er það m.a. gert til að skapa svigrúm til að finna varanlegri lausnir í húsnæðismálum Grindvíkinga.

Um 5. gr.

    Kveðið er á um að lögin skuli endurskoða fyrir lok júní 2024 þar sem m.a. verður metin þörf á frekari framlengingu á gildistíma úrræðisins.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi. Þær efnislegu breytingar á sértækum húsnæðisstuðningi sem felast í 2. og 3. gr. taki þó gildi frá og með 1. febrúar 2024 og séu ekki afturvirkar fyrir þann tíma.