Ferill 630. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.

Þingskjal 940  —  630. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2023.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) bar á árinu 2023 hæst umræðu um ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu, starf þingmannanefndar um norðurskautsmál án þátttöku Rússa og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
    Hinn 8. mars 2022 sendi þingmannanefndin frá sér yfirlýsingu varðandi stríðið í Úkraínu þar sem kemur fram að friðsamlegt samstarf á norðurslóðum sé nauðsynleg forsenda fyrir starfi þingmannanefndar um norðurskautsmál. Tilefnislaus innrás Rússa í Úkraínu hafi skapað nýjan og alvarlegan veruleika í alþjóðasamfélaginu sem kalli á endurskoðun diplómatískra samskipta. Þess vegna geri þingmannanefnd um norðurskautsmál tímabundið hlé á starfi sínu en fylgist áfram náið með þróun mála á svæðinu, með friðsamlega hagsmuni ríkja og íbúa norðurslóða í huga. Rússland studdi ekki yfirlýsinguna og lýsti yfir óánægju með ákvörðun nefndarinnar sem þeir töldu brjóta gegn eigin starfsreglum. Nefndin komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að samkvæmt starfsreglum nefndarinnar gætu nefndarmenn fundað að eigin vild án þátttöku Rússa.
    Nefndarmenn voru sammála um að samstarf þingmanna á norðurslóðum og í Norðurskautsráðinu gæti ekki verið með hefðbundnu sniði sökum innrásar Rússlands í Úkraínu en að þrátt fyrir stríðið og afleiðingar þess væri nauðsynlegt að halda áfram að vinna að mikilvægum málum á svæðinu eins og baráttunni gegn loftslagsbreytingum, bættum lífskjörum og réttindum frumbyggja og sjálfbærri þróun. Því var tekin ákvörðun í byrjun árs um að halda starfi þingmannanefndarinnar áfram án þátttöku Rússa og hélt nefndin tvo fundi á árinu.
    Formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu var ofarlega á dagskrá vegna breyttra aðstæðna eftir innrás Rússa í Úkraínu en Noregur tók við formennsku af Rússum í maí 2023. Í ágúst náðu aðildarríki ráðsins samkomulagi um fyrirkomulag til að hefja aftur störf á vettvangi vinnuhópa ráðsins sem legið hafði niðri vegna stríðsins í Úkraínu. Nýju viðmiðunarreglurnar byggjast á skriflegum samskiptum og gera vinnuhópunum kleift að halda áfram að vinna.
    Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar eru stærsta váin á norðurslóðum og ræddu fulltrúar þingmannanefndarinnar um það hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum þeirra, m.a. á samfélög á norðurslóðum, gróður og jarðvegselda, og hitastig hafsvæðis, en loftslagsbreytingar eru tvöfalt hraðari á svæðinu en annars staðar í heiminum.
    Jafnframt var tíðrætt um skipulag næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar (CPAR) sem fer fram í Kiruna í Svíþjóð í mars 2024. Tekin var ákvörðun um þrjú þemu ráðstefnunnar sem verða í fyrsta lagi öryggi og viðbúnaður á norðurslóðum með áherslu á það hvernig tryggja má að norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði þrátt fyrir aukna hernaðaruppbyggingu og spennu á svæðinu. Í öðru lagi verður fjallað um rannsóknir og fræðslu með áherslu á loftslagsmál, meðhöndlun úrgangs og hringrásarhagkerfið, í þriðja lagi verður rætt um atvinnulífið, atvinnutækifæri og leiðir til að námavinnsla verði sem sjálfbærust.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi hjá þingmannanefndinni má nefna málefni frumbyggja, sjálfbæra þróun, orkuskipti og matvælaöryggi. Að auki fóru fram umræður um stefnur aðildarríkjanna og Evrópusambandsins í málefnum norðurslóða og hvernig stuðla megi að áframhaldandi stöðugleika á svæðinu.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál ( Conference of Parliamentarians of the Arctic Region, CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál ( Standing Committee of Parliamentarians of the Arctic Region, SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti.
    Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Einnig hefur sérstök áhersla verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð íbúa norðursins. Enn fremur er rík áhersla lögð á að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði í alþjóðasamskiptum. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snerta forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið unnar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins. Sá fyrsti var undirritaður af aðildarríkjunum á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011, um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Segja má að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, sem og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Annar samningurinn var undirritaður á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013, um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi, og sá þriðji árið 2017, um aukið alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.
    Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 20. maí 2021 undirrituðu utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna metnaðarfulla ráðherrayfirlýsingu þar sem send eru skýr skilaboð um mikilvægi umhverfisverndar og rík áhersla lögð á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við afleiðingum þeirra, en jafnframt er sjálfbærri samfélags- og efnahagsþróun gerð góð skil. Eining um öfluga yfirlýsingu var sérstaklega mikilvæg að þessu sinni þar sem ekki tókst að ná samstöðu um ráðherrayfirlýsingu á ráðherrafundinum í Rovaniemi 2019. Þá náðu ráðherrarnir samkomulagi um framtíðarstefnu fyrir Norðurskautsráðið til næstu tíu ára. Þetta var í fyrsta skipti sem slík framtíðarstefna er samþykkt en að því hefur verið stefnt síðan ráðherrarnir kölluðu eftir því á fundi sínum í Fairbanks árið 2017. Framtíðarstefnan skilgreinir sjö markmið og tilgreinir nokkrar aðgerðir undir hverju þeirra sem miða að því að vinna að framgangi hvers markmiðs. Þess er vænst að framtíðarstefnan auki stefnufestu í störfum ráðsins umfram þá leiðsögn til tveggja ára sem hver formennskuáætlun hefur veitt hingað til.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Árið 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingflokki Flokks fólksins, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Óli Björn Kárason, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum var undirbúin og starf nefndarinnar rætt.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál árið 2023.
    Á venjubundnu ári kemur þingmannanefndin saman til funda tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Á árinu voru haldnir tveir fundir og tók formaður Íslandsdeildar þátt í báðum fundunum.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 26. apríl 2023.
    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) var haldinn 26. apríl. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, og Hildur Edwald, starfandi ritari. Helstu mál á dagskrá voru umræða um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál án þátttöku Rússa vegna innrásar Rússlands í Úkraínu og formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu. Einnig var á dagskrá stefna Bandaríkjanna í norðurslóðamálum og kynntu samtök frumbyggja störf sín. Þá var rætt um skipulagningu næstu ráðstefnu nefndarinnar sem halda á í Svíþjóð árið 2024 og næsta fund þingmannanefndarinnar sem var haldinn á Egilsstöðum á Íslandi í október (sjá fylgiskjal I).

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 16. og 17. október 2023.
    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál var haldinn 16. og 17. október á Egilsstöðum og var Íslandsdeild í gestgjafahlutverki á fundinum. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, Arna Gerður Bang, ritari, og Hildur Edwald, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru umræður um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál og hvernig hægt væri að halda starfinu áfram án þátttöku Rússa vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Morten Høglund, sendiherra norðurslóða og formaður formennsku Noregs í Norðurskautsráðinu, kynnti formennskuáætlun Noregs og helstu verkefni. Þá fór fram kynning á störfum og málefnum vinnuhópa Norðurskautsráðsins, CAFF og PAME, sem hafa aðsetur á Akureyri. Einnig var farið yfir starfið fram undan, ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem halda á í Kiruna í Svíþjóð í mars 2024 og áhersluatriði þar (sjá fylgiskjal II).

Alþingi, 1. febrúar 2024.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Eyjólfur Ármannsson,
varaform.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.


Fylgiskjal I.



FRÁSÖGN af fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál í Washington 26. apríl 2023.


    Fundur þingmannanefndar um norðurslóðamál var haldinn í Washington-borg í Bandaríkjunum 26. apríl 2023. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, og Hildur Edwald, ritari. Helstu mál á dagskrá voru umræður um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál og hvernig hægt væri að halda starfinu áfram án þátttöku Rússa eftir innrás þeirra í Úkraínu. Norðmenn fóru yfir formennskuáætlun sína og Bandaríkjamenn kynntu stefnu sína í norðurslóðamálum. Þá kynntu samtök frumbyggja störf sín og áherslumál. Einnig var fjallað um starfið fram undan, ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem halda á í Svíþjóð 2024 og næsta fund þingmannanefndarinnar sem fyrirhugað er að halda á Íslandi í október.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning formanns nefndarinnar, Aaju Chemnitz Larsen, á störfum stjórnarnefndar þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) á ráðstefnu sem haldin var í Nuuk á Grænlandi dagana 11.–13. september 2022. Hún sagði að áhugi á norðurslóðum hefði aukist og að mörg lönd sem ekki eru norðurslóðaríki sýndu málaflokknum mikinn áhuga. Þingmannanefndin leggur áherslu á frumbyggja, loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun. Chemnitz Larsen sagði að mikilvægt væri að íbúar norðurslóða tækju ákvarðanir um norðurslóðamál og að ákvarðanir yrðu ekki teknar án aðkomu þeirra.
    Chemnitz Larsen fjallaði einnig um viljayfirlýsingar um aukið samstarf við Vestnorræna ráðið og Efnahagsráð norðurslóða (e. Arctic Economic Council). Nefndin telur mikilvægt að hún sé sýnileg í umræðunni og vinnur að því að koma upplýsingum um sig sem víðast á framfæri. Nú hefur vefsíða þingmannanefndarinnar verið uppfærð og Facebook-síðu komið á fót. Til þess að halda starfinu áfram og gera það virkara og sýnilegra þarf að ræða fjármögnun og uppbyggingu samvinnunnar. Þá var rætt um að fjölga þátttakendum með því að fá fleiri fulltrúa frá hverju landi á fundi nefndarinnar.
    Næst á dagskrá var kynning á stefnu Bandaríkjanna í norðurslóðamálum. Varaformaður nefndarinnar, þingmaðurinn Lisa Murkowski, fór yfir stöðu norðurslóðamála í Bandaríkjunum. Hún ræddi sérstaklega um Alaska, sem er ríkið sem gerir Bandaríkin að norðurslóðaríki. Murkowski segir mikilvægt að halda norðurslóðamálum á lofti og vekja athygli á þeim í öllum Bandaríkjunum. Hún segir að helstu áskoranir séu loftslagsbreytingar en þær hafi áhrif á matvælaöryggi, flugvelli, fiskveiðar og í raun allt á norðurslóðum. Áhyggjur hafa aukist af flutningi ungs fólks frá svæðum í norðri, efnahagsástand er erfitt og atvinnuleysi útbreitt. Spyrja þarf hvað unnt sé að gera til að halda í ungt fólk og hjálpa þeim að byggja upp líf sitt á norðurslóðum. Murkowski sagði einnig frá lögum sem samþykkt hafa verið og eiga að stuðla að uppbyggingu í Alaska. Tók hún dæmi af lögum sem hafa áhrif á tækninýjungar í tengslum við hreina og endurnýjanlega orkugjafa og af lögum um uppbyggingu innviða.
    Þá kynntu Murkowski, David Bolton, framkvæmdastjóri stýrinefndar Hvíta hússins um norðurslóðamál, og Mike Sfraga, sendiherra Bandaríkjanna á norðurslóðum, nýja áætlun landsins í norðurslóðamálum. Áætlunin byggist á fjórum stoðum: öryggi, loftslags- og umhverfisvernd, sjálfbærri þróun og alþjóðlegri samvinnu.
    Þriðji dagskrárliðurinn var kynning fimm frumbyggjasamtaka á stöðu þeirra og starfi. Voru það Inuit Circumpolar Council (ICC), Arctic Athabaskan Council (AAC), Aleut International Association (AIA), Gwich'in Council International (GCI) og Sámi Parliamentary Council (SPC). Samtök þessi telja mjög mikilvægt að samstarf haldi áfram þrátt fyrir árás Rússa á Úkraínu. Aleut International Association og Gwich'in Council International hafa sérstakar áhyggjur af fólki sínu í Rússlandi. Fulltrúar samtakanna sögðu að mikilvægt væri að vinna að orkuskiptum og sjálfbærum lífsháttum. Náttúran tæki sér ekkert hlé, loftslagsbreytingar héldu áfram og menn yrðu að halda einbeitingu sinni.
    Í umræðum um framtíð norðurslóða og samstarfsins kom fram að allir aðilar teldu starf þingmannanefndarinnar afar mikilvægt og að halda yrði því áfram. Steinunn Þóra Árnadóttir, sem sat fundinn fyrir hönd Vestnorræna ráðsins, sagði að áherslumál nefndarinnar rímuðu mjög vel við áherslumál ráðsins sem væru orkuskipti, sjálfbærir lifnaðarhættir og matvælaöryggi. Líneik Anna Sævarsdóttir ræddi um mikilvægi hringrásarhagkerfisins og um vinnu að hringrásarlausnum sem henta aðstæðum á norðurslóðum. Innleiða þyrfti slíkar lausnir því að ótækt væri að flytja matvælaúrgang, pappír, plast og annan úrgang um langan veg til endurvinnslu. Hringrásarhagkerfið væri nátengt matvælaöryggi. Lagt var til að samstarf í rannsóknum og vísindum yrði unnið í persónulegu návígi í meira mæli. Það myndi hafa áhrif á ráðamenn. Slíkt væri betra en að ráðamenn tækju ákvarðanir og miðluðu þeim til samfélagsins. Þannig væri hægt að hvetja til samstarfs vísindamanna við rússneska rannsakendur. Hægt gæti á vísindastarfi og rannsóknum ef rússneskir vísindamenn draga sig algjörlega út úr hvers kyns samvinnu. Larsen lagði til að skrifað yrði bréf til Norðurskautsráðsins þar sem þetta yrði lagt til.
    Norðmenn taka við formennsku í Norðurskautsráðinu 11. maí. Lars Haltbrekken, þingmaður frá Noregi, kynnti formennskuáætlun Norðmanna. Þeir vilja styrkja þátttöku frumbyggjasamtaka í Norðurskautsráðinu og segja að virða þurfi rétt frumbyggja í hverju landi fyrir sig. Fimmta mál á dagskrá var ráðstefna þingmannanefndarinnar sem halda á í Svíþjóð árið 2024. Sænski þingmaðurinn Alexandra Anstrell greindi frá því að ráðstefnan yrði haldin í Kiruna í Svíþjóð. Óskað var eftir því að hún yrði haldin í mars en ekki apríl eins og ráðgert hafði verið.
    Sjötta mál á dagskrá var næsti fundur þingmannanefndarinnar sem haldinn verður á Íslandi í október í haust. Líneik Anna Sævarsdóttir tilkynnti að fundurinn yrði haldinn á Austurlandi dagana 16.–18. október en dagana á eftir fer ráðstefnan Hringborð norðurslóða fram í Reykjavík. Áætlað er að ferðast um Austurland og kynna náttúru og fyrirtæki á svæðinu.
    Eftir fund nefndarinnar, sem haldinn var í þinghúsi Bandaríkjanna, var haldið í norska sendiráðið þar sem sendiherrann bauð til vinnukvöldverðar. Á meðan á kvöldverði stóð héldu þingmenn stutta kynningu á því sem efst er á baugi varðandi norðurslóðamál í hverju landi fyrir sig. Lars Haltbrekken sagði frá því að Norðmenn ætluðu að hætta að nota kol á Svalbarða og nota dísil í staðinn. Dísill væri hins vegar ekki umhverfisvænn og stefna Norðmenn á að byggja upp miðstöð endurnýjanlegrar orku á Svalbarða. Hann stakk upp á því að hætt yrði að tala um vandamál norðurslóða en í staðinn rætt um tækifæri þeirra.
    Líneik Anna Sævarsdóttir sagði frá markmiðum Íslands varðandi orkuskipti. Megnið af endurvinnanlegri orku Íslendinga kæmi úr jarðvarma og vatnsafli. Unnið væri að því markmiði að losna við olíu og gas með öllu. Samhliða því færi nú fram mikil umræða á Íslandi um að nýta einnig vindorku. Líneik Anna ræddi einnig um mikilvægi máltækni til að tryggja framtíð tungumála. Á norðurslóðum eru mörg lítil málsvæði og mikilvægt að gæta þess að tungumál glatist ekki. Þá fjallaði hún um áskoranir og möguleika í tengslum við ferðamannaiðnað á Íslandi. Alexandra Anstrell, þingmaður frá Svíþjóð, sagði að þar í landi kæmist ekkert annað að en NATO þessa dagana. Orkumál og orkuskipti væru þó einnig ofarlega á baugi.
    James Maloney, þingmaður frá Kanada, fjallaði um stöðuna í landi sínu. Hann lagði áherslu á að menn nýttu tækifæri sem gæfust vegna loftslagsmála, m.a. efnahagsleg tækifæri. Kanadamenn ættu við sama vanda að etja og Bandaríkjamenn, sem sé þann að í suðurhluta landsins væri fólk síður upplýst um málefni norðurslóða. Draga þyrfti athygli þeirra sem þar búa að þeim. Oddný G. Harðardóttir var fulltrúi Norðurlandaráðs á fundinum og fjallaði um mikilvægi samstarfs á þessum vettvangi. Flest norræn ríki væru norðurslóðaríki og það væri gleðiefni hversu vel áherslumál Norðurlandaráðs og þingmannanefndar um norðurslóðamál færu saman. Steinunn Þóra Árnadóttir, fulltrúi Vestnorræna ráðsins á fundinum, tók í sama streng. Á síðasta ársfundi Vestnorræna ráðsins var einblínt á matvælaöryggi sem einnig er ofarlega á baugi í norðurslóðasamstarfi. Samstarf milli þingmannanefndarinnar og Vestnorræna ráðsins væri mikilvægt og samlegðaráhrif mikil.
    Að lokum fór Aaja Chemnitz Larsen yfir stöðuna í Danmörku en þar hafa farið fram þingkosningar og ný ríkisstjórn verið mynduð. Grænlendingar eiga nú fulltrúa í utanríkismálanefnd í fyrsta sinn í sögunni. Frekari upplýsingar fást hjá ritara Íslandsdeildarinnar og á vefsvæðinu arctic-council.org/.


Fylgiskjal II.



FRÁSÖGN af fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál á Egilsstöðum, 16. og 17. október 2023.


    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) var haldinn á Egilsstöðum 16. og 17. október 2023. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar, og Hildar Edwald, alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru umræður um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál og hvernig hægt væri að halda starfinu áfram án þátttöku Rússa vegna stríðsins í Úkraínu. Morten Høglund, sendiherra norðurslóða og formaður formennsku Noregs í Norðurskautsráðinu, kynnti formennskuáætlun Noregs og helstu verkefni. Þá fór fram kynning á störfum og málefnum vinnuhópa Norðurskautsráðsins, CAFF og PAME, sem hafa aðsetur á Akureyri. Einnig var farið yfir starfið fram undan, ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem halda á í Kiruna í Svíþjóð í mars 2024 og áhersluatriði þar.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning formanns nefndarinnar, Aaju Chemnitz Larsen, á störfum SCPAR. Hún sagði meginhlutverkið vera að undirbúa sameiginlegar tillögur í aðdraganda næstu CPAR-ráðstefnu sem haldin verður í Kiruna í mars 2024 sem yrðu sendar til ríkisstjórna aðildarríkjanna í kjölfarið. Þá greindi hún frá því að hún hefði skrifað undir samstarfsyfirlýsingu við ICC ( Inuit Circumpolar Council) fyrir hönd SCPAR. Jafnframt sagði hún frá starfi vinnuhóps sem skoðar möguleika á fjármögnun á skrifstofu þingmannanefndarinnar. Hópinn skipa þrír þingmenn, frá Svíþjóð, Noregi og Grænlandi, og er vinna hans hafin. Jafnframt hefur Larsen fengið styrk frá danska þinginu að upphæð 20.000 evrur til að sækja fundi og viðburði fyrir hönd þingmannanefndarinnar á meðan hún gegnir formennsku. Þá bauðst Kanada til að útvega nefndinni vinnuframlag starfsnema ef á þyrfti að halda. Að lokum lýsti Larsen því yfir að hún hefði áhuga á að gegna formennsku í þingmannanefndinni annað kjörtímabil (2024–2026) og það sama ætti við um varaformann nefndarinnar, öldungadeildarþingmanninn Lisu Murkowski. Nefndarmenn fögnuðu þeirri yfirlýsingu.
    Næst á dagskrá var kynning Kára Fannars Lárussonar, verkefnastjóra hjá CAFF, vinnuhópi Norðurskautsráðsins um vernd lífríkis á norðurslóðum og líffræðilegan fjölbreytileika. Hann lagði áherslu á að til að hægt væri að varðveita umhverfið á árangursríkan hátt og stuðla að efnahagslegri þróun væri þörf á ítarlegum grunngögnum, þ.m.t. um stöðu og þróun líffræðilegrar fjölbreytni á norðurslóðum, búsvæði og heilbrigði vistkerfa. CAFF væri að þróa ramma og nauðsynleg tól svo að hægt væri að meta stöðuna til lengri tíma og greiningar yrðu áreiðanlegri. Þá kynnti Hjalti Hreinsson, verkefnisstjóri hjá PAME, vinnuhópi Norðurskautsráðsins um verndun hafsvæða, helstu verkefni og áherslur. Hann greindi m.a. frá því að nú gæti vinnuhópurinn loks birt skýrslur um skipaflutninga sem hefðu aukist um 30% á síðustu árum en skipin eru ekki aðeins fleiri heldur sigla þau lengra vegna minni hafíss á norðurslóðum.
    Þá var rætt um stöðu mála hjá Norðurskautsráðinu í ljósi breyttra aðstæðna eftir ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 og um formennskuáætlun Noregs í ráðinu 2023–2025. Í ágúst síðastliðnum náðu aðildarríkin samkomulagi um fyrirkomulag til að hefja aftur störf á vettvangi vinnuhópa ráðsins sem legið hefur niðri vegna stríðsins. Nýju viðmiðunarreglurnar byggjast á skriflegum samskiptum og gera vinnuhópunum kleift að halda áfram að eflast og vinna verkefni sín. Í því felst m.a. að taka ákvarðanir um framhaldið, svo sem að leggja til ný verkefni um aðkallandi mál á norðurslóðum. Þá geta þeir einnig haldið áfram samstarfi við áheyrnarfulltrúa og utanaðkomandi sérfræðinga en framlag þeirra til verkefnavinnu ráðsins er mikilvægt.
    Morten Høglund svaraði spurningum nefndarmanna og ræddi um formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu. Hann sagði áherslu lagða á fjögur atriði, í fyrsta lagi hafið, í öðru lagi loftslags- og umhverfismál, í þriðja lagi sjálfbæra efnahagsþróun og í fjórða lagi fólkið í norðri. Að auki myndu Norðmenn leggja sérstaka áherslu á ungmenni á norðurslóðum og frumbyggja. Þá sagði hann að vegna stríðsins í Úkraínu og þeirrar erfiðu stöðu sem það skapaði væri ekki hægt að halda formlega fundi í vinnuhópum með öllum aðildarríkjum. Samkomulag væri um að nota skriflegar verklagsreglur við ákvarðanatöku sem næðu til allra aðildarríkja. Norðurskautsráðið væri stofnun sem byggðist á samstöðu og að öll ríki hefðu jafnan rétt.
    Líneik Anna Sævarsdóttir spurði Høglund út í starf vinnuhópanna og hvort hann teldi raunhæft að byrja á nýjum verkefnum á næstu mánuðum við þessar aðstæður. Hann sagði krefjandi að taka ákvarðanir um ný verkefni með skriflegum samskiptum og verið væri að skoða óformlegar leiðir til að komast að niðurstöðu um verkefnaval. Það væri of snemmt að svara því hvort þessi aðferð yrði farsæl og mikilvægt að gagnrýnin endurskoðun ætti sér stað á öllum verkefnum.
    Þá var rætt um skipulag næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin verður í Kiruna 20.–23. mars 2023. Lögð verður áhersla á þrjú þemu. Í fyrsta lagi öryggi og viðbúnað á norðurslóðum. Þar verður sjónum m.a. beint að því hvernig við tryggjum að norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði þrátt fyrir aukna hernaðaruppbyggingu og spennu á svæðinu. Í öðru lagi verður fjallað um rannsóknir og fræðslu með áherslu á loftslagsmál og meðhöndlun úrgangs. Í þriðja lagi verður rætt um atvinnulífið og hvernig hægt sé að nýta möguleika fyrirtækja á sem arðbærastan hátt. Aaja Chemnitz Larsen benti á að ályktun ráðstefnunnar gæti einnig falið í sér aðra þætti en fyrrnefnd þemu og nefndarmenn ættu að vera opnir fyrir því. Jafnframt ítrekaði hún mikilvægi þess að ályktunin yrði stutt og hnitmiðuð.
    Að lokum var rætt um málefni norðurslóða innan einstakra aðildarríkja. Líneik Anna Sævarsdóttir sagði frá árlegri ráðstefnu, Hringborði norðurslóða, sem fer fram í Reykjavík 19.–21. október sem hluti fundarmanna mun sækja. Ráðstefnan er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir umræðu um málefni norðurslóða og hefur verið haldin árlega í Hörpu frá árinu 2013. Þar koma saman þjóðarleiðtogar, stjórnendur vísindastofnana og fyrirtækja, sérfræðingar í umhverfismálum, fulltrúar frumbyggja og frumkvöðlar víðs vegar að úr heiminum. Á þinginu verða yfir 200 málstofur með um 700 ræðumönnum, þar á meðal utanríkisráðherrum, umhverfisráðherrum og forystumönnum vísindastofnana, umhverfissamtaka, fyrirtækja og frumbyggjasamfélaga.
    Lars Haltbrekken frá Noregi sagði frá tillögu þingsins til ríkisstjórnar um námugröft í sjó og að hún yrði tekin til afgreiðslu á haustmánuðum. Skiptar skoðanir væru á því hvort samþykkja ætti tillöguna þar sem umhverfisáhrifin væru augljós. Sænska þingkonan Alexandra Anstrell sagði áhersluna í Svíþjóð vera á umræðu um aðildarumsókn landsins að NATO og að vonir stæðu til að full aðild yrði í höfn í október nk. en það væri undir Erdogan, forseta Tyrklands, komið. Þá sagði hún að bæði þingforseti Svíþjóðar og utanríkisráðherra tækju þátt í ráðstefnu nefndarinnar í Kiruna á næsta ári. Enn fremur sagði kanadíska þingkonan Yvonne Jones frá áætlun um hreina orku fyrir samfélög á landsbyggðinni í Kanada. Mörg samfélög notuðust enn við dísilolíu og markmiðið væri að því yrði hætt. Einnig greindi hún frá undirritun samnings milli Nunavuk og Íslands um ný orkuverkefni varðandi hreina orku. Að lokum fór Aaja Chemnitz Larsen yfir stöðuna á Grænlandi og sagði mikla óánægju með það að enn væri ekki búið að samþykkja norðurslóðastefnu auk þess sem Grænlendingar vildu fá að skipa sérstakan sendiherra norðurslóða.
    Peder Pedersen, framkvæmdastjóri nefndarinnar, sem gegnt hefur embættinu frá árinu 2020, hyggst láta af störfum á ráðstefnunni í Svíþjóð í mars 2024, en hann heldur áfram sem ritari landsdeildar Danmerkur/Grænlands. Formaður nefndarinnar tilkynnti að nýr framkvæmdastjóri nefndarinnar yrði Arna Gerður Bang, sérfræðingur á alþjóðadeild Alþingis og ritari Íslandsdeildar, og myndi hún taka við starfinu í Kiruna. Jafnframt hefur Kanada boðist til að leggja sitt af mörkum við starfsemi nefndarinnar og mun formaður skoða með hvaða hætti það nýtist nefndinni best. Næsti fundur nefndarinnar verður haldinn 20. mars 2024 í tengslum við ráðstefnu nefndarinnar 20.–22. mars í Kiruna.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál og á vefsvæðinu arcticparl.org/.