Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 931  —  625. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2023.


1. Inngangur.
    Árið 2023 færðist starfsemi Norðurlandaráðs að fullu í eðlilegt horf eftir nokkurra ára rask af völdum kórónuveirufaraldursins. Norðmenn voru í formennsku í Norðurlandaráði á árinu en Íslendingar fóru með formennsku í ríkisstjórnarsamstarfinu í Norrænu ráðherranefndinni. Vorþing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík í mars en þema þess var „Orkuframboð á óvissutímum“.
    Hugmyndir um endurskoðun Helsingforssamningsins, grundvallarsáttmála norræns samstarfs, sem fyrst komu til umræðu árið 2022 voru mjög fyrirferðarmiklar í dagskrá Norðurlandaráðs á árinu. Skipaður var starfshópur forsætisnefndar til að kanna málið nánar og móta tillögur um breytingar á samningnum. Í þessu sambandi var rætt um að bæta við ákvæðum um öryggis- og varnarmál, loftslagsmál og fleiri málaflokka sem af sögulegum ástæðum eru ekki nefndir í samningnum sem upphaflega var gerður árið 1962. Töluverður ágreiningur kom upp vegna óska Færeyinga um að fá fulla aðild að opinberu samstarfi Norðurlanda til jafns við Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð. Grænlendingar kröfðust þess einnig að fá meira vægi í samstarfinu og Múte B. Egede forsætisráðherra sagði á Norðurlandaráðsþingi í Ósló að ef ekki yrðu gerðar umbætur þyrftu Grænlendingar að endurskoða þátttöku sína í samstarfinu.
    Samningaviðræður milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlun norræns samstarfs voru stór þáttur í starfi ráðsins eins og verið hefur undanfarin ár og jafnframt var rætt um næstu þriggja ára starfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið frá 2025.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs mótaði formennskuáætlun fyrir árið 2024. Yfirskrift hennar er „Friður og öryggi á norðurslóðum“. Áætlunin var samþykkt á haustþinginu í Ósló og þar var Bryndís Haraldsdóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs árið 2024 og Oddný G. Harðardóttir varaforseti.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Rætur norræns þingmannasamstarfs má rekja til ársins 1907 þegar Norræna þingmannasambandið var stofnað. Alþingi tók þátt í störfum þess frá þriðja áratugnum. Með stofnun Norðurlandaráðs árið 1952 varð samstarfið formfastara. Stofnríki ráðsins voru Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð en Finnland bættist í hópinn árið 1955.
    Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Það kemur að jafnaði saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þingmenn sem eru valdir af norrænum þjóðþingum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, sem einnig eru nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingum. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð skiptast á um að fara með formennsku í ráðinu. Forseti og varaforseti hvers árs eru frá formennskulandinu.
    Þingfundir eru að jafnaði haldnir tvisvar á ári. Á þingfundum er fjallað um framkomnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Vorþing er að jafnaði haldið í mars eða apríl og haustþing um mánaðamót október og nóvember. Vorfundurinn er einnig nefndur þemaþing og er þar lögð áhersla á ákveðið málefni. Haustþingið er haldið í formennskulandi ársins. Þar gefa forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráðsþingi skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir komandi ár er að jafnaði samþykkt á haustþingi en Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin móta fjárhagsáætlun í sameiningu í viðræðum sem hefjast allt að ári fyrr. Á þinginu eru jafnframt forseti og varaforseti komandi árs kjörnir og skipað í nefndir og aðrar trúnaðarstöður.
    Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Flestar tillögur sem lagðar eru fram í Norðurlandaráði koma frá flokkahópum.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir starfi nefnda Norðurlandaráðs og samræmir það, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum og utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd getur skipað undirnefndir, vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefnd sér einnig um samskipti við þjóðþing utan Norðurlanda og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Norðurlandaráð á m.a. í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið, samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litáens.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytt list, og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu, þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta, og í framhaldi af því um frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd og náttúruauðlindir, þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar, þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórn, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á hið norræna velferðarlíkan. Nefndin fæst við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlanda. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og með aukakosningum í forsætisnefnd.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs í upphafi árs 2023 voru: Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sem er formaður, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, sem er varaformaður, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Orri Páll Jóhannsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Eyjólfur Ármannsson, þingflokki Flokks fólksins, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Sú breyting varð 18. september að Teitur Björn Einarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, tók við sem aðalmaður af Ásmundi Friðrikssyni.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs sátu Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson í forsætisnefnd, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir í þekkingar- og menningarnefnd, Guðmundur Ingi Kristinsson og Ásmundur Friðriksson í velferðarnefnd og Orri Páll Jóhannsson í hagvaxtar- og þróunarnefnd. Í september færðist Ásmundur Friðriksson í sjálfbærninefnd og þar tók Teitur Björn Einarsson einnig sæti þegar hann tók við af Ásmundi í Íslandsdeild Norðurlandaráðs síðar í sama mánuði.
    Vilhjálmur Árnason var fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) og Norræna þróunarsjóðsins (NDF). Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir sat fyrir hönd landsdeildarinnar í stjórn Norræna menningarsjóðsins en Guðmundur Ingi Kristinsson var varamaður. Bryndís Haraldsdóttir var fulltrúi landsdeildarinnar gagnvart Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC).
    Bryndís Haraldsdóttir var annar tveggja aðaltalsmanna forsætisnefndar Norðurlandaráðs gagnvart lýðræðisöflum í Belarús og Rússlandi og varatalsmaður nefndarinnar í málefnum sem varða Bretland og Skotland. Oddný G. Harðardóttir var annar aðaltalsmaður forsætisnefndar í málefnum sem varða Bretland og Skotland og varatalsmaður gagnvart Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál (CPAR). Hanna Katrín Friðriksson var aðaltalsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs gagnvart Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins og Benelúx-þinginu.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sjö sinnum á árinu. Fundað var í janúar, mars, maí, júní, september, október og desember. Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra fundaði þrisvar með landsdeildinni.

4. Fundir Norðurlandaráðs 2023.
    Fundir sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu sem fulltrúar Norðurlandaráðs eða Íslandsdeildar Norðurlandaráðs:

Janúar
     *      23.–24. janúar: Janúarfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi (Guðmundur Ingi Kristinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Orri Páll Jóhannsson).
Mars
     *      5.–6. mars: Fundur fastanefndar Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Brussel (Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
     *      14.–15. mars: Þemaþing Norðurlandaráðs í Reykjavík (allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
     *      16. mars: Fundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs í Reykjavík (Bryndís Haraldsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir).
     *      16. mars: Fundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs í Reykjavík (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir).
Apríl
     *      24.–26. apríl: Fundur þingmannanefndar um norðurslóðamál í Washington (Oddný G. Harðardóttir sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
Maí
     *      18.–19. maí: Ráðstefna Eystrasaltsþingsins um tengsl Austur- og Vestur-Evrópu í Tallinn (Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Oddný G. Harðardóttir sem fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
Júní
     *      11.–12. júní: Fundur fastanefndar Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Stralsund (Bryndís Haraldsdóttir sem fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
     *      26.–28. júní: Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Þrándheimi (Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir).
     *      26.–28. júní: Sumarfundur hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs á Svalbarða (Orri Páll Jóhannsson).
     *      26.–29. júní: Sumarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs í Nuuk (Guðmundur Ingi Kristinsson).
Ágúst
     *      22. ágúst: Fundur starfshóps Norðurlandaráðs um endurskoðun Helsingforssamningsins í Ósló (Hanna Katrín Friðriksson).
     *      25.–26. ágúst: Ungmennavettvangur Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Berlín (Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
     *      27.–29. ágúst: Ársfundur Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Berlín (Bryndís Haraldsdóttir sem fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
September
     *      4.–5. september: Septemberfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn (allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
     *      6. september: Fundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir).
     *      6. september: Fundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn (Bryndís Haraldsdóttir).
     *      13. september: Fundur Norðurlandaráðs um varnarmál í Stokkhólmi (Bryndís Haraldsdóttir).
     *      20. september: Fjarfundur starfshóps Norðurlandaráðs um endurskoðun Helsingforssamningsins (Hanna Katrín Friðriksson).
Október
     *      9.–10. október: Fundur starfshóps Norðurlandaráðs um endurskoðun Helsingforssamningsins í Kaupmannahöfn (Hanna Katrín Friðriksson).
     *      16.–18. október: Fundur þingmannanefndar um norðurslóðamál á Egilsstöðum (Oddný G. Harðardóttir sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs).
     *      30. október – 2. nóvember: Norðurlandaráðsþing í Ósló (Allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
Nóvember
     *      16. nóvember: Fjarfundur starfshóps Norðurlandaráðs um endurskoðun Helsingforssamningsins (Hanna Katrín Friðriksson).
     *      20. nóvember: Fjarfundur fjárhagsáætlunarhóps Norðurlandaráðs (Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúi miðflokkahópsins í Norðurlandaráði).
     *      27. nóvember: Fundur fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs með grænlenskum þingmönnum í Reykjavík (Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Hanna Katrín Friðriksson).
Desember
     *      3.–4. desember: Fundur fulltrúa Norðurlandaráðs með norrænum samstarfsráðherrum í Kaupmannahöfn (Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir).
     *      11.–12. desember: Desemberfundir Norðurlandaráðs í Espoo (Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný. G. Harðardóttir).
     *      12. desember: Fundur starfshóps Norðurlandaráðs um endurskoðun Helsingforssamningsins í Espoo (Hanna Katrín Friðriksson).

5. Starfsemi Norðurlandaráðs.
Formennskuáætlun Norðmanna.
    Norðmenn gegndu formennsku í Norðurlandaráði árið 2023. Forseti Norðurlandaráðs var jafnaðarmaðurinn Jorodd Asphjell og varaforseti var Helge Orten, þingmaður Hægriflokksins. Yfirskrift formennskuáætlunar Norðmanna var „Örugg, græn og ung Norðurlönd“. Í henni er fjallað um mikilvægi þess að takast á við loftslags- og umhverfisvá og standa vörð um lýðræðisleg gildi, um ógnir tengdar innrás Rússlands í Úkraínu, samstarf Norðurlanda um almannavarnir, varnarmál, aðfangaöryggi, endurnýjanlega orkugjafa, málefni ungs fólks og fleira.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stokkhólmi dagana 23.–24. janúar. Seinni daginn kom Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra á fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs til að ræða formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og fjárhagsáætlun norræns samstarfs. Sama dag var einnig haldinn sérstakur fundur með þátttöku allra þingmanna til að ræða hugsanlega endurskoðun Helsingforssamningsins. Ræðumenn á þeim fundi voru m.a. Guðmundur Ingi samstarfsráðherra, Henrik Wenander, prófessor við háskólann í Lundi í Svíþjóð, og Johan Strang, prófessor við Norðurlandastofnun Helsinkiháskóla. Að loknum fundum Norðurlandaráðs fór hluti íslensku landsdeildarinnar í heimsókn til skrifstofu Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar í Stokkhólmi.

Vorþing Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Vorþing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík dagana 13.–15. mars. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp á þinginu. Meginþema fundanna var „Orkuframboð á óvissutímum“ sem var ein af áherslunum í formennskuáætlun Norðmanna í Norðurlandaráði. Af því tilefni heimsóttu þingmenn Hellisheiðarvirkjun og nýsköpunarfyrirtæki í grenndinni. Einnig var haldið málþing um norræn orkumál með þátttöku Bryndísar Haraldsdóttur, Terje Aasland, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra og Jarand Rystad, framkvæmdastjóra norska ráðgjafafyrirtækisins Rystad Energy. Á þingið komu gestir frá Eystrasaltsþinginu og Benelúx-þinginu. Fram fór sérstök umræða með þátttöku allra þingmanna um mótun nýrrar starfsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið 2025–2030. Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tóku þátt í þeim umræðum. Á þinginu var samþykkt ný stefna Norðurlandaráðs í alþjóðamálum.

Sumarfundir nefnda Norðurlandaráðs.
    Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson sóttu sumarfund forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem haldinn var í Þrándheimi í Noregi dagana 26.–28. júní. Í tengslum við fundinn var farið í heimsókn í Frigård-herbúðirnar sem staðsettar eru inni í fjalli og þar sem m.a. eru geymd bandarísk hergögn samkvæmt samningi Bandaríkjamanna og Norðmanna. Einnig var Ørland-herflugvöllurinn skoðaður. Orri Páll Jóhannsson sótti sumarfund hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs á Svalbarða í lok júní og Guðmundur Ingi Kristinsson fór á fund sjálfbærninefndar í Nuuk á sama tíma.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Dagana 4. og 5. september funduðu flokkahópar og nefndir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Að fundunum loknum fór íslenska landsdeildin í heimsókn til norðurslóðastofnunarinnar Arktisk Institut.

Norðurlandaráðsþing í Ósló.
    Norðurlandaráðsþing var haldið dagana 30. október til 2. nóvember í Stórþinginu í Ósló. Allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið. Það hófst með ávarpi forseta norska þingsins, Masud Gharahkhani. Að því loknu var að venju haldinn leiðtogafundur með forsætisráðherrum Norðurlanda og stjórnarleiðtogum Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Þema leiðtogafundarins að þessu sinni var hvernig ná mætti markmiðum framtíðarsýnar Norðurlanda til ársins 2030. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, var sérstakur gestur þingsins. Í ræðu sinni sagði Stoltenberg m.a. að átökin á Gaza mættu ekki verða til þess að draga úr stuðningi við Úkraínu og að aðildarríki NATO yrðu að auka framlög til varnarmála og efla hergagnaframleiðslu. Hann sagði jafnframt að aðild Svía og Finna að NATO myndi styrkja samstarf norrænu landanna í varnarmálum en hann mælti gegn því að mynduð yrði norræn blokk innan samtakanna.
    Á þinginu kynnti Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, formennskuáætlun Svía í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2024 en yfirskrift hennar er „Öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd“. Áætlunin speglar í megindráttum þrjár megináherslur framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030 um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd en sérstök áhersla er lögð á hreyfanleika yfir landamæri og samþættingu.
    Samstarfs-, utanríkis- og varnarmálaráðherrar Norðurlanda, þar á meðal Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, fluttu á þinginu skýrslu og svöruðu spurningum þingmanna. Einnig komu á þingið Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, kom á þingið og fundaði með forsetum norrænu þinganna. Steinunn Þóra Árnadóttir kom einnig til Óslóar sem fulltrúi Vestnorræna ráðsins og sat fund með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs.
    Í lok þingsins var Bryndís Haraldsdóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs árið 2024 og Oddný G. Harðardóttir varaforseti. Bryndís kynnti formennskuáætlun Íslands fyrir árið 2024 með yfirskriftinni „Friður og öryggi á norðurslóðum“.
    Í tengslum við þingið var þingmönnum, forsetum þjóðþinga, forsætisráðherrum, utanríkisráðherrum, samstarfsráðherrum og nokkrum gestum til viðbótar að venju boðið í hádegisverðarmóttöku í konungshöllinni í Ósló þar sem norska konungsfjölskyldan tók á móti og ræddi við gestina.
    Verðlaun Norðurlandaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í óperuhúsinu í Ósló þriðjudagskvöldið 31. október. Meðal verðlaunahafa var Rán Flygenring sem hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndabókina Eldgos.

Desemberfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs.
    Desemberfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs var haldinn í menningarmiðstöðinni Hanaholmen í Espoo í Finnlandi dagana 11. og 12. desember. Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson sóttu fundinn. Í tengslum við hann heimsóttu forsætisnefndarmenn Sauli Niinistö, forseta Finnlands, og áttu við hann óformlegt samtal. Að fundum Norðurlandaráðs loknum kom starfshópur um endurskoðun Helsingforssamningsins saman. Jorodd Asphjell, formaður hópsins, var forfallaður og varaformaðurinn, Hanna Katrín Friðriksson, stýrði því fundi.

Alþjóðastarf.
    Þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku virkan þátt í alþjóðastarfi Norðurlandaráðs á árinu. Ýmsar tillögur voru til umræðu í forsætisnefnd og á þingfundum sem snerta þennan málaflokk. Samþykkt var tillaga frá flokkahópi norrænna vinstri grænna um norrænan stuðning við enduruppbyggingu Úkraínu.
    Árið 2022 var skipaður starfshópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs undir forystu þáverandi forseta Norðurlandaráðs, Erkki Tuomioja, og Lulu Ranne varaforseta til að móta nýja alþjóðastefnu til að leysa af hólmi þá stefnu sem gilti 2018–2022. Hanna Katrín Friðriksson átti sæti í hópnum. Ný stefna var samþykkt á vorþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars 2023. Í stefnunni segir að Norðurlandaráð eigi að vinna í þágu lýðræðis, mannréttinda og grænna umskipta á alþjóðavettvangi. Lögð er áhersla á þrjú svið: Öryggi á Norðurlöndum og nágrenni þeirra, heimsskipan sem byggist á reglum og norræna líkanið, og loks sjálfbæra þróun á Norðurlöndum og á heimsvísu.
    Utanríkis-, öryggis- og varnarmál voru í forgrunni á sumarfundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Þrándheimi í júní og sömuleiðis á Norðurlandaráðsþingi í Ósló þar sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var gestaræðumaður. Í september var jafnframt haldin árleg varnarmálaráðstefna forsætisnefndar í Stokkhólmi í samstarfi við sænsku formennskuna í NORDEFCO, varnarmálasamstarfi Norðurlanda. Bryndís Haraldsdóttir sótti ráðstefnuna.

Eystrasaltsþingið.
    Norðurlandaráð hefur um árabil átt í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið sem eru samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litáens. Þau voru stofnuð árið 1990 og svipar um margt til Norðurlandaráðs. Samstarfið styrktist enn í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu 2022 og mikilvægi þess var undirstrikað í nýrri alþjóðastefnu Norðurlandaráðs sem samþykkt var í mars. Fulltrúar forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins sóttu vorþing Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars og Norðurlandaráðsþing í Ósló í október/nóvember. Í maí fóru Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúar Norðurlandaráðs á ráðstefnu Eystrasaltsþingsins í Tallinn um tengsl Austur- og Vestur-Evrópu. Í september var árlegur fundur fulltrúa forsætisnefnda Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins haldinn í Tallinn en þangað fóru engir íslenskir þingmenn. Flokkahópur hægrimanna lagði á árinu fram tillögu um að leitað yrði leiða til að efla samstarf og samskipti Norðurlandaráðs við Eystrasaltsþingið og jafnframt að ríkisstjórnir Norðurlanda yrðu hvattar til að auka samstarfið við Eystrasaltsríkin. Sú tillaga var enn óafgreidd í lok árs.

Benelúx-þingið.
    Benelúx-þingið er samstarfsvettvangur þinga Belgíu, Hollands og Lúxemborgar og hefur það einnig átt í töluverðum samskiptum við Norðurlandaráð undanfarin ár. Formlegt samstarf Benelúx-landa á rætur að rekja til ársins 1944 en Benelúx-þingið, samstarfsvettvangur þingmanna, var stofnað 1955. Hanna Katrín Friðriksson var talsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs gagnvart Benelúx-þinginu á árinu.

Norðurslóðamál.
    Norðurlandaráð á áheyrnaraðild að Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál (CPAR) sem er samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðs. Oddný G. Harðardóttir tók þátt í fundum fastanefndar samtakanna sem fulltrúi Norðurlandaráðs í Washington 24.–26. maí og á Egilsstöðum 16.–18. október. Norðurslóðamál eru meginþema formennskuáætlunar Íslands í Norðurlandaráði 2024.

Fjárhagsáætlun og starfsáætlun norræns samstarfs.
    Árið 2019 setti Norræna ráðherranefndin sér framtíðarsýn til ársins 2030 um að Norðurlönd ættu að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Í framhaldi af því var mótuð framkvæmdaáætlun fyrir árin 2021–2024. Í henni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Útfærslan á þessari framtíðarsýn hefur mjög mótað tillögur Norrænu ráðherranefndarinnar að fjárhagsáætlunum sem lagðar hafa verið fyrir Norðurlandaráð undanfarin ár. Í þeim hafa tilfærslur milli málefnasviða verið meiri en oft áður. Fjármagn hefur verið veitt til verkefna sem miða að því að gera framtíðarsýnina að veruleika og skorið var niður á öðrum sviðum. Menningar- og menntamál hafa löngum verið fyrirferðarmikil í fjárhagsáætlunum norræns samstarfs og framlög til þeirra áttu að dragast verulega saman samkvæmt tillögum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þingmenn í Norðurlandaráði gagnrýndu þennan niðurskurð og töldu hann of harkalegan. Sú gagnrýni harðnaði enn eftir að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru tók að gæta í menningargeiranum á Norðurlöndum. Töldu margir þingmenn að taka þyrfti tillit til þessara sérstöku aðstæðna og endurskoða fjárhagsáætlunina til samræmis. Jafnframt vöruðu þeir við því að með niðurskurðinum væri verið að veikja sjálfan grundvöll norræns samstarfs. Samkomulag hefur þó alltaf tekist milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlanirnar og verulega hefur verið dregið úr fyrirhuguðum niðurskurði, m.a. með því að nýta afgang frá fyrri árum og með tilfærslu fjármuna milli sviða.
    Samhliða umræðu um niðurskurð og forgangsröðun hafa Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin unnið sameiginlega að endurskoðun á ferlinu við mótun fjárhagsáætlunar með það að markmiði að gera það skilvirkara og auka áhrif Norðurlandaráðs. Í samræmi við nýja verkferla sendi Norðurlandaráð Norrænu ráðherranefndinni strax í lok árs 2022 lista yfir forgangsmál fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 lagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra áherslu á náið samstarf og samráð við norsku formennskuna í Norðurlandaráði og sömuleiðis íslensku landsdeildina. Samkomulag um fjárhagsáætlunina náðist milli hans og norsku formennskunnar í byrjun mars. Það var síðan staðfest 14. mars á vorþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Samkvæmt samkomulaginu á að verja 20,5 milljónum danskra króna í stuðning til frjálsra félagasamtaka sem vinna að norrænu samstarfi og til menningar- og menntamála og fleiri málefna í samræmi við áherslur Norðurlandaráðs. Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar var endanlega samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Ósló um haustið.
    Á árinu 2023 hófst einnig undirbúningur vegna fjárhagsáætlunar norræns samstarfs fyrir árið 2025 og jafnframt var í mótun starfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið 2025–2027 sem byggir á framtíðarsýn norræns samstarfs til ársins 2030. Guðmundur Ingi samstarfsráðherra kom á fund Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars til að ræða þessi mál. Um sumarið lögðu nefndir og flokkahópar Norðurlandaráðs fram tillögur sínar um fjárhagsáætlunina sem forsætisnefnd miðlaði síðan áfram til Norrænu ráðherranefndarinnar. Í byrjun desember áttu Bryndís Haraldsdóttir og Oddný G. Harðardóttir síðan fund með Guðmundi Inga og Jessiku Roswall, samstarfsráðherra Svíþjóðar, um fjárhagsáætlun ársins 2025. Ráðgert hafði verið að Jorodd Asphjell, þáverandi forseti Norðurlandaráðs, og Helge Orten varaforseti væru einnig með á þeim fundi en þeir voru báðir forfallaðir.

Ráðherranefnd í samgöngumálum.
    Í tengslum við umræður um fjárhagsáætlun norræns samstarfs og við ýmis önnur tækifæri hélt Norðurlandaráð á lofti kröfu um stofnun ráðherranefndar í samgöngumálum. Slík ráðherranefnd var áður starfandi en lögð niður í tengslum við skipulagsbreytingar árið 2005. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu Norðurlandaráðs fékkst þessi krafa ekki samþykkt á árinu en viðræður við Norrænu ráðherranefndina halda áfram. Fram hefur komið að ráðherrar samgöngumála í Noregi, Danmörku og á Íslandi hafa stutt þessa tillögu Norðurlandaráðs en í Svíþjóð og Finnlandi hefur verið andstaða. Í júní tók við ný ríkisstjórn í Finnlandi. Nýr ráðherra samgöngumála er Lulu Ranne, sem sat áður í Norðurlandaráði og var varaforseti Norðurlandaráðs 2022. Í því hlutverki studdi hún óskir um stofnun ráðherranefndar í samgöngumálum þannig að hugsanlegt er að málið muni taka nýja stefnu.

Helsingforssamningurinn.
    Helsingforssamningurinn, grundvallarsáttmáli opinbers samstarfs Norðurlanda, átti 60 ára afmæli árið 2022 en skrifað var undir hann 23. mars 1962. Undir lok afmælisársins hófst umræða um hvort ástæða væri til að endurskoða samninginn en honum hefur verið breytt átta sinnum frá því að hann tók gildi, síðast árið 1995.
    Í tengslum við janúarfundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi stóð landsdeild Svíþjóðar fyrir umræðu um Helsingforssamninginn. Á fundi forsætisnefndar í Stokkhólmi var jafnframt til umræðu tillaga um skipan starfshóps um endurskoðun samningsins. Töluverðan tíma tók að ná samkomulagi um mönnun starfshópsins enda kom fram mikill áhugi hjá flokkahópum og þingmönnum Norðurlandaráðs á þessu verkefni. Ákveðið var að landsdeildir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar fengju sinn fulltrúann hver en jafnframt að gætt yrði að því að allir flokkahópar ættu fulltrúa. Íslandsdeild Norðurlandaráðs tilnefndi Hönnu Katrínu Friðriksson sem sinn fulltrúa í hópinn. Íslenskir þingmenn beittu sér einnig sérstaklega fyrir því að Færeyingar, Grænlendingar og Álendingar fengju að skipa fulltrúa í hópinn og jafnframt var ákveðið að Norðurlandaráð æskunnar fengi þar sæti. Á sumarfundi forsætisnefndar í Þrándheimi í júní tókst lok að ganga frá skipan hópsins. Samkvæmt umboði hópsins frá forsætisnefnd á hann að meta hvort þörf sé á því að uppfæra og breyta samningnum og þá jafnframt að gera tillögur um hvaða hluta hans eigi að endurskoða og hvort bæta þurfi við einhverjum málefnasviðum. Forsætisnefnd lagði jafnframt til að starfsáætlun hópsins yrði miðuð við að hægt væri að bera tillögu um endurskoðun samningsins undir þingfund á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík haustið 2024.
    Fyrsti fundur starfshópsins var haldinn í Stórþinginu í Ósló í ágúst 2023. Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs, var þá kjörinn formaður en Hanna Katrín Friðriksson varaformaður. Hópurinn hittist síðan ýmist á fjarfundum eða staðfundum í september, október, nóvember og desember. Vegna forfalla Jorodd Asphjell stjórnaði Hanna Katrín Friðriksson síðasta fundi starfshópsins á árinu sem haldinn var í Espoo í Finnlandi í desember.
    Þegar umræða hófst á vettvangi Norðurlandaráðs árið 2022 um mögulega endurskoðun samningsins var einkum rætt um að bæta þyrfti við ákvæðum um samstarf á sviði varnar-, öryggis- og utanríkismála. Fyrstu áratugina eftir stofnun Norðurlandaráðs voru þessi málefni að jafnaði ekki á dagskrá Norðurlandaráðs. Ástæðan var einkum þröng staða Finna sem urðu að taka tillit til hagsmuna og sjónarmiða Sovétríkjanna í utanríkis- og öryggismálum. Aðstæður breyttust eftir lok kalda stríðsins og með tímanum urðu utanríkismál og jafnframt öryggis- og varnarmál mjög áberandi í starfi Norðurlandaráðs. Málefni Eystrasaltsríkjanna og Belarús hafa þannig til dæmis oft verið til umræðu og eftir innrás Rússa 2022 hafa þingmennirnir lagt mikla áherslu á aðstoð við Úkraínu. Samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum og samfélagsöryggi í breiðum skilningi hefur einnig verið þeim hugleikið. Helsingforssamningnum hefur ekki verið breytt til samræmis við þessar áherslur.
    Í Norðurlandaráði eru utanríkis- og varnarmál á verksviði forsætisnefndar. Ólíkt flestum öðrum málaflokkum sem Norðurlandaráð fjallar um, til dæmis umhverfismál eða heilbrigðismál, er enginn gagnaðili í ríkisstjórnarsamstarfinu á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar sem fer með þessi málefni. Utanríkis- og varnarmálaráðherrar Norðurlanda hafa með sér náið samstarf en það heyrir ekki undir Norrænu ráðherranefndina. Um langt skeið hefur þó tíðkast að ráðherrar þessara málaflokka komi á Norðurlandaráðsþing, geri grein fyrir samstarfinu og svari spurningum þingmanna.
    Eftir því sem umræðu um mögulega endurskoðun Helsingforssamningsins vatt fram komu fram tillögur um að horfa til fleiri málaflokka, Ákvæði um umhverfismál hafa verið í samningnum frá upphafi en loftslagsmál eru þar ekki nefnd þó að þau hafi verið eitt helsta áherslumálið í norrænu samstarfi á síðustu árum. Einnig komu fram tillögur um að fjalla í samningnum um samfélagsöryggi í breiðum skilningi og um stjórnsýsluhindranir, svo að dæmi séu tekin. Jafnframt var rætt um að hugsanlega þyrfti að skilgreina sameiginleg gildi Norðurlanda og mögulega að gera samstarf landanna meira skuldbindandi.
    Það málefni sem einna mest var rætt á fyrstu fundum starfshópsins um endurskoðun Helsingforssamningsins og sem mestur ágreiningur varð um var staða Færeyja í norrænu samstarfi. Færeyingar hafa um langt skeið sóst eftir því að fá fulla aðild að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni til jafns við Svía, Dani, Norðmenn, Finna og Íslendinga en hingað til án árangurs. Breytingar voru þó gerðar á Helsingforssamningnum árið 1983 til að styrkja stöðu Álandseyja, Færeyja og Grænlands í norrænu samstarfi og svonefnt Álandseyjaskjal frá árinu 2007 miðaði að sama marki. Stuðningur við óskir Færeyinga um fulla aðild hefur í gegnum tíðina helst komið frá íslenskum þingmönnum, auk fulltrúa Álendinga og Grænlendinga. Strax eftir að starfshópurinn hóf að funda varð ljóst að Færeyingar myndu sækja það fast að fá í gegn kröfur sínar í tengslum við endurskoðun samningsins. Töluverður ágreiningur varð milli fulltrúa Færeyinga og Dana í hópnum um þetta atriði en jafnframt fór af stað vinna innan og utan hópsins til að reyna að ná samkomulagi sem báðir aðilar gætu sæst á.
    Sambærilegar kröfur um fulla aðild hafa ekki borist frá Grænlendingum og Álendingum í tengslum við störf hópsins. Í Grænlandi fór þó af stað vinna á pólitískum vettvangi til að móta nýja stefnu um stöðu og hlutverk landsins í norrænu samstarfi.
    Í formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði fyrir árið 2024 er lögð sérstök áhersla á vinnuna við endurskoðun Helsingforssamningsins. Í því sambandi er nefnt að koma megi öryggis-, varnar- og loftslagsmálum að í samningnum, að tryggja í honum rétt til að nota móðurmál sitt í norrænu samstarfi og jafna stöðu annars vegar þeirra sem hafa skandinavísk mál að móðurmáli og hins vegar þeirra sem tala íslensku, finnsku eða önnur mál. Jafnframt er lagt til að kannað verði hvort rétt sé að skilgreina í samningnum sameiginleg gildi Norðurlanda á borð við virðingu fyrir kynjajafnrétti, stöðu hinsegin fólks, lýðræði og mannréttindi.

Staða Grænlands í norrænu samstarfi.
    Í ræðu á Norðurlandaráðsþingi í Ósló í lok október sagði Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, að norrænt samstarf væri eins og átta manna vinahópur þar sem aðeins fimm fengju að vera með á mikilvægustu vinafundunum. Hann sagði að fyrirkomulag samstarfsins væri ekki í takt við tímann og margt þyrfti að bæta. Hann sagði að ef ekki yrði að gert myndu Grænlendingar þurfa að endurskoða þátttöku sína í samstarfinu.
    Orð Egedes vöktu mikla athygli, ekki síst meðal íslenskra þingmanna í Norðurlandaráði. Síðar á þinginu beindi Bryndís Haraldsdóttir spurningu til Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Hún vísaði þar til ummæla Egedes og innti eftir afstöðu Dana til aukinnar aðildar Færeyja og Grænlands að norrænu samstarfi. Hún fékk ekki svar frá Frederiksen í það sinn en við önnur tækifæri á þinginu lýsti danski forsætisráðherrann því yfir að Danir myndu styðja óskir Færeyinga og Grænlendinga um að fá sterkari stöðu í norrænu samstarfi.
    Í lok nóvember kom hópur grænlenskra þingmanna í heimsókn til Íslands Þeir funduðu m.a. með nokkrum þingmönnum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, þ.e. Bryndísi Haraldsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Hönnu Katrínu Friðriksson. Í hópi grænlensku þingmannanna var m.a. Doris J. Jensen sem á sæti í landsdeild Grænlands í Norðurlandaráði. Á fundinum var einnig Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Meginefni fundarins var staða Grænlands í norrænu samstarfi.
    Í formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði fyrir árið 2024 er fjallað um mikilvægi þess að Færeyingar, Grænlendingar og Álendingar taki þátt í öllum ákvörðunum sem þau varða á jafnræðisgrundvelli.

Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Fyrsta þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins (BSPC) var haldin í Helsinki í janúar árið 1991, tæpu ári áður en Sovétríkin liðu undir lok. Boðað var til ráðstefnunnar að frumkvæði Kalevi Sorsa, þáverandi forseta finnska þingsins. Síðan þá hafa ráðstefnur verið haldnar árlega en ársfundur árið 2020 var haldinn með fjarfundarfyrirkomulagi vegna heimsfaraldurs.
    Markmið þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins er að stuðla að samvinnu þjóð- og héraðsþinga og umræðu um málefni er snerta svæðið. Þingmannaráðstefnan er þannig vettvangur umræðu og gagnkvæmrar upplýsingagjafar þinga og annarra þátttakenda. Samtökunum er ætlað að efla undirstöður lýðræðis í aðildarríkjunum, styrkja samskipti ríkisstjórna, þinga og borgaralegs samfélags, efla samkennd á Eystrasaltssvæðinu með nánu samstarfi á jafnræðisgrundvelli milli þjóðþinga og héraðsþinga, og eiga frumkvæði að og leiða pólitískar aðgerðir á svæðinu og þar með veita þeim aukið lýðræðislegt og þinglegt lögmæti. Niðurstöður ársfundar þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins eru settar fram í formi ályktunar sem samþykkja þarf samhljóða. Stjórnarnefndin gerir drög að ályktun fyrir ráðstefnuna.
    Tíu þjóðþing, sjö héraðsþing og fimm alþjóðastofnanir eiga aðild að BSPC. Hvert aðildarþing og hver aðildarsamtök mega senda allt að fimm fulltrúa á árlegu ráðstefnuna. Frá Alþingi kemur að jafnaði einn fulltrúi. Jafnframt hefur einn íslenskur þingmaður stundum setið ráðstefnuna sem fulltrúi í sendinefnd Norðurlandaráðs og á kostnað þess. Milli ráðstefna fer stjórnarnefndin (e. Standing Committee) með æðsta ákvörðunarvald BSPC. Hún tekur ákvarðanir um markmið, pólitískar áherslur, starfshætti, fjármál og stjórnsýslu samtakanna. Stjórnarnefndin hefur jafnframt yfirumsjón með skipulagningu árlegu ráðstefnunnar. Í stjórnarnefndinni situr einn fulltrúi frá hverju aðildarþingi og aðildarsamtökum ráðstefnunnar.
    Aðildarlönd og aðildarsvæði fara með formennsku í samtökunum eitt ár í senn. Formennskuskipti verða á ársfundum sem að jafnaði eru haldnir í ágúst. Ólíkt því sem tíðkast í Norðurlandaráði fylgir formennskan ekki fastákveðinni röð heldur sækja lönd og svæði sérstaklega um að gegna henni. Ísland hefur aðeins einu sinni gegnt formennsku í samtökunum og var það 2005–2006.
    Þjóðverjar gegndu formennsku í þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins fram að ársfundi samtakanna sem haldinn var í Berlín í ágúst. Forseti í formennskutíð Þjóðverja var jafnaðarmaðurinn Johannes Schraps. Danir tóku við formennsku að loknum ársfundinum og jafnaðarmaðurinn Henrik Møller var kjörinn forseti.
    Bryndís Haraldsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í BSPC á árinu. Hún sótti einn fund fastanefndar samtakanna í Stralsund í júní og ársfundinn í Berlín í ágúst. Hanna Katrín Friðriksson sótti einnig ársfundinn í Berlín og fundi fastanefndarinnar í Brussel í mars og í Stralsund í júní sem fulltrúi Norðurlandaráðs.

6. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau nema 300.000 dönskum krónum.
    Verðlaunin voru að þessu sinni afhent við hátíðlega athöfn í óperuhúsinu í Ósló í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Á vef Norðurlandaráðs, norden.org, eru nánari upplýsingar um verðlaunin.

7. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2023.
    Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2024. Bryndís Haraldsdóttir er forseti ráðsins árið 2024 og Oddný G. Harðardóttir varaforseti. Norðurlandaráðsþing verður haldið í Reykjavík. Yfirskrift formennskuáætlunar Íslendinga árið 2024 er „Friður og öryggi á norðurslóðum“.

Alþingi, 25. janúar 2024.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Oddný G. Harðardóttir,
varaform.
Guðmundur Ingi Kristinsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson. Orri Páll Jóhannsson.
Teitur Björn Einarsson.


Fylgiskjal I.


Tilmæli sem samþykkt voru á árinu:
     *      Tilmæli 1/2023 – Norrænn stuðningur við enduruppbyggingu Úkraínu.
     *      Tilmæli 2/2023 – Samstarf Norðurlanda um öryggis- og varnarmál.
     *      Tilmæli 3/2023 – Bætt samstarf á milli lýðháskóla á Norðurlöndum.
     *      Tilmæli 4/2023 – Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2024.
     *      Tilmæli 5/2023 – Aukinn hreyfanleiki námsmanna á milli Norðurlanda.
     *      Tilmæli 6/2023 – Aukinn hreyfanleiki námsmanna á milli Norðurlanda.
     *      Tilmæli 7/2023 – Samnorrænt átak í tengslum við pílagrímsleiðir.
     *      Tilmæli 8/2023 – Alþjóðlegir jarðvangar.
     *      Tilmæli 9/2023 – Að efla og auka samstarf um rannsóknir og færni á sviði kjarnorkustarfsemi og óvirkjun kjarnorkuvera.
     *      Tilmæli 10/2023 – Norræn nefnd um starfsmenntun.
     *      Tilmæli 11/2023 – Norræn áætlun á sviði útivistar.
     *      Tilmæli 12/2023 – Sameiginlegar aðgerðir á Norðurlöndum til að auka þekkingu til að koma í veg fyrir og berjast gegn morðum í nánum samböndum.
     *      Tilmæli 13/2023 – Sameiginlegar aðgerðir á Norðurlöndum til að auka þekkingu til að koma í veg fyrir og berjast gegn morðum í nánum samböndum.
     *      Tilmæli 14/2023 – Sameiginleg lyfjainnkaup á Norðurlöndum.
     *      Tilmæli 15/2023 – Geðheilsa barna og ungmenna.
     *      Tilmæli 16/2023 – Ábyrgð fyrirtækja, mannréttindi og eignarréttur yfir náttúruauðlindum.
     *      Tilmæli 17/2023 – Lög um vistmorð.
     *      Tilmæli 18/2023 – Norrænt loftslagsbandalag.
     *      Tilmæli 19/2023 – Norrænt loftslagsbandalag.
     *      Tilmæli 20/2023 – Útbreiðsla og stuðningur við heimaræktun.
     *      Tilmæli 22/2023 – Sjálfbærari síldveiðar í Eystrasalti.
     *      Tilmæli 23/2023 – Skipaskemmtiferðir.
     *      Tilmæli 24/2023 – Skipaskemmtiferðir.
     *      Tilmæli 25/2023 – Lögreglu- og tollasamstarf.
     *      Tilmæli 26/2023 – Atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum.
     *      Tilmæli 27/2023 – Sameiginlegt átak um matvælaöryggi á Norðurlöndum.

Ákvörðun um innri málefni
     *      IB 1/2023 – Stefna í alþjóðamálum.

Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði 2023.

Örugg, græn og ung Norðurlönd.
    Ótryggur heimur kallar á öflugt norrænt samstarf. Við stöndum frammi fyrir loftslags- og umhverfisvá sem krefst hraðra breytinga og nýrra grænna lausna. Lýðræðislegum gildum er ógnað. Innrás Rússlands í Úkraínu er hindrun fyrir öryggi í Evrópu.
    Traust og samstaða milli norrænu landanna, með sameiginleg málsamfélög, gildi og menningartengsl, eru traustur grunnur fyrir norrænt samstarf. Og nú standa Norðurlönd í heild sinni saman í NATO. Sýn okkar fyrir norrænt samstarf er að við verðum sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030 með því að leggja áherslu á græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Það þýðir að við verðum að halda áfram að vinna að því að minnka stjórnsýsluhindranir milli landanna.
    Formennskuáætlun Noregs 2023 mun leggja sérstaka áherslu á samstarf um öryggi og viðbúnað, grænar lausnir fyrir orkumál og samgöngumál og ungmenni á Norðurlöndum. Undir formennskunni verður unnið að nýjum verkefnum og núverandi ráðleggingum á þessum sviðum.
    
Örugg Norðurlönd.
    Íbúar Norðurlanda vilja aukið samstarf um öryggis- og varnarmál, hættustjórnun og loftslagslausnir. Örugg Norðurlönd eru forsenda þess að norræna framtíðarsýnin verði uppfyllt. Heimsfaraldurinn leiddi í ljós að bæta má norrænt samstarf um almannavarnir. Nýta verður þann lærdóm sem var dreginn af heimsfaraldrinum til að bregðast við stóru áskorununum sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsvárinnar og öryggisástandsins.
    Aðfangaöryggi fyrir orku, mat, lyf og lækningabúnað er lykilatriði í því að efla norrænt samstarf. Noregur vill undir formennsku sinni fylgja eftir þeirri vinnu sem nú er í gangi til að auka samstarf um viðbúnað svo að við verðum betur búin undir neyð í framtíðinni.
    Noregur vill undir formennsku sinni stuðla að auknum umræðum um norrænt varnarsamstarf og áhrif þess að öll Norðurlöndin vilja nú eiga aðild að NATO.

Græn Norðurlönd.
    Endurnýjanlegir orkugjafar eru forsenda samfélags með litla losun og þess að loftslags- og sjálfbærnimarkmiðunum verði náð. Einnig hafa öryggisaðstæður sett orkumál efst á oddinn. Til að losa samgöngugeirann við jarðefnaeldsneyti þarf hreina orku. Í grænum umskiptum þurfum við bæði að gera umhverfisaðlaganir og tryggja líffræðilega fjölbreytni. Umskiptin yfir í hreina orku skapa einnig ný störf og tækifæri fyrir atvinnulífið. Við verðum að tryggja að grænu umskiptin verði inngildandi og á jafnréttisgrundvelli. Samstarf og rannsóknir og nýsköpun í tengslum við m.a. nýja tækni eru lykillinn að grænum umskiptum.
    Norðurlönd eiga að vera í fararbroddi hvað varðar endurnýjanlega orku, í lofti, á láði og legi. Sinna þarf innviðum á milli norrænu landanna. Við viljum ráðherranefnd um innviði sem vinnur að grænum lausnum í flutningageira og að auknum hreyfanleika.

Ung Norðurlönd.
    Veröldin stendur frammi fyrir loftslagsvá sem mun hafa áhrif á komandi kynslóðir. Líf barna og ungmenna hefur orðið fyrir áhrifum af heimsfaraldri. Geðheilsa er í brennidepli. Virk þátttaka barna og ungmenna í samfélaginu og lýðræðinu er grundvallaratriði. Þau notfæra sér stafræna vettvanga í miklum mæli, með þeim áskorunum og tækifærum sem þeim fylgja.
    Ungmenni dagsins í dag eru starfsfólk og atvinnurekendur framtíðarinnar. Menntun verður að taka mið af vinnumarkaði framtíðarinnar. Þátttaka á vinnumarkaði er hornsteinn norræna velferðarkerfisins og við verðum að tryggja góðan vinnumarkað. Það er áhyggjuefni hve stór hluti ungmenna dettur úr menntakerfinu og af vinnumarkaði, með neikvæðum afleiðingum fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið. Við verðum að efla tækifæri ungs fólks til menntunar og atvinnu alls staðar á Norðurlöndum. Hreyfanleiki þvert á landamæri er einnig fjárfesting í þekkingu, samkennd og trausti. Gagnkvæmur málskilningur og menningartengsl eru háð því að fólk hittist í ferðum, námi og vinnu.
    Á Norðurlöndum er rík hefð fyrir þátttöku barna og ungmenna. Noregur vill undir formennsku sinni leggja aukna áherslu á börn og ungmenni og þátttöku þeirra í samfélaginu.